08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2768 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

Framkvæmd vegáætlunar 1965

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður. En ég vil gera að umtalsefni orð, sem féllu hjá hv. 5. þm. Vestf., því að það mun vera í þriðja skipti, sem hann kvartar hér undan því í ræðustól á Alþ., að hann hafi ekki fengið að sjá Vestfjarðaáætlunina. Mér þykir ákaflega leitt, ef þessi hv. þm. hefur ekki, þrátt fyrir allar þessar kvartanir, fengið að sjá Vestfjarðaáætlunina. Það hefur verið upplýst, að Vestfjarðaáætlun er til í samgöngumálum. Frá henni hefur verið skýrt hér á Alþ. Þm. Vestfirðinga, sem hafa haft áhuga fyrir málinu meira en í orði, hafa sótt öll þau gögn, sem þeir hafa óskað eftir að fá afrit af, til Efnahagsmálastofnunarinnar. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég óskaði eftir öllum þeim gögnum, sem lúta að framkvæmdaáætlun í samgöngumálum Vestfirðinga, og fékk þau í hendur um leið og ég óskaði eftir því. Ég hafði ekki þann háttinn á að fara hér upp í pontuna á hv. Alþ. og krefjast þess að fá þessi gögn í hendur. Ég veit ekki, hvort þeir, sem þar ráða ríkjum, heyra svo hverja ræðu, sem hér er flutt, og taldi hitt vera miklu svona betra til framgangs málinu að fara bara rétta leið, og ég hef fengið öll þessi gögn og ég trúi ekki öðru en hv. þm. fái þau líka, ef hann biður um það í Efnahagsstofnuninni. Ég vil einnig minna hv. þm. á það, að við síðari umr. vegáætlunarinnar á síðasta ári flutti fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. skýrslu um málið og yfirlýsingu ríkisstj. og þar segir hann í sinni ræðu, að í lok febr. s.l. hafi verið gengið frá framkvæmdaáætlun í samgöngumálum Vestfjarða, sem ríkisstj. samþykkti. Áætlunin er um framkvæmdir í vegamálum, flugvallargerðum og hafnarmálum á næstu 4 árum, 1965–1968. Samkv. þessari áætlun er gert ráð fyrir framkvæmdum samtals að upphæð 171.6 millj. kr., sem skiptast þannig, að í hafnir eiga að fara 71.8 millj., í vegi 66.7 millj. og reyndist nú að lokum 68 millj. sléttar og í flugvelli 32.1 millj. kr. Þessu skýrir fjmrh. frá fyrir hönd ríkisstj. Þessar till., sem snerta framkvæmdaliðina í vegamálum, eru teknar inn í vegáætlunina og samþ. hér á hv. Alþ. og prentaðar í þál., sem samþ. var, á bls. 12 og 13. Þessar till. liggja alveg fyrir frá orði til orðs, hér, hvað snertir vegina, og hinar upplýsingarnar liggja fyrir hverjum þm., sem vill sækja þær til þeirra aðila, þar sem upplýsingarnar eru. Út af því, sem fram hefur komið hér varðandi Árneshrepp, vil ég segja það, að það var verið að afgreiða hér mál um lántökuheimildir fyrir ríkisstj. vegna lántöku til vega víðast hvar á landinu, sem var afmarkað við þá vegi, sem búið var að ganga frá með samþykkt vegáætlunar. Nú vitum við, að það eru fleiri þm. en þm. Vestf., sem telja, að sinn hlutur sé of smár og þeir hefðu farið af stað með till., ef ein till. hefði verið samþ. af stjórnarliðinu, og ég vil segja fyrir mig persónulega, að ég hafði fullan hug á því, að það væri tekið tillit til sérstöðu Árneshrepps, en ég heyrði það strax hér á ákveðnum þm., þó ekki í ræðustól, að þeir myndu flytja þá till. sömuleiðis. Þá var farið töluvert langt út fyrir þann ramma, sem lántökuheimildin samkv. vegáætluninni gerði ráð fyrir, og þess vegna var um að gera að reyna að vinna að málinu þá eftir öðrum leiðum og fá ríkisstj. til þess að leggja fé í þessa nauðsynlegu vegagerð í Árneshreppi og ég tel, að það þurfi enginn þm. Vestf. að vera óánægður með það, að það fékkst fé til þess. Við höfum allir verið þar sama sinnis, en þennan hátt varð að hafa á og það skilja þeir menn, sem hafa áður verið í stjórnarandstöðu, að það eru fleiri en stjórnarþm., sem vilja þá fá það sama, ef einhverjir stjórnarþm. ætla að ganga út fyrir þann ramma, sem búið er að ganga frá, eins og gert var við samþykkt þál. um vegáætlun.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, en ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði hér í sambandi við 2. umr. fjárl. út af þessum 47 millj. kr., sem hv. 3. þm. Vesturl. hefur minnzt hér á aftur, sem hann gerði þá mjög ýtarlega, að ég fyrir mitt leyti hefði mjög gjarnan viljað, að þessar 47 millj. kr. væru inni í fjárlagafrv. En við sjáum fram á það, að við náum ekki endum saman með því að hafa það inni í frv., nema þá að leggja á nýja skatta, sem kæmu þá tekjumegin á fjárl. Það getur vel verið, að það sé hægt að fullnægja óskum þessara hv. þm. með því að hafa 47 millj. gjaldamegin inni á fjárl. og með því að afla hins nýja skatts teknamegin eins og hv. 3. þm. Vesturl. vitnaði til, að það væri einhver ákveðinn tekjustofn eða einhver ákveðinn skattaliður í fjárl., sem yrði alltaf varið til þess að greiða þessar 47 millj. kr. til vegamálanna. Mér finnst, að ósæmilegt orðbragð hv. þm. og þá ekki sízt þess þm., sem var að ljúka máli sínu hér, áður en ég steig í ræðustólinn, til hæstv. samgmrh., sé mjög óviðeigandi og ég vil segja það, án þess að ég ætli að lasta fyrrv. ráðh. eða aðra ráðh. eða þm., að ég veit ekki til, að það sé áhugasamari maður til í sínu starfi heldur en núv. hæstv. samgmrh., sem hefur sýnt þessum málefnum eins og framkvæmdum í vegamálum mikinn skilning og aldrei sýnt annað en lipurð og reynt að ganga eins langt og hann hefur frekast getað til móts við þm. og óskir fólksins víðast hvar úti um land.