23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2333)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða mjög langorður um þetta mál, sem hér liggur fyrir. Hins vegar vil ég lýsa yfir stuðningi mínum við það.

Eins og aðrir hv. ræðumenn, sem hér hafa talað, og þá fyrst og fremst flm. frv. hefur lýst, þá er sá galli á löggjöfinni um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að þar er ekki að finna nein tímamörk um það, hversu lengi maður skuli settur til að gegna opinberri stöðu eða embætti. En nú er komið fram hér frv., sem mundi bæta úr þessum ágalla, ef að lögum yrði. Það er vissulega tímabært, að slík löggjöf verði sett, því að reynslan sýnir, að hún er bæði eðlileg og nauðsynleg, og auk þess á hún sér nokkra hliðstæðu í rétti annarra þjóða, eins og bent hefur verið á hér af hv. flm. og fleirum, sem talað hafa. Ég tel því vel á því fara, að Alþingi taki þetta mál nú upp, og vil þá einnig láta í ljós von mína um, að þetta frv. verði samþ., a.m.k. að efni til, enda hafa þeir hæstv. ráðh., sem talað hafa, bæði hæstv. dómsmrh. og nú síðast hæstv. utanrrh., að því mér virtist, tekið nokkuð vel i efni frv., og er þess þá að vænta, að þeir ljái atfylgi sitt til þess, að frv. nái fram að ganga að efni til, þó að ef til vill sé ástæða til að gera á því einhverjar breytingar, sem ég skal ekkert um segja.

Það er að verða allútbreiddur og ámælisverður ósiður og það einkum nú í seinni tíð, að ráðh. haldi óhóflega lengi fyrri embættum sínum, m.a. með þeim hætti, að settir eru menn í þeirra stað til þess að gegna embættunum, og beinlínis að geyma þau handa þeim. Þetta er í alla staði óheppilegt og óeðlilegt og ekki í samræmi við þá meginhugsun, sem liggur að baki l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og þá nauðsyn, sem viðurkennd er á því að skapa festu og form í embættiskerfinu. Og alveg sérstaklega er þetta óheppilegt, þegar um er að ræða dómara, sem þurfa að vera óháðir í störfum sínum og hafa fasta og örugga setu í stöðum sínum og embættum.

Nýjustu dæmin af þessu tagi varða ráðh. í núverandi stjórnarsamsteypu, og frægasta dæmið er auðvitað af Guðmundi Í. Guðmundssyni, fyrrv. utanrrh., sem mikið hefur verið um rætt hér, en hann hélt embætti sínu í Hafnarfirði opnu fyrir sig í full 9 ár. Hæstv. viðskmrh. var mjög viðkvæmur fyrir því í gær, þegar á það var bent hér í umr., að enn væri opin prófessorsstaða hans við Háskóla Íslands, en það er alkunna, að hann hefur ekki gegnt kennslustörfum í háskólanum í 9 ár, eða síðan hann settist á ráðherrastól árið 1956, en þó telst hann samkv. kennsluskrá einn af kennurum háskólans. Hvort einhverjar sérstakar ástæður séu fyrir því, að embætti hans stendur enn opið og ófyllt, þannig að hæstv. ráðh. eigi einhverjar sérstakar málsbætur öðrum fremur, skal ég ekki um dæma, og ég get vel unnt hæstv. ráðh. málsbóta. Hins vegar minnir dæmið af hæstv. viðskmrh. dálitið á annað dæmi utan úr heimi, en þannig stendur á, að einn af eilífðarráðherrum þessa heims, doktor Salazar í Portúgal, er hagfræðiprófessor, og það hefur staðið í mörg ár í kennsluskrá háskóla hans, sem ég kann nú ekki raunar að nefna, að hann hafi „frí frá kennslu þetta missiri“.

En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er fram komið í því skyni að binda enda á þann ósið að hafa óskipað í mikilvæg embætti árum saman. Og víst mætti slíkt frv. hafa komið fram fyrr. En ástæðan til þess, að svo hefur ekki orðið, er væntanlega sú, að misneyting aðstöðu á þessu sviði hefur aldrei verið eins yfirþyrmandi og á síðasta áratug. Og nú er líka ljóst orðið, að þetta fyrirkomulag getur tekið á sig allfáránlegar myndir, eins og gerst hefur sannazt í sambandi við veitingu bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði og sýslumannsembættisins í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar hefur sami maður, Björn Sveinbjörnsson, gegnt störfum bæjarfógeta og sýslumanns í 9 ár samfleytt við ágætasta orðstír og almennar vinsældir, en þegar hinum skipaða sýslumanni þóknast loks að segja af sér eftir nærri því áratugs fjarvistir frá embætti sínu, þá er hinn setti sýslumaður og bæjarfógeti, sem gegnt hefur embættinu allan þann tíma, talinn einna fjærst því að koma til greina sem skipaður eftirmaður hans. En hafi Björn Sveinbjörnsson verið hæfur til að gegna embætti þessu síðustu 9—10 árin, hlýtur hann að hafa áunnið sér allmikinn og að mínum dómi fullan siðferðilegan rétt til þess að halda embættinu til frambúðar, þegar það losnaði úr þessum viðjum, sem voru ekki annað en formið eitt.

Ég vil undirstrika það, að hin langa og samfellda setning Björns í embætti veitir honum alveg sérstakan rétt til þess að fá skipun í embættið, ekki sízt þegar þess er gætt, að hann hefur ekki einungis reynzt óaðfinnanlegur embættismaður, heldur beinlínis frábær að reglusemi og skyldurækni og ágætlega til forustu fallinn. Það kemur kannske gleggst fram í viðbrögðum undirmanna hans hjá embættinu og hreppstjórum þeim, sem undir hann voru gefnir, og skal ég ekki rekja frekar þau viðbrögð, sem eru öllum kunn.

Hæstv. dómsmrh. átti viðtal við Morgunblaðið um þetta mál fyrir nokkrum dögum, og er af því sýnt, að honum er mjög í mun að verja sig því ámæli, sem hann óneitanlega hefur orðið fyrir hjá almenningi og þar á meðal ekki sízt hjá eigin flokksmönnum sínum út af þessari embættisveitingu.

Í Morgunblaðsviðtalinu segir hæstv. dómsmrh., að setning í embætti veiti hvorki lagalegan, venjuhelgaðan né siðferðilegan rétt til skipunar í embætti framar mörgu öðru. Það má vel vera, að svo sé í mörgum tilfellum. Lagalegi rétturinn er vissulega óljós og réttur, sem leiddur yrði af venjum eða fordæmum, síður en svo skýr. Ég fellst alveg á það með hæstv. ráðh. En að mínum dómi er það alrangt hjá hæstv. dómsmrh., þegar hann heldur því fram, að óvenjulega löng setning í embætti veiti engan siðferðilegan rétt til skipunar. Þessi fullyrðing kemur fram í Morgunblaðsviðtalinu, og hæstv. ráðh. margendurtók þetta álit sitt í ræðu sinni í gær. En þessi hugsunargangur er ekki einasta rangur, hann er líka skaðlegur og ekki í neinu samræmi við almenna réttarvitund, en hún hlýtur þó að vega nokkuð þungt, þegar kveðnir eru upp dómar eða teknar mikilvægar stjórnvaldsákvarðanir.

Hæstv. ráðh. hefur hér orðið á alvarleg skyssa, sem hann getur ekki komizt undan að hljóta ámæli af. E.t.v. hefur hæstv. ráðh. verið borinn ráðum í þessu máli, ellegar hann hefur ekki athugað, til hvers gerðir hans leiddu, þegar hann tók ákvörðun sína um veitingu embættisins. En hvort heldur sem er, þá er ákvörðun hans ámælisverð, enda deginum ljósara, að hann liggur undir miklu ámæli, sem afsakanir hans fá engu um þokað.

Nú er ég síður en svo í skapi til þess að gera hæstv. dómsmrh., Jóhanni Hafstein, upp grófar valdníðslutilhneigingar. Ég hef satt að segja allt aðrar skoðanir á manngildi hans og þekki hann að allt öðru. En í þessu tilfelli hefur hann augljóslega beitt veitingarvaldi sínu ranglega, og er illt til þess að vita, enda þykir mér líklegt, að hann hafi ekki verið þar einn í ráðum frekar en strákurinn í helli skessunnar.

Björn Sveinbjörnsson átti vissulega siðferðilegan rétt til embættisins. Það starf, sem hann hafði gegnt í nærfellt áratug við frábæran orðstír, stóð auðvitað engum nær en honum. Að halda öðru fram er að misbjóða réttlætis- og siðgæðisvitund almennings, sem enn þá er ástæða til að taka tillit til, þó að pólitísk siðgæðisvitund sumra helztu ráðamanna þjóðarinnar kunni að vera í sljórra lagi. En það er ekki alltaf skynsamlegt að halda mann af sér, slíkt getur komið í koll, og að misbjóða almenningsálitinu er heimska.

Sú útilokunaraðferð, sem hæstv. dómsmrh. notaði í þeim tilgangi að sneiða hjá Birni Sveinbjörnssyni, var böksuleg og beinlínis órökrétt. Hæstv. ráðh. hefur lýst því, hversu átakanlegur vandi honum hafi verið á höndum með veitingu þessa feita embættis. Við höfum fengið mjög nákvæma analýsu á röksemdafærslu hans. Umsækjendur voru þrír: Björn Sveinbjörnsson, settur til að gegna embættinu í 9 1/2 ár, Jóhann Gunnar Ólafsson, sýslumaður í Ísafjarðarsýslu í 22 ár, og Einar Ingimundarson, bæjarfógeti á Siglufirði í 13 ár. Sameiginlegt öllum þessum umsækjendum var það, að þeir teljast hæfir í starfið og eru allir álitnir ágætir embættismenn.

Jóhann Gunnar átti lengstan starfsferil að baki. Hæstv. ráðh. er ljóst, að sú staðreynd vegur nokkuð þungt á metaskálum réttsýninnar, og við það staldrar hann dálitla stund. En þá rekur hæstv. ráðh. sig á annað: Jóhanni Gunnari er aldur mjög að meini. Hann er nefnilega orðinn 62 ára, og hæstv. dómsmrh. ályktar með því kurteislega orðalagi, að Jóhann Gunnar sé helzt til fullorðinn til þess að gegna embætti sýslumannsins í Hafnarfirði. Hins vegar fara ekki sögur af því, að hæstv. ráðh. telji þennan sama Jóhann Gunnar helzt til fullorðinn til þess að vera sýslumaður vestur á Ísafirði, og má það eiginlega furðulegt heita, því að ég hugsa, að sýslumannsembættið á Ísafirði sé kannske engu erfiðisminna heldur en hér á flatlendinu við Faxaflóa. Eins tekur hæstv. ráðh. ekki tillit til þess, að embættisaldur að lögum nær til sjötugs og útilokun Jóhanns Gunnars á þeim forsendum, sem hæstv. ráðh. beitir, því ótæk. Um það þarf ekkert að deila, þó að hæstv. ráðh. orði það svo, að það sé hægt að deila um þetta. Um það er ekki hægt að deila. Það eru þá eingöngu þeir, sem vilja deila og eru deilugjarnir, sem nenna að jagast um slíkt.

Þegar hæstv. dómsmrh. var nú blessunarlega laus við að hafa áhyggjur af Jóhanni Gunnari Ólafssyni, þá snýr hann sér að hinum tveimur, sem eftir eru, Birni Sveinbjörnssyni og Einari Ingimundarsyni, og Einar hafði fljótt allan vinning yfir Björn í augum hæstv. ráðh. Einar hafði verið skipaður bæjarfógeti í 13 ár á Siglufirði við erfiðar aðstæður að dómi hæstv. ráðh., en Björn Sveinbjörnsson aðeins settur í sýslumannsembættið í Hafnarfirði í 9 ár eða „fékk að vera í embættinu“, eins og hæstv. ráðh. orðar það af mikilli smekkvísi, og „notið þess með alveg sérstökum hætti“, eins og hæstv. ráðh. kallar það einnig af enn meiri smekkvísi í Morgunblaðsviðtalinu. Auk þess finnst hæstv. ráðh. það réttlætanlegt, að hægt sé að flytja embættismenn utan af landsbyggðinni í fjölmennið til betri embætta. Þetta virðist þó aðeins eiga við um suma embættismenn, en aðra ekki. Það virðist t.d. ekki eiga við um Jóhann Gunnar Ólafsson.

Af þessum orðum hæstv. ráðh. mætti ætla, að Einar Ingimundarson hafi lagt á sig stranga skyldukvöð með veru sinni á Siglufirði. En ég er sannfærður um, að svo er ekki. Ég held þvert á móti, að Einari Ingimundarsyni hafi verið það ljúf þjónusta að starfa sem yfirvald og forustumaður í málefnum Siglfirðinga og síðar Norðlendinga, og það er bjarnargreiði við þá að svipta þá góðu yfirvaldi og ágætum manni á bezta starfsaldri. Úr því að starfsaldursreglan var ekki látin ráða, að því er tók til Jóhanns Gunnars Ólafssonar, þá skiptir munurinn á starfsaldri Einars Ingimundarsonar og Björns Sveinbjörnssonar alls engu máli í þessu sambandi.

Hæstv. ráðh. hefur í þessu máli reynzt ósamkvæmur sjálfum sér, og það er slæmt, og hann beitir þarna alröngum forsendum í ákvörðun sinni, raunar tyllirökum, sem ekki standast, og það var miklu betra fyrir hæstv. ráðh. að segja ekki neitt heldur en að bera annað eins og þetta á borð fyrir alþjóð. Það skín augljóslega í gegn, að hæstv. ráðh. ætlaði embættið einum ákveðnum manni og öðrum ekki. Vissulega hafði sá maður margt til brunns að bera, það vitum við, sem hann þekkjum, bæði starfsreynslu og mannkosti, en það gaf þessum hv. þm., sem hér á í hlut, ekki rétt í þessu tilfelli að hljóta umrætt starf.

Ef starfsaldursreglan ein hefði verið höfð að leiðarljósi, þá var kannske ekkert eðlilegra en að Jóhann Gunnar hefði fengið embættið. En nú fór hæstv. ráðh. ekki eftir þeirri reglu í samskiptum sínum við Jóhann Gunnar, og þá átti hann ekki heldur, ef hann vildi vera sjálfum sér samkvæmur, að gera tilraun til þess að nota hana, þegar hann var að velja á milli Einars Ingímundarsonar og Björns Sveinbjörnssonar.

Að mínum dómi hefði hæstv. ráðh. átt að líta á málið frá allt öðru sjónarmiði og taka tillit til þess, að þarna var um óvenjulegt mál að ræða, sérstakar aðstæður, sem gefa varð náinn gaum að. Hinar sérstöku aðstæður voru þær, að Björn Sveinbjörnsson hafði gegnt sýslumannsembættinu óslitið í nærfellt áratug, en ekki bara nokkra mánuði, eins og gjarnan er um þá, sem settir eru til að gegna embættum. Þessi langa setning í embætti skapaði Birni sérstakan rétt til þess að hljóta skipun í starfið, þegar það losnaði og ef hann óskaði eftir því. Ef hæstv. ráðh. hefði gert sér þetta ljóst, þá hefði hann ekki stefnt málinu inn í þá torfæru, sem raun ber um vitni, og þá hefði hann ekki unnið til þess ámælis, sem hann hefur gert.

Ég vil að lokum endurtaka von mína um það, að frv. það, sem hér er á dagskrá, nái fram að ganga, að efni til a.m.k., enda felst í því fyrirheit um betri réttarstöðu opinberra starfsmanna og meiri festu í embættisskipun. Með lögfestingu þessa frv. yrði bætt úr ágalla á gildandi löggjöf, og þess vegna horfir frv. til bóta.