30.11.1965
Efri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það var í rauninni aðeins fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir misskilning á mínum orðum, sem ég stóð hér upp.

Hv. 6. þm. Sunnl. taldi, að ég hefði boðað hér eftirtektarverðan boðskap, þar sem ég hefði í rauninni lýst því yfir, að það væri von á nýjum, frekari sköttum. Hafi ég orðað þetta svo, hef ég að sjálfsögðu ekki orðað mál mitt rétt. En ég held nú ekki, að ég hafi orðað þetta svo, heldur að ég hafi sagt, að það væri þörf aukins fjár, þegar að því kæmi, ef svo yrði, að þyrfti að veita sérstakan stuðning til sjávarútvegsins á næsta ári, eins og gert hefur verið í ár, eða á svipaðan hátt. Ég vil taka það fram, að í þeim orðum mínum fólst ekki það, að ég boðaði nýja skatta. Ég skal ekkert um það segja á þessu stigi, hver verður endanleg niðurstaða þess máls. Við vitum ekki, hvað þessi vandi er stór, og þó að hefðu verið gerðar ákveðnar tillögur til að mæta einhverri tiltekinni fjárhæð, t.d. því, sem á ríkissjóð hefur fallið nú á þessu ári, er það engin eðlileg viðmiðunarregla. Sú upphæð getur hæglega orðið minni eða stærri eftir atvikum. Það er ómögulegt um að segja, og væri auðvitað alveg út í hött að fara að gera grein fyrir einhverjum sérstökum ráðstöfunum til fjáröflunar í því skyni nú, fyrr en sá vandi liggur fyrir. Hitt held ég hljóti að vera öllum mönnum ljóst, að ríkisstj. geti naumast verið svo skyni skroppin, þó að menn kannske beri ekki til hennar mikið traust, að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því, að þessi vandi kynni að vera á næsta leiti, og hafi íhugað úrræði til að mæta honum. Þær till. liggja ekki hér fyrir. og það er ekki hægt að leggja þær fram, fyrr en það mál allt saman liggur ljósar fyrir og hvað stóran vanda þar er við að glíma. Þetta vildi ég að kæmi fram í tilefni af því, að í þessum orðum mínum fólst ekki nein sérstök yfirlýsing um, að það mundu koma fram till. um nýja skatta. Það kann að vera auðið að fara aðrar leiðir í því efni, en það er ekki hægt að ræða nánar á þessu stigi málsins.

Mér þótti það leitt, að hv. 6. þm. Sunnl., sem ég veit að vill hafa það, sem réttara er, skyldi fella undan að gera grein fyrir orðum mínum, þegar ég ræddi um úrræðin til að jafna halla á ríkisbúskap. Ég sagði, að það væru tvær leiðir til þess: Annars vegar sú að draga úr útgjöldum með því að minnka einhverja þá þjónustu, sem ríkið veitti þjóðfélagsborgurunum, á einhverju sviði eða sviðum, og hins vegar að afla fjár til að brúa bilið. Þetta voru mín orð, enda fór hv. 4. þm. Norðurl. e. rétt með það. Hvað langt er hægt að komast í þessu efni með sparnaði, getur okkur vafalaust greint á um. En fyrir því er nú löng og mikil reynsla. Þetta mál hefur verið á dagskrá í áratugi, og hlýtur auðvitað alltaf að vera á dagskrá, hvað er hægt að spara.

Það er auglýst með nokkru yfirlæti eftir því, hvað orðið hafi úr sparnaðaráformum fyrirrennara míns í þessu embætti, sem hann hafi boðað. Ég held, að það hafi margt orðið úr þeim áformum og það meira en áður hefur orðið á því sviði. Hitt er svo annað mál. að ekki hafa heldur öll áform komið til framkvæmda, frekar en margvísleg slík áform hjá fyrri fjmrh. um langa tíð. Ég veit, að form. Framsfl., sem hefur, að ég hygg, lengur setið í því embætti en nokkur annað, mundi geta frætt flokksbræður sína um það, hvað þægilegt er við það mál að fást, og ég hygg, að ef hv. 6. þm. Sunnl. læsi fjárlagaræður þessa ágæta leiðtoga síns um nokkurt árabil og þann boðskap, sem hann æði oft flutti þar með löngum upptalningum, — ég vann stundum nokkuð við þau mál þá við hans hlið á öðrum stað, — þá muni hann komast að raun um það, að þessi vandi hefur lengi verið fyrir hendi og því miður ekki alltaf verið þægilegur við að fást. Ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, og það hafa margir fyrirrennarar mínir, m. a. hv. formaður Framsfl., oft og tíðum sagt, að það, sem menn eru með hugleiðingar um að spara í ríkisrekstri, sem sagt þennan óljósa sparnað, sem á ekki að koma við neina þjónustu við borgarana, að það séu mjög takmarkaðar fjárhæðir og leysi engan stóran vanda, en breyti að sjálfsögðu ekki því, að þetta er það, sem sífellt verður að vera vakandi um að gera, að ekki verði óeðlileg þensla í ríkisstarfseminni eða ríkiskerfinu, reynt að sporna þar fótum gegn útgjaldaauka, svo sem mögulegt er, og leggja áherzlu á, að þar sé fullkominnar hagsýni gætt. Og ég vil halda því fram, að á öllum þessum árum, bæði síðustu árum og í tíð annarra fjmrh., hafi þess verið gætt eftir beztu getu. Og þó að ekki sé hægt að sýna fram á það nákvæmlega, hver hafi orðið árangurinn, eins og hér var auglýst eftir, af hagsýslustarfi, hefur sá árangur engu að síður á mörgum sviðum orðið mikill, sem kemur fram í því, að það eru margvísleg útgjöld, sem annars hefðu fallið á ríkið í auknum tilkostnaði stofnana, sem í mörgum greinum hefur tekizt að forðast með skipulagsbreytingu, bættum vinnubrögðum og ýmsum ráðstöfunum í því sambandi, sem ákaflega erfitt er að tíunda nákvæmlega eða gefa skýrslur yfir. En ég er alveg sammála hv. 6. þm. Sunnl. um þessa nauðsyn, og ég er dálítið forvitinn, og sannast sagna væri freistandi, ef það væri ekki of slæmt fyrir þjóðina, að gefa Framsfl. kost á að komast til valda um stundarkorn til þess að geta látið verða að veruleika þann nokkuð yfirlætisfulla boðskap hv. þm. um, að það gæti nú skeð, að Framsókn sæi sér ekki fært að bíða lengur og yrði nú að koma með sínar sparnaðartillögur, ef núverandi stjórnarlið gerði það ekki. Ég hefði dálítið gaman af að sjá framan í þær till., þegar þar að kæmi, sem ættu að leysa þann vanda, sem hér er talað um að auðvelt sé að leysa með sparnaði, að jafna hundraða millj. kr. halla á ríkissjóði, — sparnaði, sem ætti þá ekki væntanlega að koma mikið við þjóðfélagsborgarana, því að manni skilst, að það megi helzt ekki gera. Ég held sem sagt, að hér séum við að tala um hluti, sem getur litið ósköp fallega út gagnvart almenningi að tala um, að það þurfi ekki að leggja á fólkið skatta, það sé ekkert að gera annað en spara eitthvað, sem menn þó forðast algerlega að nefna, hvað er, og segja, að það hvíli ekki á þeim nein skylda til að gera það. Þó hafa þeir það einhvers staðar uppi í erminni, því að þeir hafa þetta sem leynivopn, þegar þar að kemur. Ég held við stækkum okkur ekkert í áliti að vera með slíkar fullyrðingar, sem við vitum að eru algerlega út í hött.

Það er vitanlega hægt að spara. Það er hægt að létta af ríkissjóði útgjöldum, og það hefur verið gert á vissan hátt með þeim till., sem hér hafa verið lagðar fram, með þeim árangri og þeim viðbrögðum, sem alkunn eru. Það hefur verið lagt til t.d. að létta á ríkissjóði að greiða halla á rafmagnsveitum ríkisins. Því hefur ekki verið tekið með neinni sérstakri blíðu, þeim tillögum, og talið hin mesta fásinna. Það kemur auðvitað á daginn, að mest af þessu, sem við erum að tala um í þessu efni, lendir einhvers staðar annars staðar, og það er nú einu sinni svo, að ég held, að a.m.k. komist ekki ráðamenn hjá því, þó að stjórnarandstaðan geti komizt upp með það að segja sína hluti í óljósum vendingum og nota aðeins orð, sem líkleg eru til að falla í kramið hjá almenningi, eins og stjórnarandstaðan bæði nú og vafalaust endranær gerir. En það þýðir ekkert að vera að halda fram af hálfu ráðamanna a.m.k. neinum óljósum bollaleggingum um þetta efni, heldur verður að segja umbúðalaust, eins og málunum er háttað. Ef við viljum sem sagt létta álögum af ríkissjóði, ef við viljum leggja niður meiri og minni þjónustu, sem við veitum þjóðfélagsborgurunum, er vissulega hægt að spara. Og það eru kannske lítil takmörk fyrir því, hvað hægt er að spara. Þetta vitum við öll. En ég efast bara um, að nokkurt okkar sé reiðubúið til að beita sér fyrir slíkum sparnaði. Og þá er ekkert um það að ræða annað en annars vegar að afla fjár til þess að jafna hallann, sem er á ríkisbúskapnum, — ég held það sé enginn, sem heldur því fram, að halli eigi á honum að vera, — og hins vegar er, og ég tek undir það, á hverjum tíma sjálfsagt að nota öll úrræði, allar leiðir, sem til eru, til þess að reyna að sporna fótum gegn auknum útgjöldum, aukinni starfsemi stjórnsýslu ríkisins. Það er oftast nær það, sem menn eiga við, þegar þeir tala um sparnað í ríkiskerfinu. Þetta er að sjálfsögðu hið brýnasta nauðsynjamál, sem ég rækilega gat um í minni fjárlagaræðu og tel ekki ástæðu til að orðlengja hér frekar um.