23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta fundi í þessari hv. d., þegar þetta mál kom hér fyrst til umr., gat hv. flm. og raunar fleiri mín þar að nokkru og raunar okkar fleiri Alþfl.manna, svo að ég sé ástæðu til þess að fara um málíð, þó að ekki væri af öðrum orsökum, nokkrum orðum.

Efni þessa frv. er stutt og einfalt, nefnilega það að setja reglur um, hversu lengi menn skulu vera settir í embætti. Þar segir, að hámark skuli vera 4 ár og eftir 2 ár eigi sá, sem settur er, rétt til þess að krefjast þess, að staðan verði auglýst. Út af fyrir sig er þetta ekkert óeðlilegt. Það er sjálfsagt rétt, að um þetta eins og svo margt fleira séu settar fastar reglur, sem hafa megi til þess að fara eftir, þegar slík mál ber að höndum. En ég vildi þó mega undirstrika, að þessi tímaákvörðun er ekki vandalaus og ýmislegt, sem í sambandi við það er.

Það hefur verið talið af ýmsum, að það gengi ódæði næst, eins og það hefur verið orðað, að embætti hafi verið tekin frá og geymd fyrir ráðh., sem hafa tekið að sér störf í ríkisstj. Ég vil nú minna á, hvernig þetta ber venjulega að. Ráðherradómur er ekkert lífstíðarstarf á Íslandi frekar en annars staðar, og venjan hefur veríð sú, að starfstími ráðh. hefur verið tiltölulega stuttur. Ég held, að ég fari ekki rangt með það, að starfstími stjórna á Íslandi að meðaltali sé ekki miklu lengri en 2—3 ár, stundum styttri, stundum lengri, og þetta er náttúrlega sérstaklega þess vegna athyglisvert, að á Íslandi hafa s.l. áratugi starfað eintómar samsteypustjórnir að kalla má, að undanteknum bráðabirgðastjórnum, sem hafa verið hreint flokkslegar og allir vissu, að voru til mjög stutts tíma. En þegar um samsteypustjórnir er að ræða, eru að öðru jöfnu meiri líkur til þess en ella, að ágreiningsatriði geti risið upp í stjórninni, þannig að til stjórnarslita komi. Þegar maður þess vegna er fenginn til þess að taka að sér ráðherraembætti, veit hann vissulega ekki, þegar hann tekur þetta að sér, hvort um vikur eða ár er að ræða, eða yfirleitt getur rennt nokkurn grun í það, hversu langan tíma það muni taka. Mér er kunnugt um það líka, að ýmsir, sem gegnt hafa ráðherrastörfum, hafa verið teknir úr embætti, sem þeir hafa sinnt, svo að árum eða jafnvel áratugum skiptir. Það er þess vegna ekki eðlilegt, að þessir menn af fúsum vilja a.m.k. taki að sér þessi ráðherrastörf, ef þeir eiga það á hættu að eiga ekki afturkvæmt í sitt fyrra embætti. Þess vegna hefur þetta verið þannig framkvæmt í flestum tilfellum, að ég ætla, að menn, sem hafa tekið að sér ráðherrastörfin, hafa fengið fri frá sinum venjulegu embættum og þá með hliðsjón af því vitaskuld, að þeir gengju inn í embættin aftur, þegar ráðherrastörfunum væri lokið. Þetta er ekki, vil ég segja, beint fjárhagslegt atriði, því að ég efast ekki um það, að þeir, sem taldir eru færir um að gegna ráðherrastörfum, geti unnið sér fyrir lífsframfæri á venjulegan hátt við ýmislegt, sem að höndum kann að bera. En það er ekki sama embættið, sem þeir höfðu, sem þeir gerþekktu út og inn og þeir gjarnan vildu halda áfram að gegna. Þess vegna finnst mér ekki rétt, að það sæti ámæli, að menn fái frí frá þessum embættisstörfum, á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Þess vegna má að mínu viti um það deila, hversu langt tímatakmark á að setja í þessu efni. Eiga það að vera 2 ár, eiga það að vera 4 ár, eiga það að vera 5—6 ár eða eitthvað þess háttar? Eðlismunur er enginn á því, hvort þetta eru 2, 4, 6, 7 ár, ef það er meiningin með þessu, að maðurinn eigi að eiga afturkvæmt í sitt fyrra starf. Venjulega er það þó svo, að sá, sem úr embættinu hverfur, fær mann, sem hann treystir vel og hefur þekkt að því um lengri tíma að vera góður embættismaður, til þess að gegna störfunum á meðan.

Nú er mér ekki alveg ljóst heldur, hvað átt er við með í frv., að þessi setning til bráðabirgða megi aldrei vera lengur en til 4 ára, þá skuli starfið jafnan auglýst á ný til umsóknar. Ef það nú kæmi fyrir, að starfið yrði auglýst og engin umsókn kæmi um það frá einum eða neinum, hvað skeður þá? Á embættið að vera mannlaust, eða verður þá setningin að gilda um lengri tíma en 4 ár? Þetta er ekki alveg ljóst af frv., en þarf vissulega að skilgreina alveg nákvæmlega. Ég held þess vegna, að það þurfi um þetta að setja fastari reglur og að vandlegar athuguðu ráði en hér virðist hafa verið gert.

Ég er ekki með þessu að halda því fram, að það eigi endilega að halda þessum embættum óveittum óendanlega lengi eða um ósanngjarnlega langan tíma. En mér finnst, að ráðh., sem kallaður er til starfa í þjóðfélaginu til þess að gegna ráðherraembætti eftir stjórnskipulegum reglum, eigi, ef hann vill, að eiga kost á því að geta tekið upp sitt fyrra embætti á ný. Annars er það vel hugsanlegt, að maður, sem leitað er til til þess að gegna ráðherrastörfum og er talinn vel til þess hæfur, treysti sér ekki til þess að gera það, ef þessi möguleiki er ekki fyrir hendi, hann vilji ekki fara úr embættinu vegna stutts eða langs ráðherratíma, ef hann á ekki þess kost að hverfa aftur að sínu fyrra starfi. Þá er með þessari lagasetningu komið í veg fyrir það, að maður, sem annars væri kannske talinn mjög vel fallinn til þessara starfa, gæti tekið ráðherradóminn að sér, og það finnst mér ekki heldur rétt.

Yfirleitt finnst mér, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé samið fyrst og fremst með hliðsjón af því að tryggja réttindi þess manns, sem í embættið er settur. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga í sjálfu sér, en það eru fleiri aðilar að þessu máli, sem mér finnst að mætti gjarnan taka tillit til líka.

Það eru fleiri tilvik, sem þarna þurfa að koma til athugunar. Mér dettur t.d. í hug, að á s.l. hausti gegndi ég um stuttan tíma embætti menntmrh. í fjarveru hans. Þá rak ég mig æði oft á, að það var verið að setja kennara í kannske annað, þriðja og jafnvel fjórða sinn, ég man ekki nákvæmlega árin, en þau voru eitthvað um þetta. Af hverju voru þessir menn settir? Það var af því, að það fékkst enginn maður með fullum réttindum til að sækja um starfið. Hins vegar var tekinn maður, sem hafði gegnt starfinu með góðum árangri, og settur til þess, en með það í huga, að undireins og maður kæmi, sem hefði fullan rétt til starfsins, yrði sá setti að víkja og sá, sem hefði fullan réttinn, að taka við. En þá dettur mér í hug, hvað skeður, ef það er búið að setja slíkan mann 4 sinnum í embætti og það er auglýst á hverju ári og enginn maður með fullum réttindum kemur, hvað á þá viðkomandi skólanefnd að gera, á hún að láta þennan, sem hefur verið settur í 4 ár, hætta, eða á hún að halda áfram, af því að hún getur ekki skipað hann, vegna þess að embættið verður að vera laust, ef einhver með fullum réttindum sækir? Þetta er tilvik, sem mér finnst vissulega að þyrfti að athuga í þessu sambandi. Kannske er það eitthvað fleira, ég hef ekki kannað það neitt, en mér dettur t.d. í hug, að það er oft og tíðum erfitt að fá lækna út í læknishéruð, jafnvel presta líka. Þá hefur sá háttur verið hafður á, að nábúalæknir eða nágrannaprestur eru settir til þess að gegna embættunum. Ef þetta ástand stendur í 4 ár eða meira, hvað á þá að gera? Á að láta héraðið vera læknislaust eða prestslaust, eða á að leyfa, að maðurinn sé settur lengur en 4 ár? Ég aðeins nefni þessi dæmi, hef raunar ekki haft aðstöðu til þess að fara grannt ofan i þau, en mér sýnist eins og þetta séu atriði, sem vissulega þurfa að koma til athugunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls, það sé ekki alveg eins einfalt og það er sett upp í frv. og þess vegna þurfi það betri athugunar við og það þurfi að taka fleiri tillit en til þess manns eins, sem í embættið er settur. Þetta er náttúrlega, að mér finnst a.m.k., alveg greinileg afleiðing af því, hvernig þetta frv. er til komið, út af setningu ákveðins manns í bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði og sýslumannsembættið í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem er yfirlýst tilefni til flutnings málsins.

Ég skal ekki eyða fleiri orðum að því að ræða frv., en ég vænti aðeins þess, að sú hv. n., sem fær málið til athugunar, athugi þessi atriði, sem ég hef bent á og mér finnst athugaverð í sambandi við afgreiðslu málsins.

En ég vildi þá með nokkrum orðum minnast á það, sem er yfirlýst tilefni til flutnings þessa frv., en það er veiting bæjarfógetaembættisins og sýslumannsembættisins í Hafnarfirði og Gullbringu- og Kjósarsýslu. Eins og kunnugt er, hafði Björn Sveinbjörnsson gegnt því starfi í 9 1/2 ár eða milli 9 og 10 ár og gert það að allra dómi, sem til þekktu, með ágætum. Nú sóttu um þetta starf 3 menn og allir að dómi allra, sem til þekkja, mjög vel hæfir til starfsins. Hvernig skyldi þá meta þeirra hæfileika og kvalifikasjónir á allan veg, sem yrðu þá úrslitaorð um það, hverjum veita skyldi? Við töldum, bæði ég og aðrir, sem til þekktum, að það bæri að veita Birni Sveinbjörnssyni starfið, vegna þess að löng setning í embættið, sem hefði verið rækt alveg átölulaust og að allra dómi vel í nærri áratug, gæfi honum það mikinn rétt, að það væri ekki hægt að ganga fram hjá honum. Hæstv. dómsmrh. var á annarri skoðun, og réð þar, eftir því sem mér skilst, m.a. það, að hann vildi láta mann, sem hefði starfað á tiltölulega afskekktum stað úti á landi, geta færzt í annað og betra embætti. Svona hlut er náttúrlega aldrei hægt að meta alveg hlutlægt og hreinlega segja: Þetta er sá, sem á að fá embættið. — Þetta verður alltaf persónulegt mat á þeim hæfileikum, sem menn hafa þar til brunns að bera. Okkar álit, sem vildum, að Birni Sveinbjörnssyni yrði veitt þetta, var það, að honum yrði veitt það af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt. Dómsmrh. hins vegar leit öðruvísi á málið, og hann hafði valdið. Við því var ekkert að segja, hann gat gert það eins og hann vildi, og hans niðurstöður í málinu hlutu að vera þær, sem giltu. Að senda honum ókvæðisorð út af þessu tel ég alveg fráleitt, því að engum dylst, að sá maður, sem valinn var, var einnig vel hæfur, þó að ég og fleiri hefðum talið, að Björn stæði embættinu nær.

En nú skeður það, að það upphefst mikil orrahríð út af þessari stöðuveitingu, og er kannske ekkert við því að segja. Það eru allir, sem i opinberu embætti eru, skyldugir til þess að taka gagnrýni og sætta sig við, að hún sé borin fram, ef hún er borin fram með rökum, en ekki með stóryrðum. En það, sem hefur blandazt inn í málið og ég, eins og ég sagði í upphafi míns máls, taldi ástæðuna til þess, að ég fór að taka hér til máls, er, að mér hefur virzt, að það hafi kennt annarlegra sjónarmiða hjá þeim mönnum úr stjórnarandstöðunni, sem hafa gagnrýnt þessa veitingu. Það er eins og þeim hafi verið annara um það heldur en sjálfa embættisveitinguna að koma einhvers konar höggi á okkur Alþfl.-menn í þessu sambandi. Það er eins og þeir hafi viljað reyna til hins ýtrasta að vita, hvort ekki væri hægt að skapa úr þessu það ágreiningsatriði, sem riði stjórnarsamvinnunni helzt að fullu. Þetta hefur komið mjög berlega fram, bæði hjá hv. flm. og eins hjá öðrum, sem um þetta hafa talað hér, og alveg sérstaklega í blöðum stjórnarandstöðunnar. Þetta getur verið mannlegt og eðlilegt, en það heyrir ekki út af fyrir sig sjálfri embættisveitingunni til.

Við lýstum okkar áliti á því, hver átti að fá þetta embætti, Alþfl: mennirnir, og fórum ekkert dult með það, hvorki við aðra ráðh. né heldur í okkar blöðum. En þegar dómsmrh. hæstv. hafði tekið sína afstöðu, er málinu að okkar sjónarmiði lokið. Jafnvel þó að við hefðum sagt af okkur ráðherradómi þann sama dag, þá gilti skipunin. Hún breyttist því ekki nokkurn skapaðan hlut, svo að það er um allt annað verið að ræða, þegar verið er að deila á okkur fyrir það að hafa ekki tekið upp einhverjar harðari aðgerðir í málinu. Það hefur verið sagt, að það hafi verið linlega tekið á því af okkur. Linlegar var ekki tekið á því þó heldur en það, að það var skýrt og skilmerkilega sagt, hvers við óskuðum. Hæstv. dómsmrh. hafði aðra skoðun á málinu. Hann réð. Við höfum ávallt í þessu stjórnarsamstarfi, og ég hygg, að það sé líka regla hjá flestum í samsteypustjórnum, talið, að sá ráðh., sem fer með einn málaflokk eða eitt rn., ráði einn því, hvernig þeim málum er skipað, þar komi ekki aðrir til.

Hv. 4. þm. Reykn. dró hér inn í annað mál og nefndi veitingu bankastjórastarfsins við útibúið á Akureyri og taldi, eftir því sem mér skildist, að þar hefði verið haldið öðruvísi á máli og jafnvel hótað samvinnuslitum, ef það mál yrði ekki afgreitt eins og Alþfl. óskaði eftir. Þetta er mikill misskilningur hjá hv. þm. Alþfl. hafði ekki uppi neinar hótanir í sambandi við það mál, hvorki í einu formi né öðru. En hins vegar tókst um það samkomulag milli fulltrúa Sjálfstfl. og fulltrúa Alþfl. í bankaráði Útvegsbankans, hver stöðuna hreppti. Það var því fjarri því, að þar væri um nokkrar hótanir að ræða, enda var embættisveitingin þannig, að hún var ekki á valdi neins einstaks manns. Til þess að hún gæti orðið með eðlilegum hætti, þurfti meiri hl. bankaráðs. Útvegsbankans að vera sammála um málið, svo að það er náttúrlega ekki sambærilegu að jafna, þegar þessar tvær embættisveitingar eru bornar saman.

Það hefur, eins og hér hefur komið fram í umr., oltið á ýmsu um embættisveitingar bæði fyrr og siðar, og telja sig ýmsir þar eiga högg i annars garði, og það er vissulega ekki unnt, þegar um embættisveitingu er að ræða, sem ekki byggist á nákvæmlega exakt hlutum og eingöngu á persónulegu mati eins manns, að ætlast til þess, að allir hafi á því sömu skoðun. Við létum okkar skoðun í ljós og það mjög eindregið, en eins og ég segi og hef margsagt, hæstv. dómsmrh. leit á málið öðruvísi. Þá var málið að okkar dómi útkljáð.

Þá er aðeins eftir eitt í þessu, hvort Alþfl. eða hans ráðh. hefðu átt að gera það að kabinetsspursmáli, ef ég svo má kalla, að úrslitaatriði um stjórnarsamvinnu, að þetta mál fékk afgreiðslu eins og það fékk. Ég held, að það hafi verið sameiginleg skoðun okkar allra Alþfl.- manna, að slíkt kæmi ekki til greina, því að samvinna núv. stjórnarflokka hefur ekki verið byggð upp á því, hvaða menn fengju vissar stöður. Hún hefur hins vegar látið það blessunarlega afskiptalítið og látið hvern mann afgreiða sitt mál hvað það snertir. En hitt hefur hún náttúrlega gert, samstarfið hefur byggzt á því að hafa samstarf um lausn ákveðinna mála, en ekki á hinu, hvaða maður hreppti eitthvert ákveðið embætti. Og ég segi fyrir mig, að það er mitt mat á því stjórnarsamstarfí, sem nú hefur staðið óvenjulega lengi eða talsvert á annað kjörtímabil, að það hafi gengið svo snurðulitið málefnalega, að við höfum ekki séð neina ástæðu til þess að rjúfa það stjórnarsamstarf, og við höfum eingöngu metið það út frá þeim árangri, sem náðst hefur í þeim málefnum, sem stjórnin hefur farið með afgreiðslu á. Og ég skal segja það hv. 4. þm. Reykn., að það verður ekki sótt til hans um það, hvenær við slítum því stjórnarsamstarfi eða ekki. Við munum gera það upp í Alþfl. og þá ekki fara eftir mannaráðningum fyrst og fremst, heldur eftir því, hvaða árangri er unnt að ná í stjórnarsamstarfinu.

Ég tel svo ástæðulaust, að ég hafi um þetta fleiri orð. Ég hef gert grein fyrir bæði afstöðu minni til frv., sem ég tel að þurfi athugunar við, og ég hef líka gert grein fyrir afstöðu okkar Alþýðuflokksmanna með tilliti til þeirrar embættisveitingar, sem hér hefur átt sér stað og er tilefni til þess, að frv. er flutt.