29.03.1966
Efri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

81. mál, loðdýrarækt

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Mér finnst ræða hv. síðasta ræðumanns gefa tilefni til þess, að ég viki nokkuð að þessu frv. þegar við 1. umr.

Þessi hv. þm. hóf mál sitt með því að fara nokkrum orðum um samningu þessa frv. Hann talaði eins og það hefðu einhver firn gerzt í sambandi við samningu þessa frv. Hann spurði, hverjir væru höfundar þess, hvaða öfl stæðu á bak við, hvaða góðsemi hefði ráðið þessu. Hann talaði í þessu efni um hreint hugsunarleysi og þvílíkar rakalausar fullyrðingar út í loftið. Ég er ekki að nefna þetta af því, að ég ætli að svara þessu, því að ég tel þetta ekki svaravert. En ég vek athygli á því, að þessi málflutningur er ekki beint traustvekjandi eða til þess fallinn, að það séu teknar alvarlega ýmsar þær aths., sem hv. ræðumaður gerði hér í ræðu sinni. (AG: Af verkunum skuluð þið dæma þá.)

Síðan ræddi hann nokkuð um það, að það vantaði mörg ákvæði inn í frv., og bar það saman við gildandi lög um loðdýrarækt frá 1951. Auðvitað gat hv. þm. talið margt upp í þessu sambandi, sem ekki er í frv. því, sem hér liggur fyrir, því að hann tók að sjálfsögðu ekkert tillit til þess, sem fram kemur í grg. frv. og gert er ráð fyrir í frv., að það verði sett ýtarleg reglugerð um þessi efni. Það hefur þótt að athuguðu máli eðlilegra að hafa slík ákvæði í reglugerð, en ekki í lögum, m.a. vegna þess, að þarna hlýtur að vera um ýmis atriði að ræða, sem er eðlilegra að gera ýtarlega skil í reglugerð, en ekki í lögum.

Maður hefði haldið eftir þennan formála í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að slæm samning á frv. og óvissa um höfunda og hvað að baki stæði væri aðalástæðan fyrir því, að hann mælti gegn frv., en svo var ekki. Hann kom að annarri ástæðu, og ástæðan var sú, að frv. gerir ráð fyrir því, að það verði heimilað að taka upp minkarækt hér á landi, sem nú er bannað. Þetta er aðalatriði þessa frv., og hann ræddi töluvert um þetta atriði, sem var að sjálfsögðu eðlilegt. Það er þetta, sem ég ætla að víkja aðallega að hér í þeim orðum, sem ég segi við þessa 1. umr. málsins.

Ég held, að það eigi að liggja nokkuð ljóst fyrir, að þær ástæður, sem liggja til grundvallar þessu frv., eru þær, að flm. telja, að það sé þjóðhagslega rétt að leyfa minkaeldi í landinu. Það er talið, að minkaeldi geti verið arðvænlegur atvinnuvegur, skapað fjölbreytni í atvinnulífi landsins, aukið þjóðartekjurnar og skapað okkur auknar gjaldeyristekjur. Það er ekki af neinni ást á minknum, sem menn gera það að till. sinni að leyfa minkaeldi. Auðvitað er það af því, að menn telja, að það hafi þjóðhagslega þýðingu fyrir okkur og það hafi þýðingu fyrir íslenzkt atvinnulíf. En hv. 9. þm. Reykv. kom ekki eða varla að þessu meginatriði í sinni ræðu. Og hann gerði enga tilraun til þess að benda á það, að í þessu efni væri um misskilning að ræða og þess vegna ætti frv. ekki rétt á sér. Ég skal ekki fjölyrða að þessu sinni um þessa hlið málsins, það hefur verið rækilega bent á hana og miklar umr. verið um þetta mál, bæði hér á hv. Alþ. og utan þings.

En hv. ræðumaður sagði, að við hefðum haft reynslu af minkaeldi og sú reynsla hefði ekki orðið góð. Sá atvinnurekstur hefði ekki orðið arðbær og hann hefði ekki haft að því leyti mikla þjóðhagslega þýðingu fyrir okkar atvinnulíf og hann hafi svo orðið til þess, að við fengum villiminkinn. Það mun vera rétt, að það hafi verið minni arður af þessum rekstri en gert var ráð fyrir af ýmsum, þegar minkarækt hófst hér á landi. En ég hef þó heyrt því haldið fram, að um það leyti, sem minkaeldi var bannað, hafi sumir a.m.k. verið búnir að fá þá reynslu í þessum atvinnurekstri, að það hefði mátt ætla, að það væri að skipta um. En ég skal ekki ræða frekar um þessa hlið málsins.

Það er alveg rétt, að þessari tilraun til minkaeldis hér fylgdi mikill galli og mikið slys, þar sem varð tilkoma villiminksins. Um það er enginn ágreiningur. Við höfum búið við villiminkinn, og honum virðist fara stöðugt fjölgandi, og mér virðist, að það sé ekki talið, að það muni vera hægt að útrýma honum. Þetta er staðreynd. Og ég vil ekkert draga úr því, sem hv. ræðumaður sagði um tjón það, sem af þessu hefur hlotizt. En á þetta að vera ákvörðunarástæða fyrir því hvort við leyfum minkarækt nú? Ég held ekki. Ég held, að við höfum villiminkinn eftir sem áður. Og við verðum að meta það, hvort við teljum, að það geti verið þjóðhagslega hagkvæmt að leyfa minkaræktina og það sé til þess fallið, að efla íslenzka atvinnuvegi og gera þá fjölbreyttari.

Það hafa fleiri haft reynslu af minkarækt en Íslendingar. Og það vildi svo til, að minkarækt hófst á Norðurlöndum fyrst um svipað leyti og tilraunin var gerð hér á landi. Og það mun hafa verið þannig á Norðurlöndum, að í mörg ár var reynslan ekki góð. Þessi atvinnurekstur átti í vök að verjast, og reksturinn varð ekki arðbær. Dýr sluppu úr búrum rétt eins og hér. Og auk þess kom heimsstyrjöld, sem hafði mjög mikla þýðingu í sambandi við markað þessarar lúxusvöru. Og það var ekki fyrr en 1945, sem minkaræktin komst á nokkurt skrið á Norðurlöndum og sérstaklega ekki fyrr en eftir 1950. Nú er minkaræktin í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi orðin snar þáttur í atvinnurekstri þessara landa, mjög arðbær atvinnurekstur og skapar miklar gjaldeyristekjur. Þessi lönd standa núna einna fremst allra landa á þessu sviði. Ef fylgt hefði verið þeirri reglu, sem hv. 9. þm. Reykv. vildi gefa okkur hér í ræðu sinni, að ef eitthvað hefði mistekizt, skyldi ekki reyna það frekar, hefðu Norðurlandaþjóðirnar fyrir löngu hætt þessu basli og þá væri þar nú enginn atvinnurekstur á þessu sviði. Ég held, að það mundi verða mjög framandi hugsun í þessum löndum, ef það ætti að fara að banna þar nú þennan atvinnurekstur, og auðvitað kemur það ekki til greina. Ég ætla, að svo geti orðið hér, að við getum fengið sömu reynslu í þessum efnum og hin Norðurlöndin og það muni jafnvel eftir nokkur ár engum detta sú fásinna í hug að banna að hafa minkinn í búrum, en hafa hann villtan í landinu.

Auðvitað eigum við að geta hagnýtt okkur minkaræktina ekki síður en hin Norðurlöndin. Það, sem er mikilvægast fyrir minkaræktina, er hagkvæmt loftslag og gott fóður. Og fóðrið er að mestu leyti fiskafurðir, og engir hafa betri fiskafurðir til þessa fóðurs heldur en við, og loftslagið er talið hér með ágætum. Hvað er það þá, sem á að hindra okkur? Hv. síðasti ræðumaður sagði, að hann reiknaði með, eins og hann sagði svo smekklega, að í dag mundi skeytingarleysi Íslendinga og skortur á natni vera samt og áður. Finnst nú hv. þm., að það séu sterk rök i þessu máli, þegar það er helzta haldreipið, að Íslendingum sé vegna skeytingarleysis og skorts á natni ekki treyst til þess að stunda þennan atvinnurekstur? Ég held, að það sé ekki hægt að taka slík rök alvarlega, og ég held, að þau hljóti að verða léttvæg fundin.

Hv. ræðumaður, eins og ég vék að áðan, sagði, að við værum búnir að fá reynsluna af minkaeldi og af því að sú tilraun hefði mistekizt, ætti að vera útilokað að reyna aftur. Hvar ætli við stæðum, við Íslendingar, í dag, ef svo hefði jafnan verið hugsað? Ætli við höfum ekki gert ýmis mistök í framfarasókn þjóðarinnar? En hefur nokkrum raunverulega dottið í hug, að við ættum að hætta við nýjungar og framfarir einungis vegna þess, að á einhverju tímabili hefði okkur mistekizt? Sem betur fer hefur ekki verið hugsað þannig. Að vísu hafa alltaf einhverjir úrtölu- og afturhaldsmenn verið til í þessu landi, menn, sem alltaf hafa séð ljón á veginum. En þeir hafa ekki verið látnir ráða göngunni, og ég held, að það væri mikill ábyrgðarhluti, ef við ætluðum að gera það í þessu máli, sem hér er til umr. Ég held, að það væri mikill ábyrgðarhluti, vegna þess að ef vel er haldið á framkvæmd á minkarækt hér á Íslandi, bendir allt eða flest til þess, að við eigum að geta náð hér hliðstæðum árangri og frændur okkar á Norðurlöndum hafa gert í þessu efni. Og ég tel, að við höfum ekki efni á því að gera ekki þessa tilraun, við höfum ekki efni á því, á sama tíma sem okkar meginvandamál í atvinnumálum þjóðarinnar er einhæfni atvinnurekstrarins, þá höfum við ekki leyfi til þess að hafna því að gera tilraun til þess að koma hér upp nýrri atvinnugrein, sem getur orðið snar þáttur í atvinnulífi landsmanna, skapað miklar tekjur í þjóðarbúið og gjaldeyristekjur. Þessi atvinnurekstur byggir á íslenzku hráefni fyrst og fremst, hráefni, sem er betra á Íslandi en víðast hvar annars staðar. Með því að hagnýta fiskúrganginn í þessu skyni höfum við ekki einungis möguleika til þess að reka arðbæra minkarækt, heldur skjótum við einnig í leiðinni sterkum stoðum undir aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn.

Ég tók til máls um þetta mál hér við 1. umr. af því, að mér fannst ekki eðlilegt, að það yrði látið ósvarað ýmsum þeim sleggjudómum, sem fram komu í ræðu síðasta ræðumanns. Grunur minn er sá, að hv. þdm. muni ekki eftir þá ræðu taka mikið undir þá ósk hv. ræðumanns að fella eða svæfa svo mikið þjóðnytjamál sem þetta getur verið, ef þessi tilraun tekst.