01.04.1966
Neðri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

98. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Máli þessu var á sínum tíma vísað til hv. allshn., og hefur hún athugað það nokkuð. Nm. voru ekki sammála um þetta frv., og liggja hér fyrir tvö mál. Ég stend að nál. á þskj. 422. Það er mín skoðun, að þetta sé óþurftar- og óheillamál, og þess vegna legg ég til, að frv. verði fellt.

Allshn. sendi nokkrum aðilum frv. til umsagnar. Tveir af þeim sendu n. meðmæli með frv., það voru ferðamálaráð og Samband veitinga og gistihúsaeigenda. Hins vegar er mér kunnugt um það og sjálfsagt þm. yfirleitt, að til Alþ. hafa borizt mótmæli gegn frv. frá félögum, félagasamböndum og stofnunum víðs vegar um landið. Mér telst svo til, að það séu 32 bréf, sem borizt hafa til þingsins, þar sem fluttar eru fram áskoranir um að fella frv. Í nál. mínu á þskj. 422 hef ég birt skýrslu yfir þessi félög og stofnanir, sem hafa mótmælt frv. skriflega, og ætla ég að fara um það nokkrum orðum.

Þar má fyrst telja áfengisvarnaráð, einnig Stórstúku Íslands. Þar að auki hafa komið mótmæli frá 10 góðtemplarastúkum, 4 af þeim í Reykjavík, 2 í Hafnarfirði, 1 í Bolungarvík, 1 á Akureyri, 1 í Stykkishólmi og 1 á Siglufirði. Þá hafa einnig borizt mótmæli frá Landssambandi ísl. ungtemplara. Mótmæli hafa borizt frá áfengisvarnanefnd í Stykkishólmi og áfengisvarnanefnd kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði. Einnig hafa borizt mótmæli frá þingi Héraðssambandsins Skarphéðins. Það er, eins og kunnugt er, gamalt ungmennafélaga- og íþróttafélagasamband á Suðurlandsundirlendinu, og ég vil telja, að það sé eitt af hinum merkustu félagasamtökum af því tagi, hefur lengi vel starfað að íþróttamálum og mörgum framfaramálum. Þing þessa sambands sendi mótmæli gegn frv. Enn vil ég nefna mótmæli frá fundi í fulltrúaráði Landssambandsins gegn áfengisbölinu. Á þeim fundi voru fulltrúar frá 14 félögum og félagasamböndum, og mótmælin voru samþ. þar einróma.

Næst vil ég nefna það, að félög og félagasambönd kvenna hafa sent mörg andmæli gegn þessu málí til Alþ. Ég hygg, að það sé þannig með konurnar, að þær hafi betri skilning á þessum málum yfirleitt en karlar, og þeim er það vel ljóst, hvert óheillaspor væri stigið, ef nú væru gerðar ráðstafanir til þess að auka enn áfengisneyzlu landsmanna. Af þessum félögum og félagasamböndum vil ég fyrst nefna Kvenfélagasamband Íslands, sem befur mótmælt frv. Þá eru mótmæli frá fulltrúaráði Bandalags kvenna í Reykjavík, frá aðalfundi Mæðrafélagsins i Reykjavik, frá Kvenfélagi Langholtssafnaðar í Reykjavík, frá aðalfundi Kvenréttindafélags Íslands, frá verkakvennafélaginu Framsókn í Reykjavík, frá aðalfundi Kvenfélags Hríseyjar, frá Sambandi breiðfirzkra kvenna og frá aðalfundi Kvenfélags sósíalista í Reykjavík. Mér skilst, að þetta séu um það bil 10 kvenfélög og kvenfélagasambönd, sem hafa sent andmæli gegn frv. til þingsins.

Þá hafa borizt mótmæli frá Hjálpræðishernum á Íslandi og frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna á Akureyri, einnig frá stjórn Náttúrulækningafélags Íslands. Að síðustu vil ég nefna deildir bindindisfélags ökumanna í Reykjavík, Stykkishólmi og Siglufirði.

Þetta, sem ég hef nú talið, gefur ótvírætt til kynna, að það er uggur í mörgum út af þessu máli og mikil andstaða gegn því víða um landið og það ekki að ástæðulausu að mínum dómi.

Ég vil leyfa mér að vitna — og fá til þess leyfi hæstv. forseta — í umsögn áfengisvarnaráðs, sem ég nefndi áðan. Í bréfi frá því ráði er m.a. bent á það, sem hér greinir, „að erlend reynsla sýni ótvírætt, að áfengisneyzla fari hvarvetna vaxandi við aukna neyzlu öls og annarra veikra drykkja, að hætta sé á; að öldrykkja yrði fljótlega nokkuð almenn meðal unglinga, en rannsóknir á Norðurlöndum sýni, að leiðin til ofdrykkju liggi oftast frá ölinu til brenndu drykkjanna; að öl mundi trúlega verða hér eins og víða annars staðar algengur svaladrykkur, ekki sízt verkamanna og iðnaðarmanna, en þær tvær stéttir biði víða erlendis mest tjón, fjárhagslegt og heilsufarslegt, af völdum ofdrykkju öls; og enn, að á öld véla og vélvæðingar og sívaxandi umferðar gæti ölið orðið mikill slysavaldur.“ Undir þessar aðvaranir áfengisvarnaráðs vil ég leyfa mér að taka.

Vafalítið má telja, að áfengisneyzlan í heild muni aukast, ef áfengt öl bætist við þær tegundir áfengra drykkja, sem fyrir eru. Ég tel mjög óheillavænlegt að gera ráðstafanir til að auka neyzlu áfengis. Hún er þegar allt of mikil og veldur stórkostlegu böli i mörgum myndum. Þetta er alkunnugt og viðurkennt. Vissulega þyrfti fremur að reyna að finna ráð til að draga úr neyzlu áfengis og helzt afnema hana með öllu heldur en auka við áfengisstraumana og þau vandræði, sem þar með fylgja. Unga fólkið er áreiðanlega í enn meiri hættu fyrir ölinu en sterkari áfengistegundum. Það er hætt við, að ölið kenni því að neyta áfengis og þaðan liggi leiðin til enn sterkari vintegunda, og hví skyldum við ekki reyna að sporna á móti því, að gerðar verði ráðstafanir, sem auka hættuna á áfengisneyzlu ungmenna?

Þá er það öldrykkja á vinnustöðum, sem má telja alveg vafalaust að mundi viða verða upp tekin, ef hér verður farið að framleiða og selja áfengt öl. Fólk mundi eyða miklu fé í kaup á áfengu öli til að svala sér á því við störfin. Af þessu mundi leiða minni vinnuafköst og mjög aukna slysahættu við meðferð véla og tækja, þegar stjórnendur þeirra eru undir áfengisáhrifum.

Flm. þessa frv. og meðmælendur þess reyna ekki að halda því fram, að áfenga ölið yrði nokkrum manni til heilla. Það er ekki heldur við því að búast, að þeir reyni það, því að það er ekki hægt. Þetta mundi engum verða til hagsbóta, en fjölda manna til tjóns, og það tjón er óútreiknanlegt, en víst er, að það yrði mikið og margvíslegt.

Flutningur frv. bendir til þess, að hér sé eitthvað af mönnum, sem langar ákaflega til að fá áfengt öl að drekka. Betra væri þeim mönnum að sýna þá sjálfsafneitun og þjóðhollustu að kveða niður þessa þrá eftir sterka bjórnum, því að þeir mega vita, að áfenga ölið mundi hafa í för með sér mikið og margvíslegt tjón fyrir fjölda manna. Verði frv. þetta gert að lögum og heimild þess notuð, mun það verða til að auka mjög við þau miklu vandræði, sem áfengisneyzlan veldur nú þegar í okkar þjóðfélagi. Þess vegna er ég andvígur frv., eins og ég sagði í upphafi, og legg til við hv. þd., að hún felli það.