30.04.1966
Efri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (2321)

81. mál, loðdýrarækt

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. 4. landsk. fyrir það, að hann er mér miklu meira sammála en ég bjóst við að hann væri, og er það vel farið, og ég held, að það skilji ekki mikið á milli okkar skoðana í þessum efnum, því að mér finnst, að hann vilji að lögum fara, að því er varðar innflutning loðdýra, hann vilji og telji, að 4. gr. l. um innflutning búfjár frá 1962 eigi hér að gilda um þessi atriði. Og þar af leiðandi býst ég við, að við getum sameinazt um það, að þessu frv. liggur ekkert á, vegna þess að það er ekki enn þá hafizt handa um það að byggja sóttvarnarstöð hér á landi og það frv., sem yrði flutt um þessi efni á næstu þingum, gæti verið miklu betur útbúið en það frv., sem hér liggur fyrir.

Ég skal ekkert um það segja, hversu arðvænleg loðdýrarækt kann að vera almennt í heiminum eða t.d. í Noregi, þó að það kunni að vera stundum. En þegar Einar Sigurðsson var hér á þingi fyrir nokkrum árum, flutti hann frv. um loðdýrarækt. Landbn. Nd. sendi þetta frv. til umsagnar, og ég man nú ekki, hvernig það atvikaðist, en það kom umsögn frá Árna G. Eylands um þetta mál, þar sem hann gaf ýmsar mikilvægar upplýsingar um þessi mál frá Noregi. Og þetta var á árunum 1960—1961, minnir mig, sem þetta frv. var lagt fyrir Alþ., og þessi umsögn Árna G. Eylands er frá þeim árum. En það kemur fram þar, að verðsveiflur hafa verið allmiklar á minkaskinnum, sem munu vera þau verðmestu loðskinn, sem Norðmenn framleiða. Það er allmikill verðmunur á þeim á einstökum árum. T.d. 1951 er eitt minkaskinn í 135 kr. 89 kr., og eftir 3 ár eru þau aftur komin upp í norskum, og 2 næstu árin er það mikið verðfall á þessum minkaskinnum, að þau fara niður í 128 kr. norskar og aftur 1956 niður í 92 kr. norskar. Á þessu er mikill tröppugangur, og það getur verið allt upp í 50% munur á verðlaginu, það getur hækkað eða fallið á tveim, þremur árum, þannig að þarna getur, eins og ég gat um áðan, verið um árvissa sölu að ræða, en alls ekki árvisst verðlag, því að það er mjög breytilegt, alveg eins og yfirleitt er, þar sem tízkan ræður. Og þar höfum við Íslendingar líka okkar sögu að segja, að því er varðar gæruútflutning, að þar hefur verðlagið verið allbreytilegt, vegna þess að gærurnar hafa verið notaðar á ýmsan hátt og ekki svo lítið komið við tísku ýmissa landa, og það hefur nokkru ráðið verðlagi þeirrar vörutegundar. Þess vegna er það, að ég held, að það væri langskynsamlegast fyrir þessa bv. d. nú, þar sem ekki skilur meira á milli en þegar hefur komið í ljós, að við fellum þetta frv. og reynum síðar að útbúa það betur og undirbúa þetta mál á farsælli hátt en ég tel að við mundum geta með því frv., sem hér liggur fyrir.