01.04.1966
Neðri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2277)

98. mál, áfengislög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur verið vikið að, hefur frv. um sama efni og það, sem hér liggur nú fyrir til umr., nokkrum sinnum áður verið flutt á Alþ., en slík frv. hafa jafnan fengið heldur daufar undirtektir meðal alþm. Ég veitti því athygli, að þegar þetta frv. kom nú fyrir, urðu litlar umr. um það við 1. umr. málsins. Margir þeirra hér í hv. þd., sem eru andvígir frv., töldu það ekki taka því að hefja hér miklar umr. um málið við 1. umr. þess, því að allar líkur bentu til þess, að það gæti farið eins um málið að þessu sinni og áður, að það færi til n. og kæmi þaðan ekki aftur.

En nú bregður svo við, að meiri hl. þeirrar n., sem hefur haft málið til athugunar, leggur til, að þetta frv. nái fram að ganga. Það hlýtur því auðvitað að fara svo, að þegar þetta nál. liggur fyrir og málið er nú komið hér til 2. umr., verði talsvert miklar umr. um þetta mál. Hjá því getur varla farið. Að vísu veitti ég því athygli, að frsm. meiri hl., 1. flm. frv., vildi vera mjög fáorður að þessu sinni um málið, sagði hér nokkur orð og skauzt úr ræðustólnum, taldi sýnilega ekki, að það mundi styrkja hans málstað mikið að rökstyðja frekar en gert er í grg. frv., hvaða gildi væri fólgið í því, að þetta frv. næði að verða að lögum.

Það hefur ekki farið á milli mála á Alþ. á undanförnum árum, þegar þessi mál hefur borið á góma, að ég hef verið andvígur því að leyfa hér bruggun og sölu á sterku öll, og ég býst því við, að það komi fáum á óvart, að ég er einnig á móti þessu frv. En ég fór að kynna mér nokkru nánar, hvaða ný rök væru nú flutt fram hjá þeim, sem flytja málið að þessu sinni, hverju þeir vildu tefla fram í þetta skiptið sem röksemdum fyrir því, að nú væri kominn tími til þess að heimila hér sölu og bruggun á sterku öli. Í grg. frv., sem ekki er mjög löng, gat ég aðeins fundið tvennt, sem fært var fram til stuðnings málinu. Í fyrsta lagi er á það bent, að það gæti mikils ósamræmis í gildandi áfengislögum þjóðarinnar, og það er alveg greinilegt, að þeir vilja bæta úr þessu ósamræmi og koma nú fullu „systemi í galskapinn“, eins og stundum er sagt, við eigum að fá fullkomið kerfi i þess stað, sem fyrir er í þeim efnum. En í sambandi við þetta ósamræmi ásaka flm. þessa frv. einkum bindindismenn fyrir að hafa staðið að því, að slík áfengis lög skuli gilda í landinu sem hér gilda nú og þeir ætla að betrumbæta á þennan hátt. Það er rétt eins og flm. viti það ekki mætavel, að þau ákvæði, sem gilda um sölu áfengis í landinu, eru ekki eftir forskriftum frá bindindismönnum í landinu, heldur eru þær reglur, sem þar eru settar, að langsamlega mestu leyti settar í fullri andstöðu við bindindismenn.

Þessi röksemdafærsla um samræmi, aukið samræmi, er ekkert nýtt fyrirbæri í sambandi við okkar áfengísreglur. Það er ekki lengra siðan en á árinu 1954, þá urðu hér allmiklar umr. á Alþ. um áfengislögin, en þá komu hér fram menn, sem töldu, að það þyrfti að auka á samræmi í áfengislögunum, þar væri þannig frá reglum gengið, að heimilað væri aðeins einu veitingahúsi í landinu að selja áfengi, en hins vegar vissu allir, að það viðgengist, að á öðrum veitingahúsum sæjust oft drukknir menn og þar væru menn að drykkju. Og það voru því til menn hér, einnig á Alþ., sem vildu kippa þessu í lag, auka þarna á samræmi, veita miklu fleiri veitingahúsum heimild til að selja áfengi en aðeins einu húsi, og á þann hátt átti að skapa hér meira samræmi í áfengislöggjöfinni. Og því var þá haldið fram, að með því að heimila mörgum veitingahúsum sölu á áfengi gætu menn á auðveldan hátt keypt sér tiltölulega litla skammta af áfengi, nokkur staup. Það væri vitanlega sjálfsagt að heimila slíkt, í stað þess á óbeinan eða beinan hátt að knýja menn til þess að kaupa heilar flöskur og koma með þær á óviðfelldinn og ólöglegan hátt inn á samkomustaði og neyta áfengisins þar beint úr flöskunum, en nú væri rétt sem sagt að koma á samræmi í áfengislöggjöfina í þessum efnum og gera þessa heimild miklu víðtækari en áður og heimila nú staupasölu í staðinn fyrir flöskusölu áður. Og allt átti þetta að vera gert til þess að bæta ástandið í áfengismálunum, draga úr óviðfelldnum og ósiðlegum drykkjuskap og koma hér á drykkjuskaparmenningu, svipað og þekkist bjá ýmsum öðrum þjóðum.

Í mínum augum er alveg hið sama á ferðinni nú, þegar hér koma fram menn með till. um sterka ölið. Þeir eru ekki heldur ánægðir nú frekar en áður. Þeim duga ekki reglurnar um það, að nú séu orðin mjög mörg veitingahús í landinu, sem mega selja smærri skammta af áfengi, sem hafa rétt til staupasölunnar. Það hefur sem sagt ekki kippt öllu í liðinn. Nú þarf enn að auka á samræmið. Nú verðum við auðvitað að heimila að brugga sterkt öl og selja sterkt öl, til þess að menn geti einnig fengið það. Það verður að vera hér í öllum hugsanlegum gráðum, ef það á að vera samræmi í löggjöfinni. Að vísu byrja menn þannig á þessum till. nú, að þeir leggja til, að bjórinn verði seldur i landinu með sama hætti og vín og brenndir drykkir eru seldir nú, og segja, að það sé ekki ætlunin að leyfa sölu á sterka bjórnum í almennum veitingahúsum. Auðvitað mundu svo þessir sömu aðilar koma eftir 1—2 ár og segja, að þarna gæti ósamræmis í löggjöfinni, það verði að sjálfsögðu að gera þessa heimild nokkru víðtækari og heimila nú dreifingu á þessum nytjavarningi með meira frjálsræði en gert er ráð fyrir í þessu frv. Um það efast ég ekki neitt, og mér dettur ekki í hug að halda, að flm. frv. séu á þeirri skoðun, að framleiðsla og sala á sterku öli á Íslandi, að dreifing á slíku öli yrði lengi í því formi, sem þeir vilja marka í þessu frv. Mönnum hefur eflaust þótt það nokkuð örðugt að leita til Áfengisverzlunarinnar og kaupa þar nokkrar flöskur af sterku víni. En hvað mundu menn segja um það að renna hér í bænum allir á einn stað í borginni, til Áfengisverzlunarinnar, til þess að kaupa sér bjórflösku? Ætli mönnum mundi þá duga minna en svona einn kassi a.m.k. eða jafnvel nokkrir kassar, eða ætti straumurinn á þennan eina stað að standa með vörubila, þar sem hver kæmi með sinn vörubil til þess að kaupa sér sina ölkassa? Mér er nær að halda, að þeir, sem sækjast eftir bjórnum, mundu ekki koma þar og sækja eina og eina flösku, jafnvel þótt þeir láti sér það nú nægja að sækja þangað eina flösku af því, sem sterkara er (Gripið fram í.) Ég held, að það sé enginn vafi á því, að ætlunin sé, þegar búið er að heimila bruggun og sölu á sterka bjórnum, að fá eitthvað svipaða dreifingu á sterka bjórnum og nú á sér stað með veikari bjórinn. Á því mun lítill vafi vera.

Þetta var fyrra atriðið, og á ég kannske eftir að koma að því nokkru nánar, um þetta, sem þeir ætluðu sér að vinna, flm. þessa frv., með því að gera þetta frv. að l., en það var að auka á samræmi í okkar áfengislöggjöf. En hvað er svo hitt atriðið, sem þeir færa fram máli sínu til stuðnings? Jú, að því er vikið í grg., að það þurfi að koma fram úrbótum í áfengismálum þjóðarinnar. Og það er ekki hægt að skilja það á annan hátt en þann, að það að heimila bruggun og sölu á sterku öli eigi að þjóna þessu markmiði, að það eigi með því að takast að koma fram úrbótum í áfengismálum þjóðarinnar. Þó að ég hafi ekki heyrt það skýrlega í málflutningi þeirra, sem að þessu frv. standa, býst ég samt við því, að þeir menn muni viðurkenna, að drykkjuskapurinn í landinu er félagslegt vandamál, að þar er við allmikið og erfitt vandamál að glíma. Ég býst við því, að flm. þessa frv. viðurkenni, að það beri af hálfu löggjafans að reyna að minnka þetta vandamál, draga úr hættum þeim og tjóni því, sem fylgir miklum drykkjuskap. Ég á ekki von á því, að flm. frv. séu svo forhertir, að þeir haldi því beinlínis fram, að mikill drykkjuskapur sé þjóðinni til gagns eða bóta. En þeir menn, sem viðurkenna það, að við eigum þarna við vandamál að glíma, ættu þá að fást til þess að hugleiða það, hvaða ráð séu helzt tiltæk til þess að draga úr þeim hættum, sem fylgja í kjölfar drykkjuskapar.

Það var sagt hér fyrr i þessum umr., að það væru uppi í aðalatriðum þrjú meginsjónarmið um það, hvernig ætti að bregðast við drykkjuskaparvandamálinu. Í fyrsta lagi væri um það sjónarmið að ræða að banna með öllu sölu á áfengum drykkjum og nokkrir menn í landinu beinlínis væru á þessari skoðun, að þetta væri heilladrýgst. Í öðru lagi var hér sagt, að uppi væru þau sjónarmið, að bezta ráðið í þessum efnum væri algert frelsi, það væri að afnema allar hömlur og heimila á sem frjálslegastan hátt sölu og meðferð alls áfengis. Og í þriðja lagi væri svo það, sem hv. 4. þm. Sunnl. sagði hér, sú leið að reyna að fara þarna nokkuð bil beggja, fara nokkra millileið, banna ekki sölu á áfengum drykkjum að fullu og öllu, en hafa þó í gildi allmiklar hömlur. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að sú leið, sem valin hefur verið hér á landi og hefur verið farin nú um skeið, er einmitt þessi, sem ég nefndi síðast. Það er sú leiðin, sem hefur farið hér nokkuð bil beggja. Við höfum reynt að styðjast við það sjónarmiðið að reyna að draga úr drykkjuskaparvandamálinu með því að hefta útbreiðslu á áfengi eða draga úr því, að neyzla þess yrði mjög mikil. Þessar hömlur hafa auðvitað komið að misjafnlegu gagni, það skal fúslega viðurkennt, en hver vill neita því, að t.d. þær reglur að hafa aðeins 7 útsölustaði áfengis í landinu hafi dregið nokkuð úr því, að áfengis væri neytt á ýmsum þeim stöðum, þar sem áfengisútsölur hafa ekki verið eða þar sem hefur verið langt til áfengisútsölu? Mér er t.d. ofarlega í huga að benda á það atriði, sem er alþekkt í sambandi við útgerðarrekstur, að það þykir oft vilja brenna við, að sjómenn, sem hafa verið lengi úti á hafi, vildu sækja í vín, þegar þeir koma til lands og hafa ekki átt kost á því að drekka vín í alllangan tíma. Og þegar veiðikapp er í mönnum er það ofurskiljanlegt, að skipstjóri eða sá, sem ræður þar yfir skipi, er ekki alls kostar ánægður með það að missa verulegan hluta kannske eða talsverðan hluta af skipshöfn sinni í einhverja drykkjuskaparóreiðu, eins og því miður vill henda í sumum tilfellum. Það er alþekkt fyrirbæri og viðurkennt jafnt af bindindissinnuðum mönnum sem hinum, að í slíkum tilfellum forðast beinlínis skipstjórar að leita inn á þær hafnir, þar sem áfengisútsala er fyrir, og leita fremur til annarra staða, þar sem ekki er um áfengissölu að ræða, beinlínis til þess að komast hjá þeim vanda eða þeirri hættu, sem því fylgir eða vill fylgja að vera þar, sem auðveldast er að ná í vínið. Ég veit það, að það er vitanlega hægt að benda á, að það sé hægt eftir öðrum leiðum að koma víni einnig til þeirra staða, þar sem ekki eru áfengísútsölur. Það er rétt, slíkt á sér vitanlega stað. En eigi að síður stendur hitt eftir óhaggað, að það er miklu erfiðara að ná í vínið á þeim stöðum, þar sem ekki er um útsölu að ræða, og þessar hömlur verða því til þess að draga nokkuð úr sölu á áfengi og neyzlu áfengis. Það er auðvitað ekki heldur vafi á því, að meðan þær reglur voru í lögum hjá okkur, að aðeins eitt veitingahús í landinu hafði heimild til þess að selja áfengi, verkaði það þannig, að það torveldaði allmikið um áfengisneyzlu á ýmsum öðrum stöðum. Þegar það var knúið hér í gegn að heimila mörgum veitingastöðum sölu áfengis, varð það vitanlega í framkvæmdinni til þess að greiða mönnum aðgang að áfenginu. Það kom alveg ljóslega strax fram, og sannaðist þar það, sem við höfum haldið hér fram, sem stóðum á móti því, að slík heimild yrði aukin frá því, sem áður var.

Nei, í þessum efnum er spurningin um það:

Vilja menn yfirleitt hafa hér einhverjar hömlur á, og hversu miklar eiga þær hömlur að vera? Vilja menn spyrna hér fótum gegn ákveðinni hættu eða ætla menn að gefast upp fyrir hættunni, og halda þeir jafnvel, að bezta ráðið sé að afnema allar hömlur eða sem mest af hömlunum og segja jafnt við unga sem gamla: Ja, þið verðið bara að læra sjálfir að umgangast hættuna, — og láta það nægja? Ég veit, að það er afskaplega fallegt áferðar og fallegt að heyra það sagt, að menn séu með viðtæku og miklu frelsi, þeir vilji ekki vera að banna mönnum þetta eða banna mönnum hitt. Menn eigi að fá að ráða því sjálfir, hvernig þeir hagi sér og hvernig þeir umgangast þetta eða hitt. Og þeir, sem vilja setja hér einhverjar skorður gegn, eru taldir miklir haftamenn, bannstefnumenn, og vilja leggja fjötra á frelsi manna. En auðvitað eru allar kenningar sem þetta hin argasta fjarstæða. Hvað erum við alþm. að gera í öllum aðalatriðum? Erum við ekki í flestum greinum að setja hér lög og reglur og ákvæði, sem banna tiltekna hluti og leyfa aðra? Hvernig er hægt að hugsa sér að búa í fjölbýlisþjóðfélagi, þar sem mikið fjölmenni býr saman á tiltölulega litlu svæði, án þess að hafa í gildi margvísleg lög og reglur um bönn eða þar sem reistar eru skorður gegn ýmsu því, sem talið er á einn eða annan hátt óæskilegt, óheppilegt eða hættulegt? Eru þessir menn, boðberar hins takmarkalausa frelsis, eru þeir með því, að allar hömlur séu afnumdar í sambandi við sölu á ýmsum eiturlyfjum, sem nú er bannað að selja í okkar landi? Mundu menn telja það mikinn ávinning, að t.d. allar lyfjaverzlanir hér í höfuðborginni eða jafnvel allar verzlanir mættu selja alveg viðstöðulaust ýmsan þann varning, sem við vitum að er meira og minna hættulegur? Ég held, að enginn maður geti haldið slíku fram í alvöru, að það væri rétt að hverfa að því ráði að afnema öll slík bönn og slíkar hömlur, sem nú eru í gildi. Eins er vitanlega með áfengið. Ef menn eru á þeirri skoðun, að áfengi sé hættulegt og að það sé sérstaklega hættulegt uppvaxandi kynslóð, æskunni í landinu, verður ekki komizt hjá því að hafa þar um einhverjar reglur, sem miði að því að koma í veg fyrir það, að æskan leggi sér þetta til munns. Þær hömlur, sem nú eru í lögum í sambandi við sölu og dreifingu á áfengum drykkjum, eru að mínum dómi ófullnægjandi og þyrftu að vera miklu viðtækari en þær eru nú, og sérstaklega væri þó nauðsynlegt að sjá betur um framkvæmd á ýmsum þeim ákvæðum, sem eru þó til i lögum.

Hér var fyrr í þessum umr. minnzt á atvik eins og það, sem á sinum tíma var kallað hér Þórsmerkurævintýri. Slík vandamál, sem oft hafa komið hér upp og voru gerð á sínum tíma að umtalsefni talsvert hér á Alþ., vekja mann auðvitað nokkuð til umhugsunar um það, hvernig er haldið á þeim reglum, sem þó eru lögbundnar í sambandi við hömlur á sölu eða afhendingu áfengis, þegar lögreglan í landinu stendur skyndilega frammi fyrir því, að mörg hundruð unglingar á 15—16—17 ára aldri eru útúrdrukkin og valda spjöllum eða vandræðum. (BP: En þau drukku bara ekki bjór.) Nei, en ekki hefði það verið miklu betra, þó að þau hefðu hagað sér eins og þau gerðu og hefðu drukkið bjór ásamt víninu, sem þau hefðu eflaust gert í því tilfelli, ef þessi hv. þm. hefði verið búinn að koma því á, að sterki bjórinn hefði verið til reiðu líka. En það, sem vitanlega hlaut að koma upp í sambandi við þetta vandamál, var, að menn spurðu um, hvernig stóð á því, að þetta unga fólk hafði getað komizt yfir áfengi í jafnríkum mæli og þarna átti sér stað, því að það er þó í lögum með öllu bannað ekki aðeins að selja, heldur og að afhenda ungu fólki á þessum aldri áfengi. Nú fer það ekkert á milli mála, að áfengi hafði þetta unga fólk komizt yfir og það á eftirminnilegan hátt. En hvað var gert mikið að því að rannsaka það, hverjir hefðu selt þessu unga fólki áfengið og þar með brotið lög eða afhent því áfengi á einn eða annan hátt og þar með brotið lög? Fóru fram einhverjar rannsóknir á því, hvaðan þetta áfengi var komið? Nei, það fóru ekki fram miklar rannsóknir í þeim efnum. Þannig er það, að það hefur verið haldið allt of linlega á því hjá okkur að virða þær hömlureglur, sem hér hafa átt að vera í gildi og hafa þar af leiðandi ekki náð þeim árangri, sem þær áttu að ná.

Ég býst við því, að flm. þessa frv. viðurkenni, að það sé ekki vilji þeirra að gera ráðstafanir til þess, að unglingar á mótunarskeiði gerist drykkjumenn eða leggi sig meira eftir því að neyta áfengis en verið hefur a.m.k. Ég býst ekki við því, að það sé tilgangur þeirra manna, sem standa að þessu frv., að auka á hætturnar, sem í þessum efnum steðja að unga fólkinu. En getur það verið, að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvað af framleiðslu og sölu á áfengum bjór muni leiða einmitt fyrir unga fólkið, ef við víkjum nokkuð frá þessu einstrengingslega ákvæði, sem að vísu er sett fram í frv., um það, að áfengi bjórinn skuli aðeins seldur í áfengisútsölum ríkisins, sem allir sjá nú þegar í byrjun, að fær ekki staðizt? Verði bjórinn framleiddur og heimilaður til sölu, þá verður sala hans ekki á þeim stöðum, nema þá aðeins í heildsölu. Bjórinn hlýtur vitanlega, eftir að hann hefur verið heimilaður á annað borð, að verða seldur almennt á veitingahúsum, á því getur enginn vafi leikið. En þá vildi ég spyrja flm. frv.: Hafa þeir ekki gert sér grein fyrir því, hvað mundi gerast hér á almennum veitingastöðum í borginni, eftir að þar væri komið á boðstóla sterkt öl? Ég býst við því, að flm. frv. hafi komið t.d. á kvöldin á ýmsa veitingastaði hér í miðbænum og þeir hafi þá veitt því athygli, hvað mikið af kornungu fólki, 14—15—16 ára og jafnvel yngra fólki, er hér á veitingahúsunum með allrífleg fjárráð. Þetta fólk kaupir sér nú kaffi eða gosdrykki eða annað þess háttar eða veika ölið. En getur nokkur maður litið fram hjá því að sjá, að auðvitað mundi mikill hluti af þessu unga fólki slæðast í það að drekka sterka bjórinn, sem þarna væri á boðstólum? Og þá erum við komin að því, að veruleg hætta er á því, að unglingar á 15—16 ára aldursskeiði færu að stíga sin fyrstu skref í þá átt að neyta áfengis með því að drekka sterkan bjór og finna sín fyrstu áfengisáhrif

einmitt á þann hátt og lenda kannske í sína fyrstu erfiðleika og vandræði þar út frá.

Ég hef nokkuð ferðazt um erlendis, og það verð ég að segja, að það, sem mér hefur fundizt einna mestur munur í sambandi við þessi mál á ástandinu hér víða í löndum í kringum okkur og aftur hér á Íslandi, er einmitt hvað unglingarnir á Íslandi virðast aldir upp við miklu, miklu meira frjálsræði, ef maður vill nota það orð, í sambandi við fjárráð og í sambandi við það að stunda veitingastaði og annað þess háttar. Ég hef ekki orðið var við, að unglingar á 14 og 15 ára aldursskeiði væru jafnyfirgnæfandi á veitingastöðum, þar sem ég hef komið erlendis, eins og þeir eru á flestum veitingastöðum hér í borginni. Hér held ég, að sé ekki mikið um það, að unglingar, sem eru t.d. á 14—15 ára aldursskeiði, séu að fá leyfi foreldra sinna fyrir því, hvort þeir fari inn á veitingastað í bænum eða ekki. Ég efast auðvitað ekkert um, að það eru eflaust mörg dæmi um það einnig hér í löndum í kringum okkur, að unglingar sæki þar veitingastaði, en ég held, að í þessum efnum séu öll bönd miklu lausari hér. Ég held því, að hættan hjá okkur yrði miklum mun meiri í þessum efnum en er hér í nálægum löndum. Ég held, að einmitt hættan fyrir unga fólkið mundi verða margföld hér.

Mér er ljóst, að meðmælendur aukinnar áfengisútsölu og þess að draga úr ýmsum gildandi hömlum í sambandi við sölu á áfengi virðast nú sækja fast á með að brjóta niður yfirleitt þær hömlur, sem í gildi hafa verið í áfengismálum okkar. Það er greinilegt, að þeir aðilar, sem á þeirri skoðun eru, sækja nú á. Ég tel, að hér sé um vaxandi hættu að ræða. Það er eflaust tíðarandinn nú, sem gerir það að verkum, að menn gangast meir nú en stundum áður fyrir því, að það sé rétt að hafa alla hluti sem frjálsasta og sem minnst af hömlum. Það þótti fyrir nokkru sjálfsagt að hafa lagaákvæði um það að banna með öllu brask með íbúðarhúsnæði og að heimila mönnum að reyna að græða sérstaklega á húsnæðisneyð fólks. Slík ákvæði voru afnumin hér einmitt undir þessu kjörorði, að allt átti að vera sem frjálsast og fríast, hér áttu ekki að verða neinar hömlur á frelsi manna. Margt fleira hefur sótt hér á í þessum efnum, og mér finnst, að ég finni það greinilega, að meðmælendur sterka bjórsins og aukinnar víndrykkju eru að reyna að notfæra sér þetta ástand, og því sækja þeir fastar á nú, einmitt undir þessu yfirskini, að þeir séu að auka á frjálsræði manna, draga úr bönnum og höftum, þó að þeir hafi auðvitað gert sér fulla grein fyrir því, að það er engin leið að stjórna þjóðfélaginu, án þess að í gildi verði að vera margvísleg bönn og margvísleg höft í sambandi við gerðir manna. En vitanlega eiga þessar hömlur og þessi bönn að miðast við það, að það sé verið að reyna að koma í veg fyrir þann hlut, sem er dæmdur að vera skaðlegur, hættulegur eða óréttmætur. En það versta í þessum efnum er, að þeir, sem vilja ryðja úr vegi þeim takmörkuðu hömlum, sem enn þá eru þó í gildi í sambandi við útbreiðslu á áfengi, sigla þarna undir fölsku flaggi, því að þeir viðurkenna í upphafi, að þeir séu á móti aukinni áfengisneyzlu, þeir viðurkenna skaðsemi áfengisins og reyna að láta að því liggja, að þeirra aðgerðir eigi að miða í þá átt að koma betra skipulagi á í þessum efnum.

Hér hefur komið fram till. um það, að efnt verði til þjóðaratkvgr. um þetta mál, og á það hefur verið bent í því sambandi, að áður hafi farið fram þjóðaratkvgr. um áfengismálin. Ég skal fyrir mitt leyti segja það, að ekki vil ég skorast undan því út af fyrir sig, að þjóðin öll fái að takast á við þetta vandamál, og ég held, að að sumu leyti hefði þjóðin mjög gott af því að fá að hugleiða vandamálið allmiklu meir og betur en meiri hl. hennar hefur gert nú um skeið. Það má vel vera, að svo illa færi, að þjóðin kallaði yfir sig sterka ölið með samþykki sínu og hún fengi að þola fyrir það á næstu árum þar á eftir, það má vel vera. Vitanlega verður meiri hl. landsmanna þar að ráða. En á það vil ég benda í sambandi við till. um þjóðaratkv., að mér sýnist mjög óeðlilegt að efna til þjóðaratkvæðis aðeins um þetta sérstaka atriði þessa stóra máls, sem hér er um að ræða. Mér hefði fundizt það ósköp svipað því og efnt hefði verið til þjóðaratkv. um það, hvort 10—12 veitingahús til viðbótar við Hótel Borg hefðu átt að fá heimild til þess að selja vín, sem hér var samþ. fyrir nokkrum árum. Ég álít, að þjóðaratkvgr. um slíkan einstakan þátt þessa stóra vandamáls sé út af fyrir sig óeðlileg og málinu sé þar með ranglega stillt upp. Ég held líka, að það væri miklu eðlilegra, að þjóðin fengi að greiða sitt atkv. eða segja sitt álit í ýmsum þeim málum öðrum. sem stærri verða að teljast en þessi þáttur þessa alvarlega máls að vísu. En mér er nær að halda það, að þeir, sem standa nú að flutningi þessa frv. og ætla að mæla með því, að það verði efnt til þjóðaratkvgr. um gildistöku frv., að þeir sömu menn vilji ekki leyfa þjóðinni að segja sitt álít í ýmsum málum, sem eru enn þá stærri og örlagaríkari en þetta. En á það mun væntanlega reyna nú næstu daga, hvort þeir vilja leyfa þjóðinni að greiða atkv. eða segja sitt álit varðandi þau mál.

Það er ýmsu haldið fram í sambandi við þetta svonefnda ölmál. Eitt er það, að það sé rétt að leyfa bruggun og sölu á sterku öli í landinu, til þess m.a. að koma í veg fyrir það smygl, sem nú á sér stað í landinu með innflutningi og sölu á sterkum bjór. Jú, það hefur gjarnan verið þannig, að það er auðvitað hægt að komast hjá því, að lög séu brotin, með því bara að fella lögin úr gildi. Það þyrftu auðvitað ekki að verða margir sekir að lögum sem þjófar í landinu, ef maður bara afnæmi öll ákvæði um það, að menn mættu ekki rupla hver frá öðrum, og sem sagt allur slíkur þjófnaður væri gerður löglegur. Þá þyrftu menn auðvitað ekki að stríða við það vandamál.

Það er vitanlega alveg furðuleg kenning að færa það fram sem rökstuðning fyrir máli eins og þessu, að til þess að koma í veg fyrir smygl eða innflutning með ólöglegum hætti á áfengu öli, sem vissulega á sér stað að einhverju leyti nú, sé rétt að heimila bruggun á sterku öli og tiltölulega greiða sölu á því í landinu. Reynsla okkar í þessum efnum hefur kennt okkur það, að allt undanhald frá þeim hömlum, sem í gildi hafa verið, er til hins verra. Það reyndist ekki rétt, sem sagt var á sínum tíma, að innflutningur á léttu vínunum yrði til verulegra bóta í áfengismálum þjóðarinnar, með því mundi drykkjuskapurinn gerbreytast frá því, sem áður var, og hér mundu fáir sjást fullir, eftir að léttu vínin yrðu leyfð. Reynslan varð allt önnur. Léttu vínin gerðu miklu fremur að auka á drykkjuskapinn og útbreiða drykkjuskapinn, m.a. meðal kvenþjóðarinnar, stórlega, og reynslan hefur líka orðið sú, að aukin aðstaða til staupasölu í veitingastöðum í landinu hefur líka orðið til þess að auka á sölu áfengra drykkja í landinu og útbreiða drykkjuskaparhætti með þjóðinni, og eins mundi fara með sterka ölið. Ég efast ekki um það, að ef látið verður undan kröfum manna um það að heimila hér bruggun og sölu á sterku öli, verður það vitanlega til þess að stórauka drykkjuskapinn í landinu.

Ég skal ekki fara langt út í það við þessar umr. að ræða afleiðingarnar fyrir þjóðina sem heild af auknum drykkjuskap. Við vitum það öll mætavel, að þjóðin biður mikið tjón af þeim drykkjuskap, sem nú á sér stað í landinu. Árlega verða hér fjöldamörg slys, sem rakin eru beint til drykkjuskapar. Árlega tapar þjóðin millj. kr. í töpuðum vinnustundum vegna drykkjuskapar, og i mörgum, mörgum tilfellum er þess beinlínis getið, að menn hafa týnt lífi sínu vegna ofdrykkju. Og hvað kostar drykkjuskapurinn svo opinbera aðila beint í tölum talið, fyrir utan allt þetta, sem erfitt er að reikna út í tölum? Hvað þarf ríkið að leggja fram af beinum fjármunum til þess að sinna þeim, sem hafa gerzt algerir drykkjusjúklingar eða ekki getað sinnt störfum sinum eða staðið undir skyldum sinum vegna drykkjuskapar? Við vitum, að hér er um miklar fjárhæðir að ræða. Og með þetta allt í huga vitanlega ber okkur alþm. skylda til þess að standa hér á verði og reyna að spyrna fótum gegn því, að þetta vandamál verði aukið. Og þá tel ég, að langsamlega mestu máli skipti einmitt að forðast allt það, sem gæti orðið til þess, að unga fólkið í landinu sveigðist frekar en áður til aukinnar áfengisneyzlu, og ég hef lengi litið svo á, að einmitt sterki bjórinn væri hættulegastur í þessum efnum fyrir unga fólkið.

En því miður er það nú svo, að þó að við séum að reka okkur skipti eftir skipti á þessi gífurlegu vandamál, er eins og sumir menn læri ekkert. Ég vék hér aðeina að Þórsmerkurævintýrinu svonefnda og þeim umr., sem hér urðu á Alþ. í sambandi við það. Ég minnist þess í sambandi við það mál, að þá skorti auðvitað ekki á, að hér lýstu allir þeir, sem til máls tóku í sambandi við það mál, yfir því, að þeir teldu, að þarna hefðu gerzt ískyggilegir atburðir og það bæri að reyna að koma í veg fyrir það, að slíkt gæti endurtekið sig. En þrátt fyrir þessar yfirlýsingar komu þó fram hér á Alþ. till. um það, sem beinlínis voru tengdar þessu vandamáli, að það, sem m.a. þyrfti að gera, væri að lækka nokkuð aldursmarkið í lögunum í sambandi við heimildir til þess að afhenda eða selja áfengi, þannig væri það t.d. allt of stíft að miða þetta við 21 árs aldur, það væri sanngjarnt að færa þetta t.d. niður í 18 ár og heimila nú að selja áfengi til unglinga, sem hefðu náð 18 ára aldri. M.ö.o.: menn ætluðu m.a. að komast út úr þessum vanda, sem þeir játuðu þó að þeir stæðu frammi fyrir, og það yrði að koma í veg fyrir, að hann endurtæki sig, á þann hátt að gera talsverðan hluta af því, sem þarna var að gerast í Þórsmörkinni, löglegt, þeir, sem þar voru fullir og unnu sín vandræðaverk, það hefði þó ekki verið lögbrot að hella ofan í þá áfengi, því að þeir hefðu þó verið búnir að ná þeim aldri, sem ákveðinn hefði verið í lögum.

Það er dapurlegt til þess að hugsa, að menn skuli ekki læra betur af reynslunni en verið hefur í þessum efnum. Ég held hins vegar, að allir þeir, sem í fullri alvöru viðurkenna, að hér sé um mikið félagslegt vandamál að ræða, drykkjuskaparóregluna í landinu, eigi að reyna að leggja sig fram um það að finna, hvaða ráð helzt eru tiltæk til þess að draga úr þessari hættu. Það getur ekki verið, það er alveg óhugsandi, að nokkrum manni komi það til hugar í fullri alvöru, að það muni draga úr drykkjuskap í landinu að heimila bruggun og sölu á sterku öli til viðbótar við það, sem fyrir er. Það er allt of fjarstætt, til þess að það geti átt sér stað, að menn haldi, að þetta sé ráð til þess að draga úr drykkjuskapnum. Miklu nær er auðvitað að halda því fram, sem ég hygg líka að sé miklu nær hinu sanna, að flm. frv. séu á þeirri skoðun, að þeir sjálfir og ýmsir aðrir, sem áfengi hafa með höndum, þetta kæmi sér vel fyrir þá, þeir vildu gjarnan hafa þetta eins og aðrar tegundir og vildu því gera þær breytingar á lögunum, að þeir geti komizt yfir þennan varning ekki siður en yfir sterku drykkina. Slíkt er vitanlega mannlegt, að vilja gera ráðstafanir í þá átt, bæði fyrir sig og ýmsa aðra, sem eitthvað svipað hugsa. En þá verður að gera þá kröfu til þessara manna, sem viðurkenna hættuna, sem viðurkenna það strax í byrjun, að þeir vilji koma í veg fyrir það, að drykkjuskaparvandamálið vaxi í landinu, koma í veg fyrir það, að stærri hluti af unga fólkinu í landinu verði áfenginu að bráð, þá verður vitanlega að gera þá kröfu til þeirra, að þeir gæti að því í sínum till. að reyna ekki að leysa sin eigin vandamál eða persónulegar óskir sínar um það að komast yfir nýja drykkjartegund á þann hátt, að verði til stórskaða fyrir þjóðarheildina og verði m.a. til þess að auka stórlega á það vandamál, sem þeir játa að er fyrir hendi.

Eftir því sem ég heyrði hér við 1. umr. þessa máls frá hendi eins af flm. frv. um ólöglegan innflutning á sterku öli, en hann gaf hér upp beinlínis magn í tölum um gífurlegan innflutning, sem ætti sér stað á sterku öli, sýnist mér, að ástandið í landinu í þessum efnum sé nú þannig, m.a. vegna þess, að þær reglur, sem í lögunum eru, eru ekki virtar, að flm. frv. og aðrir þeir, sem sækjast mjög í hið sterka öl, geti bara unað sínum hag við það, sem er í dag, þeir hljóti að geta komizt á þann hátt yfir það, sem þeim ætti að duga, en reyni nú ekki að gera tilraun til þess að leiða þessa stórauknu hættu yfir þjóðina almennt. Það er sem sagt von mín, að þeir, sem að þessu frv. standa, sjái sig nú um hönd, þeir athugi betur, hvað þeir eru að gera í þessum efnum, og verði nú heldur samkvæmari sjálfum sér en þeir hafa verið til þessa í málflutningi og dragi þá þetta frv. til baka, láti það liggja óafgreitt, þeir hafa þá gert það að þessu sinni fyrir sjálfa sig og nokkra aðra að sýna þetta áhugamál sitt hér í þinginu, en að þeir leggi ekki sérstaka áherzlu á það að reyna að þrýsta málinu hér í gegn, því að það mega þeir vita, að það mun verða mikil andstaða bæði hér á þingi gegn þessu máli og ekki síður utan þings, eins og greinilega hefur komið fram í skrifum til Alþingis.

Ég skal svo ekki á þessu stigi málsins orðlengja þetta frekar, enda er komið alllangt fram yfir venjulegan fundartíma, og mun ég þá ekki frekar að sinni ræða málið.