26.10.1965
Sameinað þing: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

Minning látinna manna

forseti (BF):

Ég vil leyfa mér að minnast nokkrum orðum Hermanns Þórarinssonar bankaútibússtjóra á Blönduósi, sem varð bráðkvaddur hér í borg s.l. sunnudagskvöld, 24. okt., 52 ára að aldri. Hann var varaþm. Sjálfstfl. í Norðurlandskjördæmi vestra og tók sæti á Alþ. um skeið í þinglok vorið 1964.

Hermann Þórarinsson var fæddur á Hjaltabakka í Torfalækjarhreppi 2. okt. 1913. Foreldrar hans voru Þórarinn bóndi og alþm. Jónsson bónda á Halldórsstöðum á Langholti Þórarinssonar og kona hans, Sigríður Þorvaldsdóttir prests á Hjaltabakka Ásgeirssonar. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík vorið 1934 og stundaði síðan nám í efnafræði í Göttingen í Þýzkalandi 1936–1937. Sumurin 1934–1940 vann hann við efnafræðistörf og bókhald á Hesteyri. Lögregluþjónn á Blönduósi var hann 1941–1947 og vann einnig þau ár að skrifstofustörfum hjá samvinnufélögunum þar. Árið 1947 tók hann við rekstri Sparisjóðs Húnvetninga og annaðist hann fram til ársins 1963. Það ár var hann ráðinn útibússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Blönduósi, þegar Sparisjóður Húnvetninga var sameinaður útibúinu, og gegndi hann því starfi til æviloka. Jafnframt þessum aðalstörfum gegndi Hermann Þórarinsson ýmsum sveitarstjórnarstörfum. Hann var hreppstjóri og gjaldkeri Blönduóshrepps frá 1947, oddviti hreppsnefndar frá 1958 og átti sæti í sýslunefnd frá 1961. Einnig sinnti hann um skeið kennslustörfum á Blönduósi.

Hermann Þórarinsson átti skamma stund setu á Alþ., enda mun hann hafa átt lítt heimangengt frá annasömum skyldustörfum heima í héraði. Þar vann hann störf sín af alúð og gætni, naut vinsælda og trausts, svo að honum voru falin trúnaðarstörf í sívaxandi mæli, meðan honum entist aldur. Fráfall slíks manns er harmsefni, en þó sárast þeim, er næstir standa og hafa öðrum fremur notið verka hans og samvista.

Ég vil biðja hv. alþm. að votta minningu Hermanns Þórarinssonar virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]