27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2769 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í nútímaþjóðfélagi skiptir það æ meira máli, að stefna í fjármálum ríkisins sé mörkuð með hliðsjón af ástandi efnahagsmála yfirleitt og samræmd öðrum þáttum í stjórn þeirra mála. Ríkisstj. hefur frá upphafi lagt á það ríka áherzlu að haga stjórn fjármálanna í samræmi við þetta. Jafnframt fjárlagaundirbúningi hvers árs hefur síðustu árin verið samin sérstök áætlun um framkvæmdir háðar lánsfjáröflun og um fjáröflun til þeirra. Enda þótt megindrættir þeirrar áætlunar séu ljósir, þegar fjárlög eru afgreidd, hefur ekki verið gengið frá þeirri áætlun fyrr en nokkru síðar, þegar búið hefur verið að gera ráðstafanir til að sjá fyrir nauðsynlegu fjármagni. Starfi ríkisaðila að aukinni og bættri áætlanagerð hefur stöðugt þokað fram á við, allt frá því, er grundvöllurinn var lagður með hinni almennu þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 1963–1966. Síðar hefur auk almennra árlegra framkvæmdaáætlana verið unnið bæði að séráætlunum um ákveðna framkvæmdaflokka og sérstökum áætlunum fyrir ákveðna landshluta. Með hinum fyrrgreindu áætlunum um vegagerð, hafnargerð og skólaframkvæmdir er leitazt við að sjá þarfirnar í viðkomandi greinum nógu tímanlega fyrir, jafnframt því sem landshlutaáætlanir eru notaðar til að kanna framkvæmdaþarfir hvers landshluta með hliðsjón af sérstökum aðstæðum þeirra.

Ríkisstj. mun halda áfram að bæta aðstöðu til áætlanagerðar. Nýlega hafa veríð stigin nokkur spor að því marki, en það er með lagafrv. um endurskipulagningu fjárfestingarlánasjóða og stofnun atvinnujöfnunarsjóðs, lögfestingu Efnahagsstofnunarinnar og um uppsetningu fjárl. og ríkisreiknings. Loks hefur verið stofnuð sérstök deild í fjmrn. til þess að fjalla um gerð fjárl. og hagræðingu í rekstri ríkisstofnana. Allar eru þessar ráðstafanir til þess fallnar að styrkja aðstöðu ríkisins til raunhæfrar áætlunargerðar og treysta sambandið milli áætlunar og framkvæmdar.

Líðandi ár er lokaár þjóðhags- og framkvæmdaáætlunarinnar 1963–1966. Fyrir ári gerði þáv. fjmrh. Gunnar Thoroddsen grein fyrir samanburði raunverulegrar þróunar við hina upphaflegu þjóðhags- og framkvæmdaáætlun. Ályktanir þess samanburðar standa enn í öllum aðalatriðum. Þeir þættir þjóðarbúskaparins, sem áætlunin fjallaði um, hafa í flestum greinum farið fram úr áætlun sakir hagstæðara árferðis og meira árangurs í framleiðslustarfseminni og sölu afurðanna en gert var ráð fyrir. Í þessari skýrslu mun gerð frekari grein fyrir þróun undanfarandi ára og gerður samanburður við allt áætlanatímabilið á grundvelli þess, sem nú er bezt vitað um árið 1966. Á yfirstandandi ári verður og stigið annað skref í gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar til lengri tíma með samningu slíkrar áætlunar til næstu fjögurra ára, 1967–1970. Með hliðsjón af fenginni reynslu af undanfarandi starfi að áætlunargerð má ætla, að sú áætlun geti orðið fyllri og raunhæfari sem hjálpartæki við stjórn efnahagsmála en hin mjög svo almenna áætlun, sem fært var að leggja fram fyrir þremur árum.

Vöxtur þjóðarframleiðslu og þó einkum þjóðartekna hefur verið mjög ör síðustu árin. Þjóðarframleiðslan jókst um 7% árið 1963, um 5.5% árið 1964 og um 5% árið 1965 eftir því, sem nú verður bezt séð. Aukningin hefur öll árin verið borin uppi af fiskveiðum og fiskvinnslu, sem hafa aukið framleiðslu sína um 8% að jafnaði þessi ár, og af byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, þar sem aukningin hefur verið geysiör eða að jafnaði um 14% á ári um liðin 3 ár. Vöxtur annarra greina hefur verið nokkuð misjafn frá ári til árs og ekki eins ör til jafnaðar. Þó hafa þessar greinar einnig skilað drjúgum hluta til aukningar framleiðslunnar. Sú aukning þjóðarframleiðslu, sem hér er átt við, er raunveruleg aukning framleiðslu, þ.e. aukning hennar á föstu verðlagi. Þegar rætt er um aukningu framleiðslu, tekna, neyzlu eða fjármunamyndunar í þessari skýrslu er ætið átt við magn aukningar, þ.e. aukningu í föstu verðlagi, nema annað sé sérstaklega fram tekið.

Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa farið hægt batnandi um nokkurra ára bil, ef undan er skilið tímabundið verðfall á mjöli og lýsi árin 1959–1960. Síðustu árin hefur hins vegar orðið mjög mikil og almenn hækkun útflutningsverðlags, en verðlag innflutningsins hefur aðeins hækkað mjög hóflega á sama tíma. Þessi sérstaki og óvænti bati viðskiptakjara hefur aukið þjóðartekjur mjög verulega umfram það, sem þjóðarframleiðslan sjálf hefur aukizt. Að meðtöldum áhrifum viðskiptakjara nam aukning raunverulegra; þjóðartekna 7.2% árið 1963, 8.4% 1964 og 8–9% samkv. bráðabirgðaáætlunum árið 1965. Sé árið 1962 tekið með, hafa þjóðartekjur umliðin 4 ár aukizt um 8% að meðaltali á ári eða alls yfir tímabilið um 37%. Það mun nærri einsdæmi meðal þjóða, að svo mikil og samfelld aukning sé til ráðstöfunar á sambærilegu skeiði hagþróunar. Öll þjóðin hefur átt hlutdeild í þessari velgengni. Raunverulegar launatekjur almennings hafa gert betur en að fylgjast með þessari þróun, hvort sem litið er til tekna fyrir eða eftir álagningu skatta og greiðslu fjölskyldubóta. Enn hafa ekki verið tekin reglubundin úrtök um tekjur launþega árið 1965 samkv. skattframtölum né heldur hefur enn verið gert nákvæmt yfirlit um heildarniðurstöður kjarasamninga á síðasta ári. En bráðabirgðaáætlanir, sem styðjast við helztu kjarasamninga ársins, athuganir kjararannsóknarnefndar og fleiri heimildir benda til þess, að raunverulegar atvinnutekjur verka-, sjó- og iðnaðarmanna hafi í fyrra aukizt í kringum 10% frá árinu áður. Ráðstöfunartekjur þessara stétta eftir álagningu beinna skatta og greiðslu fjölskyldubóta hafa þó aukizt enn meira eða nærfellt 12% hjá fjölskyldufólki í ýmsum stéttum. Er þetta mun meira en aukning raunverulegra þjóðartekna á mann, sem er áætluð 6–7%, þannig að afstaðan, miðað við þjóðartekjur, hefur færzt þessum launþegastéttum enn í vil til viðbótar sams konar breytingu árið áður. Alls hafa raunverulegar ráðstöfunartekjur þessara stétta aukizt um 33% á árunum 1960–1965 eða um þriðjung á aðeins 5 ára tímabili. Á sama tíma hafa raunverulegar þjóðartekjur á mann aukizt um 32%.

Í kjölfar velgengninnar hefur fylgt endurmat einkaaðila og opinberra aðila á framkvæmdaþörf og framkvæmdagetu til mikillar aukningar frá því mati, sem áður var lagt á þetta atriði. Vissulega hefur framkvæmdageta þjóðarbúsins aukizt mjög á undanförnum árum, bæði með stóraukinni getu til innflutnings og við það, að framleiðniaukning í öðrum greinum hefur gert það kleift að auka mjög mannafla við verklegar framkvæmdir, en þessi aukning framkvæmdafyrirætlana hefur á hinn bóginn leitt af sér vandamál, sem hafa verið meðal helztu viðfangsefna stjórnarvaldanna og hafa í ríkum mæli sett sitt mark á stefnuna í fjármálum ríkisins og öðrum efnahagsmálum. Við skilyrði síðustu ára hefur hin mikla eftirspurn eftir vinnuafli, einkum til verklegra framkvæmda, skipt mestu máli um jafnvægisstöðu efnahagslífsins.

Samkv. fyrirliggjandi heimildum varð talsverð aukning almenns vinnuálags árið 1962 og 1963, og nam meðalársvinnutími verkamanna í Reykjavík 2926 stundum síðara árið. Athuganir kjararannsóknarnefndar benda til þess, að árið 1964 hafi vinnutími haldizt lítt breyttur og heldur hafi dregið úr lengd vinnutímans í fyrra og einnig á líðandi ári, það jafnvel svo, að gera megi ráð fyrir, að í ár verði vinnutími verkamanna rúmlega 100 stundum styttri en hann var árið 1963 og 1964. Stytting samningsbundins dagvinnutíma mun eiga nokkum þátt í þessu. Auk þess hefur ör aukning raunverulegra tekna á vinnustund gert það að verkum, að minni áherzla hefur verið lögð á eftirvinnu. Engu að síður hefur eftirspurn eftir vinnuafli haldizt óeðlilega mikil. Hefur því verið nauðsynlegt að viðhafa stranga árvekni og mæta öllum nýjum áhrifum til aukinnar eftirspurnar með aðgerðum á sviði fjármála og peningamála og með sérstöku aðhaldi í fjárfestingu hins opinbera.

Grein hefur verið gerð fyrir skilyrðum til að viðhalda og efla jafnvægi vinnumarkaðarins í sérstakri skýrslu, er dreift var sem fskj. með frv. til fullgildingar samningi um álbræðslu. Kemur þar fram, að áætluð aukning mannafla við verklegar framkvæmdir, um 350 manns. muni nægja til þess að anna auknum verkefnum á yfirstandandi ári. Ástæða er til að ætla, að þessi aukning mannafla í byggingarstarfsemi valdi mun minna álagi en árleg aukning tveggja síðustu ára, þar sem hún er aðeins um helmingur þeirrar aukningar. Á næsta ári mun verða um tímabundinn vanda að ræða vegna frekari aukningar mannafla til stórframkvæmdanna. Það vandamál þarf að hafa í huga í sambandi við undirbúning framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar fyrir næsta fjögurra ára tímabil og hinnar sérstöku áætlunar fyrir árið 1967.

Fjármunamyndun og neyzla þjóðarinnar, þ.e.a.s. ráðstöfun hennar á verðmætum, hefur undanfarin fjögur ár vaxið með svipuðum hætti og þjóðartekjurnar. Hinn hagstæði viðskiptajöfnuður, sem náðist á árinu 1961, hefur því haldizt lítið breyttur, sé litið yfir allt fjögurra ára tímabilið 1961–1965. Á hinn bóginn hefur innflutningur skipa og flugvéla verið sérstaklega mikill síðustu tvö árin og þó einkum árið 1964, er hann náði 938 millj. kr. Þessi innflutningur hefur jafnan tekið miklum sveiflum, en af því leiðir, að viðskiptajöfnuður hvers árs sýnir oft brenglaða mynd af niðurstöðu utanríkisviðskiptanna í grundvallaratriðum. Til þess að útiloka áhrif þessara sveiflna, en taka þó tillit til innflutnings skipa og flugvéla í viðskiptajöfnuðinum, er einfaldast að setja jafnan meðaltal nokkurra síðustu ára í stað þessa innflutnings á hverju ári um sig. Sé það gert og reiknað jafnan með hreyfanlegu meðaltali síðustu fjögurra ára, hefur viðskiptajöfnuðurinn verið jákvæður öll árin 1961 til 1965 nema árið 1963. Sé leitað þess viðskiptajafnaðar, er sýni sem raunhæfasta mynd, er einnig ástæða til að gera leiðréttingar fyrir breytingum útflutningsbirgða, þannig að verðmæti útflutningsframleiðslunnar sé sett í stað útflutningsins sjálfs. Sá jöfnuður, einnig með fyrrgreindri leiðréttingu að því er varðar skip og flugvélar, sýnir athyglisverða þróun allt frá árinu 1960, er hinar almennu efnahagsráðstafanir ríkisstj. tóku gildi. Reiknað á núgildandi gengi sýndi grundvallarjöfnuðurinn það ár 277 millj. kr. halla. En áhrif versnandi viðskiptakjara það ár sökum verðfalls á mjöli og lýsi námu um helmingi þeirrar upphæðar. Síðan hefur jöfnuðurinn verið hagstæður öll árin nema 1963. Árið 1961 um 223 millj. kr., 1962 um 128 millj., 1963 var 344 millj. kr. halli, 1964 aftur jákvæður jöfnuður um 189 millj. kr. og loks 1965 um 575 millj. kr. Þannig hefur grundvallarjafnvægið út á við aðeins farið úr skorðum eitt ár frá því að ráðstafana núv. ríkisstj. tók að gæta, árið 1963, en þá voru gerðar sérstakar ráðstafanir til að stemma stigu við þeirri þróun. Langhagstæðastur varð jöfnuðurinn á síðasta ári. 1963 er breytingin í jákvæða átt, en þó nokkru meiri árið 1964, 533 millj. kr. á móti 386 millj. kr. árið 1965.

Sökum hinnar sérstaklega öru aukningar gjaldeyristekna síðustu árin hefur verið rík ástæða til að halda jákvæðum viðskiptajöfnuði og nýta þann afgang til þess að mynda gjaldeyrisforða. Enn fremur hafa þær ráðstafanir, sem miða að þessu marki, jafnframt áhrif til að draga úr almennri eftirspurnarþenslu. Á þetta einkum við um bindingu sparifjár og aðrar ráðstafanir til að veita aðhald í útlánum. Á hinn bóginn hefur traustur viðskiptajöfnuður og traust gjaldeyrisstaða gert það kleift að rýmka um samkeppni erlendis frá og þar með létta nokkuð á þrýstingi vinnuaflseftirspurnar.

Viðskiptajöfnuðurinn hefur batnað frá árinu 1963, mestmegnis vegna þess, að tekizt hefur að halda aukningu verðmætaráðstöfunarinnar til neyzlu og fjárfestingar innan hóflegra marka. Þessi verðmætaráðstöfun jókst samkv. bráðabirgðaáætlun um aðeins 3% 1965 saman borið við 8% árið 1964 og 13% árið 1963. Þróun einkaneyzlunnar hefur átt talsverðan hlut að þessum breytingum. Áætlað er, að hún hafi aukizt um 7% árið 1963, en um rúm 3% 1964 og rúm 4% 1965. Kaup bifreiða til einkanota eiga mikinn þátt í þessari þróun. Bifreiðakaupin jukust mjög ört fram til ársins 1963, er þau námu um 520 millj. kr. á útsöluverði, og höfðu þá meira en fjórfaldazt að föstu verðmæti frá árinu 1960. En síðan 1963 hafa bifreiðakaupin haldizt stöðug, minnkuðu lítils háttar 1964 og jukust síðan aftur 1965. Enda þótt aukning einkaneyzlu hafi þannig verið hófleg, er hún þannig allmiklu meiri en þjóðhagsáætlunin upphaflega gerði ráð fyrir og er þetta í samræmi við hina miklu aukningu þjóðartekna. Sem stendur er unnið að ýtarlegri rannsókn á einkaneyzlu áranna 1962–1965 í framhaldi af fyrri rannsóknum þess efnis. Standa því tölur um einkaneyzlu þessara ára til endurskoðunar innan tíðar.

Samneyzlan, þ.e. rekstrarútgjöld vegna þjónustu hins opinbera við borgarana, en ekki útgjöld vegna fjárfestingar eða styrkja hefur verið tiltölulega stöðugt vaxandi þáttur í verðmætaráðstöfuninni. Séu árin 1963–1965 tekin sem heild, hefur samneyzlan aukizt svo til nákvæmlega jafnmikið og gert var ráð fyrir í þjóðhags- og framkvæmdaáætluninni eða um 5.5% á ári á föstu verðlagi miðað við 5.7% í áætluninni. Hins vegar varð aukningin nokkru meiri en þetta árið 1963, en nokkru minni síðan. Fjármunamyndunin hefur verið hinn mikli breytiþáttur í verðmætaráðstöfuninni og þar með valdið mestu um þróun viðskiptajafnaðar og vinnuaflsjafnvægis. Árið 1963 jókst fjármunamyndunin um 31% og árið 1964 um 18%, en hélzt síðan að heita má óbreytt árið 1965. Heildarupphæð fjármunamyndunar á síðasta ári nam um 5600 millj. kr. á verðlagi þess árs, og svarar þetta til um 27.5% allrar þjóðarframleiðslunnar. Þetta hlutfall er nokkru lægra en síðustu tvö árin á undan, er það var á milli 28 og 29%, en hins vegar nokkru hærra en það mark, 26%, er sett var í þjóðhags- og framkvæmdaáætlunina 1963.

Vergur sparnaður þjóðarbúsins, þ.e. fjármunamyndun að viðbættum breytingum bústofns og útflutningsvörubirgða, og viðskiptajöfnuði út á við, nam á síðasta ári um 6150 millj. kr. eða fullum 30% af þjóðarframleiðslu. Þetta er til muna hæsta sparnaðarhlutfall yfir það tímabil, sem skýrslur ná til, þ.e. frá stríðslokum. Þetta hlutfall hefur áður verið hæst árin 1961–1964 og þá á bilinu 25–27.5%. Sparnaðarhlutfall síðasta árs er með því hæsta, sem nokkurs staðar hefur þekkzt. Að sjálfsögðu stendur þessi mikli sparnaður í nánu sambandi við hina öru aukningu þjóðartekna og ekki er hægt að gera ráð fyrir, að hið háa hlutfall ársins 1965 muni haldast. Eigi að síður er hér um mjög mikilvægan árangur að ræða í viðleitni þjóðarinnar til efnahagslegra framfara og öryggis.

Ríkisstj. hefur lagt áherzlu á að efla skilyrði hins frjálsa sparnaðar jafnframt því, sem kerfisbundinn sparnaður í ýmsu formi hefur verið aukinn. Þátttakan í sparnaðinum er mjög almenn, sparifjáraukningin er þýðingarmikill þáttur hans og sömuleiðis sjóðsmyndun lífeyrissjóða, tryggingakerfisins og sparnaður á vegum ríkis og sveitarfélaga. Hin mikla aukning fjármunamyndunar síðustu árin hefur dreifzt tiltölulega jafnt um allar helztu greinar atvinnulífsins, um opinberar framkvæmdir og íbúðarhúsabyggingar. Þó hefur fjárfesting í hvers konar vélum og tækjum verið sérstaklega mikil og aukning fjárfestingar því orðið mest í þeim atvinnugreinum, sem hagnýta sér hvað mest slíkar vélar og tæki, en það eru fiskveiðar, flutningastarfsemi og byggingarstarfsemi. Mest varð aukningin í svo til öllum greinum árið 1963, þegar fjármunamyndunin í heild jókst um 31%. Síðan hefur dregið úr aukningunni frá ári til árs, og gildir það einnig um svo til allar greinar framkvæmda, enda var fjármunamyndunin, eins og áður er getið, orðin mjög há í hlutfalli við þjóðarframleiðslu á árunum 1963 og 1964.

Á s.l. ári varð ekki aukning á fjármunamynduninni sem heild, vegna þess að skipa- og flugvélakaup minnkuðu. En á hinn bóginn jukust byggingar og önnur mannvirkjagerð enn um 9%. Atvinnuvegirnir hafa haft forystuna í þessari þróun. Hefur fjármunamyndun á þeirra vegum aukizt um 61% milli 1962 og 1965 á móti 52% aukningu íbúðabygginga og 43% aukningu opinberra framkvæmda. Þó var fjármunamyndun atvinnuveganna enn meiri að magni árið 1964, en á því ári voru gerð meiri kaup fiskiskipa en nokkurt ár síðan 1960 og langmestu kaup flutningatækja, sem nokkru sinni hafa verið gerð, eða um 60% meiri en árið 1947, er þau voru mest áður.

Fjármunamyndun í fiskiðnaði hefur verið mjög svipuð frá og með árinu 1962, er miklar framkvæmdir hófust í síldariðnaði, en þá jókst fjármunamyndun í fiskiðnaði alls um 57% miðað við meðaltal 5 síðustu ára á undan, 1957–1961. Fjármunamyndun í öðrum iðnaði en vinnslu sjávarafurða hefur aukizt mjög mikið eða um 75% frá 1962–1965. Meginhluti þeirrar aukningar féll á árið 1963.

Fjármunamyndun í landbúnaði hefur aukizt jöfnum skrefum, en einnig mjög ört, alls um 50% frá 1962–1965.

Aukningin er hvað fyrirferðarminnst í byggingu verzlunar-, skrifstofu- og gistihúsa, 45% frá 1962 — 1965. Sé hins vegar farið lengra aftur í tímann til samanburðar er aukningin í þessari grein meiri, þar sem þessum byggingum hafði verið haldið niðri með beitingu fjárfestingarhafta. Rétt er að benda á, að auk húsnæðis fyrir verzlunar-, veitinga- og gistihúsarekstur er hér meðtalið húsnæði fyrir skrifstofur annarra atvinnugreina og að auki íeiguhúsnæði opinberra stofnana og enn fremur húsnæði fyrir ýmsa þjónustustarfsemi, þ. á m. allt húsnæði bankanna. Þessi fjárfesting hefur oft sætt gagnrýni, en eðlileg þróun hennar er í raun réttri þýðingarmikið skilyrði aukinna framleiðsluafkasta og bættrar þjónustu við almenning.

Íbúðabyggingar hafa aukizt um 52% frá 1962–1965. Langmest varð aukningin árið 1963, 28%, en 10.5% árið 1964 og um 7% árið 1965. Íbúðabyggingarnar hafa farið talsvert fram úr því, sem þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin gerði ráð fyrir, en það var bygging tæplega 1300 íbúða árið 1963 og 1500 íbúða að meðaltali hvert áranna 1964–1966. Raunveruleg framkvæmd íbúðabygginga þessi ár hefur samsvarað eftirtöldum fjölda íbúða af meðalstærð, 1963 1413, 1964 1523, 1965 1625. Áætlaðar framkvæmdir í ár munu einnig svara til um 1600 íbúða. Þannig mun bygging íbúða væntanlega nema um 6150 íbúðum á áætlunartímabilinu, samanborið við 5800 skv. áætluninni. En auk þess hefur meðalstærð íbúða aukizt frá því, sem áður var og áætlunin gerði ráð fyrir. Fjármunamyndun í byggingum og mannvirkjum hins opinbera hefur aukizt alls um 43% frá 1962–1965. Mest varð aukningin fyrsta árið, 1963, 17% og litlu minni árið 1964, 16%, en varð 7.5% samkv. bráðabirgðatöflum fyrir árið 1965. Hér á eftir verður fjallað nánar um þennan þátt fjármunamyndunarinnar.

Skipting fjármunamyndunarinnar eftir tegundum fjármuna er einnig þýðingarmikil. Auðveldara hefur verið að kaupa vélar og tæki en auka byggingar og aðra mannvirkjagerð. Þess vegna hefur fjármunamyndunin aukizt mest í þeim greinum, sem hafa haft bezt færi á að nýta vélar og tæki. Fjármunamyndun af þessu tagi tekur miklum sveiflum frá ári til árs. Fjárfesting í hvers konar vélum og tækjum var þannig 84% hærri árið 1964 en tveimur árum áður, 1962. Árið 1965 var hún hins vegar nokkru minni en 1964, þar sem dregið hafði úr kaupum fiskiskipa og flutningatækja. Mannvirkjagerð, önnur en húsbyggingar, gengur næst vélvæðingunni að magnaukningu, en hún jókst um 59% 1962–1965. Hér er einkum um opinberar framkvæmdir að ræða, gerð og lagningu vega, brúa, hafna og síma og einnig ræktunarframkvæmdir. Húsbyggingar jukust um 47% 1962–1965. Íbúðabyggingar hafa aukizt meira en aðrar húsbyggingar yfir þetta tímabil eða um 52% á móti 43%.

Fjármunamyndun opinberra aðila var sá þáttur hinnar upphaflegu þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar, er hvað helzt fól í sér ákveðnar fyrirætlanir um framkvæmdir. Hafa þessar framkvæmdir haldizt í tiltölulega náinni samsvörun við áætlunina. Sökum hinnar almennu þenslu í atvinnulífinu hefur ríkisvaldið orðið að beita ströngu aðhaldi að eigin framkvæmdum og þeim öðrum framkvæmdum, sem það hefur mest áhrif á, en ekki séð sér fært að endurskoða framkvæmdafyrirætlanir til hækkunar með hliðsjón af aukinni velmegun. Þrátt fyrir þetta hefur aukning opinberra framkvæmda orðið mikil á þessum árum, enda ráð fyrir því gert í þjóðhags- og framkvæmdaáætluninni frá 1963. Mest kvað að aukningu í gerð samgöngumannvirkja, er jukust að magni um 50% 1962–1965. Hlutfallsleg aukning milli þessara ára var næstum því eins mikil í opinberum byggingum eða um 47%. Hlutfallsleg aukning hitaveitu- og vatnsveituframkvæmda var enn meiri eða 67%. Raforkuframkvæmdir hafa haldizt lítt breyttar, þar sem aðeins minni háttar framkvæmdir hafa verið á döfinni. Meiri munur er á aukningu hinna ýmsu undirgreina samgöngumannvirkja og opinberra bygginga. Af samgöngumannvirkjum var mest aukning í gerð gatna og holræsa, sem gerðu betur en tvöfaldast að magni 1962 –1965, jukust um 125%. Á sama tíma jókst gerð vega og brúa um 64% og hafnargerð um 47%. Flugvallagerð hefur verið tiltölulega lítill liður, en óx að marki á síðasta ári. Framkvæmdir pósts, síma og útvarps hafa verið mjög miklar um árabil, þar sem saman hafa farið miklar kerfisaukningar, endurnýjanir og framkvæmdir til að koma á sjálfvirkni símans.

Af einstökum flokkum opinberra bygginga hefur bygging sjúkrahúsa aukizt mest eða um 96% 1962–1965. Skólabyggingar jukust um 36% á sama tíma. Í sambandi við skólabyggingar er þess þó sérstaklega að gæta, að þær höfðu aukizt mjög mikið á árunum 1961 og 1962 og hefur því hlutfallsleg aukning þeirra orðið minni síðan. Bygging félagsheimila og kirkna hélzt að heita má óbreytt, en aðrar opinberar byggingar, þ.e. skrifstofuhús, áhaldahús o.fl., jukust um 70%.

Lækkun fjárveitinga til verklegra framkvæmda á fjárlögum 1965 setur að sjálfsögðu mark sitt á suma þætti hinna opinberu framkvæmda á því ári. Þessa gætir þó ekki, að því er varðar vegagerð, bæði sökum sérstakra tekjustofna hennar og einnig vegna steypu á síðari áfanga Reykjanesbrautar. Lækkun fjárveitinga kemur einkum fram í því, að hafnargerð og framkvæmdir Pósts og síma urðu nokkru lægri en árið áður og skólabyggingar stóðu svo að segja í stað.

Misjafn vöxtur hinna ýmsu greina opinberra framkvæmda skýrist að mjög verulegu leyti af hlutdeild sveitarfélaganna í framkvæmdunum. Fjárhagsleg aðstaða sveitarfélaganna til að halda uppi miklum framkvæmdum hefur gjörbreytzt til batnaðar á undanförnum árum. Tekjustofnar sveitarfélaganna hafa verið rýmkaðir og nýjum bætt við. Alls námu álagðar skatttekjur sveitarfélaganna 1430 millj. árið 1965. Er þá meðtalin hlutdeild þeirra í söluskatti og aðflutningsgjöldum svo og landsútsvar, en hins vegar ekki hlutdeild í vegasjóðsgjaldi frá og með 1964. Þessar tekjur svöruðu til 39% skatttekna ríkisins samkv. fjárlögum að viðbættu vegasjóðsgjaldi, og hafði það hlutfall vaxið úr 35% af ríkistekjum árið 1962. Sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu og markaðsvirði höfðu skatttekjur sveitarfélaganna vaxið úr um það bil 6% í 7% á sama tímabili. Áhrif bættrar fjárhagsaðstöðu sveitarfélaganna hafa einkum orðið þau, að framkvæmdir þeirra hafa aukizt mun örar en framkvæmdir ríkisins. Gerð hefur verið sundurliðun opinberra framkvæmda eftir því, hvort sveitarfélögin eða ríkið eða þessir aðilar í sameiningu standa að þeim. Framkvæmdir sveitarfélaganna einna saman hafa svo til tvöfaldazt að magni frá 1962 til 1965 eða aukizt um 95%. Sameiginlegar framkvæmdir, sem sveitarfélögin eiga oftast frumkvæðið að, enda þótt ríkið kosti þær yfirleitt að jöfnu við þau eða meira, jukust um 49% á sama tíma. Framkvæmdir ríkisins sjálfs jukust langminnst eða um 15% á sama tímabili. Hefur aðhald ríkisins komið mest niður á þessum framkvæmdum, sökum þess að hlutdeild í öðrum framkvæmdum er fastar bundin af lögum og fyrri ákvörðunum. Það er jafnan matsatriði, hvort sé brýnna að sinna frekar þeim þörfum, er sveitarfélögin annast, eða þeim, sem ríkið sér fyrir. Ljóst er, að brýn þörf var á leiðréttingu sveitarfélögunum í vil, en það er engu síður orðið ljóst, að sveitarfélögin verða héðan af að taka vaxandi tillit til almennra viðhorfa í efnahagsmálum. Framkvæmdir ríkisins sjálfs námu um 550 millj. kr. á síðasta ári, en sveitarfélaganna einna um 560 millj. kr. Sameiginlegar framkvæmdir námu um 376 millj. kr. Alls voru sveitarfélögin því beinn frumkvæðis- og ákvörðunaraðili að 926 millj. kr. af 1560 millj. kr. opinberum framkvæmdum alls, eða nærfellt 60% þeirra.

Svo sem áður er vikið að, hafa flestar greinar hinna opinberu framkvæmda fylgt hinni opinberu þjóðhagsog framkvæmdaáætlun frá 1962 allnáið, einkum þær greinar, þar sem ríkið sjálft stendur að framkvæmdum beint eða óbeint. Þar sem nú hefur verið gerð áætlun um framkvæmdir yfirstandandi árs á grundvelli fjárlaga, framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar ársins og annarra gagna, má gera samanburð þessara framkvæmda við hina upphaflegu áætlun með þeim fyrirvara, að tölurnar fyrir árið 1966 eru áætlunartölur. Framkvæmdirnar í heild ná ekki alveg áætlun, eru 3.5% fyrir neðan markið. Stafar þetta einvörðungu af því, að Búrfellsvirkjun er um það bil einu ári seinna á ferðinni en áætlunin gerði ráð fyrir, þannig að ársáfangi hennar á árinu 1966 er allmiklu minni en gert var ráð fyrir. Að raforkuframkvæmdum slepptum er ársmeðaltal framkvæmda um 20% hærra en gert var ráð fyrir í áætluninni.

Samgöngumannvirki í heild fara fram úr áætlun um 19%, en opinberar byggingar um 10%. Vega- og brúagerð og framkvæmdir pósts, síma, útvarps og sjónvarps eru 8–9% umfram áætlun. Gerð hafna og flugvalla er fast við áætlunarmarkið, sömuleiðis skólabyggingar. Umferðarframkvæmdir falla mestmegnis á gatna- og holræsagerð, sem fer 70% fram úr áætlun. Hitaveitu- og vatnsveituframkvæmdir fara 66% fram úr áætlun, og sjúkrahús fara 45% fram úr áætlun.

Hér að framan hefur því verið lýst, hversu mikið þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa aukizt á undanförnum fjórum árum og hversu mikið það fé hefur þar með aukizt, sem þjóðarbúið hefur haft til ráðstöfunar. Það hefur jafnframt verið rakið, að á árunum 1964 og 1965 hafi aukning neyzlu og fjármunamyndunar haldizt innan þeirra marka, sem vöxtur ráðstöfunarfjárins hefur sett, þannig að jafnvægi þjóðarbúskaparins út á við hefur verið vel tryggt.

Þegar horft er fram á við til ársins 1966, stefnan í efnahagsmálum á því ári mótuð og áætlanir gerðar, verður að gera ráð fyrir, að verulegar breytingar verði frá þróun undanfarinna ára. Ekki má treysta því, að aukning þjóðarframleiðslu verði eins mikil á árinu 1966 og hún hefur verið á undanförnum árum né að viðskiptakjör haldi enn áfram að batna umfram það, sem þegar er orðið, en sá bati er allt að því einsdæmi, eins og áður hefur verið vikið að. Það má því búast við, að ráðstöfunarfé þjóðarinnar aukist allmiklu hægar á árinu 1966 heldur en það hefur gert á undanförnum fjórum árum. Reynslan af aflabrögðum á vetrarvertíð bendir einnig í þessa sömu átt.

Á hinn bóginn verður að gera ráð fyrir því, að einkaneyzla muni aukast verulega á árinu 1966 og að bæði einkaaðilar og opinberir aðilar stefni enn að því að auka framkvæmdir sínar. Meiri aukning raunverulegra tekna átti sér stað á árinu 1965 en hefur orðið á nokkru öðru ári um langt skeið. Eins og grein er gerð fyrir hér að framan, leiddi þetta til mikillar aukningar sparnaðar, en aðeins til hóflegrar aukningar neyzlu. Hér er sennilega að nokkru um tímabundna þróun að ræða, og mun þá tekjuaukningin von bráðar leiða til frekari aukningar neyzlu. Kemur þetta þegar fram í mjög auknum innflutningi á síðustu mánuðum ársins 1965 og fyrstu mánuðum þessa árs. Því hefur þegar verið lýst, að hin mikla velgengni undanfarinna ára hefur leitt til þess, að bæði einkaaðilar og opinberir aðilar telja nú framkvæmdaþörf sina meiri en þeir áður gerðu. Það má því gera ráð fyrir, að framkvæmdaviðleitni bæði einkaaðila og opinberra aðila verði sízt minni á árinu 1966 en á undanförnum árum. Jafnframt munu á árinu 1966 hefjast framkvæmdir við Búrfellsvirkjun, er skapa aukið álag á vinnumarkaðnum, enda þótt þeirra áhrifa gæti ekki að verulegu marki fyrr en á árinu 1967.

Viðhorfin á árinu 1966 eru því þau, að annars vegar má búast við, að nokkuð dragi úr hinni miklu aukningu þjóðartekna, en hins vegar má gera ráð fyrir, að viðleitnin til aukningar neyzlu og fjármunamyndunar verði enn rík. Bendir þetta ótvirætt til mikillar nauðsynjar á aðhaldi í allri stjórn efnahagsmála á árinu. Þetta hefur einnig verið það sjónarmið, sem fylgt hefur verið við undirbúning fjárlagaársins, við mörkun stefnu í peningamálum um s.l. áramót og loks við undirbúning framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar ríkisstj. fyrir árið 1966, sem nánari grein mun verða gerð fyrir hér á eftir.

Eins og grein var gerð fyrir hér að framan, fara opinberar framkvæmdir hér á landi að mjög miklu leyti fram að frumkvæði og á ábyrgð sveitarfélaga og stofnana þeirra, enda þótt í flestum greinum komi til fjárhagsstuðningur ríkisins. Þar við bætist, að verulegur hluti hinna eiginlegu ríkisframkvæmda er á vegum stofnana, er hafa eigin tekjur. Það leiðir af þessu, að ríkisvaldið getur ekki samið áætlanir um opinherar framkvæmdir, er feli í sér beinar ákvarðanir eða fyrirmæli um þessar framkvæmdir, nema á takmörkuðu sviði. Þær áætlanir, sem hér á landi hafa verið gerðar um opinberar framkvæmdir, eru því tvenns konar. Annars vegar er þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin frá 1963, þar sem kannað var, hver framkvæmdagetan mundi vera og hverjar þarfirnar í hinum ýmsu greinum og leitazt var við að marka á þeim grundvelli almenna stefnu ríkisvaldsins. Hins vegar eru hinar árlegu framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir, sem fjalla um þær opinberu framkvæmdir og fjárfestingarlánasjóði, sem þurfa á sérstakri fjáröflun að halda umfram fjárveitingar á fjárl. Þessar áætlanir fela í sér beinar ákvarðanir um framkvæmdir og fjáröflun. Þær ná hins vegar ekki nema til takmarkaðra hluta opinberra framkvæmda, jafnframt því sem þær hafa áhrif á framkvæmdir einkaaðila með fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða.

Enda þótt hinar árlegu framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir taki þannig ekki nema til takmarkaðs sviðs, er að sjálfsögðu þýðingarmikið, að þær séu unnar á grundvelli sem fyllstra upplýsinga um opinberar framkvæmdir yfirleitt og taki fullt tillit til þróunar þeirra framkvæmda jafnt sem til almennrar þróunar efnahagsmála.

Hér að framan var gerð grein fyrir viðhorfum í efnahagsmálum á árinu 1966. Áður en lýst verður þeirri framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ársins, er ríkisstj. hefur nýlega gengið frá, mun hér verða gefið yfirlit um opinberar framkvæmdir ársins í heild, eins og talið er sennilegt, að þær muni verða.

Áætlað er, að opinberar framkvæmdir á árinu 1966 muni nema 1958 millj. kr. Er hér átt við hvers konar opinberar framkvæmdir, hvort sem þær eru á vegum ríkisins og stofnana þess eða á vegum sveitarfélaga og stofnana þeirra. Hér eru einnig meðtaldar framkvæmdir við Búrfellsvirkjun, sem áætlaðar eru 158 millj. kr. á árinu. Séu þær framkvæmdir ekki taldar með og heldur ekki byrjunarframkvæmdir virkjunar á s.l. ári, mundu opinberar framkvæmdir á þessu ári verða um 1800 millj. kr., samanborið við 1665 millj. kr. á s.l. ári. Er þetta hvort tveggja reiknað á verðlagi ársloka 1965, en það er það verðlag, sem áætlun ársins 1966 er byggð á. Mundi því verða um að ræða 8% magnaukningu opinberra framkvæmda og þá jafnframt mestu opinberar framkvæmdir, sem átt hafa sér stað hér á landi, bæði að magni til og í hlutfalli við þjóðartekjur. Þær greinar, þar sem fyrst og fremst er gert ráð fyrir, að aukning eigi sér stað, eru raforkuframkvæmdir, vatnsveitur, hafnir, flugvellir og sími, útvarp og sjónvarp. Þá er einnig gert ráð fyrir nokkurri aukningu sjúkrahúsabygginga. Áætlað er, að framkvæmdir við hitaveitur, gatna- og holræsagerð og skólabyggingar verði svipaðar á árinu 1966 eins og á árinu 1965, en í þessum greinum öllum hafa framkvæmdir verið mjög miklar á undanförnum árum. Loks er gert ráð fyrir, að framkvæmdir við vegagerð verði allmiklu minni á árinu 1966 en á árinu 1965, og stafar það af því, að byggingu Reykjanesbrautar er nú að mestu lokið. Mun nú vikið nánar að einstökum greinum framkvæmdanna.

Áætlað er, að raforkuframkvæmdir muni nema 225 millj. kr. á árinu 1966, samanborið við 189 millj. kr. á árinu 1965. Hér eru ekki taldar með framkvæmdir við Búrfellsvirkjun. Aukningin á raforkuframkvæmdum er að verulegu leyti hjá Rafmagnsveitum ríkisins og er fólgin í aðalorkuveitum, dieselstöðvum og viðbótum við héraðsrafmagnsveitur í rekstri. Er aukningin einna mest á Austfjörðum, og stendur það í nánu samhengi við aukningu síldariðnaðar í þeim landshluta. Framkvæmdir við sveitaveitur munu aukast á árinu samanborið við s.l. ár sem svarar því, að lagningu veitna í Borgarfirði verður flýtt með tilstyrk lánsfjár frá Andakílsvirkjun.

Hitaveituframkvæmdir eru fyrst og fremst við Hitaveitu Reykjavíkur og er gert ráð fyrir, að þær haldist svipaðar og verið hefur á undanförnum árum.

Á hinn bóginn er mikil aukning vatnsveituframkvæmda áætluð bæði hjá Vatnsveitu Reykjavíkur og hjá allmörgum öðrum sveitarfélögum.

Vegaframkvæmdir eru í aðalatriðum tvenns konar. Annars vegar eru almennar vegaframkvæmdir, sem unnar eru skv. vegáætlun og fjár er aflað til eingöngu með þeim sérstöku tekjustofnum, sem til vegamála renna. Hins vegar eru sérstakar framkvæmdir við hraðbrautir og þjóðbrautir, sem ríkisstj. verður að afla lánsfjár til innan framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar sinnar. Hinar almennu vegaframkvæmdir munu verða svipaðar á árinu 1966 og á árinu 1965, enda tekjustofnarnir svipaðir. Allmiklar breytingar verða hins vegar á hinum sérstöku vegaframkvæmdum. Byggingu Reykjanesbrautar er nú að heita má lókið. Aftur á móti er enn um mjög miklar skuldagreiðslur að ræða vegna þessarar vegagerðar, sem sjá verður fyrir innan ramma framkvæmda- og fjáröflunaráætlunarinnar. Nokkur aukning verður á öðrum vegaframkvæmdum í þessum flokki. Þannig er gert ráð fyrir framkvæmdum upp að 21 milljón króna við Siglufjarðarveg, sem er nálega helmingi hærri upphæð en á árinu 1965. Framkvæmdir til að ljúka Múlavegi eru áætlaðar 3 millj. kr. og framkvæmdir við Suðurfjarðaveg á Austfjörðum og Heydalsveg samtals 4 millj. kr. Framkvæmdir við Suðurlandsveg eru áætlaðar 9 millj. kr. og við Hafnarfjarðarveg í Kópavogi 10 millj. kr. Eins og Ijóst er af þeim tölum, sem hér hafa verið nefndar, eru ekki að svo stöddu fyrirhugaðar meiri háttar framkvæmdir við byggingu hraðbrauta í nágrenni Reykjavíkur í áframhaldi af byggingu Reykjanesbrautar. Ástæðurnar fyrir þessu er tvær. Annars vegar gera hinar miklu framkvæmdir í landinu yfirleitt það að verkum, að óráðlegt er að byrja nú á nýjum meiri háttar vegaframkvæmdum. Hins vegar skortir að mestu fjárhagsgrundvöll til byggingar hraðbrauta, þar sem teljandi fé er ekki ætlað til þeirra í vegáætlun. Meðan svo er, geta hraðbrautirnar ekki staðið undir lánsfé, jafnvel þótt það væri tiltækt, nema því aðeins að sérstök gjaldheimta komi til. Athugunar er þörf á fjárhagsmálum hraðbrautarframkvæmda og vegaframkvæmda almennt, og hefur slík athugun verið hafin á vegum samgmrn. Mun þessu máli einnig verða gefinn sérstakur gaumur í sambandi við undirbúning framkvæmdaáætlunar fyrir næstu fjögur ár.

Gatna- og holræsagerð, sem er algerlega á vegum sveitarfélaga, eins og kunnugt er, hefur aukizt gífurlega á undanförnum árum og meir en nokkur önnur grein framkvæmda. Á árinu 1965 voru framkvæmdir af þessu tagi helmingi meiri en aðeins tveimur árum áður, árið 1963. Var aukningin úr 133 millj. kr. í 265 millj. kr., hvort tveggja reiknað á verðlagi ársloka 1965. Áætlað er, að gatna- og holræsagerð verði svipuð á árinu 1966 og á árinu 1965.

Allmikil aukning er áætluð í hafnargerðum á árinu 1966 samanborið við árið 1965, eða úr 152 millj. kr. í 195 millj. kr. Stafar þessi aukning annars vegar af því, að framkvæmdir hefjast við byggingu hinnar nýju Sundahafnar í Reykjavík, en hins vegar af kaupum sanddælu á vegum vita- og hafnarmálastjórnarinnar. Gert er ráð fyrir, að almennar hafnarframkvæmdir á vegum einstakra hafnarsjóða og með aðstoð vita- og hafnarmálastjórnar verði svipaðar og á s.l. ári eða rúmar 100 millj. kr., og er gert ráð fyrir, að sama upphæð gangi til þeirra innan framkvæmda- og fjáröflunaráætlunarinnar og á því ári. Þá mun framkvæmdum verða haldið áfram við landshafnirnar í Keflavík-Njarðvík og á Rifi og enn fremur við höfnina í Þorlákshöfn, sem lagt hefur verið til, að gerð verði að landshöfn. Eru heildarframkvæmdir í þessum þremur höfnum áætlaðar mjög svipaðar og á árinu 1965 eða samtals um 28 millj. kr. Fjár til þeirra er að mestu leyti aflað innan ramma framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar ríkisstj.

Tiltölulega lítið hefur verið unnið að flugvallagerð á undanförnum árum. Þó varð nokkur aukning þeirra framkvæmda á s.l. ári, einkum í sambandi við byggingu flugvallar á Patreksfirði og byrjun viðgerðar á Reykjavíkurflugvelli. Hér eru hins vegar mjög brýnar þarfir fyrir hendi. Hefur því verið gert ráð fyrir mikilli aukningu framkvæmda við flugvallagerð á árinu 1966, sem fjár verður að miklu leyti aflað til innan vébanda framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar ríkisstj. Alls er fjármunamyndun í flugvöllum áætluð 50 millj. kr. á árinu 1966, samanborið við 34 millj. kr. á árinu 1965. Meðal einstakra framkvæmda, sem hér er um að ræða, má nefna flugvallargerð og öryggisþjónustu á Vestfjörðum í samræmi við Vestfjarðaáætlun og malbikun flugvallar og byggingu flugskýlis á Akureyri. Þá er gert ráð fyrir mikilli aukningu tækjakaupa vegna öryggisþjónustu.

Framkvæmdir á vegum pósts, síma, útvarps og sjónvarps munu aukast verulega á árinu eða sem svarar úr 100 millj. kr. á árinu 1965 í 130 millj. kt. á árinu 1966. Stafar þetta að mestu af stofnun íslenzks sjónvarps.

Skólabyggingar og gerð íþróttamannvirkja hafa verið mjög miklar á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir, að framkvæmdir haldist svipaðar á árinu 1966 og á tveimur undanförnum árum og verði um 235 millj. kr., samanborið við 235 millj. kr. á árinu 1965, hvort tveggja reiknað á verðlagi ársloka 1965.

Áætlað er, að framkvæmdir við sjúkrahúsabyggingar aukist úr 125 millj. kr. á árinu 1965 í 145 millj. kr. á árinu 1966. Stafar þessi aukning fyrst og fremst af því, að bygging eldhúss og þvottahúss við Landspítalann hefst á árinu. Framkvæmdir við byggingu Borgarsjúkrahúss og viðbyggingu við Landspítala eru þó meginhluti sjúkrahúsframkvæmdanna, og er gert ráð fyrir, að framkvæmdirnar verði svipaðar og á árinu 1965.

Áætlað er, að fjármunamyndun í félagsheimilum. kirkjum og ýmsum opinberum byggingum muni samtals nema 175 millj. kr. á árinu 1966, samanborið við 156 millj. á árinu 1965, hvort tveggja reiknað á verðlagi ársloka 1965. Meðal einstakra þýðingarmikilla framkvæmda í þessari grein er bygging rannsóknarstofnunar landbúnaðarins á Keldnaholti og bygging lögreglustöðvar og slökkvistöðvar í Reykjavík.

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj. fyrir árið 1966 nær eins og á undanförnum árum til þeirra fjárfestingarlánasjóða og opinherra framkvæmda, sem þurfa á sérstakri fyrirgreiðslu ríkisins að halda um fjáröflun umfram fjárveitingar og eigin tekjur. Þá tekur áætlunin einnig til nokkurra einstakra atvinnufyrirtækja, einkum dráttarbrauta, sem á sams konar fyrirgreiðslu þurfa að halda. Þeir fjárfestingarlánasjóðir. sem áætlunin að þessu sinni nær til, eru sex: Stofnlánadeild sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóður Íslands, stofnlánadeild landbúnaðarins, iðnlánasjóður, ferðamálasjóður og byggingarsjóður verkamanna. Talið er, að þessir sjóðir þurfi að hafa til ráðstöfunar samtals 450 millj. kr. á árinu 1966, til þess að starfsemi þeirra geti orðið með eðlilegum hætti. Eigið fé, er sjóðirnir hafa til ráðstöfunar, og lánsfé, er þeir afla sér án milligöngu ríkisins, nemur samtals 392 millj. kr. á árinu 1966, þannig að sú fjáröflun, sem áætlunin gerir ráð fyrir, er 58 millj. kr. Til samanburðar má geta þess, að á árinu 1965 var talið, að fjárþörf þessara sömu sjóða næmi 443 millj. og þeir hefðu til ráðstöfunar á því ári 336 millj. kr. af eigin fé og lánsfé, er þeir öfluðu sjálfir. Áætlun þess árs gerði því ráð fyrir fjáröflun að upphæð 107 millj. kr. vegna þessara sjóða. Ástæðan fyrir því, að upphæðin, sem afla þarf á þessu ári, er mun lægri en sú, sem afla þurfti á s.l. ári, er sú, að fjárhagur sjóðanna styrkist ár frá ári og á það alveg sérstaklega við um stofnlánadeild landbúnaðarins.

Eins og kunnugt er, liggja nú fyrir Alþingi frv., er miða að frekari eflingu stofnlánasjóða sjávarútvegsins og iðnlánasjóðs, auk þess sem breyting Framkvæmdabankans í framkvæmdasjóð miðar að því að skapa sjóðunum öllum traustan fjárhagslegan bakhjarl. Auk fjáröflunar til hinna eiginlegu fjárfestingarlánasjóða er gert ráð fyrir, að á árinu 1966 verði 19 millj. kr. lánsfjár aflað til framkvæmda við dráttarbrautir og 15 millj. kr. til framkvæmda við kísilgúrverksmiðju. Þá er einnig gert ráð fyrir 8 millj. kr. fjáröflun vegna veðdeildar Búnaðarbanka Íslands. Samtals er því fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða, fyrirtækja og veðdeildar Búnaðarbankans 100 millj. kr. á árinu 1966. Sambærileg tala á árinu 1965 var 142 millj. kr.

Þær opinberu framkvæmdir, sem framkvæmda- og fjáröflunaráætlunin nær til, eru allar raforku- og jarðhitaframkvæmdir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins og jarðhitasjóðs, allar hafnarframkvæmdir á vegum vita- og hafnarmálastjórnar og allar flugmálaframkvæmdir á vegum flugmálastjórnar. Á hinn bóginn tekur áætlunin ekki til almennra vegaframkvæmda,

sem fjár er aflað til samkvæmt vegáætlun, en aftur á móti til lagningar meiri háttar hraðbrauta og þjóðbrauta, sem aflað verður lánsfjár til. Á hliðstæðan hátt tekur áætlunin ekki til almennra skóla- og sjúkrahúsabygginga, heldur aðeins til byggingar ríkisskóla og ríkisspítala, sem lánsfjár er aflað til.

Þær heildarframkvæmdir ásamt skuldagreiðslum, sem áætlunin nær til, munu nema samtals 498 millj. kr. á árinu 1966. Á árinu 1965 var sambærileg tala 406 millj. kr. Eigið fé þessara framkvæmda, fjárveitingar til þeirra ásamt því lánsfé, er þær tryggja sér sjálfar, nema samtals 284 millj. kr. Er hin áætlaða fjáröflun því 214 millj. kr. Sambærileg fjáröflun á árinu 1965 var 185 millj. kr. Á því ári var þó einnig aflað 15 millj. kr. vegna rafveituframkvæmda bæjar- og sveitarfélaga, sem ekki hefur reynzt þörf á að þessu sinni, þannig að heildarfjáröflunin var 200 millj. kr. Er þá ekki talin með sérstök fjáröflun í sambandi við steypu Reykjanesbrautar að upphæð 48 millj., er ekki var innifalið í hinni upphaflegu áætlun ársins 1965.

Gert er ráð fyrir, að allmikil aukning verði á fjáröflun til raforku- og jarðhitaframkvæmda frá því á s.l. ári eða úr 30 millj. kr. í 45 millj. Þá er einnig gert ráð fyrir mikilli aukningu fjáröflunar til flugmála eða úr 10 millj. í 26 millj. Til ríkisskóla á nú að afla 15 millj., en var ekkert á s.l. ári. Er hér um að ræða menntaskólana að Laugarvatni og í Hamrahlíð og Hjúkrunarskólann. Til ríkisspítalanna á að afla 10 millj. kr., en var heldur ekkert á s.l. ári. Hér er eingöngu um að ræða viðbygginguna við Landspítalann. Fjáröflun til hafnarframkvæmda er skv. áætluninni aðeins lægri en á s.l. ári. Er hún 55 millj. kr. nú, en var 59 millj. kr. á árinu 1965. Stafar lækkunin af minni skuldagreiðslu vegna landshafna. Hins vegar lækkar fjáröflun til vegaframkvæmda allverulega eða úr 78 millj. í 60 millj. kr. Stafar þetta af því, sem áður er á minnzt, að framkvæmdum við Reykjanesbraut er nú að mestu lokið.

Sú fjáröflun, sem framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ársins 1966 gerir ráð fyrir, er því samtals 314 millj. kr., er skiptist þannig, að 100 millj. kr. ganga til fjárfestingarlánasjóða og fyrirtækja, en 214 millj. kr. til opinberra framkvæmda. Á s.l. ári var sambærileg fjáröflun áætluð 342 millj. kr., þar af 142 millj. til fjárfestingarlánasjóða og fyrirtækja, en 200 millj. kr. til opinberra framkvæmda. Gert er ráð fyrir, að fjáröflun ársins 1966 fari fyrst og fremst fram með sölu verðbréfa á innlendum markaði og með því, að bankarnir leggi hluta af innstæðuaukningu ársins til þeirra þarfa, sem í áætluninni felast. Þá mun, eins og á undanförnum árum, andvirði landbúnaðarafurða, sem keyptar eru samkv. sérstökum samningi við Bandaríkin, Pl-480, notast til útlána innan áætlunarinnar. Loks mun Atvinnuleysistryggingasjóður leggja fram nokkra upphæð. Gert er ráð fyrir, að á þessu ári verði seld spariskírteini að upphæð 100 millj. kr. Hefur þessi sala gengið það vel undanfarin tvö ár, að full ástæða er til að gera ráð fyrir, að um áframhaldandi aukningu hennar geti orðið að ræða, en salan nam 75 millj. kr. á árinu 1965. Í viðbót við sölu spariskírteina á árinu 1966 koma eftirstöðvar af sölu slíkra skírteina á árinu 1965, að upphæð 7 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir, að samtals leggi spariskírteini til 107 millj. af hinni fyrirhuguðu fjáröflun. Samið hefur verið við viðskiptabankana um það, að 10% af aukningu innlánsfjár þeirra á árinu 1966 gangi til þarfa innan áætlunarinnar og þá fyrst og fremst til fjárfestingarlánasjóða og fyrirtækja. Er gert ráð fyrir, að hér verði um að ræða 90 millj. kr. Þá eru til ráðstöfunar 40 millj. kr. vegna samninga við bankana á árinu 1965, en þá var einnig um það samið, að 10% af aukningu innlánsfjár gengi til áætlunarinnar. Reyndist hin endanlega upphæð allmiklu hærri en búizt hafði verið við vegna hinnar miklu innlánaaukningar á árinu. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur samþ. að veita 20 millj. kr. lánsfé til framkvæmda innan áætlunarinnar umfram þau lán, sem sjóðurinn veitir ella til ýmissa framkvæmda. Mun sjóðurinn veita þessi lán beint, 12.5 millj. kr. til hafnargerða og 7.5 millj. til dráttarbrauta á vegum opinberra aðila. Loks er gert ráð fyrir, að lán samkv. nýgerðum vörukaupasamningi við Bandaríkin geti numið 57 millj. kr. á árinu 1966. Samtals nemur þá hin áætlaða fjáröflun 314 millj. kr. Langmestur hluti hennar eða rúmlega 80% er innlend fjáröflun, er byggist að mestu á sölu spariskírteina og samningum við bankana um notkun hluta af aukningu innlánsfjár. Á hinn bóginn er ekki um að ræða neina erlenda lánsfjáröflun til lengri tíma, að bandaríska vörukaupaláninu undanskildu.

Hin hagstæða efnahagsþróun undanfarandi ára og sér í lagi hin mikla sparifjármyndun hefur gert það eðlilegt og þýðingarmikið, að hin sérstaka fjáröflun ríkisstj. byggist fyrst og fremst á innlendum sparnaði. Hefur því þeirri stefnu verið fylgt, bæði árin 1964 og 1965 að miða fjáröflunaráætlunina sem mest við innlenda fjáröflun. Þó var á árinu 1965 aflað erlends lánsfjár til lagningar Reykjanesbrautar. Þessari sömu stefnu hefur enn verið fylgt við undirbúning fjáröflunar fyrir árið 1966, eins og áætlunin ber með sér. Á hinn bóginn verður að sjálfsögðu að hagnýta erlent lánsfé til að greiða erlendan kostnað við þær stórframkvæmdir í raforkumálum, sem nú eru á döfinni.

Í þessari skýrslu hefur í stórum dráttum verið gerð grein fyrir þróun efnahagsmála á undanförnum árum og þó sérstaklega þróun fjármunamyndunar og opinberra framkvæmda. Hefur verið rakið, hversu óvenju hagstæð efnahagsþróunin hefur verið, hversu ört þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa vaxið og hvernig þessi vöxtur hefur verið hagnýttur til aukinnar almennrar velmegunar, til að styrkja aðstöðu þjóðarbúsins út á við og til mjög aukinnár fjármunamyndunar í atvinnulífinu, íbúðarhúsabyggingum og opinberum framkvæmdum. Þá hefur sérstaklega verið gerð grein fyrir því, að framkvæmdir í atvinnulífinu hafa á þessum árum orðið miklu meiri en búizt var við í þjóðhags- og framkvæmdaáætlun þeirri, sem ríkisstj. lagði fram fyrir árin 1963–1966, og framkvæmdir í íbúðarhúsabyggingum einnig nokkru meiri. Þrátt fyrir þetta hefur sú mikla aukning opinberra framkvæmda, sem sú áætlun fól í sér, náð fram að ganga og vel það í öllum greinum að heita má, ef undan er skilið, að Búrfellsvirkjunin er um það bil einu ári síðar á ferðinni en upphaflega var gert ráð fyrir.

Þá hefur í þessari skýrslu verið gerð grein fyrir viðhorfunum í efnahagsmálum á árinu 1966. Sérstaklega hefur verið á það bent, að ný viðhorf hafi nú skapazt að nokkru, þar sem ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur haldi áfram að aukast með sama hraða og verið hefur. Á hinn bóginn megi búast við, að neyzla aukist verulega og leitazt verði við að auka framkvæmdir, eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Jafnframt munu á þessu ári hefjast stórframkvæmdir við Búrfellsvirkjun. Af þessum ástæðum sé nauðsynlegt að gæta aðhalds í stjórn efnahagsmála og hafi þetta sjónarmið mótað stefnu og aðgerðir stjórnarvalda í peningamálum, við afgreiðslu fjárl. og við undirbúning framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar fyrir árið 1966. Sérstök grein hefur síðan verið gerð í skýrslunni fyrir áætlun um opinberar framkvæmdir á árinu 1966 og fyrir framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj. fyrir það ár. Sýnir grg., að þrátt fyrir það aðhald, sem sýnt hefur verið, megi gera ráð fyrir, að opinberar framkvæmdir aukist almennt nokkuð á árinu, enda þótt ekki sé tekið tillit til Búrfellsvirkjunar. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir það, hversu mikið hefur verið gert á undanförnum árum, eru þarfirnar fyrir framkvæmdir af þessu tagi brýnar og gildir það raunar einnig um þarfir framkvæmda í atvinnulífinu og í íbúðarhúsabyggingum. Í rauninni breytist mat manna á þessum þörfum sífellt eftir því, sem þjóðarframleiðsla vex og velmegun eykst. Er því sízt að undra, þótt mönnum finnist þarfirnar ekki síður brýnar nú en fyrir nokkrum árum síðan, þrátt fyrir þær gífurlegu framkvæmdir, sem verið hafa að undanförnu. Í þessu efni er okkur Íslendingum meiri vandi á höndum en flestum öðrum þjóðum, þar sem við lifum í stóru strjálbýlu landi og þjóðfélag okkar er ungt og ört vaxandi. Skiptir því miklu, að við sýnum fulla ráðdeild og beitum skynsamlegum vinnubrögðum við mótun stefnunnar í efnahagsmálum og í ákvörðunum um framkvæmdir og fjáröflun til þeirra. Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að mikið hafi orðið ágengt á þessu sviði á undanförnum árum og hafi þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin frá 1963 og þær árlegu áætlanir, sem síðan hafa verið gerðar, verið þýðingarmikil tæki í því sambandi. Það er ætlun ríkisstj. að halda áfram að starfa á þessum sama grundvelli og efla og bæta þær starfsaðferðir, sem þróazt hafa.