14.02.1966
Neðri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

98. mál, áfengislög

Sigurvin Einarason:

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að tekin verði upp framleiðsla og neyzla á áfengu öli í landinu. Fyrir 5 árum gerði hv. 1. flm. þessa máls tilraun til að sannfæra hv. alþm. um nauðsyn þessa máls með frv., sem hann flutti þá. En sú tilraun hans bar ekki tilætlaðan árangur.

Við 1. umr. þessa máls hlýtur sú spurning að verða ofarlega á baugi, hver sé hinn raunverulegi tilgangur með frv. Til hverra umbóta á það að verða í lifi þjóðarinnar? Einhver ákveðinn tilgangur er í öllum þeim till., sem fluttar eru á Alþ., einhver tilgangur til gagns t.d. fyrir einstaklinga, fyrir stéttir, fyrir héruð, atvinnugreinar eða fyrir þjóðina í heild, einhver tilgangur til þess að skapa betra líf, meiri framfarir, meiri menningu eða fullkomnari þjóð. En hvert er markmiðið með þessu frv.? Hverjum á það að verða til gagns? Hvaða einstaklingum? Hvaða stéttum? Hvaða byggðarlögum? Styður þetta frv. að einhverjum framförum í landinu? Styður það að aukinni menningu? Styður það að betra þjóðfélagi? Nei, það gerir það ekki. Og þeir halda því ekki heldur fram, flm. sjálfir. Frv. hefur nefnilega engan tilgang annan en þann að veita mönnum meiri og fleiri möguleika til áfengisneyzlu. Frv. lyftir því aðeins undir lágkúrulegar og skaðlegar hvatir mannsins.

En þó að frv. hafi nú engan jákvæðan tilgang og verði engum til góðs, verður það þá nokkrum til skaða? Hv. flm. sjálfir geta meira að segja ekki dulið það í grg. frv., að neyzla á áfengu öli geti orðið til tjóns. Þeir segja orðrétt, að menn hafi „undirstrikað, að óheppilegt og hættulegt sé að hafa á boðstólum fyrir Íslendinga áfengt öl. Um þetta hafa verið og eru skiptar skoðanir.“ Þeir draga ekki dul á þetta. Og þeir mótmæla alls ekkert þessum skoðunum. Þeir nefna ekki eitt einasta atriði sem rök gegn þessum skoðunum. En þeir minna heiðarlega á þetta. En þeir eru þeim mun fjölorðari um það, að það sé ekki samræmi í því að leyfa sölu sterkra vina, en banna sölu og framleiðslu á áfengu öli. Og þeim er svo mikils virði að bæta úr þessu ósamræmi, að þeir segjast eiginlega flytja frv. til þess eins, að þarna verði ekki áfram ósamræmi. Þeir nefna aftur á móti ekki neitt um það, hvaða gagn er að þessu samræmi, sem þeir vilja fá, og ekki heldur, hvaða ógagn er af þessu ósamræmi. Nei, þeir nefna ekkert um það, enda er það víst ekki hægt. Ég held, að þetta tal þeirra um ósamræmið sé þannig til komið, að þá hefur vantað efni í grg., þannig að ef þeir hefðu nú sleppt að tala um þetta, hefðu þeir ekki getað samið neina grg., því að um efni frv. er ekkert jákvætt hægt að segja.

Flm. láta mjög í það skína í grg. frv., hvað áfengt öl er saklaust í samanburði við sterku vínin. Þeir eru þó alls ekki að hafa orð á því, að sterku vínin séu skaðleg. En sakleysi ölsins, það er þeim ofarlega í huga. Það er sannarlega ekki ofsögum af því sagt, hversu háskaleg sterku vínin eru. Íslendingar hafa fengið að kenna á því svipað og aðrar þjóðir. En er það svo auðvelt að dæma um, hvort er skaðlegra áfengt öl eða sterk vín? Er t.d. bílstjóri ölvaður af öldrykkju, sem veldur slysi, eitthvað betri en hinn, sem var ölvaður af sterku víni? Ef báðir valda sams konar slysi, er þá annað slysið eitthvað betri tegundar en hitt? Allir vita, að sterkt vín er fljótandi eitur. Enginn getur haft það um hönd í daglegri vinnu, því að þá getur hann ekkert unnið, a.m.k. ekki til gagns, og flestir heiðarlegir húsbændur losa sig við slíka menn. En áfengt öl er lævíst, af því að það er veikt. Öldrykkjumaður getur hangið við vinnu sína, þótt hann drekki öl jafnvel af og til yfir daginn. Hann er að vísu lélegur starfsmaður, og honum er ekki treystandi til ábyrgðarstarfa, en hann getur lafað með öðrum, jafnvel svo að húsbóndinn taki ekki eftir því, hvernig hann er. Unglingar, sem neyta sterkra drykkja, geta ekki heldur leynt því, og enn þá a.m.k. ofbýður flestum mönnum, ef þeir sjá nýlega fermdan ungling ofurölvi. Þetta eitt, þessi fljótvirkni sterka vínsins hefur það að segja, að það skapar aðhald hjá foreldrum, hjá aðstandendum unglinga og hjá mönnunum sjálfum. Það er ekki hægt að fela ástandið, eins og í skjóli veika ölsins. Það sást t.d. við hina frægu Þjórsárdalsför unglinganna hér um árið. Ef þessir unglingar hefðu bara haft með sér áfengt öl, er ekki víst, að neitt hneyksli hefði af því spunnizt. En þeir hefðu jafnvel getað drukkið jafnmikið áfengi í þessu áfenga öli og þeir gerðu í sterku vínunum.

Hv. frsm. þessa máls hélt því fram í ræðu sinni, að ef áfengt öl væri á boðstólum, mundi draga úr neyzlu sterkra vína. Hver er reynsla annarra þjóða í þessum efnum, t.d. í Danmörku, þar sem við þekkjum nú einna bezt til?

Í Berlinske Tidende frá 29. des. s.l. er grein um áfengismál Dana, eftir merkan mann, Sven Reden dósent. Þar birtir hann línurit yfir áfengisneyzluna þar í landi frá 1938—1964. Á þessu tímabili hafði neyzlan aukizt úr 2,38 lítrum af hreinu alkóhóli á mann í 4,97 lítra, eða um 109%. 1938 var öldrykkjan tæplega helmingur af þessari neyzlu, þessum 2,38 lítrum. En 1964 er áfengið í ölinu orðið yfir 70% af áfengisneyzlu Dana, líka miðað við hreint alkóhól á mann. En samt hefur neyzla sterkra vína aukizt líka á þessu tímabili. Neyzlan á áfenga ölinu hafði aukizt svo miklu meira. Svona er það saklaust, áfenga ölið í Danmörku. 4,97 lítrar af hreinu alkóhóli á mann er tvisvar og hálfu sinni meira en Íslendingar drekka og drekka þeir mikið. En af þessum 4,97 lítrum er hreint alkóhól í ölinu 3,51. Í sterku vínunum aftur á móti er alkóhólið 0,89. M.ö.o.: Danir drekka hreint alkóhól 4 sinnum meira í öli en þeir gera í sterkum vínum. Það er saklaust ölið eða hitt þó heldur. Þessu ættum við kannske von á, ef við fengjum áfenga ölið inn á markaðinn. Og þegar menn halda slíkum kenningum fram sem þessum og við höfum Dani við hliðina á okkur svo að segja til að bera okkur saman við, sjáum við, á hve miklum rökum svona kenningar eru reistar. Ölið kemur auðvitað algerlega sem viðbót. Það sýna tölurnar frá Danmörku.

Hv. frsm. skýrði frá því í framsöguræðu sinni, að einn af tollvörðum hér í borg eða hér í nágrenninu hefði tjáð sér, að innflutt áfengt öl á s.l. ári mundi hafa numið um 100 þús. kössum. Ég skil þessi tíðindi svo, að hér hafi verið um ólöglegan innflutning að ræða, því að mér er ekki kunnugt um, að nein þau lög hafi verið þá í gildi, er heimila slíkan innflutning. Og manni verður að spyrja: Hvernig veit tollvörðurinn þetta, sjálfur vörður laganna með innflutningnum? Hvernig getur hann skýrt frá svona alvarlegum tíðindum, svona alvarlegum lögbrotum í innflutningi? Og hvað befur þessi embættis maður gert sjálfur til þess að stemma stigu við þessum lögbrotum? Eða á kannske að skilja þessa frétt hjá hv. flm. svo, að tollverðir láti sig engu skipta, þótt flutt sé inn í landið áfengt öl? Ég veit ekki, hvernig á að skilja þessa fregn. Ég vona, að þessi fregn sé ekki á rökum reist. Ég vona, að þetta sé hreint slúður.

Í ræðu hv. frsm. var einn kaflinn um ofdrykkjumenn, og þar var vandamálið rætt frá læknis fræðilegu sjónarmiði. Þarna var vísindalega analíserað, hvernig geðsjúkir menn verða ofdrykkjumenn. Ekki ætla ég að hætta mér út á þennan hála ís læknisfræðinnar, ég er sannarlega ekki maður til þess. En það er eins og maður kannist við þessa kenningu, um geðveila menn, geðbilaða menn, sem allur almenningur telur svo alheilbrigða. En þó að ég hafi ekki læknisfræðilega þekkingu til þess að fara inn á þessa hlið málsins, vil ég hins vegar skýra frá áliti læknis eins hér í borginni á áfenga ölinu, manns, sem mun hafa a.m.k. ekki minni þekkingu á þessum efnum en hv. flm. frv. Þessi maður er Baldur Johnsen læknir, starfandi í rannsóknarstofu háskólans, sem hélt fyrir skömmu erindi í félagi einu hér í bænum um ölfrv. og ölneyzluna. Læknirinn lét mér góðfúslega í té stuttan útdrátt úr þessu erindi, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lofa hv. þm. að heyra, hvað hann segir m.a.:

„Frv. kann að líta sakleysislega út, og það er erfitt fyrir Íslendinga að dæma um áfenga ölið af eigin reynslu. Það er alþekkt, að aukið framboð einhverrar vöru eykur sölu hennar, hvað sem öðru líður og hvort sem um er að ræða nauðsynlegan eða ónauðsynlegan varning. Sjálfsagt ætlast líka flm. frv. til þess, að einhver sala verði á þeirri vöru, sem þeir eru að reyna að koma upp á landsmenn. Það verður að teljast fyrirsláttur einn, að ölið eigi að lúta sömu söluaðferðum og aðrir áfengir drykkir. Þessi saklausasti allra drykkja, eins og flm. telja hann, yrði líklega látinn í aðrar búðir, þegar eftirspurnin færi að aukast, og yrði auðvitað kallað eftir slíku mjög fljótlega, enda mundu vínsölubúðirnar, sem fyrir eru, fljótt springa utan af viðbótarölsölu.

Okkar eigin reynsla er, eins og áður segir, lítil. En þó má minnast aldalangrar áfengisneyzlu hér á landi áður fyrr. Þeir, sem eitthvað þekkja til sögunnar, vita, hvert afhroð landsmenn urðu að gjalda fyrir brennivíninu, sem fyrst byrjaði að flytjast til landsins fyrir hér um bil 400 árum, hvernig útlendir drottnarar notuðu brennivínið og annað áfengi til að hjálpa til að herða snöru kúgunar og verzlunarhafta fastar og fastar að landslýð. Það vita allir, sem eitthvað hafa kynnt sér söguna, að hér flóði áfengið í vaxandi mæli um allt land þann tíma, sem innflutningur var frjáls á því og sala frjáls í landinu, þar til bannið, sem sett var á fyrri hluta þessarar aldar, kom til. Það þarf ekki annað en líta í annála til að sannfærast um, hvílíkur voðavágestur hér var á ferðinni, því að ekki eru þau svo fá dauðsföllin, ekki urðu svo fáir úti, jafnvel á lágheiðum hér á Suðurnesjum. Þegar bændur, sem voru að koma úr kaupstað með skammtinn kaupmannsins í höfðinu, en lítinn mjölskammt oft og tíðum, mátti ekki mikið út af bera á heiðum, til þess að menn þessir lægju ekki dauðir. Hesturinn íslenzki var þá það farartæki, sem lengi vel reyndi að ganga undir drukknum mönnum og bjarga þeim á leiðarenda, en það kom fyrir ekki. Margir sofnuðu á baki og drukknuðu í litlum lækjarsprænum. Nú er öldin önnur. Nú er hraðinn meiri. Nú eru bifreiðar komnar í stað hestanna, en bifreiðar hafa engan þann „sjötta sans“, sem reynir að bjarga drukknum bifreiðarstjóra frá því að vinna öðrum tjón eða sjálfum sér bana. Sé ástæða til að kvarta um ábyrgðarleysi í umferðinni nú þegar, er áreiðanlegt, að það batnar ekki með tilkomu ölsins, sem flm. frv. segja að sé saklaust og meinlaust. Hætt er við, að menn vari sig síður á því en öðru áfengi og setjist oftar hífaðir undir stýri.

Við vitum, að bann var hér við lýði nokkur ár, en svo kom, að það var afnumið. Af því að erlendar þjóðir keyptu hjá okkur saltfisk, töldu menn ekki nema sjálfsagt, að við keyptum af þeim þeirra framleiðslu í staðinn, en það var vínið. Vínöldin byrjaði aftur, og ekki leið á löngu, unz menn vildu hafa eitthvað sterkara en þessi léttu vín, og rökin fyrir því voru þau og ættu að vera rosknum mönnum í fersku minni, að það væri svo lengi verið að drekka sig kenndan í þessu víni, það væri nokkur munur að geta fengið sér snafs með kunningjum sínum, bara eitt glas og þar með búið. Úr því að við höfum þessi léttu vín, sögðu menn, hvers vegna ekki að hafa líka sterk vín, meiri fjölbreytni? Enda er brennivínið og aðrir álíka drykkir svo vondir á bragðið, að það er engin hætta á því, að unglingar fari að leggja það sér til munns. Hins vegar er miklu meiri hætta á, að hin sætu, léttu vín yrðu unglingunum til trafala. — Svo mörg voru þau orð. Og svo var farið að flytja sterk vín til landsins.

Nú er beðið um enn einn áfengisflokkinn, þ.e. ölið, og þá eru þau rök notuð, að ófært sé að eiga ekki völ á öðru en sterkum drykkjum, því að mönnum væri hættara við ofdrykkju með því að fá svo sterka drykki og það i stórum flöskum. Í þetta skipti eru notuð alveg þveröfug rök við þau, sem notuð voru í fyrra skiptið, þegar verið var að innleiða sterku drykkina, og sýnir það betur en nokkuð annað, að þeir menn, sem eru að berjast fyrir að fá fleiri áfengistegundir inn í landið, bera ekki hag þjóðarinnar fyrir brjósti, þó að það sé stundum látið líta svo út, heldur aðeins að þjóna sinni eigin löngun og nokkurra félaga, sem standa á bak við þá.

Þá er ein röksemd eftir, sem notuð var í fyrra skiptið, þegar ölfrv. var á ferðinni, en hún er sú, að við getum framleitt betra öl en nokkur annar í heiminum, vegna þess að við höfum svo gott vatn, það yrði örugg sala í því til útlanda. Norðmenn höfðu svípuð sjónarmið, þegar þeir nýlega hófu bruggun öls. Þeir ætluðu að hafa það fyrir útflutningsvöru. En hver varð endirinn? Aðeins fáein prósent af því öli, sem þeir framleiða núna, er flutt út, allt hitt er drukkið í landinu sjálfu. Það er hægara sagt en gert að vinna nýja markaði fyrir öl í heiminum. Þar eru fyrir hinar frægu þýzku öltegundir, þar er Carlsberg, ef heimamarkaður er þá ekki yfirfylltur af eigin framleiðslu.

Menn segja, að það sé auðvelt að hætta við ölframleiðslu. En hver trúir, að auðvelt sé að snúa við? Við sjáum, hvernig allt ætlaði að verða vitlaust í Danmörku, meðan ölverkfallið stóð þar. Þannig fer, ef menn eiga að missa nautnadrykk, sem þeir hafa vanið sig á. Menn vilja hafa sem mest frjálsræði í áfengissölu og láta enga tegund vanta, hér séu yfir 200 tegundir sterkra vina, því ekki að bæta einni við, þeirri léttustu? En þetta er blekking. Öl er nýr flokkur áfengra drykkja. Fyrir eru tveir: létt vín og brennd vín. Ölið er því 50% aukning áfengis í landinu.

Heilbrigðisskýrslur Sameinuðu þjóðanna sýna, að flestir ofdrykkjumenn eru í Bandaríkjum Norður-Ameríku og þar næst í Frakklandi. Í báðum þessum stöðum er hvers konar áfengi frjálst. Í örfáum ríkjum Bandaríkjanna eru þó áfengishömlur, sem jafnvel jaðra við bann, en í flestum þeirra alfrjáls sala og framleiðsla. Hvernig er svo umhorfs t.d. í einni ölknæpu í stórborg Bandaríkjanna? Utan á gluggum og veggjum er auglýst: „Hér fást sterk vín, létt vín og öl. Hér fæst vodka, whisky, gin, koníak, rauðvín, portvín og sherry. Og hér fæst hvers konar öl, öl í glösum, öl í dósum, ljóst öl, dökkt öl, létt öl og sterkt öl, allt eftir því sem hver vill. Hér má fá lítið glas, jafnvel hálft glas, stórt glas, pela, hálfflösku og heilflösku, eða í öllum þeim umbúðum, sem neytendur óska. Vinnutékkar verkamanna eru innleystir hér. „Já, verkamennirnir geta þá komið beint frá vinnustað með ávísanir sínar fyrir vinnu dagsins eða vikunnar, og svo eru þær innleystar í ölknæpunum, í staðinn fyrir að fara heim með þær og kaupa mat fyrir þær handa fjölskyldunni.

Þetta er aðeins lítil mynd af mörgum, sem hægt er að sjá í stórborgum víða um heim, þar sem ástandið er komið í það horf, að ekki verður við neitt ráðið og látið reka á reiðanum. Þarna er frelsið í allri sinni dýrð. En afleiðingin, hver er hún? 4000 ofdrykkjumenn af hverjum 100 þús. manns eða um 4%. Hér heima eru þó ekki nema 1—2% ofdrykkjumenn og áreiðanlega vegna þeirra hamla, sem enn þá er haldið á sölu og veitingu áfengra drykkja.

Já, þetta var í Ameríku, segja menn. Það er kannske ekki von á því betra þar. — En lítum nær okkur, á Danmörku, paradísina þar. Þar fæst allt. Þar eru allar áfengistegundir seldar í búðum og knæpum, og þar sést aldrei fullur maður. En hver er reynslan? Í Berlinske Tidende skrifar fræðimaður um áfengismálin, en vill þó ekki að órannsökuðu máli leggja hömlur á áfengið, en hann hefur orðið óþægilega var við ýmsar staðreyndir og vill kanna þær til hlítar. Í öðru blaði hafði birzt viðtal við yfirlækni við einn af stærstu spítölunum. Þessi merki geðveikilæknir lýsti því blákalt yfir, að í Danmörku væru um 25 þúsund ofdrykkjumenn, sjúklingar, sem tækju upp spítalapláss þar í landi frá öðrum sjúkdómum. Greinarhöfundur vitnar enn fremur í umsögn manns, sem er hliðstæður áfengismálaráðunaut hér í landi, og hann hefur talið sennilegt, að nálægt 250 þús. manns í Danmörku yrðu meira og minna fyrir búsifjum vegna áfengisneyzlu. Hér er um að ræða fjölskyldur drykkjumanna, sem alltaf verða meira og minna fyrir barðinu á drykkjuskapnum, þó að þær séu ekki sjálfar beinir þátttakendur í drykkjunni. Þetta eru ljótar tölur.

Í þessu sama blaði Berlinske Tidende er birt línurit yfir áfengisneyzlu Dana. Þar kemur í ljós, að heildaráfengismagnið, sem drukkið er, fer sífellt vaxandi, bæði brennivínsdrykkjan og öldrykkjan, öldrykkjan heldur meira en brennivínsdrykkjan, en ekki eins og flm. ölfrv. hér á landi eru að halda að almenningi, að ef ölið komi, muni brennivínsdrykkjan minnka. Nei, það er áreiðanlegt, að þá yrði allt annað upp á teningnum.

Hvar sem öl er bruggað og selt, verður það almenningsvarningur, almenningsneyzla, almenningslöstur. Ölið verður daglegur drykkur meira og minna á vinnustöðum, sem stelur peningum frá mönnum og dregur úr afköstum. Menn þurfa ekki annað en bera saman afköst íslenzkra verkamanna og öll tilþrif á vinnustað við störf starfsbræðra þeirra í nágrannalöndunum, þar sem a.m.k. einn í hverjum hópi hefur nóg að gera að ná í ölföng. Hætt er við, að hér yrði útkoman ekki ósvipuð með ölið og með sígaretturnar, það yrði nautnavarningur, furðu sakleysislegur, en menn mundu kaupa ölið, þegar þeir færu að venjast því, og smám saman gætu þeir ekki án þess verið. Og spariskildingarnir færu til ölkaupa í staðinn fyrir húsbyggingar eða að prýða heimili sin eða í staðinn fyrir góðan mat. Verkamenn nágrannalandanna eiga ekki fé til að byggja fyrir íbúðir eða prýða heimili sin á sama hátt og íslenzkir verkamenn.

Það má reyndar teljast undarlegt, að það skuli vera til menn, sem eru að reyna að venja þjóðina á nýja tegund áfengra drykkja, sem hún hefur þó verið svo blessunarlega laus við til þessa, og má þakka það að sumu leyti einangrun, en einnig, að landsmenn og ráðamenn hafa staðið á verði hvað þetta snertir fram að þessu. Það er í hæsta máta einkennilegt, að menn skuli vera að gera sér leik að því að bæta nýjum skatti, nýrri eyðslu, algerlega ónauðsynlegri og sem getur verið mjög skaðleg, við aðra óþarfa eyðslu landsmanna. Það er áreiðanlegt, að áður en varir yrði ölið mönnum miklu meiri peningaþjófur en jafnvel tóbakið er nú þegar, og er þó varla á það bætandi.

Ég held, að Halldór Laxness hafi hitt naglann á höfuðið, þar sem hann leggur Steinari undan Steinahlíðum þessi orð í munn, er skáldið Einar Benediktsson býður honum öl í Skotlandi, en Steinar svaraði: Ekki get ég nú beinlínis sagt, að öl sé minn drykkur, elskulegi sýslumaður minn, segir brikkleggjarinn, en kaffi er ég vanur að þiggja, þegar það er boðið af góðum hug. Það lifgar andann heldur en svæfir, ef nokkuð væri.“

Þetta var útdráttur úr erindi Baldurs Johnsens læknis.

Ég vil að síðustu minna á, að fyrir stuttu var efnt til mjög viðtækra félagslegra samtaka hér í landinu til varnar gegn slysum í umferðinni. Þessi samtök mælast mjög vel fyrir, enda er þörfin mikil að draga úr slysahættunni. En það er hálfömurlegt til þess að vita, að á sama tíma og þessi félagslegu samtök eru að fara af stað, skuli liggja fyrir Alþingi að afgreiða frv. með einhverjum hætti, sem flestu öðru fremur er líklegt til þess að auka á þessa slysahættu. Ég lit því svo á, að það ætti ekki að vera erfitt fyrir hv. þm. að taka afstöðu til þessa máls.