23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2327)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 70 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 frá 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svofellt, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. Á eftir 5. gr. l. komi ný gr., svo hljóðandi: Setning í opinbera stöðu skal jafnan vera til bráðabirgða og aldrei lengur en til 4 ára. Skal staðan jafnan auglýst laus til umsóknar, er sett hefur verið í hana í 4 ár. Sá, sem settur hefur verið til þess að gegna stöðu í forföllum þess, er skipun hefur í hana, getur þó krafizt þess. að staðan sé auglýst laus til umsóknar, er hann hefur gegnt henni í tvö ár.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Til þess að tryggja sem almennust mannréttindi er nauðsynlegt, að réttarstaða embættismanna ríkisins sé sem tryggust, þannig að þeir geti óháðir öðru en lögum landsins rækt sín störf. Embættismenn ríkisins fara með mikilvægan þátt í stjórn hvers lands, og eðli málsins samkv. þurfa margir að hafa viðskipti við þá. Alveg sérstaklega er rík nauðsyn á því, að dómarar séu óháðir í störfum, og eru í löggjöf margra þjóða sérákvæði um réttarstöðu þeirra til þess að tryggja þetta sem bezt. Þannig er þetta til að mynda bæði í Danmörku og Noregi, þar sem í lögum eru ákvæði, er taka til setningar dómara í embætti, er kveða svo á, að setningin skuli aðeins vara í 1 ár í Danmörku, en 2 ár í Noregi. Þó er við sérstakar ástæður hægt í báðum þessum löndum að framlengja setningu dómara til embættis í allt að 3 ár.

Það er ekki vandi að geta sér til um ástæður þess, að sérstakar reglur gilda í þessum löndum um réttarstöðu dómara, að því er tekur til setningar í embætti. Er raunar furðulegt, að í okkar löggjöf séu ekki svipaðar reglur að þessu leyti, svo mjög sem við sækjum þó fyrirmyndir að hvers konar lagasmið til þessara frændþjóða okkar.

Óháð dómsvald og óháðir dómendur er grundvallarregla lýðræðisþjóðfélaga og það, sem hvað mest greinir þau frá einræðisþjóðfélögunum, þar sem valdhafinn tekur sér dómsvaldið einnig í hönd. Opinber starfsmaður, sem settur er til að gegna embætti, má búast við því í flestum tilfeilum að vera settur frá því, hvenær sem er, að geðþótta þess, sem með veitingarvaldið fer hverju sinni, og það furðulega hefur nú einnig komið fram, að þetta á sér alveg eins stað, þótt setning hafi staðið í tæpan áratug og viðkomandi embættismaður hafi rækt sín störf með ágætum og við almennar vinsældir þeirra þegna þjóðfélagsins, sem mest hafa þurft við hann að skipta. Þetta er að mínum dómi ekki hægt.

Frv. það, sem ég er nú að mæla fyrir, er flutt í tilefni veitingar á bæjarfógeta- og sýslumannsembættinu í Hafnarfirði, sem undanfarið hefur verið mjög til umr. manna á meðal. Sú veiting hefur almennt verið fordæmd sem óréttlát í garð þess embættismanns, Björns Sveinbjörnssonar, sem embættinu hefur gegnt sem settur bæjarfógeti og sýslumaður um tæpan áratug og starfað við þetta eina og sama embætti allt frá því, er hann lauk lagaprófi fyrir rúmum tveimur áratugum. Enn fremur hefur veitingin verið talin óréttlát í garð Jóhanns Gunnars Ólafssonar, bæjarfógeta á Ísafirði um rúmlega 22 ára skeið og þar á undan starfandi við bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði í 4 ár. Veiting þessa embættis hefur dregið athygli manna að þörfinni á því að lögfesta reglur um setningu í embætti og reglur um réttarstöðu settra embættismanna, því að það er hinn langi setningartími, sem í þessu tilfelli gerir mál þetta alveg einstakt.

Eins og 1. gr. frv. ber með sér, er lagt til, að setning í stöðu skuli aðeins vera til bráðabirgða og ekki standa lengur en í 4 ár. Þó á sá, sem setningu hefur fengið til stöðu, rétt á að krefjast þess, að hún sé auglýst laus til umsóknar, er hann hefur gegnt henni í tvö ár, og ber þá að sjálfsögðu veitingarvaldinu að virða þá ósk.

Ég hef valið þá leiðina með tillöguflutningi þessum að láta ákvæði frv. ná til setningar í opinberar stöður almennt, en ekki binda þetta við dómarastöður einar. Bæði er, að tími sá, sem gert er ráð fyrir í frv. að setning geti staðið, er ekki langur, það eru venjulegast tvö ár og lengst 4 ár, og tryggir þannig sæmilega réttarstöðu settra dómara, en auk þess finnst mér þörfin fyrir reglur um setningu í önnur embætti hér á landi vera brýn, og vil ég því til sönnunar aðeins nefna eitt dæmi, en það er það, að hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, hefur látið sér sæma í rúm 9 ár a.m.k. að halda opnu prófessorsstarfi við Háskóla Íslands sem baktryggingu gegn fallvaltleik ráðherradóms í íslenzkum stjórnmálum. Að sjálfsögðu má deila um, hve tími setningar megi vera lengstur, en ég tel hann hæfilega ákveðinn eins og gert er í frv., og mér er kunnugt um, að Dómarafulltrúafélagið, sem hélt fund um þetta mál fyrir nokkru, er sama sinnis og gerði ályktun í málinu, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, ætla hér að lesa, en þar segir:

„Almennur fundur í Dómarafulltrúafélagi Íslands, haldinn þriðjudaginn 16. nóv. 1965 í Aðalstræti 12, Reykjavík, fagnar lagafrv. því, er Jón Skaftason alþm. hefur borið fram til breytinga á l. nr. 38 frá 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er miðar að því, að settar verði ákveðnar reglur um tímalengd setningar í opinberar stöður, og mælir eindregið með því, að Alþ. samþykki þetta frv. Slíkt mundi styrkja sjálfstæði dómsvaldsins í landinu og þar með auka réttaröryggi þegnanna, enda er ljóst, að dómari, sem settur er til langframa, hlýtur að vera háðari veitingarvaldinu en sá, sem hlotið hefur skipun í starfið. Sjálfsagt er því, að réttarríki setji sér skýr lagafyrirmæli um þetta efni. Bæði í Danmörku og Noregi eru ákveðnar reglur um hámarkslengd á setningartíma héraðsdómenda. Í Danmörku er það 1 ár, en í Noregi 2. Þó má framlengja setninguna, þegar sérstakar ástæður liggja til, um eitt ár í senn í Danmörku, en ekki oftar en tvisvar sinnum. Í Noregi er einungis heimilt að framlengja setninguna um 1 ár. Þannig getur setningartíminn aldrei orðið lengri en 3 ár í þessum löndum. Á þetta að stuðla að því, að dómendur verði sem sjálfstæðastir í starfi og sem óháðastir veitingarvaldinu. Réttur þessara þjóða er svipaðastur rétti vor Íslendinga. Er því eðlilegt, að svipuð löggjöf sé sett hér á landi um þetta málefni.“

Eins og ég gat um áðan, er frv. þetta flutt í tilefni veitingar á embætti bæjarfógeta og sýslumanns í Hafnarfirði og í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það embætti er, eins og kunnugt er, stærsta héraðsdómaraembætti á landinu utan Reykjavikur og því vandmeðfarnara en önnur. Þegar Guðmundur Í. Guðmundsson ákvað að hverfa af landi brott, varð hann loks að sleppa þessu embætti, sem annar maður hafði varðveitt fyrir hann í tæpan áratug sem baktryggingu í embættiskerfi landsins. Embættið var auglýst, eins og lög gera ráð fyrir, og var umsóknarfrestur ákveðinn til 4. nóv. s.l. Um embættið sóttu í þessari tímaröð: Björn Sveinbjörnsson, settur bæjarfógeti í Hafnarfirði í tæp 10 ár og starfandi við embættið í rúm 20 ár, eða allt frá því að hann lauk lagaprófi. Jóhann Gunnar Ólafsson, bæjarfógeti á Ísafirði í 22 ár og auk þess fulltrúi við bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði og settur fógeti þar í samtals á fjórða ár. Og síðast Einar Ingimundarson, hv. 4. þm. Sjálfstfl. í Norðurl. v. og bæjarfógeti á Siglufirði um 13 ár, sem sótt hafði um embættið á síðustu stundu umsóknarfrestsins.

Hæstv. dómsmrh. þurfti ekki langan umhugsunarfrest til þess að ákveða, hverjum bæri þetta embætti, því að strax daginn eftir, að því er mig minnir, að umsóknarfrestur var úti, var tilkynnt alþjóð, að síðastnefndi umsækjandinn, Einar Ingimundarson, hefði hreppt hnossið. Valið var sem sagt ekki eins erfitt og er af ýmsum haldið fram í dag. Þessi veiting hefur vægast sagt fengið slæmar undirtektir hjá almenningi. Réttlætiskennd fólks segir því, að með veitingu embættisins hafi réttur verið brotinn á hinn freklegasta hátt á settum bæjarfógeta og sýslumanni, Birni Sveinbjörnssyni, svo og enn fremur á Jóhanni Gunnari Ólafssyni bæjarfógeta á Ísafirði. Andúðaralda er risin í landinu í svo mikla hæð, að ekkert svipað hefur áður gerzt í sambandi við embættisveitingar, og hefur þó margt misfagurt verið brallað í þeim efnum á undanfarandi árum. Um þetta er ekki deilt út af fyrir sig. Það er eftirtektarvert, og ég vil sérstaklega undirstrika það, að það er samstarfsfólk hins setta bæjarfógeta og sýslumanns um langan tíma, sem mótmælir harðast og fórnar störfum sínum til þess að undirstrika þunga mótmælanna. Þannig hafa nú 12 manns af 13 starfandi við embættið í Hafnarfirði sagt upp störfum sínum, svo og 5 hreppstjórar af 8 í Gullbringusýslu, og mótmæli gegn embættisveitingunni streyma hvarvetna að.

Nú er því haldið fram, af Morgunblaðinu aðallega, að mótmælaaldan gegn þessari embættisveitingu sé af pólitískum toga. Allir vita þó, sem til þekkja, að þar er rangt frá skýrt. A.m.k. verðum við í stjórnarandstöðuflokkunum báðum tæplega sakaðir um slíkt, því að einu mótmælasamþykktir stjórnmálasamtaka, sem gerðar hafa verið þar til í gær, að við á hinu langfjölmennasta kjördæmisþingi, sem framsóknarmenn í Reykjaneskjördæmi hafa haldið til þessa, samþykktum mótmæli gegn þessari veitingu, voru mótmælasamþykktir Félags ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði og fulltrúaráðs Alþfl. í Hafnarfirði. Það er enn fremur áberandi, að ýmsir mætir menn, sem tekið hafa sig fram um að mótmæla þessari veitingu sérstaklega og opinberlega, eru stuðningsmenn stjórnarflokkanna og fjarri lagi og raunar mjög lítilsvirðandi fyrir þá, þegar því er haldið fram í Morgunblaðinu og Vísi, að þeir séu vélaðir til þessara mótmæla af vondum stjórnmálamönnum í stjórnarandstöðuflokkunum.

Ekki verður um það villzt, að almennur vilji var fyrir embættisveitingu til Björns Sveinbjörnssonar í Hafnarfirði og í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Fólki finnst þar og víðast annars staðar, að 10 ára samfelld setning í embættið og góð embættisfærsla þessa manns skapi honum, svo sem hverjum öðrum góðum embættismanni, sterkan rétt til embættis og ekki sé hægt að víkja slíkum manni fyrirvaralaust frá, eins og gert var með veitingu Hafnarfjarðarembættisins. A.m.k. telja menn, að siðferðilegur réttur hans sé hafinn yfir allan efa. Um þetta varð öll sýslunefndin í Gullbringu- og Kjósarsýslu sammála, svo og stjórn Dómarafélagsins utan Reykjavíkur, sem samþykkti Björn Sveinbjörnsson í félag sitt, sem er einsdæmi um mann, sem ekki hefur fengið setningu til embættis héraðsdómara, svo og enn fremur hundruð annarra manna, sem eftir einni eða annarri leið skoruðu á veitingarvaldið að veita Birni Sveinbjörnssyni embættið. Mönnum finnst, að setning hans hafi staðið það lengi, að hann hafi nánast öðlazt sama rétt til embættis þessa og skipun veitir. Það, sem á vantaði, sé nánast formsatriði, enda hafi fjórir dómsrh. af þremur stjórnmálaflokkum lagt blessun sína yfir þetta ástand í heilan áratug. Það get ég enn fremur fullyrt af nánum kynnum, að mjög margir kollegar mínir, lögfræðingarnir, bæði þeir, sem dómarastörfum gegna víðs vegar um landið og eins málflutningsstörfum, sóttu ekki um þetta eftirsótta embætti einungis vegna þess, að þeir töldu rétt Björns Sveinbjörnssonar svo sterkan til þess, að óviðeigandi væri að setja hann í hættu. Er það svipað og þessir sömu menn gerðu, þegar embætti yfirsakadómarans í Reykjavík var auglýst laust til umsóknar á sínum tíma og enginn af kollegum þess eina umsækjanda, sem sótti um embættið og fékk það, Þórðar Björnssonar, sótti um það á móti honum.

En hæstv. dómsmrh., Jóhann Hafstein, taldi auðsjáanlega röksemdir þessa fólks fleipur eitt. Hans réttarmeðvitund sagði honum annað, og vald sitt notaði hann í samræmi við það. Hann hefur í Morgunblaðinu frá 12. nóv. s.l. gert grein fyrir þeim ástæðum, sem leiddu til skipunar Einars Ingimundarsonar í þetta embætti, og ég verð að segja fyrir mitt leyti, að veikari málflutning hef ég ekki lengi lesið, enda erfitt um rök í málinu af hans hálfu. Hæstv. ráðh. segir þannig, með leyfi forseta: „Setning í embættið skapar hvorki lagalegan, venjubundinn né siðferðilegan rétt til skipunar umfram fjölmargt annað.“ Enn fremur segir hann, „að frekar megi tala um forréttindi Birni Sveinbjörnssyni til handa að hafa verið kornungur settur í eitt umfangsmesta embættið og fá að sitja þar í nær 10 ár.“

Hvað sem sagt verður um lagalegan rétt eða réttleysi vegna skorts á eðlilegum lagareglum í þessu tilviki, má þó fullyrða, að það er undantekningarlítil venja, að t.d. kennarar, sem settir hafa verið í 1—2 ár í stöðu, fái skipun til hennar að þeim tíma liðnum, séu þeir taldir hæfir starfsmenn. Um þetta er sköpuð í landinu áratugalöng venja, sem hlýtur eðli málsins samkv. að ná til annarra embættismanna ríkisins og það því fremur sem setningartíminn í umræddu tilfelli er ekki 1—2 ár, heldur heill áratugur. Setning í héraðsdómarastarf, eins og var í Hafnarfirði, er hins vegar einsdæmi og getur því út af fyrir sig ekki skapað venjubundinn rétt af þeirri einföldu ástæðu einni. En það út af fyrir sig haggar ekki almennu reglunni, sem ég var að nefna hér áðan, og siðferðilegan rétt skapar þessi langa setning að dómi langflestra manna, og mætti hæstv. dómsmrh. spyrja hæstv. utanrrh. um álit hans á því í þessu gefna tilviki. Það er öllum lögfræðingum ljóst a.m.k., að tíminn skapar bæði rétt og fellir niður, og má þar til nefna sem dæmi vel þekkt hugtök úr lögfræðinni, eins og hefð og fyrningu, því til sönnunar. Ég held því fram, að 10 ára embættisvarzla í svo veigamiklu og vandasömu embætti sem bæjarfógetaembættið og sýslumannsembættið í Hafnarfirði er skapi ekki einasta hverjum góðum starfsmanni mikinn rétt til skipunar í það, heldur hljóti augljósir hagsmunir hins opinbera að vera því bundnir, að maður, sem gjörþekkir til embættisins, fái það, og það stuðli að öðru jöfnu fremur að góðri embættisfærslu, og ætti veitingarvaldið vissulega að meta það einhvers.

Um þessi atriði, sem ég hef hér verið að ræða, hefur margt verið sagt. Einn þeirra manna, sem lagt hafa þar orð í belg, er Árni Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, sem í bréfi, dags. 14. nóv., sem birzt hefur í öllum dagblöðum landsins og raunar fleiri blöðum, segir þannig, með leyfi forseta :

„Hitt vil ég fullyrða, að öll réttsýni og sanngirni hlýtur að mæla með því, að nær 10 ára seta í slíku embætti geti í eðli sínu jafngilt skipun. Munurinn er nánast formsatriði. Okkur var báðum kennt í háskólanum (þetta er í bréfi til hæstv. dómsmrh.), að rás tímans og aðgerðarleysi aðila gætu haft áhrif til sköpunar réttar eins aðila og um leið réttarmissis annars. Finnst yður það fráleitt eða ósanngjarnt að halda því fram, að þegjandi samþykki fjögurra dómsmrh. á svo löngum setutíma í embætti geti skapað rétt handa Birni Sveinbjörnssyni, siðferðilegan eða lagalegan, og um leið valdið glötun réttar yðar að taka af honum embættið og veita það öðrum? Hvenær og hvernig stofnast þá almennt séð síðferðilegur réttur í yðar augum til réttarsköpunar fyrir einstakling?“

Og Jón Finnsson lögfræðingur og fulltrúi við bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði segir m.a. í grein í Morgunblaðinu í gær, með leyfi forseta:

„Hins vegar fer það ekki á milli mála, að Björn Sveinbjörnsson hefur mesta starfsreynslu og staðarþekkingu af þeim (þ.e. umsækjendunum) öllum, þar sem hann hefur starfað óslitið hér í lögsagnarumdæminu í rúm 20 ár. Þess má geta, að íbúafjöldi hér er nú um 18 þús. manns, á Siglufirði um 2500 manns og á Ísafirði og Ísafjarðarsýslum um 6500. Þetta þýðir, að umboðsstörfin eru hér miklu meiri og dómsmálafjöldi einnig heldur en i báðum hinum lögsagnarumdæmunum til samans.“

Um rétt þann, er hinn langi setningartími skapar, segir Jón Finnsson enn fremur í sömu grein, með leyfi hæstv. forseta:

„Á sama hátt bar stjórnvaldi því, sem veitti umrætt embætti, að meta þær sérstöku aðstæður, sem hér höfðu skapazt, út frá eðli málsins. Bar ráðh. þess vegna að hyggja að því, hvort ríkisvaldið hefði orðið skuldbundið vegna hinnar löngu setningar Björns Sveinbjörnssonar. Ég tel engan vafa á, að svo hafi verið. Það fær með engu móti staðizt, að setning í embætti geti ekki skapað siðferðilegan rétt til stöðunnar. Ef fallizt yrði á þá skoðun, mundi ekki hafa skipt máli, hvort Björn Sveinbjörnsson hefði verið settur í 10, 15 eða jafnvel 20 ár. Ja, hver trúir?“

Mér er ekki alveg ljóst, hvert hæstv. dómsmrh. er að fara í áður nefndu viðtali við Morgunblaðið, þegar hann heldur því fram samtímis í sömu greininni, að það séu forréttindi Birni Sveinbjörnssyni til handa að hafa verið kornungur settur í þetta embætti og fengið að sitja þar í 10 ár, en jafnframt á setning hans í embættið hvorki að skapa lagalegan, venjubundinn né siðferðilegan rétt til skipunar í það. Hver eru þá þessi forréttindi? Enn fremur segir hæstv. dómsmrh., „að mörgum finnist, að setning, einkum um langan tíma, veiti einhverja siðferðilega sérstöðu til skipunar. En ef menn íhugi þetta betur, sjáist, að viðurkenning á slíku sem siðferðilegum rétti umfram margt annað geti verið mikil misbeiting réttar gagnvart mörgum öðrum, sem hvorki hafi verið gefinn kostur á að vera settir né sækja um veitingu fyrir embættinu, meðan það er ekki laust til umsóknar“.

Það er fögur hugsjón, sem í þessum bollaleggingum felst! En hver verður niðurstaðan, þegar hin sérstaka veiting í Hafnarfjarðarembættið er skoðuð í þessu ljósi? Áreiðanlega ekki sú, sem hæstv. ráðh. er að lofsyngja. Hvað er þetta annað, sem vó svo þungt á vogarskálum veitingarvaldsins við skipun í Hafnarfjarðarembættið og vó þyngra en venjubundinn og siðferðilegur réttur Björns Sveinbjörnssonar og starfsaldur Jóhanns Gunnars Ólafssonar? Báðir eru þó þessir menn af veitingarvaldinu taldir hæfir embættismenn og færir. Ég læt mér ekki eina stund koma til hugar, að hæstv. dómsrh. trúi þeirri kenningu sinni sjálfur, að 62 ára gamall embættismaður sé of gamall til þess að sinna Hafnarfjarðarembættinu, fremur en hann sé of gamall til þess að sinna Ísafjarðarembættinu. Og ekki dettur mér í hug að trúa þeirri kenningu, að með veitingunni hafi hæstv. ráðh. verið að verðlauna fyrir langa og erfiða embættisfærslu eða embættisstörf úti á landi. Hvorugt þessara atriða fær staðizt, ef rök þessa máls, verðleikar og aðstæður er skoðað. Nei, hér hlýtur annað að hafa ráðið vali hæstv. ráðh., og vil ég nota þetta tækifæri til þess að skora alveg sérstaklega á hann að upplýsa það nú í þessum umr. Morgunblaðsviðtal hans hefur fáa sannfært, það þykist ég mega fullyrða.

Árni Gunnlaugsson hrl. hefur skrifað um þessa veitingu að mínum dómi eitthvert snarpasta og rökvísasta innlegg í málinu. Hann segir í bréfi, sem ég vitnaði til áðan, til hæstv. dómsmrh. m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Þér hafið vafalaust lesið Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins sunnudaginn 14. nóvember, en höfundur þess er sagður vera forsrh. Bjarni Benediktsson, og er hér gengið út frá því. Hann segir þar m.a. um gagnrýnina: „Eðlileg gagnrýni er öllum holl.“ Þessu til áréttingar segi ég við yður: Því aðeins þjónar lýðræðið og frelsið tilgangi sínum, að hvort tveggja sé virt í verki. Því aðeins eigum við skilið að njóta mannréttinda, að við virðum annarra rétt. Það er því ekki sæmandi kollega yðar, Bjarna Benediktssyni, að óvirða rétt almennings til að gagnrýna í verki brottrekstur Björns Sveinbjörnssonar með því að skrifa eftirfarandi í Reykjavíkurbréfinu: „Siðleysið lýsir sér í því að hafa uppi ósannar ásakanir og beita óhæfilegum þvingunarráðstöfunum.“ Vill forsrh. bera ábyrgð á slíkum skrifum? Er ekki of langt gengið, þegar æðstu menn þjóðarinnar lýsa þegnum sínum sem iðkendum siðleysis fyrir það eitt að hafa haft manndóm til að sýna þá sterkustu gagnrýni gagnvart ranglæti yðar með því að fórna starfi sínu? Lögleg viðbrögð þessa fólks í þágu réttlætisins verða ekki flokkuð undir „siðleysi“, hvað sem líður skoðunum stjórnlagafræðingsins Bjarna Benediktssonar.“

Enn fremur segir hann svo:

„Að lokum leyfi ég mér að draga ályktanir af því, sem fram hefur komið í málinu. Ég tel ómaksins vert fyrir yður, ráðh. dómsmála, eða aðra, að kanna fræðilega þann lögmætisgrundvöll, sem þér viljið byggja á embættisveitinguna til Einars Ingimundarsonar. Sú stjórnvaldsráðstöfun yðar verkar þannig á mig o. fl., að það hafi verið pólitískar og persónulegar ástæður, sem réðu því, að hann hlaut embættið. Verði svo talið, er að mínum dómi um valdníðslu að ræða í lagalegum skilningi. Vegna þeirra lesenda, sem eru ólögfróðir, skal upplýst, að valdniðsla er ein ástæða fyrir ógildi stjórnvaldsráðstafana, en f flokki þeirra teljast embættaveitingar. Fræðilega skilgreint telst það valdníðsla, þegar stjórnvald lætur gerðir sínar ráðast af ólögmætum sjónarmiðum, t.d. pólitískum og persónulegum. Dómstólar hér á landi hafa ekki til þessa dæmt um tilvik, þar sem reynt hefur á lögmæti embættisveitinga sem stjórnvaldsráðstöfunar.

Hvað sem liður lögmæti hinnar umdeildu embættisveitingar, tel ég dóm almennings í málinu vera afdráttarlausan. Hann vitið þér um, og við hann verðið þér að sætta yður, hvort sem yður líkar betur eða verr.“

Ég tel, eins og ég sagði áðan, röksemdafærslu hæstaréttarlögmannsins ákaflega sterka og að þeir, sem fyrir þessari gagnrýni hafa orðið, skuldi honum svör við þeirri gagnrýni. Við fáum e.t.v. þau svör hér í þessum umr. á eftir.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins frá í gær, sem ég geng út frá að hæstv. forsrh. hafi skrifað, þar til annað er upplýst, er siðferðilegur réttur til stöðu enginn talinn til, því að þá megi líkja stöðu við eign, sem unnizt geti hefð á. Eignarréttur er viðtækur, og hingað til hef ég haldið flesta lögfræðinga vera sammála um, að réttur sá, er opinberu embætti fylgdi, nyti réttarverndar, sem m.a. lýsti sér í því, að væri embættismanni vikið úr starfi án saka, ætti hann rétt á skaðabótum, enda hafa mörg slík mál verið dæmd. Að þessu leyti nýtur embættismaðurinn sömu réttarverndar og sá, sem verður fyrir því, að eign hans er skemmd af ribbalda. Hann á bótarétt á hendur honum. Hæstv. forsrh. neitar væntanlega ekki heldur, að venjuréttur sé til um skipun settra embættismanna til starfa, sem algengast er, eins og ég hef áður bent á, í kennarastéttinni. Sú venja og sá venjuréttur hefur orðið til vegna þess, að mönnum finnst siðferðilega rangt að víkja settum kennara frá með því að veita embætti hans öðrum, sé hann á annað borð góður og gegn starfsmaður. Allur venjuréttur byggist þannig á siðferðilegu mati. Ástand, sem byggist á ranglæti, skapar engan venjurétt og helzt venjulegast ekki lengi, þar sem frjálsræði ríkir. Mér finnst líka í hæsta máta ósmekklegt í þessu Reykjavíkurbréfi að gera starfsfólki Hafnarfjarðarembættisins, sem sagt hefur upp störfum sínum til þess að mótmæla þessari embættisveitingu, upp annarlegar hvatir og fullyrða, að það hafi með gerðum sínum gert sig hlægilegt ásamt því fólki öðru, sem að mótmælum hefur staðið.

Ég kemst ekki hjá því í lok þessarar umr. að gefnu tilefni að víkja örfáum orðum að afstöðu ráðh. Alþfl. til þessa einstæða prinsip-máls. Eins og hv. alþm. vita, stafaði áratugalöng setning Björns Sveinbjörnssonar í þetta embætti af því, að hinn skipaði embættismaður, Guðmundur Í. Guðmundsson, sat á ráðherrastóli allan þann tíma, sem setningin stóð, en vildi þó ekki sleppa þessu embætti, heldur hélt því sem baktryggingu fyrir sig. Þessi þáttur þessa margumtalaða máls er einn sá alljótasti og gerir það einstakt í sinni röð. Ég kemst ekki hjá því að álykta, að auk Guðmundar Í. Guðmundssonar beri samráðh. hans og flokksbræður, hæstv. utanrrh. Emil Jónsson og hæstv. menntmrh. Gylfi Þ. Gíslason, sem báðir geyma sér embætti á svipaðan hátt, fulla ábyrgð á þessu ástandi ásamt með Guðmundi Í. Guðmundssyni. Mér virðast því mótmæli þeirra nú og blaðs þeirra nokkuð síðbúin og þeir þyrftu að gera betur grein fyrir aðgerðum sínum í málinu innan ríkisstj., úr því að þeir vilja láta almenning trúa því, að þeir hafi verið veitingu þessari ósamþykkir. Sérstaklega tel ég ríka þörf á því, að hæstv. utanrrh., Emil Jónsson, geri grein fyrir þessu, því að eftir því sem Þjóðviljinn hefur skýrt frá þann 16. nóv. s.l. og ég hef hvergi séð í móti mælt, á hann sem formaður fulltrúaráðs Alþýðuflokksfélaganna í Hafnarfirði að hafa samið og lagt fram mótmælatill., sem þar var einróma samþykkt, en mótmælatill. þessi hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fulltrúaráð Alþfl. í Hafnarfirði mótmælir því harðlega, að Birni Sveinbjörnssyni skyldi ekki vera veitt bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði og sýslumannsembættið í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Fulltrúaráðið telur, að Björn hafi með 9–10 ára starfi í þessu embætti, sem hann að allra dómi, er til þekkja, hefur rækt með ágætum, verið allra umsækjenda sjálfsagðastur til að vera skipaður í embættið.“

Mér býður svo í grun, að mótmæli þessara hæstv. ráðh. innan ríkisstj. gegn veitingu embættisins hafi ekki verið mjög sterk, enda árangurinn í samræmi við það. Við þekkjum þó dæmi þess, að einörð mótmæli þeirra hafa stundum borið árangur, eða svo er a.m.k. að sjá af upplýsingum, sem fá mátti í blöðum landsins fyrir stuttu um áhrif þeirra, þegar til umr. og til ákvörðunar var, hver skipa skyldi sæti útibússtjóra á Akureyri í útibúi Útvegsbankans þar. En um þessi atriði fást vafalaust upplýsingar í þeim umr., sem hér væntanlega verða, og er það vel, því að þá þurfa menn ekki að byggja umr. um þessi málefni á alls kyns sögusögnum, sem sumar hverjar geta verið rangar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar að sinni. Ég legg aðeins áherzlu á það, að viðbrögðin við embættisveitingunni í Hafnarfirði eru algert einsdæmi hér á landi og skera því alveg ótvirætt úr um, að veiting þessi er einstök í sinni röð. Réttarmeðvitund fólks rís algerlega öndverð gegn þeirri kenningu, að áratugsembættisvarzla, vel rækt í alla staði, skapi viðkomandi engan rétt til embættisins, hvorkí lagabundinn, venjubundinn né siðferðilegan.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. þessu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og félmn.