13.10.1965
Sameinað þing: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh., er þessi yfirlýsing, sem hann gaf hér, flutt á vegum beggja stjórnarflokkanna og Alþfl. stendur að henni, eins og hún nú liggur fyrir, og þarf ég þess vegna litlu við þetta að bæta. Þegar hæstv. fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, myndaði hér stjórn í nóv. 1959, var af hans hálfu gefin út yfirlýsing, aðallega um þau mál, sem næst lá fyrir að leysa. Ég þori að fullyrða, þrátt fyrir umsögn hv. 1. þm. Austf., að tekizt hafi að leysa mörg þeirra verkefna, sem sú stjórn lýsti yfir, að hún mundi beita sér að þegar í upphafi.

Nú eru liðin síðan um 6 ár og viðhorf hafa að ýmsu leyti breytzt, og ég tel það þess vegna eðlilegt, að hæstv. forsrh. skuli nú hafa gefið út yfirlýsingu um þau verkefni, sem næst liggja fyrir. Raunar teldi ég það alveg rétt, eins og tíðkast víða annars staðar, t.d. á Norðurlöndum, að í upphafi hvers þings gefi ríkisstj. yfirlýsingu um það, hvaða málefnum hún muni beita sér fyrir og hvaða verkefnum hún muni snúa sér að. Það er hjá þeim venja, að þessar yfirlýsingar séu gefnar í upphafi þings, og ég tel það vel, til þess að bæði hv. alþm. og þjóðin öll viti, að hvaða verkefnum stjórnin muni helzt snúa sér að leysa. Eins og gefur að skilja, er ekki hægt að leysa öll verkefni á auga bragði, og þess vegna verður eitt að ganga fyrir í ár og annað næsta ár, og þess vegna er eðlilegt og rétt, að stjórnin gefi um þetta skýrslu. Verkefnin eru ákaflega mörg og þess vegna ekki eðlilegt, að hægt sé að leysa þau öll í einu lagi. Ég vildi sem sagt aðeins, án þess að fara út í nokkrar umr. við þá hv. alþm., 1. og 5. þm. Austf., sem hér hafa talað, lýsa því yfir, að þessi stefnuyfirlýsing forsrh., sem hann nú hefur lesið, er fullkomlega á vegum beggja stjórnmálaflokkanna og Alþfl. stendur algerlega á bak við hana.