04.05.1966
Efri deild: 84. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2831 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

Starfslok deilda

Karl Kristjánsson:

Sem elzti maður í þessari hv. d. kvaddi ég mér hljóðs til þess að þakka hæstv. forseta fyrir hönd deildarinnar fyrir hans hlýju óskir og vinsamlegu kveðjur. Um leið vil ég taka undir þakklæti hans og óskir til skrifstofustjóra Alþingis og starfsfólksins hér á Alþingi, sem með honum vinnur. Ég vil tjá hæstv. forseta beztu þakkir fyrir samvinnu á þessu þingi, sem hefur af hans hálfu, eins og jafnan áður,

einkennzt af lipurmennsku og sanngirni. Ég óska honum og fjölskyldu hans gleðilegs sumars og allra heilla. Njótum svo vel þessa sumars og hittumst heil til starfa á næsta þingi. Ég bið ykkur, hv. þdm., að rísa úr sætum og taka með því undir þessi orð mín. —