05.05.1966
Sameinað þing: 48. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2834 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

Þinglausnir

forseti (BF):

Þetta yfirlit sýnir, að mörg mál hafa legið fyrir þessu þingi, og eru sum þeirra stórmál á okkar vísu og um deild. Kemur nú að því, að á það reyni, hvernig til tekst um framkvæmd þeirra l., sem sett hafa verið, og veit ég, að þrátt fyrir skoðanamun um einstök mál, er það einlæg ósk og von allra þm., að störf þau, sem Alþ. hefur innt af hendi, megi verða þjóðinni til gagns og blessunar.

Síðustu vikur þessa þings hafa verið mjög annasamar fyrir alþm. eins og oft vill verða í þinglok, og leyfi ég mér, fyrir hönd þingforsetanna, að þakka hv. alþm. hið ágæta samstarf, sem hefur leitt til þess, að unnt er að ljúka þinginu í dag. Einnig þakka ég hæstv. ríkisstj. og öllum hv. alþm. ágætt samstarf í hvívetna á þingtímanum. Ég þakka það traust, sem mér var sýnt með því að trúa mér fyrir forsetastörfum. Einnig þakka ég þingheimi fyrir það umburðarlyndi og þá hjálpsemi, sem ég hef orðið aðnjótandi við störf mín í þessu sæti. Sérstakar þakkir færi ég varaforsetum, sem jafnan hafa fúslega veitt mér hina ágætustu aðstoð. Ég þakka skrifurum þingsins eljusemi og kostgæfni í störfum, og skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþ. þakka ég fyrir mikið og gott starf og ánægjulega samvinnu. Öllum hv. þm. óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu. Einnig óska ég þeim og fjölskyldum þeirra gæfu og gengis. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis færi ég sömu óskir. Fyrir hönd Alþingis bið ég öllum Íslendingum árs og friðar.