23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2339)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hafði ekki búizt við því, að svo mikil áherzla væri lögð á hraða afgreiðslu þess frv., sem ég hef flutt á þskj. 70 og við höfum verið áð ræða hér á hv. Alþ. tvo undanfarna daga, að ástæða þætti til að boða til framhaldsfundar í dag, að enduðum hinum venjulega fundartíma. En ef þennan áhuga hæstv. ríkisstj. og þá væntanlega fyrst og fremst þess ráðh. innan hennar, hæstv. dómsmrh., sem eðli málsins samkv. stendur aðallega í fyrirsvari gegn þeirri gagnrýni, sem hér hefur verið uppi höfð á embættisveitingunni í Hafnarfirði, má skoða sem stuðning við frv., vil ég fagna því og skal ekkert undan því kvarta að þurfa að segja hér nokkur orð til viðbótar þeirri ræðu, sem ég flutti í gær, enda þótt ég hefði gjarnan viljað geta undirbúið hana betur. En ég vil fyrir fram biðja hv, alþm. að taka viljann fyrir verkið.

Í umr. um frv. þetta hafa fjórir hæstv. ráðh. talað um frv., tveir úr hvorum stjórnarflokki. Ráðh. Sjálfstfl., þeir hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., hafa báðir fagnað í meginatriðum efni frv., og tek ég þær yfirlýsingar þeirra sem fortakslausan stuðning flokksins við efni málsins í meginatriðum. Hins vegar urðu mér það talsverð vonbrigði, — þótt ég hefði kannske varla getað búizt við öðru fyrir fram — að ráðherrar

Alþfl., sem hér hafa talað, þeir hæstv. menntmrh. og hæstv. utanrrh., hafa ekki tjáð sig glöggt um frv. Hæstv. menntmrh. vék ekki einu einasta orði að því í þeirri ræðu, sem hann hélt í gær, og hæstv. utanrrh. vék að því hér áðan á þann hátt, að hann fann því ýmislegt til foráttu, þó að ekki væri í stórvægilegum atriðum, en þó mátti skilja ræðu hans þannig, að hann væri heldur andvígur samþykkt frv. sem þessa.

Hæstv. forsrh. gat um það í sinni ræðu, að frv. þetta þyrfti miklu nánari athugunar við. Ég skal ekki bera á móti því, að frv. þurfi að athuga nokkuð. En ég held, að meginatriði þess séu svo ljós, að mjög langur umhugsunartími sé ekki réttlætanlegur í meðferð þess. Það er sjálfsagt, að þetta mál verði athugað gaumgæfilega í þeirri n., sem það fær og verður hv. heilbr: og félmn., þar sem ég á m.a. sæti. En ef á að setja á svið svo viðamikla athugun af hálfu hæstv. ríkisstj. á þessu máli, að útilokað megi telja, að það fái afgreiðslu á þessu þingi, þá tel ég, að þar sé verið að setja leik á sviðið, eingöngu í þeim tilgangi gert að hindra, að frv. nái samþykki á þessu þingi. Ég er fyllilega ásáttur með að athuga þær brtt., sem hv. stjórnarliðar kunna fram að færa við sjálft frv. við meðferð þess. Mér er það fyllilega ljóst, að á ýmsan hátt má e.t.v. bæta það. Það verður alltaf álitamál, hve hámarkstími setningar skuli vera langur, og það verður alltaf álitaatriði, hvort hinar almennu reglur, sem frv. felur í sér, skuli ná til allra embættismanna ríkisins eða binda það við minni hóp embættismanna, svo sem dómara. En eins og hv. alþm. sjá af frv., þá er langsennilegast, að algengasti setningartíminn, ef frv. yrði samþ., yrði tvö ár, því að að þeim árum liðnum getur sá, sem setningu hefur fengið til embættis, óskað eftir því, að staðan verði auglýst. Ég held því, að þegar af þessari ástæðu einni sé sú boðaða brtt., sem hv. þm. Ingi R. Helgason talaði um hér áðan, að hann e.t.v. flytti við frv., þ.e.a.s. að setningartími héraðsdómara mætti ekki vera nema 1—2 ár, skipti ekki miklu máli og mundi, þótt samþ. yrði, ekki hafa mikla breytingu í för með sér frá ákvæðum frv., eins og það er nú.

En mig langar að gefnu tilefni vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið, að víkja nokkrum orðum að því, sem hefur helzt fram komið og ég finn sérstaka ástæðu til þess að koma fram aths. við.

Hæstv. utanrrh. talaði í upphafi þessa fundar í dag. Ýmislegt af því, sem hann sagði þá, væri að sjálfsögðu þess virði að ræða það nokkru nánar. Ég ætla þó ekki að taka nema örfá atriði, því að ég vænti þess, að fundur haldi ekki lengur áfram en til kl. 7 og þá gefist síðar, annaðhvort á morgun eða síðar, tækifæri til þess að taka það, sem ekki vinnst tími til að ræða núna. Ætla ég því að halda mér að nokkrum atriðum, sem komu fram í ræðu hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. sagði, að sér fyndist ekki rétt, að menn sættu ámæli fyrir að taka að sér ráðherraembætti, þótt þeir haldi öðru embætti lausu fyrir sig, og svo bætti hann við: „Hvort sem sá setningartími er tvö ár eða fjögur ár eða sex ár eða sjö ár.“ Um þetta er ég honum algerlega ósammála. Ég held. að flestir þeir, sem um þetta hafa talað, jafnvel þeir ræðumenn Sjálfstfl., sem komið hafa fram í þessum umr., hafi látið í það fyllilega skína, að það, sem gerir mál þetta sérstakt, sé hinn langi setningartími Björns Sveinbjörnssonar í bæjarfógeta- og sýslumannsembættið í Hafnarfirði. Frv. það, sem ég flyt og er hér til umr., gerir ráð fyrir, að setningartími geti staðið í allt að fjögur ár, ef viðkomandi settur embættismaður samþykkir það, annars aðeins tvö ár. Með þessari reglu þykist ég hafa reynt að gæta réttlætanlegra sjónarmiða bæði að því er tekur til hins setta embættismanns, embættisins sjálfs og eins þess manns, sem setningu hefur í embættið og þarf að hverfa frá því einhverra hluta vegna um tíma. Ég tel sem sagt, að það sé ekki óeðlilegt, að maður, sem t.d. velst til ráðherrastarfa, geti átt þess kost, ef hann yfirgefur embætti til þess að taka sæti á ráðherrastóli, að halda embætti sínu opnu um einhvern ákveðinn, en þó ekki allt of langan tíma. Ég hef valið 2—4 ár. Ég tel, að að þeim tíma liðnum hafi viðkomandi embættismaður, sem sezt á ráðherrastól, getað gert sér grein fyrir því í öllum meginatriðum, hvernig honum falli starfið, og honum sé vorkunnarlaust að þeim tíma liðnum að taka ákvörðun um það, hvort heldur hann ætli að halda áfram að feta pólitíska braut ráðherrans og taka þær áhættur, sem því óneitanlega eru samfara, eða hverfa aftur til síns fyrra embættis og hugsa þá væntanlega ekki um ráðherrastörf um einhvern tíma þar á eftir. Ég tel svo mikla almenna hagsmuni bundna við það, að einhver regla sé sett í þessum efnum, að þó að það kunni fyrir einstaka menn að vera sársauka blandið að yfirgefa ráðherrastól eftir fjögur ár eða taka ákvörðun eftir fjögur ár um það, hvort hann á að hverfa til fyrra embættis síns eða standa upp af ráðherrastóli, þá held ég, að hinir almennu þjóðfélagshagsmunir við að hafa reglu á þessum hlutum séu miklu stærri og réttmætara að virða þá heldur en hagsmuni, sem einstakur maður kann að eiga bundna við að fá að sitja um ótakmarkaðan tíma í ráðherrastóli, meðan hann hefur þingstyrk til þess. Ég þykist því hafa með frumvarpsflutningi mínum gætt hvors tveggja þessara atriða, bæði hagsmuna hins setta embættismanns og embættishagsmunanna sjálfra og einnig hagsmuna þess skipaða embættismanns, sem verður að hverfa úr starfi sínu um tíma.

Ég get ekki heldur fallizt á þá skoðun hæstv. utanrrh., að tímalengdin skipti engu máli, af þeim ástæðum, sem ég var nú að gera grein fyrir.

Þá sagði hæstv. ráðh. enn fremur: „Ef staða, sem sett er í, er auglýst eftir fjögur ár og enginn sækir um hana, hvað þá?“ Hér er að vísu um smávægilegt atriði að ræða, sem ég hygg að sé gripið til vegna þess, að haldbærari rök til hóflegrar andstöðu við frv. voru ekki fyrir hendi. Ég held nú satt að segja, að það muni ekki ýkja oft reyna á það, ef staða er auglýst, að enginn fáist til að sækja um hana. En af þessu gefna tilefni vil ég aðeins spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig á að fara að, ef settur maður, hvort sem hann hefur gegnt embætti í fjögur ár, lengur eða skemur, vill skyndilega hætta og segir af sér og enginn fæst til að sækja um stöðuna? Ég held satt að segja, að samþykkt þessa frv. skipti engu um þetta atriði út af fyrir sig. Staðan getur verið jafnlaus fyrir það, þótt engar reglur gildi um lengd setningartímans. Það getur verið alveg jafnerfitt að fá mann til þess að sækja um stöðu, þótt þær reglur séu ekki í gildi, ef viðkomandi embættismaður, sem setningu hefur til embættisins, vill af einhverjum ástæðum gefa það embætti upp. Þess vegna tel ég, að þessi mótbára út af fyrir sig sé ákaflega léttvæg.

Enn fremur sagði hæstv. ráðh.: „Með frv. þessu, ef samþykkt verður, væri e.t.v. verið að koma í veg fyrir, að menn fengjust í ráðherrastörf, og það þarf líka að líta til fleiri en hins setta.“ — Hv. þm., sem talaði á undan mér, Ingi R. Helgason, vék lítillega að þessu, og þarf ég ekki miklu við það að bæta. Ég hef satt að segja ekki miklar áhyggjur af því, að á hv. Alþingi Íslendinga fáist ekki alltaf menn til þess að setjast í ráðherrastóla, enda þótt einhverjar reglur verði settar við því, að þeir geti ekki geymt embætti opið fyrir sig óendanlega. Og það má líka segja, að sá, sem velur sér stjórnmálastörf að lífsstarfi, leggur vissulega í ákveðna áhættu, sem aldrei verður hjá komizt. Það er engin vissa fyrir því, hvorki um ráðherra né einstaka þm., að þeir hafi setu hér eins lengi og þá sjálfa lystir. Þar eigum við allir undir kjósendaláni komið, og ég hygg, að hæstv. ráðh. sé ekkert hættara í þessum efnum en okkur hv. þm. og það þurfi engar sérstakar sérreglur fyrir þá.

Enn fremur sagði hæstv. ráðh.: „Dómsmrh. hafði valdið, hann gat farið með það eins og hann vildi. Málinu er lokið, eftir að skipun hefur átt sér stað.“ Ég verð nú að segja, að það þarf mikil brjóstheilindi til þess af formanni Alþfl. um nokkuð langt árabil, ráðh. Alþfl. samfellt allt frá 1956, þegar hann ásamt Guðmundi Í. Guðmundssyni tók sæti í vinstri stjórninni svo kölluðu — (Gripið fram í.) Nú, afsakið. (Gripið fram í.) Jæja, hvort ráðherraaldurinn er tveim árum skemmri eða ekki, skiptir ekki öllu máli, en það, sem ég ætlaði að segja, er, eins og kom fram í ræðu minni hér í gær, að forusta Alþfl. og þá sérstaklega ráðherrar flokksins bera öllum öðrum fremur ábyrgð á hinni löngu setningu Björns Sveinbjörnssonar í embættið í Hafnarfirði. Þeir bera ábyrgð á því öllum öðrum fremur. Fyrst og fremst ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessu Guðmundur Í. Guðmundsson, hinn skipaði embættismaður til Hafnarfjarðarembættisins um nærfellt áratug, sem sat á ráðherrastóli allan tímann og lét undirmann sinn gæta embættisins fyrir sig. En ásamt með honum verð ég að telja báða hæstv. ráðh., sem talað hafa í þessum umr., samseka Guðmundi um þessa löngu setningu. Ég verð því að segja, að mér finnst þetta mál afgreitt af þeirra hálfu á fulléttúðugan hátt, ef þeir halda sig sleppa frá því með yfirlýsingum eins og þeirri, sem ég var hér að lesa eftir hæstv. utanrrh. Það er staðreynd, sem er ómögulegt að mótmæla, að forusta Alþfl. átti þennan áratug mörg tækifæri til þess að koma þeirri skipan á i Hafnarfjarðarembættinu að skipa Björn Sveinbjörnsson til embættisins, hefði nokkur vilji verið til þess á þeim tíma. Ég vil minna á, að á árinu 1959, þegar Alþfl. sat einn í ríkisstj. og þegar í árslok þess árs var ákveðið að mynda viðreisnarstjórnina svo kölluðu og Guðmundur Í. Guðmundsson sá fram á fjögurra ára framlengdan ráðherradóm, þá hefði hann að sjálfsögðu átt, þótt seint væri, að sjá sóma sinn í því að nota þá það tækifæri sem eitt af síðustu embættisverkum sínum í flokksstjórn Alþfl. og skipa í þetta embætti, bæði vegna Björns Sveinbjörnssonar sjálfs og þeirra skyldna, sem ráðherrann Guðmundur Í. Guðmundsson þáverandi hafði gagnvart honum, og vegna þeirra almennu hagsmuna, sem bundnir voru því, að réttarstaða bæjarfógetans og sýslumannsins í Hafnarfirði væri tryggð betur en sýndi sig að hún var með því fyrirkomulagi málanna, sem þá var og hefur verið til þessa dags.

Ég verð því að segja, að mér finnst hlutur Alþfl. í þessu máli, hvernig sem hann er skoðaður, eða öllu heldur Alþýðuflokksforustunnar, — ég vil draga þar mjög glögg skil á milli, milli hennar og Alþfl: fólksins, sérstaklega í Hafnarfirði, sem nú hundruðum saman mótmælir embættisveitingunni, — aumur. Og ég held og vil taka undir það, sem hv. þm. Geir Gunnarsson sagði áðan, að það, sem fyrst og fremst knýr hæstv. ráðh. Alþfl. núna svo og blað þeirra til þess að láta í það skína, að þeir hafi verið þessari veitingu mótfallnir, sé einmitt sú andúðaralda, sem vakin hefur verið upp með þessari veitingu í Hafnarfirði, þar sem formaður Alþfl. á heima, en Hafnarfjörður hefur lengi verið, eins og menn vita, aðalvígi Alþýðuflokksins hér á landi.

Ég held, að ég fari svo ekki fleiri orðum um ræðu hæstv. utanrrh., en mig langar til að víkja örfáum orðum að ræðu hæstv. menntmrh., þeirri sem hann hélt hér í gær. Að vísu var ræða sú alltorskilin, bæði mér og öðrum, sem ég hef talað við og spurt um, hvert hæstv. ráðh. hefði verið að fara með þeirri ræðu. En ég skildi hana þannig, að það væri rétt, sem ég hafði haldið fram, að við Háskóla Íslands í viðskiptadeildinni biði opin prófessorsstaða eftir hæstv. viðskmrh., þegar honum kynni að þóknast að standa upp af ráðherrastóli, en sá væri munurinn einn, eftir því sem mér skildist á ráðh., að þetta fyrirkomulag væri haft í fullu samráði við alla flokka þingsins. Mér skildist, að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í menntmn. beggja deilda hefðu samþ. þetta fyrirkomulag. Og svo var líka einn ljós punktur þessu til viðbótar í ræðunni, og hann var sá, að enginn þyrfti að standa upp fyrir honum úr sæti prófessors við háskólann, ef honum kynni að þóknast að fara þangað einhvern góðviðrisdaginn.

Út af þessu vil ég aðeins segja þetta: Við í Framsfl. höfum athugað þá staðhæfingu hæstv. ráðh. um, að þetta væri gert í fullu samráði m.a. við okkur, og ég ætla að lofa þingheimi að heyra niðurstöðuna.

Stofnun prófessorsembættis í viðskiptadeild Háskóla Íslands gerðist með þessum hætti: Fáum dögum fyrir þinglok vorið 1960 flytur ríkisstj. frv. um fjölgun prófessora í læknadeild og verkfræðideild. Frv. þetta var flutt í Nd. og afgr. þaðan án breytinga til Ed. Leitað var umsagnar háskólaráðs um frv., og barst hún til menntmn.

Ed. Umsögn háskólaráðs var efnislega þannig, að það mælti með frv. og fór þess jafnframt á leit, að sú breyting yrði gerð á frv., að fjölgað yrði um einn prófessor í viðskiptadeild. Menntmn. Ed. varð því við tilmælum háskólaráðs og bar fram till. um þetta efni. Eftir að umsögn háskólaráðs barst Alþ., hélt menntmn. Ed. aðeins einn stuttan fund, þar sem þetta frv. var rætt. Í nál., umr. eða fundargerð menntmn. mun það hvergi koma fram, að frá því hafi verið skýrt á Alþ., að samband væri á milli stofnunar hins nýja prófessorsembættis í viðskiptadeild og stöðu menntmrh. við háskólann. Frv. þetta, svo breytt, kom svo aftur til Nd. Þá er málsmeðferðinni kröftuglega mótmælt, m.a. af Eysteini Jónssyni, Þórarni Þórarinssyni og Einari Olgeirssyni, og sérstaklega á það bent, að fráleitt væri að knýja fram þetta mál undir þinglok, þegar þm. hefðu ekki aðstöðu til að kynna sér, hvað raunverulega fælist f þessari lagabreytingu. Þetta tekur af öll tvímæli um það, að hér var ekki um að ræða samningsmál milli þingflokkanna eða mál. sem þeir stóðu allir að. Þvert á móti var þetta mál, sem stjórnarflokkarnir knúðu fram á stuttum tíma undir þinglok vorið 1960.

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég get flutt þingheimi eftir þá rannsókn, sem við höfum getað látið framkvæma út af fullyrðingu hæstv. ráðh. í gær um, að prófessorsstaða biði eftir honum í háskólanum, sem hann gæti setzt í, og þetta fyrirkomulag væri með fullu samþykki, að mér skildist, allra flokka. Þetta er sem sagt, því miður, rangt.

Hæstv. forsrh. hélt hér ræðu áðan og var auðsjáanlega mjög mikið niðri fyrir. Hann byrjaði á því að tala um embættisveitingar framsóknarmanna og taldi þær á allan hátt forkastanlegar, og mér skildist, að síðari misgjörðir í þessum efnum mætti rekja til þeirra að einhverju leyti. Jafnframt skoraði hann á framsóknarmenn að nefna þess dæmi, að hann hefði einhvern tíma persónulega misbeitt veitingarvaldi sínu til hags fyrir skyldmenni hans. Nú skal ég játa það, að ég er því miður ekki kunnugur veitingarsögu, hvorki hans né annarra ráðh., langt aftur í tímann. Ég hef ekki lagt mig sérstaklega eftir því að kynnast þessu og get því ekkert sagt um, hvort hæstv. ráðh. hefur gert sig beran að mismunun með því að veita skyldmennum sínum embætti, og ég get vel trúað því, þangað til ég fæ að vita annað örugglega, að hér haldi hæstv. ráðh. fram sannleikanum. En pólitískur ráðh. og pólitískt veitingarvald getur misnotað aðstöðu sína og vald sitt á annan hátt en þann einan að veita skyldmennum viðkomandi ráðh. embætti. Það er líka hægt að misnota vald sitt þannig að byggja upp veldi flokks síns með því að skipa sína menn í lykilstöður þær, sem veitingarvaldið hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma. Og í tilefni af þessari áskorun hæstv. forsrh. langar mig til þess að fara í kringum landið og athuga skipun í hin ýmsu bæjarfógeta- og sýslumannsembætti um allt landið, en ég undanskil þó Reykjavík, höfuðborgina.

Ef ég byrja í mínu kjördæmi, sem mér er að sjálfsögðu kærast, og byrja á Suðurnesjum, þá er bæjarfógeti í Keflavík Alfreð Gíslason, fyrrv. alþm. og aðalforustumaður Sjálfstfl. í bæjarstjórninni í Keflavík. Í Hafnarfirði, sem bæjarfógeti í Hafnarfirði og sýslumaður í Gullbringu og Kjósarsýslu, hefur nýlega, eins og öllum hér er kunnugt, verið skipaður Einar Ingimundarson, núverandi alþm. Sjálfstfl. í Norðurl. v. Uppi í Borgarnesi situr Ásgeir Pétursson sýslumaður, sem nú á hér setu á þinginu sem varaþm. Sjálfstfl. úr Vesturlandskjördæmi. Í Stykkishólmi situr nýlega skipaður sýslumaður, Friðjón Þórðarson, varaþm. Sjálfstfl. og frambjóðandi. Í Búðardal situr Yngvi Ólafsson, sem að vísu hefur ekki mikið skipt sér af stjórnmálum, en allir, sem til hans þekkja, og þ. á.m. er ég, vita, að hann er ákveðinn Sjálfstæðisflokksmaður og ekki ólíklegt, að hann kunni innan tíðar að verða einn af forustumönnum Sjálfstfl. í Vesturl. En á það hefur ekki reynt enn þá, því að hann er skipaður fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Á Patreksfirði situr Ásberg Sigurðsson, einn af frambjóðendum Sjálfstfl. í Vestfjarðakjördæmi og einn af framámönnum Sjálfstfl. í eina tíð í bæjarmálum á Ísafirði. Á Blönduósi situr Jón Ísberg sýslumaður, frambjóðandi Sjálfstfl. þar í eina tíð og foringi sjálfstæðismanna í A-Hún. Siglufjörður er nýlega laus, og við skulum ekki vera að spá neinu um, hver þangað fer, en með því verður fylgzt. Á Seyðisfirði situr Erlendur Björnsson bæjarfógeti og sýslumaður. Hann er einn af forustumönnum Sjálfstfl. í bæjarstjórninni á Seyðisfirði. Á Eskifirði situr Axel Tulinius sýslumaður. Hann hefur, eftir því sem ég bezt veit, verið einn af frambjóðendum sjálfstæðismanna í S-Múl. og raunar víðar, á undanförnum árum. Í Vík í Mýrdal situr tiltölulega nýskipaður sýslumaður, Einar Oddsson, ákveðinn Sjálfstfl.maður, en ég þori satt að segja ekki að fullyrða, hvort hann er einn af frambjóðendum flokksins, en hann mun vera formaður í Sjálfstæðisfélagi V-Skaft. Í Vestmannaeyjum er bæjarfógeti Freymóður Þorsteinsson, sem er ákveðinn sjálfstæðismaður.

Á næstunni munu losna fljótlega bæði Akranes og kannske fleiri staðir, og verður nokkuð fróðlegt að fylgjast með því, hverjir þangað kunna að fara. En samkvæmt þessum upplestri mínum er ljóst, að af 22 bæjarfógetum og sýslumönnum í landinu eru 12 þeirra annaðhvort frambjóðendur, alþm. eða forustumenn sjálfstæðismanna í sveitarstjórnarmálefnum eða í flokksmálefnum, sitjandi á þessum stólum. Og það er áberandi, að þetta hefur gerzt á seinustu 10—20 árum. Menn skulu ekki halda, að ekki búi ákveðinn tilgangur að baki þess að raða svona niður í embættismannakerfi landsins mönnum af einum og sama stjórnmálaflokknum, og ég held, að það sé ekkert síður ámælisvert að skipa bæjarfógeta- og sýslumannsstöður með þetta að leiðarljósi en jafnvel þótt veitingarvaldið léti einhvern umsækjanda njóta skyldleika við sjálfan sig. Ég fordæmi hvort tveggja.

Ég get ekki heldur fallizt á þá skoðun, sem kom fram hér áðan hjá hæstv. forsrh., að það væri eðlilegt, að dómarar stæðu í því að vera alþm. og hafa pólitíska forustu. Það er að vísu rétt, að hér í eina tíð og fyrr á árum voru lögfræðingarnir og sýslumennirnir forustumenn á Alþ. óumdeilanlega og miklu meiri forustumenn en þeir eru í dag. En aldarandinn er nú annar og breytingarnar eru orðnar miklar frá þeim tíma. Á þessum árum var hópur hinna lærðu manna tiltölulega fámennur, og var af þeirri ástæðu kannske ekki óeðlilegt að leita til hans fyrst og fremst um setu á Alþ. Nú hefur þetta breytzt, og lýðræðishugmyndirnar rista miklu dýpra í dag en þær gerðu fyrir nokkrum árum og árhundruðum. Nú er ekkert talið óeðlilegt við það, að hér sitji menn ekki einungis úr hópi hinna lærðu manna, heldur fjöldi annarra manna af öllum stéttum þjóðfélagsins.

Þá sagði hæstv. forsrh., að dómarastörf væru lítill hluti af störfum héraðsdómara utan Reykjavikur. Þetta var haft uppi sem vörn við þeirri ádeilu hv. þm. Inga R. Helgasonar, að það væri óeðlilegt, að héraðsdómarar, sem ættu að dæma menn, væru samtímis að leita eftir kjörfylgi hjá þeim, ef þeir hefðu afskipti af stjórnmálum. En þó að þetta kunni að vera rétt um sum héraðsdómarastörf, er langt frá því, að þetta eigi við alls staðar. Það á t.d. engan veginn við um það embætti, sem við höfum núna verið að ræða hér í tvo daga. Dómarastörfin í sambandi við Hafnarfjarðarembættið eru mikil, og dómarastörf í sambandi við Akureyrarembættið eru mikil, og dómarastörfin á Siglufirði, Ísafirði og Seyðisfirði eru þó nokkuð mikil, þannig að þetta er breytilegt og á ekki það sama við um öll þessi embætti.

Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði ekkert verið hægara fyrir Björn Sveinbjörnsson en að koma til sín og biðja um skipun til embættisins. Það er ákaflega auðvelt að segja þetta í dag, þegar við erum að ræða um, — ja, hvað á að segja, við skulum segja leiðinlegar afleiðingar þess, að misfarið er með veitingarvaldið. En ég veit nú satt að segja ekki, hvort hæstv. ráðh. hefði nokkuð frekar skipað Björn Sveinbjörnsson í Hafnarfjarðarembættið, þótt hann hefði sótt um það á þeim tíma, þegar hann sat sem dómsmrh. í ríkisstj., heldur en sá hæstv. dómsmrh., sem nú situr þar.

Enn fremur sagði hæstv. ráðh., að það kæmi ekki til mála, að setning 1956 geti bundið veitingarvaldið við skipun í embætti 1965. Þetta er dálítið athyglisvert. Þetta er að vísu skoðun, sem ég aðhyllist, en sé það rétt, sem hefur verið haldið fram og ekki mótmælt enn í dag, að hæstv. forsrh. sé höfundur Reykjavíkurbréfa Morgunblaðsins, hefur hann áður haldið fram nokkuð annarri skoðun. Það var, þegar hin margumtöluðu húsakaup ríkissjóðs af Guðmundi Í. Guðmundssyni, sem mikið var rætt um og mikið deilt um, áttu sér stað. Þá minnist ég þess, að í einu Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var það talið hlálegt að halda því fram, að viðkomandi ráðh., sem stóð að kaupunum, hefði átt að nota vald sitt til þess að ógilda bréf, sem Hermann Jónasson átti að hafa skrifað fyrir 8 eða 9 árum. Ég held, að um þetta séu atvikin ekki mjög ólík og afstaða hæstv. forsrh. til þessara tveggja atvika sé því ekki í góðu samræmi, sé hann höfundur Reykjavíkurbréfsins.

Þá vil ég að síðustu varðandi það, sem hæstv. forsrh. sagði, þar sem hann var að bera saman setningartíma ýmissa framsóknarmanna annars vegar og annarra, aðeins segja þetta: Hann fékk út, að maður fyrir Hermann Jónasson hefði verið settur í 12 ár, ef ég náði þessu rétt niður. Þetta fékk hann m.a. með því að leggja saman þau árin, sem Hermann Jónasson hafði verið lögfræðilegur ráðunautur Búnaðarbankans, sem er lítils háttar aukastarf og hann hafði ekki gegnt, meðan hann var ráðh. En það er ósambærilegt við starf eins og það, sem Guðmundur Í. Guðmundsson lét gæta fyrir sig í 10 ár suður í Hafnarfirði. Allir hljóta að sjá, að slíkur samanburður getur ekki verið sanngjarn og það þarf langt að seilast til raka til þess að nota hann.

Þá vil ég gera dálítinn mismun á því, þegar borið er saman annars vegar, að einkafyrirtæki eða fyrirtæki félaga, svo sem eins og Sambandið, hafi þolað það, að Jónas Jónsson hefði frí frá störfum við Sambandið um einhvern tíma, eða Steingrímur Steinþórsson frá Búnaðarfélagi Íslands, — ég geri dálítinn mun á því, hvort atvinnuveitandinn í þessu tilfelli er einkaaðili eða félag eða ríkisvaldið, eins og var um tilfelli Guðmundar Í. Guðmundssonar.

Ég sé, að það er ekki meiningin að fresta fundi, þótt sé komið fram á lögmætan matartíma, og skal ég ekkert undan því kvarta. Ég á eftir að fara hér nokkrum orðum um þann ráðh. sem kannske hefði verið eðlilegast að ég hefði byrjað á að tala um, því að formlega a.m.k. ætti sú gagnrýni, sem ég hef hér verið að tala fyrir og aðrir þm., sem gagnrýnt hafa embættisveitinguna í Hafnarfirði, að beinast að honum fyrst og fremst, en það er dómsmrh., Jóhann Hafstein. (Gripið fram í.) Nú, er hann ekki við? Ég vildi gjarnan óska eftir því, að hann yrði viðstaddur. (Forsrh.: Við skulum koma því til skila.) Er það ekki ráðherraskylda að vera við? (Forseti: Ráðh. bað um leyfi forseta, þegar hann gekk af fundi, og það leyfi var veitt.) Er þá ekki hægt að fresta fundi? (Forseti: Ef það eru eindregnar óskir um það, en það er enginn á mælendaskrá.) Ég óska eftir því. (Gripið fram í.) Ef enginn er á mælendaskrá nema ég, þá á ég ekki eftir nema svona 10—15 mín., og ef það væri hægt að taka það seinna, þá þarf það ekki að tefja þingstörf frá stjfrv. (Samtal á fundinum. — Forseti: Ef þess er eindregið óskað, að þessari umr. verði frestað, mun ég verða við þeirri ósk, en ég tek það fram, að þetta mál verður að lúta venjulegum lögmálum um það, hvernig aðalforseti setur mál á dagskrá, og það er ekki hægt að lofa neinu í þeim efnum. En það hefur komið fram fullur vilji um að veita nægan tíma, og það er ekki aðstaða til þess að halda kvöldfund.) Ég er að biðja þá að fresta, og mér skilst, að hæstv. forsrh. sé því samþykkur, og ég vona, að hæstv. menntmrh. sé því ekki ósamþykkur. (Forseti: Ég mun þá verða við ósk ræðumanns um það, að hann fái að fresta ræðu sinni og umr. verði frestað, og er þá málið tekið út af dagskrá.) — [Frh.]