23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Samkvæmt þeim umr., sem hér hafa farið fram, er svo að sjá, að embættisveitingin í Hafnarfirði hafi orðið til einna mestu siðabóta og hugarfarsbreytingar, sem dæmi eru um í íslenzku þjóðlífi. Það er stundum sagt, að Íslendingar hafi farið varhluta af trúarvakningum, en ég verð að segja, að ég heyri ekki betur en hér sé um hreina trúarvakningu að ræða, einkanlega hjá hv. framsóknarmönnum, en raunar einnig hjá hv. Alþýðubandalagsmönnum.

Ég heyrði ekki betur en talsmaður Alþb. í gær væri orðinn svo eindreginn forsvarsmaður eignarréttar og þeirrar löghelgunar, sem venjan skapaði í þjóðfélagi, að í raun og veru nægði það eitt, ef maður kæmi inn í embættisskrifstofu og færi að gegna embætti, þá ætti hann óbrigðulan rétt til þess að sitja þar. Það var margt eftirtektarvert, sem hv. talsmaður Alþb., hv. 3. landsk. þm. (IRH), sagði. Fátt sýnir betur, ef marka má, þá miklu síðferðisvakningu, sem hér hefur hafizt af þessari embættisskipun, heldur en ræða hans, borið saman við þau verk, sem hann og hans félagar hingað til hafa einkum tekið að sér að verja og ein talið líkleg til sáluhjálpar fyrir Íslendinga.

Varðandi hv. framsóknarmenn, þá verð ég að segja, að það á vissulega ekki lengur við, að „heimur versnandi fari“. Hér áður fyrr þurftu menn á mannamótum, á Alþingi og víðs vegar um landið að deila um það, hvort staðizt fengju embættisveitingar, sem voru þannig til komnar, að embættin voru ekki veitt, í þau var sett, vegna þess að það var verið að koma í embættin mönnum, sem fullnægðu ekki embættisskilyrðum, og þeir voru látnir vera þarna settir 3 ár hjá sjálfum sér til þess að fullnægja því skilyrði, sem sagði, að þeir mættu ekki í embættið koma, fyrr en þeir hefðu gegnt svipuðu starfi í 3 ár. Auðvitað var þarna verið að koma í embætti mönnum, sem fullnægðu ekki lagaskilyrðum, voru ekki að réttum lögum hæfir til þess að vera í embættunum.

Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þessi listi var ljótur. Það er gott að fá tækifæri til þess að rifja hann upp. Það er gott og mun verða eftir því gengið, ef Framsfl. er raunverulega búinn að breyta um skoðun. En þetta tækifæri skal líka verða notað, þótt ég ætli ekki að gera það hér í dag, til þess að rifja upp embættisveitingar og feril Framsfl. í þeim.

Ég veit ósköp vel, að það verður sagt, að ekki farist mér að tala, þannig hafi mínar embættisveitingar til tekizt. Ég skora á hv. framsóknarþm. að koma hér og ganga í gegnum hverja einustu embættisveitingu mína á sýslumanns- og dómaraembættum í landinu, ræða hana, rökræða hana, gagnrýna hana og hlusta á þær röksemdir, sem til hennar lágu, og bera saman við það, sem þeirra fyrrv. formaður, hv. 1. þm. Vestf., lét eftir sig í þessum efnum. Ég skora á þessa hv. þm. því frekar að gera þetta, þar sem þeir hafa látið sér sæma að halda því fram í blaði sínu, að það hafi helzt verið ástæða fyrir skipun Einars Ingimundarsonar í embætti, að hann sé mágur bróður míns, að því er ég hygg. Nú skora ég á þessa hv. þm. og bið þá um að nota tækifærið: Færi þeir öll þau dæmi, sem þeir kunna um, að ég hafi veitt venzlamönnum mínum embætti. Ég skora á þá að gera það hér fyrir þingheimi. Ég skora á þá að gera það í þeirra blaði, svo að menn geti um þetta dæmt. Láti þeir nú ekki sitja við dylgjur einar og róg, heldur tali um málin, eins og þau liggja fyrir í raun og veru.

Það er óneitanlega dálítið hlálegt, þegar er verið að færa það einnig á móti Einari Ingimundarsyni, sem hefur fengið þetta embætti, að hann sé þm. Sjálfstfl. Það liggur fyrir, að hann hefur sagt af sér þingmennsku frá þeim tíma, að hann á að taka við embættinu, vegna þess að hann telur híð nýja embætti sitt svo umfangsmikið, að þingmennska sé ekki því samrýmanleg. Það er hans skoðun á embættinu. Það var að hans eigin hvötum og vilja gert, sem hann tók þessa ákvörðun. Það er því algerlega rangt, þegar því er haldið fram, að þarna sé verið að setja pólitískan erindreka, pólitískan riddara, eins og hv. 3. landsk. þm. sagði í gær.

Hinn nýi embættismaður hefur ákveðið að leggja niður þingmennsku og hætta þar með þeim stjórnmálaafskiptum, sem hann undanfarin ár hefur haft. Nú má um slíka ákvörðun deila, og ég tek alls ekki undir það, sem hv. 3. landsk. þm. sagði í gær, að það væri almennt æskilegt, að sýslumenn og bæjarfógetar tækju ekki þátt í stjórnmálum. Ég þori að fullyrða, að Íslendingar hafa með kjöri á fulltrúum til Alþ. fyrr og síðar sýnt, að þeir treysta fáum betur en einmitt mönnum úr þessari stétt til þess að gegna því trúnaðarstarfi að sitja á Alþ. Öll vitum við, að margir af helztu þing- og þjóðskörungum í stjórnmálasögu Íslands, frá því að Alþ. var endurreist, eru einmitt menn úr þessari stétt. Það er auðvitað mjög villandi, þegar fyrst og fremst er talað um störf þessara manna eins og þeir væru dómarar. Nú er það að vísu svo, að það er hvergi nærri alls staðar, að dómurum sé bannað að sitja á þjóðþingum. Það er tiltölulega nýtt ákvæði í íslenzkri stjórnskipun, að umboðsstarfalausir dómarar megi ekki sitja á Alþ. Í öðrum löndum eru þeir kjörgengir eins og hverjir aðrir, t.d. í okkar næsta nágrannalandi, með hinni norsku frændþjóð okkar. Þar eru dómarar kjörgengir eins og hverjir aðrir. En hér á landi vitum við, að dómarastörfin hjá öllum þorra embættismanna utan Reykjavíkur eru algert aukastarf. Það er ein af ástæðunum fyrir því, að vafizt hefur fyrir mönnum að koma á þeirri breytingu, sem út af fyrir sig væri æskileg, að greina á milli dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði. Þetta verður ekki gert nema með því að taka dómsvaldið að mestu leyti úr héruðunum, sameina það á einhverjum fáum stöðum á landinu, 1, 2, 8 í mesta lagi. Við þá breytingu hafa menn að vonum verið hikandi. Hitt skulum við játa, að það er út af fyrir sig ekki æskilegt, að sömu aðilar fari með dómsvald og framkvæmdavald. Það er ákvæði, sem þarf að breyta. En það er eins og margt fleira töluvert flóknara að koma á skynsamlegri breytingu heldur en finna að meinsemdinni.

Nei, það, sem er eftirtektarvert við þessa embættisveitingu, hvort sem hún hefur komið meira róti á hugi manna en ýmsar aðrar embættisveitingar eða ekki, það er mál fyrir sig, — ég er sannfærður um, að það sé að verulegu leyti tilbúið hugarrót, sem hér er um talað, látum það vera, segjum, að öll gagnrýnin væri af heilum huga mælt og án nokkurs áróðurs, sem uppi er hafður, — þá segi ég: Fátt sýnir betur þá gjörbreytingu til hins betra, sem orðið hefur í íslenzku þjóðlífi, frá því að framsóknarveldið var mest, þegar misbeitingarnar áttu sér stað milli 1935 og 1940 og menn urðu að taka því án þess að fá við gert, að menn voru skipaðir í embætti, sem eftir réttum lagabókstaf fullnægðu ekki hinum settu reglum, voru ekki hæfir til embættisins.

Nú játa allir, að jafnvel sá embættismaður, sem þeir deila á að hafi fengið embættið, sé fyrirtaksmaður, hann sé fullkomlega hæfur til embættisins. Þeir vilja ekki eitt misjafnt orð um hans embættisfærslu segja, sem þeir geta ekki heldur gert. Þarna er því um það að ræða og kemur öllum saman um, að þrír hæfir menn voru í boði um eina stöðu, og þá er það eftir lögum og rétti á valdi og mati þess, sem veitingarvaldið hefur, að ákveða, hver af þessum þremur eigi að fá það. Ef réttlætistilfinningin er nú orðin þeim mun þroskaðri en hún var fyrir 30 árum, að það kemur raunverulegu róti á hugi manna, að deila megi um, hver einn af þremur hæfum sé sá hæfasti, þegar ekki fékkst spornað við því fyrir 30 árum, að menn voru skipaðir ólöglega eða með mjög hæpnum rétti í stöður, þá er vissulega um mikla breytingu að ræða, breytingu ekki aðeins sem við sjáum dags daglega í efnahagslífinu frá því, sem þá var, heldur í réttarfarsþroska og mati almennings á því, hverjar kröfur skuli gera um velsæmi í opinberu lífi.

Nú er talað um það, að sá setti embættismaður, sem fékk ekki embættið, hafi endurnýjað verið beðinn um það af dómsmálastjórninni að vera kyrr í þessu starfi. Mér er ekki kunnugt um, að nein slík ósk hafi komið fram frá mér, þegar ég var hans yfirmaður sem dómsmrh. Maðurinn stóð sig vel í stöðunni. Hann var ekki aðfinningarverður á neinn veg. Ég hvorki bað hann um að vera kyrran né bað hann mig um að fá vissu um það, að hann fengi embættið. Hann vissi ósköp vel, að hverju hann gekk, að hann var settur í stöðuna, en ekki skipaður, að hann var meira að segja settur samkv. ósk þess manns, sem hann gegndi stöðunni fyrir, þótt dómsmrn. hefði formlega veitt sína heimild og sína staðfestingu á setningunni. Hann gat þess vegna búizt við því að þurfa að hverfa úr embættinu, hvenær sem var. Þetta var þeim góða manni fyllilega ljóst. Ef hann vildi fá frekara öryggi, var ekkert hægara fyrir hann en að koma til okkar, hvenær sem var, og segja: „Nú uni ég ekki þessu hátterni lengur“. Hann gat tjáð mér það sem dómsmrh., að hann vildi ekki una þessu. Hann gat tjáð hæstv. fyrrv. utanrrh., að hann vildi ekki gegna embættinu lengur fyrir hann. Hann lét ekki í sér heyra við mig allan þann tíma, sem ég var í dómsmrh.-embætti. Það er þess vegna algerlega rangt, að það hafi verið gert á hlut þessa manns á þann veg, að hann hafi ekki vitað, á hverju hann átti von, við hvaða réttaróvíssu hann þurfti að búa.

Svo er sagt og látið eins og það sé fáheyrt, að það sé tekið tillit til aldurs manns varðandi stöðuveitingar, og sagt, að Lárus Jóhannesson hafi verið orðinn 64 ára gamall, þegar hann var skipaður hæstaréttardómari, — hvort hann var 64 eða 62, skiptir ekki máli. Það er auðvitað töluvert umsvifameira embætti að vera bæjarfógeti og sýslumaður með þeim margþættu störfum, sem undir það embætti heyra í fjölmennasta héraði landsins utan Reykjavíkur, Gullbringu- og Kjósarsýslu, heldur en vera einn af hæstaréttardómurum, sem í starfi sínu sitja kyrrir í sínum stólum og bera ráð sín saman. Látum það vera.

En er það þá alveg fáheyrt, og hefur það aldrei skeð áður, er það ekki það, sem iðulega er gert, að það er metið á milli umsækjenda og hæfir umsækjendur látnir víkja fyrir yngri umsækjendum vegna þess, að eins og á stendur þyki réttara, að yngri menn fái umsvifamikil embætti? Ég minni á eitt embætti. Það hefur verið talað um grein, sem Páll Kolka skrifaði um þetta mál. — Hann sótti á sínum tíma um landlæknisembættið ásamt Sigurði Sigurðssyni og e.t.v. einhverjum fleiri. Kolka var þá orðinn 64 ára gamall. Ég hygg, að flestir hafi verið sammála um það, að hvað sem hans pólitísku skoðunum líður, — látum þær eiga sig, báðir þessir menn eru sjálfstæðismenn, — þá væri Kolka tvímælalaust einn af fremstu héraðslæknum landsins og ætti allt gott skilið í embættisveitinguna. En ég hef ekki heyrt nokkurn mann gagnrýna það, að Sigurður Sigurðsson var valinn, einmitt vegna þess að hann var á léttara skeiði, en hinn orðinn fullroskinn. Svo koma hv. framsóknarmenn hér, tveir, hvor eftir annan, góðir lögfræðingar og mætir menn, ekki skal ég gera lítið úr þeirra framúrskarandi rökhyggju og speki, en reynsluskorturinn sýnist vera ósköp áberandi, og segja: „Ef á að taka tillit til þess, að maður sé innan við sjötugt, þá er eins gott að reka þá burtu, þá á að færa embættisaldurinn niður.“ Ég spyr, hvort þeir sjái minn góða vin og fyrrv. samstarfsmann, hv. 1. þm. Austf., sitja þarna. Þeir geta spurt hann um skipti hans við Magnús Gíslason. Spyrjið þið Eystein Jónsson um skipti hans við Magnús Gíslason. Var Magnús Gíslason látinn sitja til sjötugsaldurs sem skrifstofustjóri í fjmrn.? Nei, Eysteinn Jónsson, þáv. fjmrh., samdi við Magnús Gíslason að vísu á kostnað ríkissjóðs, látum það vera um að hverfa úr embætti til þess að fá Sigtrygg Klemenzson sem ráðuneytisstjóra. Sigtryggur Klemenzson er prýðilegur maður, ágætur maður. En eftir orðum hv. þm. var þarna sparkað í Magnús Gíslason, hann hrakinn burt, brotin lög, velsæmi og allt hvað heiti hefur. Menn verða að vita eitthvað, um hvað er verið að tala. Er það þá rétt, að Eysteinn Jónsson hafi brotið á móti siðferði og réttum lögum og þessir hv. þm. séu raunverulega snúnir á móti Eysteini og Hermanni? Eða er þetta bara hræsni og leikaraskapur? Er siðferðishreyfingin í alvöru? Er þetta umvending, eða eru þetta lítil börn, sem eru að leika sér? Eða eru litlu puntudrengirnir hans Eysteins að sýna, að þeir hafi unnið fyrir mat sínum?

Hv. 3. landsk. þm. sagði hér í gær, að ég bæri aðalábyrgðina á því, að hér hefði þróazt sá siður, að menn héldu lengi embættum, meðan þeir væru í ráðherrastöðum. Þetta var efni þess, sem hann sagði, — hann leiðréttir, ef ég fer rangt með. Ég bæri á þessu aðalábyrgð. Hv. þm. er ungur, og hann hefur ekki jafnreyndan kennara og hinir hafa, þar sem Eysteinn Jónsson er, svo að honum er kannske vorkunn, þó að hann ruglist dálítið í ríminu.

Ég fór að rifja það upp fyrir mér í morgun, án þess að geta tekið nokkuð saman heillegt um það, heldur eftir minni, hvernig hefði verið með setningu í stöður í stað ráðh. og hverjir bæru þar mesta ábyrgð og hvað hver um sig hefði verið lengi úr embætti.

Er þá fyrst þess að geta, að fram eftir var sá háttur hafður, að jafnvel þó að staða væri geymd handa ráðh., sagði hann af sér og fékk skipun í embættið aftur. Þetta átti sér stundum stað, en engu að síður hófst það mjög skjótlega, að ekki er um að villast, að stöður voru geymdar handa ráðh.

Þriðji innlendi ráðh., Kristján Jónsson, var dómsstjóri í Landsyfirréttinum. Embættinu var haldið lausu, meðan hann var ráðh., og hann tók síðar við embættinu aftur með formlegri skipun.

Næsti eftirmaður hans var Hannes Hafstein, sem þá var bankastjóri í Íslandsbanka. Kristján var ráðh. í eitthvað rúmt ár. Hannes var í seinna skiptið eitthvað hér um bil 2 ár. Hann kom inn í Íslandsbanka aftur, þegar hann hvarf úr ráðherraembættinu 1914.

1915 verður Einar Arnórsson, sem var prófessor, ráðh. Embættinu við lagadeildina er haldið lausu handa honum, og hann er aftur skipaður prófessor 1917.

1922 verður Magnús Jónsson lagaprófessor ráðh. Embættinu við lagadeildina er haldið opnu handa honum, og þegar hann hverfur úr ráðherraembætti eftir eitthvað eitt ár, verður hann aftur prófessor.

1931 verður Ásgeir Ásgeirsson fræðslumálastjóri ráðh. og gegnir ráðherraembætti þangað til 1934. Hann hverfur aftur til fræðslumálastjóraembættisins, þegar hann fer úr ráðherrastólnum.

1934 verður Hermann Jónasson ráðh., hinn mikli leiðbeinandi siðbótarmannanna. Hann heldur lögreglustjóraembættinu opnu frá 1934 þangað til í ársbyrjun 1940, sem sagt í 6 ár hér um bil.

1942 verður Einar Arnórsson, sem þá er orðinn hæstaréttardómari, ráðh. í 2 ár. Hæstaréttardómaraembættinu er haldið opnu handa honum.

Jóhann Sæmundsson verður ráðh. í þessari sömu stjórn, að vísu fáa mánuði. Hann er tryggingayfirlæknir, og embættinu er haldið lausu handa honum.

Í sömu stjórn verður ráðh. Vilhjálmur Þór. Hann var bankastjóri Landsbankans og er ráðh. frá 1942—1944. Hann mun hafa tekið við Landsbankanum strax aftur, þegar hann hætti að vera ráðh.

Emil Jónsson var vitamálastjóri, þegar hann fór í nýsköpunarstjórnina. Hann hélt þeirri stöðu, meðan hann sat þar og einnig í stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar.

Stefán Jóhann var forstjóri Brunabótafélagsins, áður en hann varð forsrh., og hélt þeirri stöðu, meðan hann var ráðh.

Hermann Jónasson var lögfræðilegur ráðunautur Búnaðarbankans, þegar hann varð ráðh. 1950. Hann hélt þeirri stöðu og fór í hana aftur, þegar hann hætti að vera ráðh. 1953. Og hann gegndi henni þangað til hann varð forsrh. 1956, var forsrh. til 1958, og þá beið þessi góða staða enn þá opin handa honum.

Síðan komu þeir, sem voru í vinstri stjórninni með Hermanni, Guðmundur Í. Guðmundsson og Gylfi Þ. Gíslason. Talað hefir verið um þá núna. Emil Jónsson var nokkra stund til bráðabirgða.

Í Alþfl.-stjórninni var Friðjón Skarphéðinsson bæjarfógeti á Akureyri. Hann fékk frí frá sinni stöðu, meðan hann gegndi því starfi.

Svona getum við talið áfram. Ég skal ekki rekja það, sem hefur skeð á síðustu árum, það er kunnugt. Það er ekki vegna þess, að ég sé hræddur við að minnast á það. Gunnar Thoroddsen fékk frí frá borgarstjóraembætti fyrsta árið, sem hann var fjmrh. Jóhann Hafstein hefur enn þá frí frá bankastjóraembætti Útvegsbankans, eitthvað rúm 2 ár, og Magnús Jónsson frá því í vor frá bankastjóraembætti Búnaðarbankans.

Svona er með þessar opinberu stöður. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé ekki tæmandi yfirlit, en það gefur nokkra hugmynd um, hvernig ástandið hefur verið í þessu.

Er það þá svo, að þetta sé einungis um ríkisstöður, að það sé vegna slappleika ríkisvaldsins, ríkisstj., að þessi háttur hafi verið á hafður? Nei, ekki segir reynslan það.

Jónas Jónsson, sem var starfsmaður hjá samvinnufélögunum, skólastjóri Samvinnuskólans, varð ráðh. 1927, hélt áfram að vera ráðh. til

1932, full 5 ár. Hann hélt sinni stöðu sem skólastjóri Samvinnuskólans.

Síðar varð Steingrímur Steinþórsson framkvstj. Búnaðarfélagsins, búnaðarmálastjóri, starfsmaður almenningssamtaka, ráðherra samtals í 6 ár. Hann fór aftur í sína stöðu sem búnaðarmálastjóri, eftir að hann hafði verið í burtu úr henni í 6 ár.

Þangað til hin síðustu met fóru að gerast, hygg ég, að þessir tveir heiðursmenn hafi haft einna lengst frí, þeir Jónas Jónsson og Steingrímur Steinþórsson, samfleytt, auðvitað að undanteknum amtmanninum, Hermanni Jónassyni, sem samtals hefur látið halda opnum stöðum fyrir sig, að því er mér telst til, í a.m.k. 12 ár.

Það er ósköp eðlilegt, að eftir allt fagurtalið hér verði menn nokkuð spurulir í garð framsóknarmanna, hvað þeir meini með öllu þessu hjali. Þeir komast ekki hjá því, sleppa ekki með það eitt að segja: „Þetta er ljótt, þetta er ljótt, vist gerðu okkar menn ljótt.“

En vilja þeir þá samþykkja vitur á Hermann Jónasson? Vilja þeir hrekja Eystein Jónsson frá? Já, víst langar þá til þess, ekki vegna þessa, heldur af allt öðrum ástæðum. En þeir þora ekki að gera það. Og við skulum sanna til þess, að þeir bara segja: Þetta er ósambærilegt. Við eigum að horfa fram, en ekki aftur, segir Eysteinn. Hann vill aldrei horfa á sínar eigin gerðir. (EystJ: Það er einmitt gert.) Já, ég veit það, það er einmitt gert. Það er um að gera að horfa fram, gleyma því, sem liðið er, til þess að menn passi sig ekki á skúrkunum. Menn mega ekki sjá, hverjir þeir eru. Ég er hræddur um, að hv. þm. hefði aldrei ratað á hina leiðina og væri ekki á leiðinni á hinn staðinn, ef hann hefði í raun og veru horft fram á við.

Nei, sannleikurinn er sá, að hér er auðvitað um alvarlegt mál að ræða. Embættisveitingin í Gullbringu- og Kjósarsýslu snertir tilfinningastrengi, það er alveg rétt. Við getum allir haft samúð með Birni Sveinbjörnssyni út af fyrir sig. Það eina, sem ég segi, er: Maðurinn vissi, að hverju hann gekk. Að öðru leyti hef ég fyllstu samúð með Birni.

Hins vegar segi ég: Þessar umr., sem hér hafa farið fram, og það uppgjör, sem af þessum sökum verður, sýnir, að það var alveg Ijóst, að þessa hluti varð að gera upp. Sá hlutur gat ekki gengið, að mjög hæpin, má segja, ráðstöfun á embætti, eins og var 1956 í Hafnarfirði, — ekki vegna þess, að Björn Sveinbjörnsson væri ekki ágætur maður, heldur að maður, sem hverfur úr embætti, fær samþykki sins dómsmrh. til þess að skipa mann, sem honum líkar, — að slík ráðstöfun gerð 1956 gæti orðið til þess, að menn séu bundnir við það 1965, þó að ráðstöfunin væri gerð án auglýsingar, án þess að nokkur samkeppni fengi að eiga sér stað, þó að gengið væri þá fram hjá eldri mönnum. Það er ljóst, að slíkur háttur dugir ekki. Og ég fullyrði það, að engum, sem bæri í raun og veru ábyrgð á embættisskipun, hefði látið sér til hugar koma að láta þetta hafa úrslítaáhrif. Samúð manns í garð Björns Sveinbjörnssonar getur vegið sitt, og hann hefur gegnt embættinu vel. Það hlýtur auðvitað að vega sitt, það hefur mikið að segja. En það hafa hinir gert líka. En einmitt það rót, sem sagt er að hafi komizt á hugi manna við þetta, sýnir, að hér varð að breyta til og varð að vera alveg skýrt, að þessi háttur um ráðstöfun á embætti var ekki bindandi.

Fyrir hinu stöndum við svo sem sameiginlegu vandamáli, mínir herrar, það er ekki sérstakt vandamál míns flokks eða Alþfl., það er sameiginlegt vandamál ykkar allra, okkar allra, sem viljum halda uppí lýðræði á Íslandi og fá hina hæfustu menn í ráðherrastöður hverju sinni, þá er það sameiginlegt vandamál, hvernig á að búa að þeim þannig, að menn fáist til þess að gegna þessum störfum. Menn tala hér eins og slíkt sé eitthvert gamanmál eða spillingarmál íslenzkra embættismanna, að menn séu kannske ófúsir til þess að taka að sér óvissar stöður, leggja sig undir það ámæli og annað slíkt, sem stjórnmálaþvargi einu sinni fylgir. Ég get sagt frá því, að fyrir skemmstu var ég á fundi með forsætisráðherrum frá Norðurlöndum og Norðurlandaráðsforsetum. Eitt af því. sem þeir töluðu þar um, var þetta: Það hefur reynzt mjög erfitt, sérstaklega í Svíþjóð, þar sem meginstarfið liggur á stofnuninni, sem heldur Norðurlandaráðinu uppi, — þar hefur reynzt mjög erfitt að fá hæfa menn til þess að taka að sér starf í þágu stofnunarinnar, vegna þess að þeir telja sig vera þar í of mikilli óvissu. Það er verið að fella þeirra störf inn í hið sænska embættiskerfi. Og þá, þegar menn eru að vitna í hin erlendu fordæmi, kemur mér til hugar, að góður vinur okkar margra hér, Gustav Petrén, sem er má segja skrifstofustjóri hjá sænsku deild Norðurlandaráðsins, hann var fyrir nokkrum árum skipaður dómari í Svea Hovret, sem þykir veglegastur dómstóll í Svíþjóð, aðstoðardómari, og fékk jafnframt og hefur síðan fengið frí til þess að gegna þessari stöðu, að vera framkvæmdastjóri Norðurlandaráðsins í Svíþjóð. Honum er árum saman veitt frí frá sínu starfi, vegna þess að hann er að gegna þjóðnytjastörfum. Menn tala um, að ekki megi vera settir menn nema svo og svo lengi í Danmörku og Noregi, og er þó þar einungis talað um dómarafulltrúa, að þvi er mér skilst. Víst er þetta til athugunar og skilningsvakningar fyrir okkur. En hinn nýi utanríkisráðherra Noregs, John Lyng, var fyrir eitthvað rúmu ári, þ.e. rúmu ári áður en stjórnarskiptin urðu, skipaður fylkismaður í bezta fylkinu í Noregi, Akershus, en þurfti ekki að taka við því starfi, fyrr en hann léti af þingmennsku, og mátti ekki taka við því fyrr, vegna þess að þar mega dómarar vera þingmenn, en ekki stjórnarembættismenn, sem svo eru kallaðir, þeir heyra beint undir fyrirmæli ráðuneytanna. Hann hafði þess vegna frí frá sínu starfi, kom aldrei í það, vegna þess að fyrst eftir skipunina var hann þingmaður, nú er hann orðinn ráðherra. Hvort og hvenær þykir ástæða til að ráðstafa þessu embætti, skal ég ekki um segja. En svona er sami vandinn annars staðar eins og hér, að það er auðvitað erfitt að fá menn til þess að kasta frá sér sínu lífsuppeldi, ef svo má segja, — og það er ekki eingöngu eða fyrst og fremst fjármál, sem þar er um að ræða, alveg eins og hæstv. utanrrh. sagði, heldur miklu fleira, sem til greina kemur, — nema því aðeins að þeim sé einhver trygging búin.

Nú er mér ljóst, að það er stór framför orðin frá því, sem áður var, eftir að ráðherrar hafa þó sex mánaða biðlaun og eftir að þingmenn hafa fast þingfararkaup. Þetta er mikill munur frá þvi, sem áður var, og gerir allt aðra réttarstöðu, og má segja, að ráðh. séu ekki jafnilla leiknir og þeir í raun og veru oft ella og áður voru. En engu að síður verðum við að gera okkur grein fyrir því, að keppikeflið er að reyna að fá fremstu menn sinnar samtíðar í þjóðfélaginu til þess að taka að sér þessar ráðherrastöður. Ég veit, að þið segið auðvitað: Því fer fjarri, að núv. forsrh. sé fremsti maður sinnar samtíðar, og þetta eru tómir labbakútar í ríkisstj. — Þannig er sagt og verður alltaf sagt, alveg eins og við höfum ekki allt of mikið álit á ykkur öllum a.m.k., sem eruð í stjórnarandstöðunni. Þetta skiptir bara ekki máli. Við verðum að horfa út yfir slíka sleggjudóma og slíkan hégóma, þegar við erum að athuga mál eins og þessi. Við verðum að gera mönnum það í raun og veru mögulegt að taka að sér slík störf og gera það líklegt, að þeir fáist til þess. Ég get ósköp vel úr flokki talað. Ég var prófessor og sagði því starfi af mér, eftir að ég hafði verið rúmlega ár borgarstjóri í Reykjavík, að því er ég hygg meira að segja fyrir kosningar, og hugsaði: Það er bezt að vera frí og frjáls og ekki háður neinu embætti. — En við skulum segja, hvernig væri, ef allir hugsuðu á sama veg og flokkarnir yrðu að sjá fyrir okkur öllum eins og mér skilst að þeir geri fyrir sumum þeirra, sem hafa verið ráðherrar, — og skal ég ekki nefna nein nöfn í því sambandi né horfa á neinn.

Ég tel ágætt, að þetta frv. er fram komið, og ég tel það mjög íhugunarvert. En ég tel, að það sé ekki hægt að samþ. það eins og það er, og ég tel, að málið þurfi miklu víðtækari og almennari athugun, en því fagna ég, að það hefur gefizt tilefni til þeirrar athugunar.