04.11.1965
Efri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt í samræmi við og í framhaldi af því, sem tilgreint er í fjárlfrv. og ég gerði nánar grein fyrir í fjárlagaræðu við 1. umr. þess frv., að nauðsyn bæri til að gera sérstakar ráðstafanir til að afla ríkissjóði viðbótartekna, svo að auðið væri að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög.

Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir því, að meðal þessara ráðstafana verði aukatekjur ríkissjóðs hækkaðar svo, að þær gefi 22 millj. kr. viðbótartekjur við það, sem áætlað er að þær hefðu gefið að óbreyttum þessum gjaldstofnum. Það er gert ráð fyrir, að hækkunin verði krónulega séð úr 48 millj., sem þessi tekjustofn hefði gefið að óbreyttum lögum, en áætlað nú, að hann gefi um 70 millj. kr. eða rúmlega það. Með l. frá 1960 var ákveðið, að þessar aukatekjur skyldu innheimtar með 50% álagi. Síðan hafa engar breytingar verið á þeim gerðar, og með hliðsjón af því, að ýmiss konar ósamræmi var orðið í aukatekjulögunum, þannig að ástæða þótti til að gera frekar breytingar í ýmsum einstökum atriðum þeirra heldur en hafa þá aðferð, sem mátti teljast einföld, að hækka álagið, þá var sú leið farin að endurskoða l. í heild, og liggja þau þannig hér fyrir.

Svo sem gerð er grein fyrir í aths. með frv., er í langflestum tilfellum gengið út frá því, að gjöldin, eins og þau eru í dag, verði innheimt með 50% álagi, þ.e.a.s. að gjöldin hækki um það bil um 1/3 frá grunngjaldinu. Þar sem frekari hækkun er gerð á gjöldunum, er gerð nákvæm grein fyrir því í aths. með einstökum greinum frv., og tel ég ekki ástæðu til að rekja það, því að hv. þm. fá þar mjög skýran samanburð á því, sem í gildi er nú, og þeim breytingum, sem í frv. felast. En það má segja, að meginbreytingin sé þessi, að það er gert ráð fyrir í langflestum tilfellum, að komi til um þriðjungshækkun á gjöldunum, en þó þannig, að þar sem um prósentugjöld er að ræða, þar er ekki gert ráð fyrir hækkun á prósentuupphæð, en þær upphæðir hafa að sjálfsögðu hækkað með hækkuðum þeim fjárhæðum, sem við er miðað.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum eða rekja það f einstök. um atriðum. Sú hv. n., sem fær frv, til meðferðar, getur að sjálfsögðu fengið allar frekari skýringar, ef talið er vanta skilgreiningu á einhverjum einstökum atriðum frv., en á þessu stigi hygg ég, að það mundi aðeins lengja óþarflega umr. og yrði hv. þm. til engrar sérstakrar uppbyggingar, að ég færi að lesa upp í einstökum atriðum þær breytingar, sem af frv. leiðir, umfram þá meginreglu, sem ég hef hér gert grein fyrir. Legg ég svo til, herra forseti. að frv: þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.