29.03.1966
Efri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

81. mál, loðdýrarækt

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þetta frv. nú þegar við 1. umr.

Frv. til l. um loðdýrarækt er komið til okkar frá hv. Nd. Flm. eru 4 hv. Nd.-þm. úr þremur flokkum. Alþfl. einn er svo stálheppinn að koma ekki hér við sögu.

Ég skal ekki um það segja, hver eða hverjir eru höfundar þessa frv., en ég á mjög bágt með að trúa því, að hv. flm. hafi komið nálægt samningu þess. Svo lélega er frv. úr garði gert, að ég á erfitt með að trúa því. Þetta skiptir þó kannske ekki miklu máli, frv. verðum við að taka fyrir í hv. Ed. eins og það kemur fyrir af skepnunni. Mér er ekki um það kunnugt, hvaða öfl standa að baki þessu frv. En ég get ekki ímyndað mér annað en að hv. flm. í Nd. hafi gert það af hreinni góðsemi að taka það upp á sina arma og flytja það. Og það sem verra er, ég er hræddur um, að þeir hafi gert það ekki aðeins af góðsemi, heldur einnig af hreinu hugsunarleysi.

Gildandi lög um loðdýrarækt eru frá 1951. Þau lög bera það með sér greinilega, að til þeirra hefur verið vandað. Þetta er að mínum dómi vönduð lagasmíð, þó að ég efist ekki um, að eitt og annað mætti færa til betri vegar. En það get ég ekki sagt um þetta frv., sem hér liggur fyrir, að það sé vönduð lagasmið. Það segir í grg. frv., að gildandi lög um loðdýrarækt, l. frá 1951, séu allflókin. Þetta er langt frá því að vera rétt, og getur hver og einn sannfærzt um það, sem les þau lög. Lögin eru þvert á móti mjög skilmerkileg og greinargóð og auðskilin. Þetta frv. má hæglega líta á sem útdrátt úr gildandi lögum, og það sem verra er, að það er heldur fljótfærnislega gerður útdráttur. Það ber með sér, þetta frv., að það er tekið hrafl úr lögunum, nánast af handahófi, hvað tekið er og hverju er sleppt. Þetta er afsakað af hv. flm. með því, að það, sem áfátt sé í þessu frv., skuli betrumbætt með reglugerð. Það er að sjálfsögðu einnig um efnisbreytingar að ræða í þessu frv., breyt. frá gildandi l., og yfirleitt má um þær segja, að þær séu til hins verra. Ég skal nefna aðeins tvö dæmi þess, sem sýna, að þetta frv. er ekki vandlega hugsað.

Þegar rætt er um loðdýr, ber að gera greinarmun á loðdýrarækt annars vegar og loðdýraeldi hins vegar. Þetta er gert í hinum ágætu lögum, sem nú eru í gildi, en í frv. er það látið renna út í eitt. Orðið „loðdýrarækt“ er látið taka yfir hvort tveggja, þá eiginlegu loðdýrarækt og loðdýraeldi. Ég vil einnig benda á, að orðið „loðdýragarður“ er orð, sem frv.-höfundar virðast hafa alveg sérstakt dálæti á og það svo mjög, að þeir gefa þessu orði tvenns konar merkingu í frv. Það er notað í 2. gr. í einni merkingu og í 6. gr. í annarri merkingu. Orðið er skilgreint í 2. gr. og látið tákna búr og girðingu, þar sem dýr eru höfð í vörzlu. En í 6. gr. er merkingin orðin miklu víðtækari en þetta, tekur til fyrirtækisins alls, að rekstri og fjárráðum ekki undanskildum. Slík hugtakabrengl sem þessi eru auðvitað til komin í þessu frv. fyrir skort á vandvirkni, þegar þessi útdráttur er gerður úr gildandi lögum.

Það má benda á, að í l. um loðdýrarækt eru mörg þörf ákvæði, sem algerlega er sleppt í frv. Ég vil segja mörg þörf og sjálfsögð ákvæði. Ég skal nefna nokkur dæmi þessa.

Sérfróður ráðunautur á að hafa með höndum fræðslu- og leiðbeiningarstarfsemi í loðdýrarækt og loðdýraeldi, og hann skal ferðast á milli búanna til eftirlits og til leiðbeiningar. Þetta jákvæða starf virðast höfundar frv. telja með öllu óþarft og sleppa því alveg í sínu frv. Ég hefði þó haldið, að ekki veitti af því að taka það fram í lögum, að loðdýraræktendum yrði leiðbeint og þeir yrðu fræddir um loðdýrarækt og loðdýraeldi, en á því virðast frv.-höfundar ekki hafa neinn áhuga. Þá er í l. nákvæmlega til. greint, hvernig við skuli bregða, ef loðdýr sleppi úr girðingu eða búri. Um það eru sem sagt ótvíræð og nákvæm ákvæði f l., en ekki eitt orð í þessu frv. Einnig er í l. ákvæði um, að loðdýraeigendur, sem uppvísir verði að illri meðferð á dýrum sínum, skuli missa leyfi sitt til loðdýraræktar. Þetta er í lögunum, en í frv. finnst ekki stafur þessa efnis. Öllum gildandi ákvæðum, sem miða í þá átt að örva, hvetja loðdýraeigendur til vandvirkni í vinnubrögðum og til vöruvöndunar, öllum ákvæðum l. um þetta efni er gersamlega sleppt í þessu frv. Þannig mætti áfram telja. Ég tel ekki, að það sé nein afsökun fyrir illa gerðu lagafrv. að segja það, að úr ágöllunum megi bæta með góðri reglugerð. Lög á að vanda að mínu áliti, annað hæfir ekki, hvað sem reglugerð líður.

Í gildandi lögum segir, að Búnaðarfélag Íslands skuli hafa umsjá með loðdýraræktinni í landinu. Þetta er mjög eðlilegt ákvæði. Búnaðarfélagið á að hafa trúnaðarmenn í hreppum og kaupstöðum landsins til eftirlits og auk þess sérfróðan ráðunaut í loðdýrarækt. En í frv. er þetta á allt annan veg. Það er ekkert lagt upp úr því að hafa sérfróðan ráðunaut um þessi efni. Nei, skv. frv. á veiðistjóri að annast eftirlitið, alls ekki sérfróður loðdýraræktarráðunautur. En hverjir eru verðleikar veiðistjóra skv. öðrum gildandi lögum? Þar segir, að veiðistjóri skuli hafa haldgóða þekkingu á lifnaðarháttum refa og minka, veiðiaðferðum og öðru, sem unnt er að beita til útrýmingar vargdýrum þessum. Þar er sem sagt þess krafizt af veiðistjóranum, að hann kunni allar mögulegar aðferðir til að útrýma minki, en hann þarf ekkert að kunna fyrir sér í því að rækta eða ala mink. Samt er það veiðistjórinn, sem á að hafa eftirlitið með minkabúunum væntanlegu. Skv. frv. er þannig valinn embættismaður, sem lögum samkvæmt þarf ekki að vita nokkurn skapaðan hlut um loðdýrarækt. Ég veit ekki, hvort þetta kann að vera gert með vilja, hvort frv: höfundar geri sér það ljóst, að þörfin verði öllu meiri á veiðistjóra en á sérfróðum ræktunarráðunaut. Það má vel vera, og þar gæti ég máske verið þeim sammála.

Þá langar mig til þess að benda á það strax við þessa umr., að í lögunum er kveðið svo á, að til viðkomandi sveitarstjórnar skuli sækja um leyfi til loðdýraræktar. Þetta tel ég mjög mikilsvert ákvæði í gildandi lögum, að sveitarstjórnirnar fái, ef ekki að ákveða endanlega, þá a.m.k. að segja sitt álit á því, hvort þær kæri sig um loðdýrarækt innan sinnar sveitar eða ekki. Ég tel þetta sem sagt mjög mikilsvert ákvæði, enda þótt ráðherrar hafi síðasta orðið í því efni skv. lögunum, því að ég tel ósennilegt, að ráðh. gengi þvert á vilja sveitarstjórnar í þessu efni, sízt þegar um minkinn væri að ræða. En þessu ákvæði er sem sé alveg sleppt í þessu frv. Sveitarstjórn þarf skv. því alls ekki að biðja um leyfi. Mér hefði fundizt satt að segja frekar ástæða til að herða á þessu ákvæði og gefa sveitarstjórnunum fullt úrskurðarvald, í stað þess að afnema með öllu þeirra íhlutunarrétt í málinu. Gömul reynsla hefði frekar átt að örva til þeirrar breytingar á lögunum heldur en þeirrar, sem hér er fyrirhuguð.

Ég hef nú leitt að því nokkur rök, að þetta frv. er harla ófullkomlega úr garði gert. Ég vil segja, það er svo illa úr garði gert sem frekast má vera, og ég vil meina, að það eitt ætti að nægja frv. til falls. Þó er önnur ástæða og hún langtum alvarlegri til að fella þetta frv. Meginbreytingin, sem í því felst, er þess eðlis, að samþykkt hennar hlýtur að teljast ófyrirgefanleg yfirsjón, eins og málin horfa nú við. En þessi meginbreyting er sú, að leyfð skuli minkarækt á ný, en hún er bönnuð skv. gildandi lögum, svo sem kunnugt er. Það fer ekki á milli mála, að afnám þessa banns, bannsins við minkaræktinni, er raunar alfa og ómega þessa frv. Um það snýst allt málið. Það má rækta og ala minka skv. frv., en engin önnur loðdýr, á næstu árum. Ég lít svo á þetta frv., að nýr innflutningur minka sé eini tilgangurinn með frv. Það er aðeins gert um leið að breyta vandaðri lagasmið um loðdýrarækt í það afstyrmi eða skrípi, sem hér liggur fyrir.

Hvað er þá um það að segja að taka minkarækt upp að nýju á landi hér? Svarið finnst mér liggja nokkuð nærri. Við höfum sjálfir reynslu af minkarækt. Við getum stuðzt við eigin reynslu í því efni. Þar rennum við ekki blint í sjóinn, og við þurfum ekki á sögusögnum annarra þjóða að halda við athugun þess máls. Við höfum okkar reynslu.

Ég vil minna á, að áður en minkarækt hófst hér á landi sællar minningar fyrir um það bil 36 árum, þá hafði fremsti náttúrufræðingur landsins, Guðmundur G. Bárðarson, eindregið varað við innflutningi þessara dýra. Varnaðarorðum þessa mæta sérfræðings var ekki sinnt og minkabú risu upp í landinu, hið fyrsta, að ég hygg, árið 1930.

Miklar vonir um skjótfenginn gróða og erlendan gjaldeyri voru tengdar víð þennan nýja atvinnuveg. Það stóð mikið til á þeim árum í sambandi við loðdýraræktina. Skinnasalan átti að skapa auð. En hvernig fór það? Það fór á allt annan veg. Eftir um það bil tvo áratugi lognaðist þessi atvinnuvegur út af af sjálfu sér. Hann varð sjálfdauður. Minkabúin hér á landi reyndust aldrei hlutverki sínu vaxin, því hlutverki að mala þjóðinni gull. Minkabúin héngu alla tíð á horriminni rekstrarlega séð. Þeir, sem minkana ræktuðu og ólu, kvörtuðu sáran yfir taprekstri og neyddust jafnvel til að leita til Alþingis með beiðni um tollaeftirgjöf vegna þess, hve atvinnuvegurinn gaf lítinn arð. Skinnasalan til útlanda varð flest árin mjög lítil og gjaldeyrisöflunin eftir því. Þannig er þá okkar íslenzka reynsla af þessari atvinnugrein. Við gerðum tilraunina og hún stóð í um það bil 20 ár, en hún misheppnaðist gersamlega.

Þetta er nú einn þáttur í sögu minkaræktar og minkaeldis á Íslandi. En það er annar kapítuli í þessari sögu, kapítuli, sem er langtum sorglegri en þetta, því að í kjölfar minkainnflutningsins sigldi einhver sú mesta plága, sem yfir þetta land hefur gengið á þessari öld, villiminkurinn. Dýrin sluppu út úr búrunum og fóru eins og logi yfir akur um allt landið, herjandi á fuglalif og vatnafisk, eyðandi alifuglum og jafnvel lömbum og gerandi sig alls staðar heimakomin, meira að segja á Hótel Borg.

Úr þessari vandræðaplágu hefur að vísu nokkuð dregið á síðari árum, en við skulum muna, að hún er langt frá því um garð gengin enn. Villiminkurinn hefur hreiðrað um sig í landinu. Nýtt rándýr hefur tekið sér bólfestu þar við hliðina á refnum. Árlega er miklu fé og fyrirhöfn varið til þess að vinna á minknum og ekkert útlit fyrir gereyðingu hans. Þetta er þá reynslan.

Guðmundur heitinn Bárðarson varaði við hættunni í tæka tíð. Það dugði ekkert. Gróðafíknin varð skynseminni hér yfirsterkari, eins og oft vill verða. Síðan kom hin beiska reynsla. Þá fyrst opnuðust augu manna að lokum og minkaeldi var bannað með lögum. Síðan eru ekki mörg ár, en samt eru nú einhverjir enn komnir á kreik, einhverjir, sem þykjast eygja gróðavon í minkarækt hér á landi. Það kemur enn fram, að sérfróðir menn vara við þessu. En ef dæma má eftir meðferð frv. í Nd., þá eru þessar raddir sérfræðinganna nú sem fyrr þaggaðar niður hér í hinu háa Alþingi. Um sára reynslu og þungar búsifjar af völdum minksins, búsifjar, sem þjóðin öll hefur mátt þola, er ekkert hirt, heldur hrópað hástöfum á leyfi til að endurtaka gamla ævintýrið.

Nú mætti spyrja: Eru ekki aðrir tímar nú en fyrir 20—30 árum? Eru ekki líkur á, að betur fari að þessu sinni en hið fyrra? Ég vil ekki alveg neita því, en legg þó áherzlu á, að fyrir þessu hafa engin rök verið færð, ekki snefill af rökum. Hins vegar virðast mér líkindin fyrir því, að á sömu leið mundi fara, mjög sterk í dag. Dýr mundu sleppa úr búrunum, hin nýju innfluttu dýr mundu sleppa úr búrunum og girðingunum eins og áður og nýr morðvaldur flæða yfir landið eins og fyrr. Um þetta held ég að öllum, einnig flm. frv., beri saman.

Þá mætti spyrja, hvort okkur hafi farið fram í loðdýrarækt almennt síðan á árunum 1930—1950 og þess vegna sé ástæða til að ætla, að atvinnuvegurinn skili meiri arði nú en þá. Um slíkt og þvílíkt liggur ekkert fyrir. Áreiðanlegt er þó, að aukinni kunnáttu Íslendinga á þessu sviði er engan veginn til að dreifa, og sennilegt tel ég, að skeytingarleysi okkar Íslendinga í þessum efnum eins og mörgum öðrum og skortur á natni sé alveg jafnmikið og var fyrir 30 árum.

Ég vil sérstaklega benda á þetta, sem ég hygg að allir séu sammála um, að minkaræktin mistókst gersamlega hér á landi, þegar hún var reynd, og raunar miklu meira en það, að hún mistækist. Til þess að hefja á ný slíkan atvinnuveg þarf nauðsynlega að hafa orðið einhver breyting á, sem réttlæti það. Það verður að vera hægt að sýna fram á þessa breytingu og færa rök fyrir henni. Sé það ekki unnt, er hrein fásinna að mínu áliti að byrja aftur. Ég bið þess vegna hv. þdm. að kynna sér hin nýju rök, ef þau eru þá nokkur til, um það efast ég stórlega. Við munum og eigum allir að muna eftir fyrri reynslu í þessum efnum, en hún hvetur sérstaklega til varúðar. Við getum ekki leyft okkur það hér á hinu háa Alþ. að veita leyfi til minkaeldis hér á landi í hreinu hugsunarleysi. Við verðum að krefjast einhvers þess, er tryggi það, að ekki fari nú á sömu leið og áður. Ég vænti þess sérstaklega af hv. Ed., að hún stígi ekki vanhugsuð spor, þegar jafnmikið er í húfi og hér virðist vera. Á misheppnuð og steindauð atvinnugrein að ganga aftur, og á ný bylgja minkaplágunnar að skella yfir landið? Já eða nei er svarið við þessari spurningu, og svarið er nú á valdi hv. Ed.

Eins og kunnugt er annars af meðferð málsins í hv. Nd., hefur náttúruverndarráð bæði í fyrra og nú eindregið varað við samþykkt þessa frv. Aðeins einn ráðsmanna, Hákon Bjarnason skógræktarstjóri, getur fallizt á að leyfa minkaeldi með því skilyrði, að fyllsta öryggis sé gætt um, að minkar sleppi ekki úr haldi. En það er einmitt skilyrði, sem ómögulegt er að uppfylla að allra dómi. Um það voru allir sammála í hv. Nd., bæði talsmenn frv. og andstæðingar. Svipaðrar skoðunar og náttúruverndarráð er forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, dr. Finnur Guðmundsson. Hann tjáir sig andvígan því, að innflutningur minka verði leyfður, og hann bendir réttilega á, að engin viðhlítandi athugun hafi farið fram á þjóðhagslegu gildi loðdýraræktar hér á landi. Þannig er þá álit þeirra, sem gerst þekkja til þessara mála. Við álitsgerð þeirra get ég bætt áskorun, sem aðalfundur Fuglaverndarfélags Íslands samþykktí nýlega og sendi til hins háa Alþ. Í þessari áskorun segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Hins íslenzka fuglaverndarfélags, sem haldinn var í 1. kennslustofu háskólans 26. marz 1966, samþykkti einróma að skora á Alþ. að samþykkja ekki frv. það um loðdýrarækt, sem nú liggur fyrir Alþ. Félagið vill benda á, að allir sérfræðingar í náttúrufræði, sem fjallað hafa um þetta mál, eru mótfallnir því, að loðdýrarækt verði aftur leyfð á Íslandi, einnig, að hversu vandlega sem dýranna er gætt, hljóti alltaf hluti af þeim að sleppa út. Ef loðdýrarækt yrði leyfð í Vestmannaeyjum, mundi minkur komast þar út um allar eyjar og eyðileggja fuglalífið í Vestmannaeyjum, og yrði mjög óhægt um vik að útrýma mink á þeim slóðum. Félagið vill einnig beina þeirri spurningu til valdhafa, hvort nægilega hafi verið rannsakað, að ekki berist með nýjum minkastofni veirusjúkdómar, sem geti orðið hættulegir hérlendis.“

Þetta var áskorun Fuglaverndarfélags Íslands. Sérfræðingarnir beina sem sagt aðvarandi orðum til Alþ. um þessar mundir. Spurningin er sú, hvort farið verði að ráðum þeirra. Sérfræðingar hafa oft áður aðvarað alþm., og því miður hefur aðvörun þeirra stundum ekki verið tekin til greina í málum hliðstæðum því, sem hér er rætt um. Vegna þeirrar daufheyrslu við ráðleggingum sérfræðinga fengum við sauðfjármæðiveikina, sem kostaði þjóðina ógrynni fjár, og vegna þeirrar daufheyrslu fengum við einnig minkapláguna, sem enn ógnar nytjum landsmanna og dýralífi landsins að vissu marki.

Í því, sem ég hef sagt til þessa, hef ég gert ráð fyrir því, að fyrir frv.-höfundum vaki, að hafinn verði innflutningur úrvalsloðdýra, en ekki að villiminkurinn verði veiddur lifandi og settur í búr til eldis. Að vísu er ekki minnzt á innflutning lifandi dýra í frv. né grg. þess, en ekki vil ég halda höfunda svo einfalda, að þeir hugsi til villiminksins hér til ræktar og eldis. En geri þeir það ekki, hvað vakir þá fyrir þeim? Er e.t.v. væntanlegt, t.d. á næsta þingi, að þessu frv. samþykktu nýtt frv. til l. um breyt. á l. um innflutning búfjár? Í þeim l. stendur, að bannað sé að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin og villt. Til þess að gera undantekningu frá þessu ákvæði í þeim l. þarf leyfi ráðh., það þarf leyfi Búnaðarfélags Íslands og það þarf leyfi yfirdýralæknis. Treysta höfundar frv. á það, að allir þessir aðilar leggi blessun sína yfir innflutning minka á ný, eða hugsa þeir sér að fara beint til Alþ. á næsta þingi með frv. til l. um leyfi til innflutnings minka?

Ég hygg, að það sé alveg sama, frá hvaða hlið þetta frv. er skoðað. Það verður óafsakanleg fljótfærni að afgreiða það sem lög að þessu sinni a.m.k. Málið allt krefst gagngerðrar rannsóknar frá grunni. Ótal spurningum þurfa alþm. að fá svarað, og svörin eiga að koma, ekki frá einhverjum ófróðum angurgöpum, heldur frá sérfróðum og hlutlausum aðilum að undangenginni þeirra rannsókn. Það mætti spyrja t.d., hvort ástæða væri til að ætla, að minkarækt reyndist arðvænlegur atvinnuvegur hér á landi í framtiðinni, þótt hann hafi ekki gert það i fortíðinni. Það mætti einnig spyrja að því, hvort líkur væru fyrir stóraukinni minkaplágu hér á landi, ef minkaeldi yrði hafið á ný. Það mætti einnig spyrja um það, hvert tjón minkurinn vinnur dýralífinu í þessu landi í bráð og í lengd. Við þessum og fleiri spurningum verður Alþ. að fá svör hæfustu manna. Fyrr en þau svör liggja fyrir, má að mínu áliti ekkert aðhafast í þessu máli. Ég hygg, að það sé ekki minn úrskurður, heldur úrskurður fenginnar reynslu í þessum efnum.

Ég skora því á hv. þdm. að taka þessu frv. með tilhlýðilegri gagnrýni, og ég skora á þá hv. nefnd, sem málið fær til athugunar, að flýta sér hægt um afgreiðslu á því. Og ég er þess viss, að ómögulegt er, ef vel er unnið, að til þess vinnist tími að afgreiða frv. jákvætt á þessu þingi.

Herra forseti. Ég læt svo máli mínu lokið að þessu sinni og treysti hv. n., sem málið fær til athugunar, til alls hins bezta.