27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2804 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

Strandferðaskip

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár er sú, að ég hef heyrt því fleygt, að tvö af skipum Skipaútgerðar ríkisins hafi þegar verið sett á söluskrá. Ég hef nokkra ástæðu til að ætla, að þessar fregnir séu á rökum reistar. Hins vegar hef ég ekki heyrt þess getið, að neinar ákveðnar fyrirætlanir séu uppi um að fylla það skarð, er verða mundi við slíka sölu. Mér er það ljóst, að fólkið á ströndinni og ekki sízt Austfirðingar telja þetta hin alvarlegustu tíðindi, ef sönn reynast. Góð og örugg strandferðaþjónusta er þessu fólki brýn nauðsyn og raunar algerlega ómissandi fyrir þjóðfélagið í heild. Nútímatækni og stórkostlegar breytingar í samgöngumálum Íslendinga á síðustu áratugum kalla á endurskipulagningu strandferðanna með nýjum og breyttum skipakosti, en gera þær ekki óþarfar.

Fyrir því vil ég leyfa mér að biðja hæstv. sjútvmrh. að upplýsa, hvað hæft sé í þeim orðrómi, að ákveðið hafi verið að selja tvö af skipunum án þess að gera um leið ráðstafanir til þess að fá önnur og hentugri skip í þeirra stað.