15.03.1966
Neðri deild: 55. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

81. mál, loðdýrarækt

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það væri æskilegt að hafa svolítið meiri tíma til að tala við hv. 7. þm. Reykv., því að þótt ég þoli hann nú kannske ekki öllu betur en hann mig, geng ég þó aldrei úr d., þegar hann talar, en ég skyldi þá sem oftast tala, ef það réði því, að hann væri sem oftast utan deildar.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. fann að því, að ég og fleiri andstæðingar þessa minkafrv. hefðu borið þeim flm. á brýn, að þeir hefðu lofað gulli og grænum skógum eða sem sagt stórgróða. Já, ég mun hafa sagt þetta, skal ekki orðlengja meira um það. En ég vil bara spyrja hv. ræðumann um það, sem hér stendur í grg. frv., að bannið við minkaeldinu hafi valdið stórtjóni. Hvað er þá andstæðan við stórtjón? Er það ekki stórgróði?

Hv. 7. þm. Reykv. var nú svo smekklegur, eins og hans er von og vísa, að fara að tala um útibúið á Egilsstöðum og minkinn þar að Egilsstöðum, og ég veit, að honum er mjög annt um að fá mink þangað og hann mundi frekar koma að Egilsstöðum og kunna betur við sig, ef hann hefði þar yfir einhverjum minkum að segja.

Hv. þm. eins og frsm. ætlaði að gera sér svolítinn mat úr þeim orðum, sem ég lét falla við 1. umr., þar sem ég gerði létt grín, eins og ég orðaði það, að vissum ákvæðum í 8. gr. frv., ekki allri gr., heldur því, að það ætti að kosta fé til þess að rannsaka eðli dýranna, sem væri Íslendingum að fullu kunnugt. En ég gerði aldrei grín að því ákvæði þessarar gr. í frv., sem stefndi að því að létta útrýmingu minksins, svo að það þýðir ekki fyrir hv. 7. þm. Reykv. eða annan slíkan að ætla sér að snúa út úr því, sem ég sagði, og ef hann hefur ekki betri málstað, er honum reyndar velkomið að halda slíkri sókn uppi.

Hann segir, hv. þm., að þeir hafi talað um, að það mætti búast við því, að ég og kannske einhverjir stuðningsmenn mínir mundu koma og sprengja hér upp minkabúin um Suðvesturland eða á Suðurlandi. Ég skil nú álitsgerð n. þannig, að það komi ekki til annað en búið sé að dæma Suðvesturland og Suðurland, hv. þm. til mikillar hryggðar, úr leik vegna þess, hve hér er rakt loftslag. En svo get ég fullvissað og friðað hv. þm. með því, að ég held, að ef um það væri að ræða, væri ekki síður hætt við því, að einhverjir spellvirkjar þrifust nær honum en mér.

Hv. þm. getur ekki varið það heldur eða afsakað það gönuskeið að koma með, eins og ég orðaði það: eins og fjandann úr sauðarleggnum að hafa eitt minkabú í Vestmannaeyjum, eftir að vera búinn að dæma þann stað áður úr leik og þar með að hafa að engu till. dr. Finns Guðmundssonar um að leyfa aðeins eitt tilraunabú og hafa það í Vestmannaeyjum.

Ég held, að það sé nú ekki ástæða til að þreyta hvorki þingheim né hæstv. forseta á frekari orðaskiptum. Það lítur út fyrir, að hér sé tíma vant og það þurfi að hraða málinu, og væri gott, að hægt væri að kveða þetta óþrifnaðarmál sem fyrst niður.