15.03.1966
Neðri deild: 55. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

81. mál, loðdýrarækt

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., en það var einn kafli í ræðu hv. 2. þm. Austf., sem gaf mér tilefni til að standa upp. Hann hélt því fram, að á það væri lögð mikil áherzla af okkur „minkamönnum“, sem hann kallar svo, að þetta mál, minkaræktin, mundi strax gefa af sér gull og græna skóga, eins og hann orðaði það, og verða hinn mesti gróðavegur þegar í stað.

Ég vil af þessu tilefni taka það fram, að ég tel, að hér sé mjög hallað máli í málflutningi þessa hv. þm. Ég held, að við, sem að þessu máli stöndum, höfum allir gert okkur grein fyrir því, að hér er fyrst og fremst um að ræða framtíðaratvinnuveg, sem getur þróazt úr litlu og orðið mikill og náð mikilvægri stöðu í íslenzku efnahags- og athafnalífi. En það er síður en svo, að við því sé að búast, að hér verði um nokkur snögg umskipti að ræða í efnahagslífinu, þó að þetta frv. yrði samþ. Á þetta vil ég leggja hina mestu áherzlu. Ég tel, að hér geti orðið um mikilvæga búgrein að ræða í landinu, — búgrein, sem hefur framtíðargildi, — og allt okkar frv. og ég held allur okkar málflutningur bendir til þess, að við reiknum með því, að svo verði, að hér eigi að fara stillt af stað, en sækja í sig veðrið, eftir því sem reynslan kennir okkur.

Þá hefur mikið verið úr því gert hér, að reynslan af minkarækt hér á landi hafi verið mjög vond. Ég skal ekki draga úr því, að hún sé ákaflega misjöfn, og það er margt, sem bendir til þess, að það sé ekki glæsilegt að leggja út í þennan atvinnuveg. En þarna gera andstæðingar þessa máls þó meira úr en þörf er á. Ég var undir þessum umr. að leita að viðtali við mann norðan úr Eyjafirði, Sigfús Þorleifsson á Dalvík, en Morgunblaðið átti í haust viðtal við hann, og hann segir þar frá reynslu sinni af minkaeldi, meðan hann hafði með það að gera um nokkuð margra ára skeið á sínum tíma. Það hefði verið gott að hafa það hér og gagnlegt að lesa það fyrir þingheim. En það var reynsla Sigfúsar Þorleifssonar á Dalvík, að minkaeldið hafi gefið góða raun, og það var einmitt lokað fyrir starfsemi hans rétt um það bil, sem þeir minkaeldismenn á Dalvík og raunar viðar við Eyjafjörð voru búnir að læra tökin á þessu starfi. Ég held, að það sé því ofmælt, þegar sagt er, að reynslan af minkaeldi hér á landi hafi verið mjög slæm.

Um villiminkinn er það einnig að segja, að hann er staðreynd hér í landinu, og það er einmitt það, sem gerir það að verkum, að við erum margir, sem fylgjum þessu máli, þ.e. að villiminkurinn er þegar staðreynd og það breytir engu um tilvist hans, hvort hér er leyft minkaeldi í búrum eða ekki. Og það er höfuðatriði í þessu máli. Ég held, að það sé meira byggt á ímyndun heldur en staðreyndum, þegar menn gera mikið úr því atriði, að þetta verði til þess að auka hér á villiminkapláguna, og skal ég þó engan veginn gera lítið úr henni. En ég vil heldur ekki gera of mikið úr henni, eins og sumum hættir til. Ég held, að við gerum sannarlega ekki of lítið úr villiminkaplágunni eða þeir, sem hér tala mest gegn minkunum. Sem betur fer hefur villiminknum ekki enn þá tekizt að gera slíkt tjón í landinu, að það valdi neinum aldahvörfum, hvorki í íslenzku náttúrulífi né fyrir búskap landsmanna.

Það er ýmislegt fleira, sem hefur orðið til þess m.a. að eyðileggja hlunnindi hér, við skulum segja eggver og slík hlunnindi. Það er margt annað en villiminkurinn. Þróunin hefur því miður orðið sú, að menn hafa vanrækt t.d. æðarvörpin. Menn hafa vanrækt þau. Og það er ekki villiminkurinn einn, sem hefur lagzt á þau og gert þar tjón. Þar hefur líka önnur þróun verið að verki, og það er sorgarsaga út af fyrir sig.

En sem sagt, ég gat ekki orða bundizt, þegar hv. 2. þm. Austf. var að tala hér áðan og gera okkur flm., þ. á m. mér, upp skoðanir, sem ég hef alls ekki og ég hygg að enginn okkar hafi, sem að þessu máli stöndum.