25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég óska siðasta ræðumanni til hamingju. Hann stendur sig bara vel. Puntudrengirnir geta ósköp vel skrifað heimastílana, ef þeir hafa nógu langan tíma til þess, það er alveg ljóst. Hitt er greinilegt, að það er satt, að það eru ekkert nema endurtekningar aftur og aftur, sem þessir hv. ræðumenn segja, og skiptir þá ekki ýkjamiklu máll, þó að rekist mjög hvert á annars horn. Látum það eiga sig, þeir um það, blessaðir piltarnir.

Það var gaman að heyra hv. flm., 4. þm. Reykn., hneykslast á því, að það aðalatriði væri rangt hjá mér, að ég hefði rangtalið, hversu lengi hæstv. fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, hefði haft menn í stöðum fyrir sig. Hann sagði, að það væri komið í ljós, að það væru ekki nema 10—11 ár. Eftir því sem þeir hafa talað hér, hann og hans félagar, væri það ærið langur tími út af fyrir sig. Ég held hins vegar, að þetta nálgist meir 11 1/2 ár, og getur hann reiknað það betur, ef hann vill. En um tölunákvæmnina hjá honum er það að segja, að hann hefur talað um það æ ofan í æ hér í þinginu, að Björn Sveinbjörnsson hafi gegnt sínu starfi í 10 ár. Ég held, að það séu nú ekki nema 9 1/4 úr ári eða eitthvað þess háttar, ef nákvæmlega er talið. Þetta skiptir út af fyrir sig sáralitlu máli, en það er betra fyrir þann, sem er í glerhúsi, að kasta varlega steinum. Hv. þm. stytti raunar þennan tíma, sem hann sagði að Björn Sveinbjörnsson hefði verið í góðri trú í stöðunni um, að hann mundi verða skipaður, töluvert í ræðu sinni hér í fyrradag, því að þá sagði hann: Það var í raun og veru engin von til þess, að Björn Sveinbjörnsson færi að tala um embættisveitinguna við Bjarna Benediktsson, vegna þess að hann hefði sjálfsagt ekki fengið stöðuna, eftir að Bjarni var orðinn dómsmrh. — Nú eru þetta hugsanir Jóns Skaftasonar, en ekki Björns Sveinbjörnssonar. En hafi Björn Sveinbjörnsson hugsað þannig, voru ekki liðin nema eitthvað 3 ár, frá því að hann tók við stöðunni, þangað til sá vondi maður, Bjarni Benediktsson, sem svipti hann allri von, var tekinn við embætti dómsmrh. En svona fer, þegar röksemdir eru bornar fram í misjafnlega góðri trú og reynt er að klóra í bakkann í staðinn fyrir að taka málin eins og þau eru í raun og veru.

Nú held ég raunar, ef við lítum á þetta alveg eins og það er, að Björn Sveinbjörnsson hafi ekki verið settur í embættið fyrr en eitthvað 20. okt. 1956, svo að það séu ekki nema í raun og veru rétt 9 ár, sem hann var þarna formlega settur, áður en embættinu var ráðstafað, vegna þess að fyrst kom hann inn í embættið óformlega sem hreinn staðgengill þáv. hæstv. utanrrh., settur og með fullkominni óvissu um það, að hann gæti haldið embættinu, því að eftir þeim reglum, sem hér hefur mjög verið talað um, gat sá góði maður ekki búizt við að fá fram haldið starfinu, vegna þess að það var annar eldri fulltrúi og miklu reyndari við embættið, Kristinn Ólafsson, sem eftir þeim reglum, sem hér hafa verið svo mjög túlkaðar, hefði átt að ganga fyrir.

Svo þegar hv. þm. tala um, hvaða úrræði eigi við að hafa, tala sumir þeirra um, að það sé hægt að hnekkja þessari ráðstöfun með dómi, og þeir lesa upp eftir lærðum lögfræðingi tilvitnun, sem á að sanna, að það sé hægt að hnekkja þessu með dómi, og hv. 4. þm. Reykn. herti á því áðan með því að segja, að dómsmrh. hefði játað, að það væri kunningsskapur, sem hefði valdið embættisveitingunni. Nú sannaði hv. þm. sjálfur í þeirri tilvitnun, sem hann las upp, að þessi skýring á orðum hæstv. dómsmrh. er alger fölsun. Hæstv. dómsmrh, talaði alls ekki um kunningsskap, heldur kynni sín af manninum. Ég hef kynni af hv. 4. þm. Reykn. hér á þingi. Ég vil frábiðja mig, að ég sé í nokkrum kunningsskap við hann. Þetta hefur gerólíka merkingu. Auðvitað er það ætíð forsenda veitingar, að sá, sem veitingarvaldið hefur, verður að kynna sér umsækjendur. Hann verður að afla sér kynna af þeim, annaðhvort með eigin raun eða af annarra sögn. Svo er verið að leggja út af þessu. Það er lagt út af þessu í ræðu eftir ræðu á Alþ. Það er talað um þetta í Tímanum sem eitthvert stórkostlegt hneyksli, að ráðh. hafi játað kunningsskap sinn, svo að þetta á að verða til þess, að það sé hægt að ógilda ráðstöfunina með dómi. En ég bið hv. þm. þá um: Láti þeir verða úr því að höfða mál til þess að fá ráðstöfuninni hnekkt. (JSk: Er það hægt?) Ja, ef þeir trúa sjálfir á það, sem þeir eru að segja. Af hverju er hv. þm. að lesa upp, af hverju er hann að vitna í Árna Gunnlaugsson, sem hélt þessu fram í einu af sínum skrifum? Nú spyr hann: Er þetta hægt? (Gripið fram í.) Svari þm. sér sjálfur og sinni vitleysu. En ég segi: það verður að vera eitthvert samræmi í því, sem þessir menn halda fram. Annaðhvort treysta þeir sér til þess að fara í mál eða þeir treysta sér ekki til þess. Og ef þeir trúa sjálfir á málshöfðun í þessu efni, ættu þeir þó að geta fengið þann, sem þeir telja að hafi orðið fyrir ranglæti, til þess að reyna málshöfðun og fá ráðstöfuninni hnekkt. Nei, en svo kemur hv. 11. þm. Reykv. og sagði hér um daginn: Sá einn, sem getur hnekkt þessu, er ríkisstj. Ríkisstj. á að hnekkja því. Getur ríkisstj. sett löglega skipaðan embættismann frá? Ég spyr hv. þm. Hvað hefur Einar Ingimundarson brotið af sér í starfi, til þess að það væri hægt að víkja honum frá? Svari hann.

Nei, nú er þagað þunnu hljóði. En hvort það fæst ein nótt til til þess að semja nýjan stíl, einhverjir hjálpi honum til þess að skrapa eitthvað saman, það skal ég ekki segja. En það verður aum lesning, þegar við heyrum hana.

Svo er fróðlegt að heyra, hvað Framsfl. hefur áður sagt í slíkum tilfellum. Það er ekkert nýtt, að því sé haldið fram, að embættisveitingar séu gagnrýnanlegar. Ég varð fyrir því á sínum tíma, þegar ég var menntmrh., að hv. þm. Gils Guðmundsson bar fram á mig vantraust til þess að setja Framsókn í vanda, vegna þess að Tíminn hafði þá að undanförnu látlaust árum saman haldið uppi á mig mjög harðri gagnrýni fyrir embættisveitingar sem menntmrh. Þá sagði Steingrímur Steinþórsson, sem var síðasti ræðumaður af hálfu Framsóknar við vantraustsumr., með leyfi hæstv. forseta, m.a. þetta:

„En hitt er svo aftur á móti allt annað mál og er óskylt þessu, að þegar fleiri flokkar mynda stjórn saman og hver ráðh. fer með sitt rn. og þau mál, er undir það heyra, þá hlýtur alltaf svo að fara, að ýmsar ráðstafanir og ákvarðanir einstakra ráðh. falli samráðh. hans, a.m.k. sumum þeirra, ekki í geð. Mörg slík atvik hljóta að koma fyrir í hverri ríkisstj., sérstaklega auðvitað þar sem er um samstjórn fleiri flokka að ræða. Ef slíkt ætti í hvert sinn að valda stjórnarslitum, mundi aldrei fást vinnufriður til þess að vinna að meginverkefnum þeim, sem hver ríkisstj. verður að fást við. Margur slíkur ágreiningur hefur að sjálfsögðu komið fyrir hjá núv. ríkisstj. og það á báða bóga, og ég get vel lýst því hér yfir, að ég er ekki ánægður eða samþykkur öllum ákvörðunum hæstv. menntmrh., enda væri það mjög ótrúlegt, að svo gæti verið um öll atriði. Hver ráðh. verður að sjálfsögðu að þola réttmæta gagnrýni gerða sinna, og í því er einmitt styrkur lýðræðis fólginn, styrkur þess lýðræðis, sem byggir á félagafrelsi, prentfrelsi og almennu skoðanafrelsi. En einræðisflokkar, hverrar tegundar sem eru, geta að sjálfsögðu ekki skilið þetta eða vilja a.m.k. ekki skilja það, og það mega þjóðvarnarmenn vita, að það er ofmat á því, hverju þeir geti komið til leiðar, ef þeim dettur í hug, að þeir geti sagt Framsfl. fyrir verkum, ef þeir telja, að þeir geti haft nokkur áhrif á það, hve lengi Framsfl. skipar stjórn með Sjálfstfl. Þá ákvörðun munum við framsóknarmenn sjálfir taka og þá út frá allt öðrum hvötum en vakir fyrir þjóðvarnarmönnum. En þeirra megináhugamál er, eins og allir vita, að sundra og skapa sem mestan glundroða og hindra á þann hátt, að starfhæf ríkisstj. sé við stýrið.“

Þetta sagði aðaltalsmaður Framsóknar við svipaðar umr. á árinu 1954. Beri menn nú þetta saman, þegar Framsókn var í stjórn, við afstöðu hennar nú og frýjunarorð í garð ríkisstj. og samstarfsflokka hennar beggja.

Svona mætti endalaust halda áfram að rekja ósamræmið í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga. Ég skal ekki þreyta þingheim á því, og ég hefði ekki staðið upp einungis til þess, vegna þess að þetta ósamræmi lýsir sér svo vel sjálft. Ég stóð upp vegna þess, að í ræðu minni í fyrradag skoraði ég á hv. andstæðinga mína og gagnrýnendur að nefna dæmi þess, að ég hefði veitt einhverjum venzlamönnum mínum embætti, eins og Tíminn hefur í þessum umr. hvað eftir annað borið mér á brýn eða gefið með orðum sínum tilefni til þess að ætla, að ég hlyti að hafa gert mig freklega sekan um, og eins og ég verð að segja, því miður, fólst í hinni fyrstu grein Jóns Finnssonar um þetta mál og sýndi, að hann fór þar út fyrir takmörk velsæmis. Ég segi, að hann hafi farið út fyrir takmörk velsæmis eins og Tíminn í sínum ásökunum, sem bezt kemur fram í því, að þrátt fyrir áskorun mína, þrátt fyrir þann tíma, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa haft til þess að kanna þetta mál, hafa þeir ekki getað nefnt eitt einasta dæmi um þetta. Ég skora enn á þá að gera það.

Látum það vera. En hér kom fleira fram. Þeir sögðu: Við vitum ekki dæmi þessa, en við skulum atbuga, hvernig hefur verið um embættisveitingar Bjarna Benediktssonar og ráðstöfun hans á dómaraembættum og bæjarfógeta- og sýslumannsembættum. Ég skoraði á þá á dögunum að taka hverja einustu þeirra til athugunar og ganga hér í gegnum umsækjendur um stöðuna og meta síðan frammi fyrir þingheimi og færa sönnur á, að ég hafi rangfarið með mitt vald. Þetta hafa þeir ekki gert. Í stað þess segja þeir: Það eru margir af þeim bæjarfógetum og sýslumönnum, sem Bjarni Benediktsson hefur skipað, sem hafa verið í framboði fyrir Sjálfstfl., ýmist til þings eða til bæjarstjórnar. Og þá er ásökunin orðin sú, að ég hafi skipað í embætti ýmsa menn, sem hafa hlotið það traust í sínum umdæmum, að almenningur þar hefur óskað eftir því að sýna þeim sérstakan trúnað. Er sennilegt, ef skoðað hefði verið, að ég hefði misbeitt mínu valdi, að ég hefði þrengt mönnum upp á kjósendur í þessum héruðum, að þeir mundu sækjast eftir því að fá þessa menn í framboð fyrir sig? Og er það þá orðin dauðasök á embættismenn, ef kjósendur sýna þeim sérstakan trúnað, sérstaka hylli? Það er gott að heyra það í lýðræðislandi, að þessu er fram haldið, ef þeir þora á annað borð að standa við það.

Nú hef ég litið þannig á, að það væri sízt til ámælis Birni Fr. Björnssyni né Páli Hallgrímssyni, sem báðir voru skipaðir með hæpnum hætti, — að það væri hvorugum sízt til ámælis, þó að alþingiskjósendur í þeirra sýslum hafi sýnt þeim þann trúnað að kjósa þá til þings. Ég vil þvert á móti líta þannig á, að kjósendur hafi með því fallizt á það, að þrátt fyrir þá formlegu vankanta, sem voru á skipun þessara manna, hafi eftir atvikum vel verið valið eða a.m.k. viðunanlega, enda hef ég ekki heyrt að embættisfærslu þessara manna fundið út af fyrir sig, þó að það sé óumdeilanlegt, að þeir komust inn í embættið báðir með mjög hæpnum hætti.

Þá skulum við einnig líta á það, sem sagt hefur verið, við skulum bera saman embættismenn, sem Bjarni Benediktsson hefur skipað og Hermann Jónasson. Við skulum bera það saman, ef menn vilja fara út í þann samanburð. En við skulum þá einnig játa, að það hefur bæði komið fyrir embættismenn, sem Bjarni Benediktsson hefur skipað og Hermann Jónasson hefur skipað, að þeir hafa látið af störfum með öðrum hætti en við hefðum óskað eftir, þegar við skipuðum þá. Og það verður aldrei séð fyrir, því miður, hversu vandlega sem að er hugað um embættaskipan, að embættismenn síðar brjóti ekki af sér eða eitthvað komi fyrir, þannig að þeir verði að hverfa úr embætti. Ég segi það hins vegar, og það er allt annað mál, að bæði ég og Hermann Jónasson værum ásökunarverðir fyrir það, — og ég vil ekki dæma um Hermann, þið getið nefnt dæmi um mig, — ef við hefðum hlíft mönnum við að láta þá hverfa úr embætti, ef við vissum þeirra brot. En það er allt annað mál en veitingin sjálf.

Ég sagði, að ekkert dæmi hefði verið nefnt þess, að ég hefði misfarið með veitingu embættis bæjarfógeta og sýslumanns. Hins vegar var hér sérstaklega tilnefndur hæstiréttur og sagt: Berum saman skipun Lárusar Jóhannessonar annars vegar og þeirra Gizurar Bergsteinssonar og Þórðar Eyjólfssonar hins vegar. — Já, berum þetta saman. Og það var sagt: Sjáum, hvernig fór. Lárus hvarf úr embætti, — mér skildist, að það væri þó viðurkennt, að hann væri góður og gegn maður, — en hinir væru í embættinu enn þá. — Nú er það, eins og ég segi, allt annað umræðuefni, sem ekki skal standa á mér að taka upp, ef hv. framsóknarmenn óska eftir því að ræða um, af hverju Lárus Jóhannesson hvarf úr embætti. Ég sé ekki eftir því að hafa skipað Lárus Jóhannesson, og það hefur ekkert komið fram, sem gerði hann óhæfan til þess að vera í embætti. Lárus Jóhannesson taldi sjálfur, að vegna þeirra árása, sem hann hefði orðið fyrir, væri það virðingu hæstaréttar bezt og vegna þess friðar, sem þyrfti að vera um þessa æðstu dómstofnun þjóðarinnar, heppilegast, að hann segði af sér. Og hann sýndi þar þann drengskap, þann manndóm, þann stórleik, sem ég vissi að með honum bjó, þegar hann sagði af sér til þess að forða réttinum frá þeim ásökunum, sem hann varð fyrir, meðan Lárus var þar. En ef menn vilja ræða það mál, skal ekki heldur á mér standa að ræða það í einstökum atriðum. En þá verða menn að þora að segja til, en sleppa dylgjum og óákveðnum orðum, brigzlum um, að menn séu að sleppa sér, og annað slíkt.

En — og ég segi en — ef menn teldu, sem ég tel ekki og vil ekki fallast á, því að ég hef um það örugga vissu, að Lárus Jóhannesson var mjög góður hæstaréttardómari, þó að hann af þeim sökum, sem ég sagði, óskaði sjálfur að segja af sér, — ef menn teldu, að þar hefði mér missézt við skipun í það embætti, vil ég segja, að það sannar það eitt, að þó að eftir öllum reglum sé farið, er það ekki öryggi fyrir, að vel takist, og þó að hæpin aðferð sé höfð, getur betur rætzt úr en til er stofnað, það sannast á skipuninni á Gizuri Bergsteinssyni og Þórði Eyjólfssyni. Ég segi: í þessu felst ekki, og ég tek það skýrt fram, til þess að enginn útúrsnúningur geti átt sér stað í því efni, að ég er ekki að viðurkenna, að illa hafi tekizt til um skipun Lárusar Jóhannessonar, heldur held ég hinu þvert á móti stöðuglega fram.

En hvernig bar skipan Lárusar Jóhannessonar að? Jón Ásbjörnsson var orðinn sjötugur. Það þurfti að skipa mann í hans stað. Embættið var auglýst, eins og lög stóðu til. Um það sóttu tveir menn. Annar var Lárus Jóhannesson, hinn var Theódór B. Líndal prófessor. Þetta var sent til umsagnar hæstaréttar, eins og lög gera ráð fyrir. Og hæstiréttur sendi bréf aftur, dags. 25. apríl 1960. Þar segir:

„Endurrit úr gerðabók hæstaréttar:

Árið 1960, mánudaginn 25. apríl, héldu dómendur hæstaréttar fund í skrifstofu dómsins. Fram var lagt bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. þ. m., ásamt tveimur umsóknum um dómaraembætti í hæstarétti. Eru umsóknir þessar sendar hæstarétti til umsagnar skv. 6. gr. l. nr. 112 frá 1935. Umsækjendur eru þessir: Lárus Jóhannesson hrl., Theódór B. Líndal prófessor. Dómendur eru á einu máli um, að báðir umsækjendur séu hæfir til að gegna dómaraembætti í hæstarétti.

Þórður Eyjólfsson, Jónatan Hallvarðsson, Árni Tryggvason, Gizur Bergsteinsson og Magnús Torfason.

Þetta tilkynnist ráðuneytinu hér með. Umsóknirnar endursendast hér með.“

Þetta var skoðun hæstaréttar. Hvernig lá málið að öðru leyti fyrir? Báðir höfðu verið verulegan hluta sinnar starfsævi málflutningsmenn, báðir hinir mætustu menn. Þannig vildi til, að ég hafði á árinu 1954 skipað Theódór B. Lindal prófessor, og ætti það að sýna, að ég mat manninn mikils. Á móti honum sótti Lárus Jóhannesson, sem var eldri, að mati hæstaréttar hæfur eins og hinn. Og hvert var álit málflutningsmanna á þessum mönnum? Í Lögfræðingatalinu segir um Lárus: „Formaður í Lögmannafélagi Íslands 27. júní 1947—1960 og kjörinn heiðursfélagi þess 1961.“ Þetta stendur í Lögfræðingatali. Þegar Lárus Jóhannesson er skipaður hæstaréttardómari, er hann sem sagt búinn að vera full 13 ár formaður Lögmannafélagsins. Og eftir að hann lætur af starfi, sýnir Lögmannafélagið honum þann einstaka trúnað og traust, að það kýs hann fyrir sinn heiðursfélaga. Hver getur haldið fram, og hver vill leyfa sér að halda því fram, að þessi embættisveiting hafi eftir öllum þeim gögnum, sem fyrir lágu, verið aðfinningarverð? Komi sá fram, sem það vill gera. Ef menn vilja ekki gera það, eiga þeir ekki heldur að vera með dylgjur og óákveðin brigzlyrði í þessu sambandi.

En hvernig var svo varið skipun þeirra ágætu manna, Gizurar Bergsteinssonar og Þórðar Eyjólfssonar, í sín embætti? Við skulum athuga það. Það voru að vísu sett lög um aldurshámark embættismanna og þá ráðgert, að menn mættu ekki vera almennt meira en 65 ára. Var þó undanþáguheimild til sjötugs, að því er ég hygg. Um hæstaréttardómara voru frá fyrri tíð ákvæði í stjórnarskránni. Engu að síður skeði það á sumrinu 1935, að þáv, hæstv. forsrh. og dómsmrh., Hermann Jónasson, sneri sér til tveggja dómara hæstaréttar, sem voru þá meiri hl. réttarins, því að rétturinn var þá einungis skipaður þremur mönnum, og óskaði eftir því, að þeir létu af starfi þegar í stað. Báðir voru þeir búnir að vera í hæstarétti frá upphafi, háðir einstakir heiðursmenn, í meiri metum meðal lögfræðinga a.m.k., ég hygg hjá þjóðinni í heild, heldur en flestir aðrir embættismenn. Annar þeirra var 67 ára og hinn 68 ára. Það liggur fyrir í dómsmrn. bréf frá öðrum, það er dags. í Reykjavík 31. júlí 1935:

„Með bréfi, dags. 29. þ.m., hefur dómsmrh. með tilvísun til gildandi lagaákvæða um aldur hæstaréttardómara og annarra embættismanna mælzt til þess, að ég sendi rn. beiðni til konungs um lausn frá embætti mínu sem dómari f hæstarétti. Sem svar við þessum tilmælum leyfi ég mér að tjá dómsmrn., að mig vantar enn 3 ár til að verða sjötugur, og þar sem ég er heill heilsu og heilbrigður enn þá, finn ég ekki neina ástæðu, er réttlætt geti, að ég nú beiðist lausnar frá embætti mínu. Sé það hins vegar vilji ríkisstj. að fá mig nú leystan frá embætti, heimilar 57. gr. stjórnarskrárinnar, að það sé gert án lausnarbeiðni frá minni hálfu, ef fullnægt er skilyrði því, sem þar er sett.

Virðingarfyllst. Páll Einarsson.

Til dómsmálaráðuneytisins.“

Nú tala menn um það hér af miklum fjálgleik sem fáheyrt hneyksli, að maður, sem einungis er settur í embætti og veit þess vegna ósköp vel, að hverju hann gengur, fái ekki skipun í embættið, þegar staðan er löglega auglýst og henni er ráðstafað, þegar það hefur komið fyrir helzta mann þessa sama flokks að reka úr sjálfum hæstarétti þjóðarinnar tvo af valinkunnustu embættismönnum og dómurum, sem á Íslandi hafa lifað. Ég hygg sannast að segja, að ef þessir menn, — og ég geri ekkert lítið úr þeirra góðvild, en ég geri ákaflega lítið úr þeirra þekkingu, — ef þeir vissu, hvað þeir væru að tala um, ef þeir vissu, hvernig saga þeirra eigin flokks er í þessum efnum, mundu þeir hafa farið sér dálítið hægara í þessu en þeir hafa gert.

Hvernig fór svo um skipunina í embættin? Um embættin sóttu fjórir menn. Ég skal sleppa einum alveg úr. Það vildi þannig til og sýndi ástandið, að ég lenti í því kornungur maður sem þáv. kennari í lagadeild, — ég var 27 ára gamall, — að vera kvaddur til þess sem aukadómari ásamt öðrum kennara í lagadeildinni, mér miklu eldri, Ólafi Lárussyni, og reyndari manni, að fjalla um málið, þegar það var sent til réttarins, vegna þess að það var bara einn hæstaréttardómari eftir í landinu. Það var búið að setja meiri hl. réttarins frá. Og hinn 17. sept. 1935 komum við saman í hæstarétti, og segir í útskrift :

„Ár 1935, þriðjudaginn 17. september, komu dómarar hæstaréttar saman. Eggert Briem og Páll Einarsson hæstaréttardómarar höfðu fengið lausn 13. þ. m., en í þeirra stað eru settir til bráðabirgða með bréfi, dags. í gær, frá dómsmrn. prófessorarnir Ólafur Lárusson og Bjarni Benediktsson. Fyrir var tekið:

Lagðar fram umsóknir um tvö laus dómaraembætti í hæstarétti, hingað sendar til umsagnar með bréfi dómsmrn., dags. í gær. Umsækjendur eru í fyrsta lagi Gizur Bergsteinsson settur skrifstofustjóri í dómsmrn. 2. Magnús Guðmundsson hæstaréttarmálflutningsmaður. 3. (Ég sleppi honum). 4. Þórður Eyjólfsson dr. juris, prófessor.“ (Gripið fram í: Vegna hvers að fara að sleppa honum?) Ég sé enga ástæðu til þess að fara að særa núlifandi mann með því að draga hann inn í þetta mál. Hv. þm. getur fengið að sjá nafnið hér, ef hann vill. Umsögn um umsækjendur var svo látandi:

„Það var sameiginlegt álit, að próf. Þórður Eyjólfsson yrði að teljast hæfur til embættisins. Þeir Einar Arnórsson og próf. Bjarni Benediktsson telja einnig, að hvor þeirra skrifstofustjóra Gizurar Bergsteinssonar og hrm. Magnúsar Guðmundssonar muni vera hæfur til dómarastarfsins, en próf. Ólafur Lárusson telur eigi fyrir liggja nægilegt til þess að láta uppi álit um þá að þessu leyti.“

Þetta er um þessa 3 menn. Nú vil ég segja það alveg tvímælalaust, að ég tel, að það hafi tekizt mjög vel um valið, bæði á Gizuri Bergsteinssyni og Þórði Eyjólfssyni, og ég var eindreginn andstæðingur Hermanns Jónassonar, þegar þetta var undir mig borið. En ég er ánægður með það, að ég hafði þroska til þess og skilning að telja báða þessa menn hæfa.

Hins vegar segi ég það alveg hiklaust, að ég taldi þá og ég tel enn, að það hefði betra verið fyrir þessa menn sjálfa, betra fyrir hæstarétt, betra fyrir sæmd Íslands, ef Þórður Eyjólfsson og Magnús Guðmundsson hefðu verið skipaðir í þetta embætti og Gizur Bergsteinsson hefði fengið að verða dálítið eldri en 33 ára gamall, þegar hann var skipaður í hæstarétt. Það er engum manni til góðs að eiga að sitja í hæstarétti innilokaður alla sína starfsævi, ef svo má segja, og þar kemur margt fleira til heldur en ég get hér í fljótu bragði talið. En menn geta aðeins hugleitt það, af hverju sá fágæti hlutur gerist, að embættismaður biður um það nú að vera leystur frá starfi, áður en starfsaldur hans er liðinn, eins og hæstaréttardómari Þórður Eyjólfsson einmitt gerði nú í sumar. Það er vegna þess auðvitað, að hann finnur til þeirrar einangrunar, sem er því fylgjandi að vera í þessari háu og vandasömu en mjög innilokuðu stöðu til langframa. Ég bið menn að hafa það í huga. Ég segi ekki orð á móti þessum tveimur mönnum. Þeir hafa staðið sig með prýði, og er mjög gott, að svo vel tókst til, alveg eins og það hefði getað tekizt miður til, eins og tókst til um ýmsar embættisveitingar Hermanns Jónassonar á sýslumannsstörfum og sumar mínar embættisveitingar á sýslumannsstörfum einnig. Það gat enginn sagt til um það, hvort þessir menn, sem voru á milli þrítugs og fertugs 1935, yrðu jafngóðir og öruggir dómarar og þeir hafa reynzt.

En hefði nú verið mikill skaði skeður, eins og ég segi, þó að pólitíkin hefði þarna verið látin lúta í lægra haldi? Magnús Guðmundsson, sem af öllum var viðurkenndur ekki aðeins einn fremsti lögfræðingur sinnar samtíðar, heldur einnig ágætur embættismaður, hafði verið sýslumaður úti á landi, hafði verið skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, hafði verið ráðh., hafði verið málflutningsmaður, hafði verið alþm., var viðurkenndur grandvar og gegn maður, — hefði það nú verið íslenzku réttarfari til ills, að maður með slíka reynslu hefði verið skipaður í embættið? Það gat enginn séð það þá fyrir, að hann átti eftir einungis tvö ár ólifuð. Hann dó 1937. En ég segi: Það hefði ólíkt verið ánægjulegra fyrir Hermann Jónasson að skipa Magnús Guðmundsson heldur en láta það vera. Það höfðu að vísu orðið greinar með þeim, og Hermann hafði kveðið upp dóm, sem var mjög hæpinn og var hnekkt, en Hermann hefði vissulega vaxið af því að skipa þennan sinn gamla andstæðing í þessa stöðu. Hann gerði það ekki.

Hann um það. En víst hefði rétturinn grætt á því, ef Magnús Guðmundsson með sinni alhliða reynslu hefði þangað komið, alveg eins og ég segi, hæstiréttur mundi hafa grætt á því, ef maður eins og Hermann Jónasson hefði dregið sig út úr stjórnmálum og gefið kost á sér til hæstaréttarstarfa nokkur síðustu ár sinnar ævi. Ég deili hart á margar stjórnmálaathafnir Hermanns Jónassonar, en ég tel hann engu að síður margreyndan, hygginn mann, sem ef hann tæki að sér hæstaréttardómarastarf, mundi vitanlega gegna því eftir sinni beztu samvizku. Ég tel, og það var ein af ástæðunum til þess, að ég valdi einmitt Lárus Jóhannesson fram yfir Theódór Líndal, að ég tel, að hæstiréttur þurfi að vera skipaður fleirum en eingöngu stofulærðum lögfræðingum, þótt þeir séu góðir og gegnir. Og það hlýtur auðvitað einnig að vakna sú spurning: Var það nú endilega nauðsynlegt að reka þá báða frá í einu, Pál Einarsson og Eggert Briem? Páll lifði að vísu lengi og hélt góðri heilsu fram á níræðisaldur, en Eggert Briem dó 7. júlí 1936, tæpu ári eftir að hann hafði verið sviptur stöðunni. Hermann Jónasson hefði getað ráðið skipun meiri hluta í hæstarétti, þó að hann hefði látið undir höfuð leggjast að gera það með þeim fruntalega hætti, sem hann gerði, að setja þessa tvo mætu embættismenn frá, og þó að hann hefði valið Magnús Guðmundsson á sínum tíma til stöðunnar. Það yrði kannske sagt: Ef Magnús Guðmundsson var svo sjálfkjörinn, af hverju var þá sá mæti maður Ólafur Lárusson hikandi við að gefa honum sína umsögn? Hann lét það undir höfuð leggjast um þá báða, Gizur og Magnús. Allir, sem þekktu Ólaf Lárusson, vissu, að pólitík var eitur í hans beinum, og það var auðvitað það, sem þarna kom til greina. Honum var jafnlítið um hana gefið, hvort sem það var hjá sjálfstæðismönnum, framsóknarmönnum, kommúnistum eða hverjum sem er, og það réð þessari hans ákvörðun, sem var að vísu mjög gagnrýnd af lögfræðingum á sínum tíma.

Ég rek þetta vegna þess, að það var skorað á mig að bera saman þessar tvær veitingar, og ég segi enn og aftur, ef menn vilja halda sér í það að segja, að það sé öruggt að fylgja einhverjum ákveðnum reglum fyrir því, að vel fari, hafa þeir þarna dæmin og geta skoðað þau.

Þetta er að vísu hart deilumál, en þetta er einnig miklu alvarlegra mál en svo, að menn eigi að sleppa með þær hálfkveðnu vísur, þann róg og brigzlyrði, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa haft í frammi um þessi efni. Hv. flm. vill nú hlaupa frá ýmsu, sem hann hefur sagt. Nú orðið á það í raun og veru að vera allt í lagi með Hermann Jónasson, þó að hann hafi haldið embætti fyrir sig, vegna þess að það séu ekki 12 ár, heldur bara í 10 1/2 ár, milli 10 og 11 ár, og það hafi liðið nokkur ár á milli stundum. En það er nú ekki lengra síðan heldur en á þriðjudaginn var, þá birti Tíminn með sinni allra stærstu fyrirsögn og með fallegri mynd af fallegum manni á fremstu síðu aðalkjarnann úr hans framsöguræðu, og hann var tekinn saman í orðunum: „Burt með baktryggingarnar í embættiskerfi landsins“. Hver hefur notið meiri baktryggingar í því efni heldur en einmitt Hermann Jónasson? Enginn. (Gripið fram í: Er það satt?) Er það satt? Já, það er satt. Það hefur enginn notið meiri baktryggingar í þessum efnum heldur en Hermann Jónasson. Það er satt, og það er óvefengjanlegt. (Gripið fram í.) Eigizt þið við, herrar mínir.

Svo er sagt: Það er fyrirgefanlegt og skiljanlegt, það er allt annað mál, þó að almenningssamtök leyfi mönnum frí í 5—6 ár, eins og samvinnufélögin og Búnaðarfélagið. Það er vegna þess, að þar var Jónasi Jónssyni og Steingrími Steinþórssyni leyft að balda störfum, öðrum í 5 ár, en hinum í 6 ár. En ég spyr: Ef almenningur telur það hneyksli að halda embættum svona lengi, hvernig stendur þá á því, að þau almenningssamtök, sem þessir herrar hafa mest ráðin í, skuli einmitt leyfa þetta? Og ef það er eðlilegt, að almenningssamtökin leyfi það, er þá ekki ríkinu þeim mun skyldara að gera vel við sina eigin embættismenn? Það er þó verið að fá fremstu menn þjóðarinnar í sjálf ráðherraembættin, og þeir hverfa frá sínum venjulegu störfum. Og hverjum er þá skyldara en ríkinu að búa þannig um, að menn séu fúsir til þess að taka þetta vandasama starf að sér, starf, sem vissulega er að sumu leyti freistandi, og þess vegna fást menn til þess að gegna því?

Ég vitna aftur til þessa: Hverjum dettur í hug, ef maður eins og Magnús Guðmundsson, sem á sinum efstu dögum óskar eftir því að komast í hæstarétt, — hverjum dettur í hug, að hann hefði ekki orðið hæstaréttardómari og allir talið sjálfsagt, að hann hefði komið þar, ef hann hefði ekki verið stjórnmálamaður? Menn verða ýmsu að fórna, ef þeir vilja taka að sér að standa í þessu þvargi, m.a. þurfa að vera að rífast við þessa piltunga hérna. Ég hef gaman af því. En ég veit ekki, hvort þjóðin hefur gaman af því að horfa upp á þá.