22.03.1966
Efri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

43. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur athugað frv. það, sem hér liggur fyrir. N. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði fellt.

Frv. felur í sér þá breytingu frá núgildandi lögum, að sjúkrasamlögum skuli skylt að greiða 3/4 hluta kostnaðar við tannlækningar, þegar þær teljast bein heilsufarsleg nauðsyn. Jafnframt gerir frv. ráð fyrir samningum milli sjúkratrygginga og tannlækna um þessa læknisþjónustu.

Í núgildandi lögum er heimild fyrir sjúkrasamlög til að taka upp í samþykktir sínar greiðslur fyrir tannlækningar, en sjúkrasamlögin hafa litið notfært sér þessa heimild. Aðalástæðan fyrir því, að sjúkrasamlögin hafa ekki notfært sér þessa heimild, er sú, að það er skortur á tannlæknum í landinu. Það hefur reynzt ógerlegt fyrir bæjar- og sveitarfélög t.d. að koma skólatannlækningum í gott horf, en góð tannlæknisþjónusta barna og unglinga er talin forsenda fyrir því, að þessi mál séu yfirleitt í góðu lagi.

Það þykir ekki skynsamlegt, að sjúkrasamlögin keppi við skólana um þá starfskrafta, sem hér um ræðir, en bíða heldur, þar til skólatannlækningar eru komnar í betra horf en nú er. Menn gera sér vonir um, að það geti a.m.k. sums staðar, eins og hér í Reykjavík, orðið eftir nokkur ár.

N. leitaði umsagnar um þetta frv. til tveggja aðila: til Tannlæknafélags Íslands og til Tryggingastofnunar ríkisins. Tannlæknafélag Íslands tjáði sig ekki um frv. í því formi, sem það liggur hér fyrir. Tryggingastofnunin tjáði sig hins vegar um frv. og komst að þeirri niðurstöðu, að hún gæti ekki mælt með samþykkt þess, og færði fram í því sambandi þau sjónarmið, sem ég greindi hér áðan.

Með tilliti til þessa taldi meiri hl. n. ekki tímabært að samþykkja þetta frv. og leggur því til, að það verði fellt.