08.02.1966
Neðri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2293)

81. mál, loðdýrarækt

Flm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Á síðasta þingi var lagt fram í Nd. frv. til l. um loðdýrarækt. Í grg. með frv. var m.a. tekið fram eftirfarandi :

„Núgildandi lög frá 8. marz 1951, um loðdýrarækt, eru allflókin og í þeim ákvæði, sem betur ættu heima í reglugerð. Frv. miðar að því að gera þessa löggjöf einfaldari, og er þá gert ráð fyrir, að sett verði ýtarleg reglugerð um framkvæmd hennar. Í frv. er kveðið á um það, að landbrh. ákveði, hvort veitt skuli leyfi til að koma upp loðdýragörðum, en varðandi hverja umsókn ber því að leita álits veiðistjóra, sem kynnir sér öll gögn umsækjenda. Þá er lagt til í frv., að embætti veiðistjóra annist eftirlit með því, að ákvæðum laganna sé fylgt.“

Helzta nýmæli frv. var, að leyft skyldi að nýju minkaeldi hér á landi að fullnægðum vissum skilyrðum og innan ákveðinna takmarkana. Frv. var samþ. í d. með nokkrum breytingum, en var ekki afgreitt frá Ed., enda orðið áliðið þings, er það kom þangað.

Frv. er nú flutt að nýju. Að efni til er það eins og það var samþ. hér í fyrra, en tveir hv. þm., 4. þm. Norðurl. e. og 10. landsk. þm., hafa bætzt í hóp flm.

Eins og menn munu minnast, urðu á sínum tíma miklar deilur um frv. Snerust þær um, hvort leyfa ætti hér minkaeldi. Fylgismenn frv. héldu því fram, að hér á landi mætti hafa miklar tekjur af þeirri atvinnugrein, þar sem skilyrði væru óvíða betri, og vísuðu í því sambandi til reynslu annarra. Með því að ganga vel frá minkabúum væri lítil hætta á, að dýrin slyppu út. Villiminkur væri þegar til í landinu og sáralitlar horfur á, að honum yrði útrýmt. Minkaeldi undir ströngu eftirliti gæti ekki leitt af sér aukna hættu fyrir dýralífið. Andstæðingar frv. efuðust mjög um, að verulegur hagnaður yrði hér af minkaeldi, og töldu, að minkaplágu ykist, ef það yrði leyft, þar sem erfitt væri að koma í veg fyrir, að dýrin slyppu út úr búrunum.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um efni frv., en vil nú með nokkrum orðum víkja að helztu röksemdunum fyrir því, að minkaeldi verði að nýju heimilað hér á landi. Þar sem margir eru á móti þessari atvinnugrein, telja flm. rétt, að farið verði gætilega í sakirnar, þar til nokkuð örugg reynsla er fengin, og leggja því til, að eigi fleiri en 5 aðilum verði veitt leyfi til minkaeldis á næstu tveimur árunum eftir gildistöku laganna. Verði frv. samþ., má gera ráð fyrir, að allmargir komi til með að sækja um slíkt leyfi, og verður landbrn. þá að sinna álitlegustu umsóknunum. Þá er tekið fram í frv., að leyfi til minkaeldis megi þó aðeins veita í sveitarfélögum, þar sem villiminkur hefur þegar náð öruggri fótfestu að dómi veiðistjóra. Með þessum takmörkunum er gengið til móts við þá, sem óttast, að minkaeldi verði til þess að auka á villiminkastofninn hér í landinu.

Þar sem fiskúrgangur er aðalfæða minks, sem alinn er upp til slátrunar vegna skinnanna, hafa fiskveiðiþjóðir til þessa einkum stundað minkaeldi. Segja má, að atvinnugreinin eigi sér stað í öllum löndum, sem greiðan aðgang hafa að fiskimiðum Norður-Atlantshafs og Kyrrahafs, nema hér hjá okkur Íslendingum, sem erum þó mesta fiskveiðiþjóð heimsins miðað við afla á hvern mann, sem á sjóinn sækir. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið, — heimildirnar eru aðallega Dansk Pelsdyreavl, Finnish Trade Review og Pelstidningen frá 1.12.1965, hefur skinnaframleiðslan vaxið gífurlega á undanförnum árum, eða úr um 6 millj. minkaskinna á árinu 1955 og upp í tæplega 22 millj. skinn, sem framleiðslan er áætluð 1965 og 1966. Stærstu framleiðendurnir eru Bandaríkin, og er framleiðslan áætluð á árunum 1965—1966 8.3 millj. skinna, Rússland 2.8 millj., Danmörk 2.4, Noregur 1.8, Kanada 1.7, Svíþjóð 1.7 og Finnland 1.5. Auk þessara landa eru á framleiðslulistanum Pólland, Holland, Japan, England, Austur- og VesturÞýzkaland, Frakkland, Argentína, Belgía, Kína, Spánn, Júgóslavía, Ísrael, Tékkóslóvakía og framleiðslan áætluð samtals, eins og ég gat um, í kringum 22 millj. skinna. Svo er áætlað, að á markaðinn komi auk þess um 760 þús. skinn af villimink, þar af 450 þús. í Bandaríkjunum, 225 þús. í Kanada, 75 þús. í Rússlandi og 10 þús. frá öðrum löndum samtals.

Eins og fram kemur, eru Norðurlöndin með stærstu framleiðendunum. Í árslok 1964 voru rekin 4807 loðdýrabú í Noregi, þar af aukning á árinu 584, útflutningsverðmæti loðskinna — og þar af eru minkaskinn langsamlega stærsti liðurinn — nam á árinu 1964 167 millj. norskra kr. eða nálægt 1000 millj. ísl. kr. Í Danmörku voru rekin 4044 minkabú í árslok 1964 og hafði fjölgað á árinu um 254 og aðallega á Norður-Jótlandi. Til Bandaríkjanna var þá fluttur út tæpur helmingur framleiðslunnar. Útflutningsverðmæti allrar framleiðslunnar nam um 1200 millj. ísl. kr., og skinnaframleiðslan hafði tvöfaldazt á síðustu þremur árunum. Þá hefur og skinnaframleiðslan stóraukizt í Finnlandi, en hreinar gjaldeyristekjur vegna hennar námu á árinu 1964 um 535 millj. ísl. kr. Finnar verða að flytja inn verulegt magn af fiskúrgangi, m.a. frá Íslandi. Stærsta minkafyrirtæki heimsins mun nú vera í Finnlandi, en þar er ársframleiðslan um 175 þús. skinn. Og þetta fyrirtæki á nú í smiðum skip, sem eingöngu verður notað til þess að flytja minkafóður frá öðrum löndum og á að taka um 1100 tonn. Það er kæliskip, sem einnig mun verða notað af fleiri fyrirtækjum sambærilegum í Finnlandi. Minkaeldi var hafið í Færeyjum fyrir nokkrum árum og mun nú vera þar allblómlegur atvinnuvegur, og á Grænlandi er það nýlega byrjað á vegum Grænlandsverzlunar og einstaklinga.

Minkaskinnaframleiðsla Norðurlanda mun nema samtals á árunum 1965—1966 um 7.4 millj. skinna, og langsamlega mestur hluti þessarar framleiðslu er fluttur úr landi, aðallega til Bandaríkjanna og Vestur-Þýzkalands, en þar hefur markaðurinn verið í örum vexti. Eins og ég hef getið um, er mikil minkaskinnaframleiðsla í Bandaríkjunum, en hún nægir þó hvergi nærri til þess að fullnægja eftirspurninni. Norðurlönd flytja þangað út um 3 millj. skinna, og það má geta þess, eiginlega til gamans, að einnig eru flutt þangað inn skinn frá Póllandi og Austur-Þýzkalandi. En þetta stutta og ég vil segja ekki fullkomna yfirlit sýnir þó, að hér er um allumfangsmikinn atvinnuveg að ræða, atvinnuveg, sem fyrst og fremst virðist vera stundaður af fiskveiðiþjóðum.

Á það hefur verið bent, að fóðuröflunin væri eitt þýðingarmesta atriðið varðandi minkaeldi, þar sem reiknað er með, að fóðurkaup nemi um helmingi rekstrarkostnaðar búanna. Talið er, að minkur þurfi um 200—250 g af fóðri á dag, og það er aðallega fiskur. Mjög margir skinnaframleiðendur verða að kaupa fiskúrgang erlendis frá. Hér á landi eru möguleikarnir til fóðuröflunar hins vegar svo til ótæmandi, hvers kyns fiskúrgangur og úrgangur frá sláturhúsum. Að því leyti hljóta aðstæður til minkaeldis að vera hér mjög góðar. Búin mætti reisa í verstöðvunum og spara þannig flutningskostnað að miklu leyti. Þegar á þetta þýðingarmikla atriði er litið, koma til athugunar hagsmunir útgerðarinnar. Útflutningur á fiskúrgangi til dýrafóðurs, frystum, nam sem hér segir: Á árinu 1962 yfir 7 þús. tonnum, útflutningsverðmæti um 19 millj., verð pr. kg fob. 2,63 kr. 1963 nam þessi útflutningur um 4770 tonnum, verðmæti rúml. 13 millj. kr. og verð pr. kg 2,76 kr. 1964 var útflutningurinn 7165 tonn, verðmæti tæpar 23 millj., verð pr. kg 3,20 kr. Verð á fiskúrgangi í gúanó mun á þessum tíma hafa verið frá 55—68 aurar pr. kg. Verð Sölumiðstöðvarinnar á fiskúrgangi til dýrafóðurs mun á s.l. ári hafa verið nokkru hærra, eða frá 2,90 kr. á kg og allt upp í 4,14 kr. á kg, sem fer eftir því, hvaða hráefni hefur verið um að ræða.

Þegar við lítum á þessar tölur, verður ljóst, að um mjög mikinn verðmismun er að ræða eftir því, hvort úrgangurinn fer í gúanó eða er frystur sem dýrafóður. Með því að selja úrganginn til vinnslu sem dýrafóður, fær útgerðarmaðurinn margfalt hærra verð en ef úrgangurinn færi í gúanó, en þjóðin margfalt meiri gjaldeyri fyrir sama magn af hráefni. Hagsmunir útgerðarinnar varðandi minkaeldi eru því augljósir. Kunnáttumaður í minkaeldi telur sig hafa reiknað út, að til þess að framleiða 1 millj. skinna þurfi um 35 þús. tonn af fiskúrgangi. Útflutningsandvirði þessara skinna yrði 600—700 millj. kr. Hins vegar fengjust úr 35 þús. tonnum af fiskúrgangi um 7 þús. tonn af méli, að útflutningsverðmæti milli 60 og 70 millj. kr.

Í umr., sem fram hafa farið um þetta mál, hefur á það verið minnzt sem rök fyrir því að leyfa að nýju minkaeldi, að það gæti verulega stuðlað að atvinnuaukningu í sjávarplássunum. Er sjálfsagt að hafa þetta atriði í huga, þar sem aðrar þjóðir, eins og t.d. Kanadamenn, vinna nú að því að koma á fót loðdýrarækt í stórum stíl í hinum afskekktari héruðum. Fróðlegt verður fyrir okkur að fylgjast með tilraunum í þessa átt, sem nú er einmitt verið að gera í Grænlandi.

Látin hefur verið í ljós vantrú á því, að hið háa verð á minkaskinnum á heimsmarkaðinum gæti haldizt til lengdar. Það fari mest eftir tízku hverju sinni og eins og allir vita sé hún mjög breytileg og óútreiknanleg. Reynslan bendir hins vegar ótvírætt í aðra átt. Framleiðslan sýnir, að eftirspurnin hefur vaxið með hverju ári, sem byggist m.a. á því, að lífskjör hafa farið batnandi í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu, stærstu markaðslöndunum. Hins vegar ber að taka fullt tillit til þess, að aukin framleiðsla leiðir til vaxandi samkeppni. Gæði vörunnar hljóta og að ráða verðinu, sem fyrir hana fæst. Skilyrði eiga að vera góð hér á landi til skinnaframleiðslu. En fyrst í stað munu Íslendingar standa verr að vígi en aðrar þjóðir, þar sem okkur skortir bæði reynslu og þekkingu. Við munum því án efa reka okkur á marga örðugleika fyrst í stað. Annars þekkjum við Íslendingar þá erfiðleika, sem eru því samfara að afla markaða fyrir framleiðsluvörur. Okkur hefur tekizt með vöruvöndun og auglýsingastarfsemi að koma hraðfrysta fiskinum okkar inn á Bandaríkjamarkaðinn, vandlátasta markaðinn i heiminum. Hins vegar hafa tilraunir okkar með niðursoðna og niðurlagða síld ekki gengið eins vel. Keppinautar okkar hafa auglýst sína vöru í fjöldamörg ár og eru svo til einráðir á markaðinum. Áður en á því verður breyting, verðum við án efa að kosta miklu fé til auglýsingastarfsemi. Öðru máli gegnir um sölu loðskinna, þar sem hún fer svo til eingöngu fram á uppboðum. Um 90% af skinnaframleiðslu Dana er selt á uppboðum. Gæði vörunnar og verð á uppboði ræður. Í þessu tilfelli höfum við því frá byrjun sömu aðstöðu og keppinautar okkar.

Þegar frv. var til umr. á s.l. vetri, var að því fundið, að ekki skyldi fylgja því rekstraráætlun fyrir minkabú af meðalstærð. Þar sem minkaeldi hefur verið bannað hér á landi í mörg ár, vísuðu flm. í þessu sambandi aðallega til reynslu annarra þjóða og gera það enn. Maður, sem fékkst hér við minkaeldi, hefur sagt mér, að það hafi verið farið að gefa mjög góðan arð, skömmu áður en það var bannað. Hann hafði þá verið búinn að koma sér upp góðum stofni og haft kunnáttumann til þess að gæta dýranna. Ég hef séð kostnaðaráætlun miðað við verðlag, eins og það er nú í dag, og virðist hún vera allhagkvæm.

Í 6. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þeir, sem óska að stofnsetja loðdýragarða hér á landi, skulu senda landbrn. umsókn um það efni. Umsóknunum skulu fylgja ýtarlegar áætlanir um byggingu loðdýragarðsins og gerð hans, tæknilegan rekstur og fjármál, svo og um þau dýr, sem fyrirhugað er að rækta í garðinum. Að fengnu áliti veiðistjóra um þessi gögn tekur landbrn. ákvörðun um viðurkenningu loðdýragarðsins með skilyrði um, að loðdýrarækt hefjist þar ekki fyrr en gerð hans öll er í samræmi við fyrrgreindar áætlanir.“

Samkv. þessum ákvæðum verður m.a. gengið eftir því, að upplýsingar liggi fyrir um fjárhagsgrundvöllinn, áður en komi til leyfisveitingar.

Flm. frv. harma engu síður en andstæðingar þess það tjón, sem villiminkurinn hefur valdið hér á landi í ríki náttúrunnar. Það er sannarlega tilfinnanlegt. En við erum á þeirri skoðun, að minkaeldi undir ströngu eftirliti muni ekki auka minkapláguna. Þá staðreynd ber að hafa í huga, að litlar líkur eru á, að villiminki verði hér útrýmt, og meðan svo er, eru engin rök fyrir því að banna hér minkaeldi.

Ég vil geta þess, að stjórnarfundur í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna mælti eindregið með samþykkt frv., en sá fundur var haldinn í nóv. s.l., og þá hefur einnig Útgerðarmannafélag Reykjavíkur mælt með því, að komið yrði upp loðdýrarækt í stórum stíl, þar sem af því mundi leiða stórhækkun á hráefnisverði. Einnig má minnast á það, að Alf Lund, framkvæmdastjóri loðdýraræktarfélaganna dönsku, var hér á ferð í sumar, þá á leið til Grænlands. Hann taldi í blaðaviðtali, að skilyrði til minkaeldis væru sérstaklega góð hér á landi, og lét í ljós undrun yfir því, að það skyldi ekki vera leyft.

Ég vil svo að lokum lesa umsögn veiðistjóra um þetta mál, en hún drepur á flest þau atriði, sem ég hef hér vikið að. Hún er ekki löng, og ég leyfi mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta :

„Ég mun einskorða ummæli mín við minka, þó að orðið loðdýr nái yfir fleiri tegundir dýra. Það hefur greinilega komið fram, bæði í ræðu og riti manna um þetta mál, að þeir telja aðalhættuna, ef minkaeldi verður tekið upp að nýju, vera í því fólgna, að minkar sleppi að meira eða minna leyti úr búrum sínum og auki þannig villiminkastofninn í landinu. Um þetta atriði er ég þeirrar skoðunar nú eins og áður, að þessi hætta hlýtur að vera hverfandi, ef fyllsta öryggis er gætt með gerð búra dýranna og allan aðbúnað og í því efni stuðzt við reynslu nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum. Því miður hef ég ekki þá þekkingu á gerð minkabúra, að ég geti sagt um, hvaða gerð þeirra henti okkur bezt hvað allt öryggi snertir. Hins vegar er mér kunnugt um, að reglur um gerð minkabúra á Norðurlöndum munu vera mjög mismunandi.

Danir hafa ströng ákvæði um gerð minkabúra, og virðist allt benda til, að lítil brögð séu að því, að minkar sleppi úr haldi hjá þeim, og nýlega hófu þeir minkaeldi í Grænlandi og einnig fyrir nokkrum árum í Færeyjum, en í báðum þessum löndum voru engir villiminkar fyrir áður.

Norðmenn munu hins vegar hafa þann hátt á um gerð minkabúra hjá sér, að menn eru mikið til sjálfráðir um gerð þeirra, og hefur raunin orðið sú, að mikið af minkum hefur sloppið úr búrum þar í landi.

Verði farið út í minkarækt hér á Íslandi að nýju, verður auðvitað að reikna með því, að komið geti fyrir, að minkar sleppi úr búrunum. Nú er eðli minksins þannig, eins og margra annarra dýra, að hann leitar, fyrst eftir að hann sleppur, á uppeldisstöðvarnar í ætisleit, og því ætti að vera auðvelt með þeirri reynslu, sem við höfum nú í minkaveiðum, að fanga flesta þá minka, sem sleppa kynnu úr búrunum.

Sú skoðun hefur komið fram, að þeir minkar, sem sleppa úr haldi, muni reynast meiri skaðvaldar en villiminkurinn, sem fyrir er og aðlagast náttúru landsins. Það kann að vera, að eldisminkar, sem sleppa úr búrum sínum, geri meiri usla í hænsnahúsum en villiminkar, sem enn þá geta þó verið nokkuð stórtækir í þeim efnum. En varla trúi ég því, að þeir standi villtum kynbræðrum sínum á sporði í drápi, þegar út í villta náttúruna er komið.

Það er skoðun mín, að komi til minkaræktar að nýju hér á landi, muni það á engan hátt trufla eyðingu villiminksins, en gæti hins vegar orðið vopn í baráttunni gegn honum. Sjálfsagt væri að staðsetja minkabúin í þeim landshlutum, þar sem villiminkur er fyrir, og mundi hann þá vafalaust sækja að búrunum, a.m.k. um fengitímann, og þá auðvelt að vinna hann. Með tilkomu minkabúa væri möguleiki á því að hagnýta sér þá minkahvolpa, sem þá alltaf nást lifandi í minkaleitunum, með því að ala þá til fallstíma í búrunum. Þá gæti komið til álita, hvort ekki teldist réttmætt að láta þá, sem fara af stað með minkaeldi, greiða skatt til eyðingar villiminks, en kostnaður við veiði villiminks hjá okkur mun nú vera nærri 1 millj. kr. á ári.

Nú um margra ára skeið hafa nágrannaþjóðir okkar grætt gífurlegar fjárhæðir á minkaeldi og vart skiljanlegt, að við skulum hafa setið aðgerðarlausir, þótt öll skilyrði séu hin beztu fyrir þessa atvinnugrein. Það er staðreynd, að villiminkurinn er hér svo að segja um allt land, og höfum við ekkert haft nema kostnað og tjón í sambandi við hann. Það virðast því hæpin rök gegn minkaeldi, að ekki sé hægt að fara út í það af ótta við, að eitthvað kynni að sleppa af eldisminkum. Frekar virðist mér hættan liggja í því, að offramboð af skinnum yrði komið á heimsmarkaðinn, þegar við loksins kæmumst af stað með skinnaframleiðslu.

Umrætt frv. gerir ráð fyrir takmörkuðum fjölda minkabúa fyrstu árin, og er ég því eindregið meðmæltur að fara varlega af stað og álit einnig rétt að takmarka fjölda dýra á hverju búi fyrst um sinn, a.m.k. hámarkstala 1000 fullorðnar læður.

Að endingu: Ég er ekki mótfallinn, að hafin verði minkarækt að nýju hér á landi. Sé fyllsta öryggis gætt um vörzlu dýranna og vandað til framleiðslu skinnanna, er það trú mín, að þessi nýja atvinnugrein megi verða þjóðinni til gagns, en ekki til tjóns“

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.