25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2348)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þeim löngu umr., sem hér hafa staðið í 3 daga og tvívegis með framlengdum fundartíma, fari nú senn að ljúka.

Það, sem mér hefur fundizt mest einkennandi við þessar umr., er það, hvernig hæstv. ráðh. Sjálfstfl., sem hafa einir ráðh. á hv. Alþ. tekið að sér það erfiða hlutverk að verja þá stjórnvaldsráðstöfun, sem við höfum hér verið að ræða um undanfarna 3 daga, þ.e.a.s. veitingu embættisins í Hafnarfirði, hafa á allan hátt forðazt, eins og köttur, sem hleypur í kringum heitan graut, að koma að kjarna deiluefnisins. Hér á hv. Alþ. hefur maður gengið undir manns hönd með að krefja þessa menn svara við þeirri einföldu spurningu: Hvað er það, sem gerir Einar Ingimundarson hæfari hinum 2 umsækjendunum til þess að fá embættið í Hafnarfirði? Þetta hef ég spurt um í báðum þeim ræðum, sem ég hef flutt, og tvisvar, þrisvar í hvorri ræðu. Ég hef skorað á hæstv. ráðh. að upplýsa, hvað þessu hefði ráðið, og það eina, sem hefur komið fram, er það, sem ég las upp í ræðu minni áðan og tók orðrétt úr ræðu hæstv. dómsmrh. frá þriðjudeginum síðasta, þar sem hann lætur í það skína og fullyrðir raunar, að kynni sín af Einari Ingimundarsyni hafi verið sú ástæða, sem réð úrslitum um veitinguna á embættinu.

Ég ætla að koma lítillega síðar að þeim terminológiska orðaleik, sem hæstv. ráðh. hafði hér uppi áðan um muninn á kunnugleika og kynnum.

Mér fannst satt að segja ræða sú, sem hæstv. forsrh. hélt, bæði í dag og eins á þriðjudaginn var, vera í hæsta máta óviðeigandi fyrir mann i hans stöðu og honum til lítils sóma. Hann lagði sig sérstaklega í framkróka með að kasta háðsglósum, sérstaklega að okkur talsmönnum Framsfl., sem tekið höfum þátt í þessum umr., og var með alls kyns nafngiftir í því sambandi, eins og puntudrengir og að sumir okkar gætu samið sæmilega stíla, ef þeir fengju nægilegan tíma til þess. Hæstv. forsrh. metur að sjálfsögðu sjálfur, hvað honum finnst viðeigandi sem æðsta valdamanni þessa lands og hvað hann vill nota í pólitískum umr. hér á hv. Alþ., þegar rök þrjóta að öðru leyti, eins og svo greinilega hefur mátt heyra í þeim umr., sem hér hafa orðið. Hann hefur, hæstv. forsrh., í skaphita sínum velt sér upp úr fyrri misgerðum manna í embættisveitingum á undanförnum áratugum, eins og það væri umræðuefnið, sem við þyrftum að tala um. Hann hefur leyft sér í blaðagrein að stimpla alla þá mörgu menn af öllum flokkum sem iðkendur siðleysis fyrir að hafa leyft sér að mótmæla þessari embættisveitingu. Hann hefur leyft sér það frammi fyrir þeirri staðreynd, að 12 menn vinnandi við Hafnarfjarðarembættið, búnir að vinna þar svo að áratugum skiptir sumir hverjir, hafa sagt upp starfi sínu, sem þeim var orðið kært og vildu gjarnan halda áfram að vinna að, ef aðstæður hefðu frekast leyft það. Hæstv. forsrh. finnst það viðeigandi að kalla allt þetta fólk iðkendur siðleysis. Hann um það. En það er fleira en starfsfólkið við Hafnarfjarðarembættið, sem á þessa nafngift frá hæstv. forsrh. Hann kallar sömuleiðis hreppstjórana í Gullbringu- og Kjósarsýslu iðkendur siðleysis, og þó er honum fullkunnugt um það, að margir af þeim eru einlægir flokksmenn hans, sem eftir áratugalanga þjónustu við hann og flokk hans ættu annað skilið af honum en að fá þetta viðurnefni. En það eru fleiri, sem hæstv. forsrh. í baráttuáhuga sinum og viðleitni til þess að ná til sem flestra gefur þetta nafn. Hann gefur samstarfsmönnum sínum í ríkisstj., hæstv. ráðh. Alþfl., sömu nafngift. Hann telur þá einnig iðkendur siðleysis, og svo lítið er geð þessara hæstv. ráðh. Alþfl., að þeir taka þessu með þegjandi þögninni. Þeir hafa vart manndóm í sér til þess að bera af sér sakir, sem bornar eru á þá sjálfa af samstarfsmönnum í ríkisstj. Ég þarf ekki að tala um þá einstaklinga, sem verða fyrir þessu fleiri. Ég vil þó nefna nöfn eins og Árna Gunnlaugsson hrl., Jón Finnsson dómarafulltrúa um margra ára skeið, menn, sem allir, er til þekkja, viðurkenna, að eru drengskaparmenn fram í fingurgóma og fjarri lagi, að hægt sé að ætla, að þeir séu að ganga einhverra pólitískra erinda stjórnarandstöðuflokkanna á þingi, þegar þeir mótmæla embættisveitingunni í Hafnarfirði. Það eru fleiri en þessir Alþfl.-menn, annar þeirra er að vísu fyrrverandi Alþýðuflokksmaður, sem verða fyrir þessari nafngift hæstv. ráðh. Séra Garðar Þorsteinsson, flokksmaður Sjálfstfl. um marga áratugi, Magnús Jochumsson, sjálfstæðismaður um marga áratugi og einn af beztu pennum þessa lands, verða einnig fyrir þessari nafngift hæstv. forsrh. Það er eðlilegt, að hann sé hreykinn af frammistöðu sinni í þessu máli, og má mikið vera, eins og ég raunar gat um hér í dag og Ingi R. Helgason kom að hér áðan, ef forsrh. er með þessum ákafa sínum í baráttunni ekki að koma upp um það, hver er aðalmaðurinn, sem stendur á bak við veitinguna í Hafnarfirði, þó að formlega heyri hún undir dómsmrh.

Mér þótti dálítið undarlegt áðan, að eftir að ég og fleiri vorum búnir að spyrja hæstv. dómsmrh. ákveðinna, tiltekinna spurninga, sem við eigum þinglegan rétt á að fá svör við, þá skyldi hann ekki koma upp og svara þeim, og raunar gerði hann það ekki heldur hér áðan, en í þess stað kom upp hæstv. forsrh. og tók að sér vörn fyrir Jóhann Hafstein.

Ég verð nú að segja það, úr því að hæstv. forsrh. sá ástæðu til þess hér í umr. á þriðjudaginn að stimpla okkur ræðumenn Framsfl. sem puntudrengi Eysteins Jónssonar, og sennilega átti það að vera til lítilsvirðingar okkur og kannske Eysteini líka, að þegar ég heyrði í hæstv. forsrh. hér áðan, þar sem hann var að verja efnislega óverjandi ráðstöfun hæstv. dómsmrh. á embættinu í Hafnarfirði, þá varð mér hugsað um, að það væru kannske til puntudrengir í fleiri flokkum en í Framsfl.

Hæstv. forsrh. sagði áðan einnig eða skoraði á mig, hvort ég vildi fara í mál, stefna í máli til að fá skorið úr því, hvort veitingin á embættinu í Hafnarfirði væri ekki einhverjum þeim annmörkum háð lagalega, sem gætu gert hana ógilda fyrir dómstólum. Þetta hefði nú hæstv. fyrrv. prófessor í stjórnlagafræði ekki átt að segja, því að hann ætti þó öllum öðrum fremur að vita, að enga aðild að slíku máli gæti ég átt, og mér væri ómögulegt að koma slíku máli fyrir dómstólana, jafnvel þótt ég vildi. Þetta er eitt af þeim fjölmörgu dæmum, þótt kannske í litlu sé, sem sýna, í hvers konar ráðþrot hæstv. ráðh. eru komnir í vörn sinni fyrir þessari veitingu.

Hæstv. forsrh. vék enn fremur að því og hældist um, að ekki hefði verið bent á ámælisverðar embættisveitingar af hans hálfu til skyldmenna og venzlamanna sinna. Hér hafa margir vikið að þessu sérstaklega, og ég gat um það, að ég hefði ekki kynnt mér embættisveitingar hæstv. ráðh. þannig á undanförnum árum, að ég gæti fullyrt um þetta af eða á. En ég benti þó á eina staðreynd, sem öllum, sem á annað borð vilja um þessi mál hugsa og athuga, hlýtur að liggja í augum uppi, og það er, hvernig Sjálfstfl. og ráðh. hans hafa seinustu 15 ár raðað sjálfstæðismönnum í embætti bæjarfógeta og sýslumanna um allt land, í þeim eina tilgangi gert að skapa pólitíska forustumenn fyrir sinn flokk. Hæstv. ráðh. hefur ekki neitað þessum áburði, enda getur hann það ekki. Ég taldi upp 12 af 22 bæjarfógetum og sýslumönnum víðs vegar um landið, og af því að undirbúningurinn var nú lítill undir þá ræðu, sem ég varð að halda í gær um þetta mál, þá gleymdi ég tveim, þannig að það er með fyllsta rétti hægt að halda því fram, að 14 af 22 starfandi sýslumönnum og bæjarfógetum í landinu utan Reykjavíkur séu í einhvers konar fyrirsvari fyrir Sjálfstfl. víðs vegar um land, og menn ættu að fylgjast með því, hvernig þeim embættum, sem koma til með að losna í þessum greinum, verður ráðstafað, ef sömu ráðherrar sitja þá í stólunum og fara með veitingarvaldið og hafa gert það undanfarandi ár.

Græðgi sjálfstæðisráðherranna í þessi embætti er svo mikil, að þeir sjást ekki einu sinni fyrir að stinga undan embættum, sem samstarfsflokkur þeirra hefur átt menn í, en hann er veikur og má sannarlega ekki við því að glata miklu af því, sem hann hefur þó haft til þessa. Þannig er embættinu í Hafnarfirði, sem Alþýðuflokksmaður hefur verið skipaður í til fjölmargra ára, nú beinlínis kippt undan þeim flokki, ef svo mætti tala um þessi mál, af Sjálfstfl.

Ég vil líka víkja að því, sem raunar Þórarinn Þórarinsson vék hér að áðan, að það ber ekkert vott um, að kjósendur hafi sérstaklega valið þessa sýslumenn og bæjarfógeta Sjálfstfl. til fyrirsvars fyrir sig. Þeim er skipað á þessa staði af flokksvaldinu í Reykjavík.

Ég vil enn þá að gefnu tilefni endurtaka áskoranir mínar til hæstv. ráðh. Sjálfstfl., sem hér hafa talað, að ræða nú á þeim tíma, sem eftir er, sjálfa embættisveitinguna efnislega, skýra það fyrir okkur hér í þd., hvað það hafi verið, sem réð þar úrslitum. g skora á hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. að gera glögga grein fyrir því, hvaða verðleikar það voru, sem Einar Ingimundarson hafði til að bera umfram hina umsækjendurna og gerðu það sjálfsagt, að hann væri skipaður í þetta embætti. Hvað réð þar úrslitum? Af hverju er ekki hægt að svara því? Og ég vil gjarnan nota þetta tækifæri til þess að spyrja líka, eftir hvaða reglum hefur verið farið í skipun í embætti bæjarfógeta og sýslumanna á undanförnum 15 árum. Það er gott að fá það fram líka í sambandi við þessar umr.

1. þm. Reykn. (MÁM), ágætur vinur minn oftast, hélt hér ræðu, nokkuð skemmtilega ræðu. Það er ekki daglegur viðburður, að sá ágæti þm. haldi ræðu, þannig að auðsjáanlega hefur þó nokkuð legið við. Að mínum dómi hefði ég talið, að hans hagsmuna og hans kjósenda margra hverra a.m.k. suður í Hafnarfirði og Gullbringu- og Kjósarsýslu hefði betur verið gætt, ef hann hefði látið vera að flytja þessa ræðu.

Hér hefur verið vikið að því, að Matthías Á. Mathiesen, 1. þm. Reykn., skar sig úr ásamt með ráðherrum Alþfl., og þó ekki kannske báðum, af því að annar þeirra kom ekkert að því, hann taldi ekki nauðsynlegt að setja reglur um setningu í embætti. Gylfi Þ. Gíslason vildi af skiljanlegum ástæðum ekkert um það ræða. En Matthías Á. Mathiesen tók undir þá skoðun, sem mér virtist gæta hjá hæstv. utanrrh., að það væri eðlilegt, að engar reglur giltu um setningu í embætti. Honum finnst eðlilegt, að svipaðir hlutir og gerðust í Hafnarfirði, þar sem embættismaður var látinn geyma embætti í 10 ár fyrir starfandi stjórnmálamann og ráðherra, það geti gerzt víðar. Út af fyrir sig er þetta atriði, að hann skuli lýsa þessari skoðun sinni, og fagna ég því, að hún er komin fram. Við vitum þá, hvaða afstöðu hann hefur í þessu máli. Enn fremur sagði hann, að það, að Jóhann Gunnar Ólafsson sótti um embættið í Hafnarfirði, hafi sýnt, að hann teldi, að Björn Sveinbjörnsson ætti engan siðferðilegan rétt til embættisins. Ja, mér er nú spurn: Hvaðan hefur Matthías Á. Mathiesen þessar upplýsingar? Hefur Jóhann Gunnar Ólafsson sagt honum þetta? (Gripið fram í: Liggur í umsókninni.) Liggur í umsókninni? Ég hef ekki séð að vísu umsóknina, en kannske hefur hann tekið þetta fram í umsókninni.

Ég fullyrði, að samanburðurinn á rétti Jóhanns Gunnars Ólafssonar annars vegar og Einars Ingimundarsonar hins vegar og svo samanburðurinn á rétti Björns Sveinbjörnssonar og Einars Ingimundarsonar hins vegar er um margt ólíkur, og ég get fyllilega sagt það hér, að ég hefði talið verjanlega veitingu til Jóhanns Gunnars Ólafssonar í þetta embætti, hvað ég tel ekki um veitingu Einars Ingimundarsonar.

Ingi R. Helgason vék að því áðan, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Reykn., þegar hann var að skýra frá því, að héraðslæknisembættið í Hafnarfirði hefði tvívegis verið auglýst laust til umsóknar og í bæði skiptin hefði verið gengið fram hjá starfandi lækni þar í bænum, Bjarna Snæbjörnssyni, mikilsmetnum frambjóðanda Sjálfstfl. og framámanni í bæjarfélaginu í málefnum flokksins, — gengið fram hjá honum til þess að sækja mann utan af landi, eins og hann orðaði það. Og þetta fannst honum eðlilegt. En nú er mér kunnugt um það, að hv. 1. þm. Reykn. hefur suður í Hafnarfirði gengið þar fyrir hvers manns dyr og sagt, að þeim vondu mönnum, sem nú væru að gagnrýna veitinguna á embættinu í Hafnarfirði, færist ekki, því að þeim hefði farnazt illa á sínum tíma, er gengið var fram hjá Bjarna Snæbjörnssyni. Þannig er nú samræmið í hans málflutningi og hans vinnubrögðum. Og það er von, að hann sjái ástæðu til þess að ásaka aðra um ósamræmi, þegar svo er að hlutunum staðið. Enn fremur sagði hann, að það væri rangt, að öll sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu hefði mælt með því, að Birni Sveinbjörnssyni yrði veitt embættið. Það er rétt, að einn af sýslunefndarmönnum var ekki á þeim fundi, sem þessi samþykkt var gerð á, og það af ákaflega einföldum ástæðum, af því að hann var dáinn. Það eru því eðlilegar ástæður fyrir því, að hann var ekki þátttakandi í þessu. Allir aðrir sýslunefndarmenn tóku þátt í þessum mótmælum.

Þá leyfði hv. þm. sér að halda fram furðulegum hlut, sem ég satt að segja hélt hann hefði ekki skap í sér til að vilja staðhæfa hér á hv. Alþingi. Hann hélt þeim blygðunarlausu ósannindum hér fram, að undirrótin að uppsögnum starfsfólksins við Hafnarfjarðarembættið væri af pólitískum toga, og sagði, að það sýndi ljóslega, að það hefði tekið fólkið 1—1 1/2 viku að segja upp. Ég skora á Matthías Á. Mathiesen að nefna einn einasta stjórnmálamann, sem hafði afskipti af uppsögnum þessa fólks. Geri hann það ekki, þá hlýt ég að telja hann ósannindamann að þessum orðum, eins og raunar allir vita, sem þekkja til embættisins suður frá og þekkja, hvernig hlutirnir þar gerðust. Þar var algerlega um forustu hjá starfsfólkinu sjálfu að ræða. Það voru engir utanaðkomandi, sem höfðu áhrif á það eða ákvarðanir þess. A.m.k. er ekki hægt að saka okkur í stjórnarandstöðunni um það, eins og ég hef áður sagt.

Ég held því líka fram, að það sé hlægilegt, þegar hann og fleiri eru að reyna að halda því fram, að meiningin með þeim mótmælum, sem átt hafa sér stað, sé sú að koma pólitísku höggi á dómsmrh. Hver trúir því, að sjálfstæðismennirnir í hreppsnefndum eða hreppstjórarnir í Gullbringu og Kjósarsýslu, sem vitað er að sumir hverjir eru ákveðnir sjálfstæðismenn, séu með mótmælum sínum sérstaklega að slægjast eftir því að koma pólitísku höggi á dómsmrh.? Hver trúir því, að séra Garðar Þorsteinsson sé að mótmæla til þess að koma pólitísku höggi á dómsmrh.? Eða Magnús Jochumsson? Og hver trúir því um bæjarfulltrúa Sjálfstfl. í Hafnarfirði, sem á bæjarstjórnarfundinum, þar sem þetta mál var rætt, létu fyllilega í það skína í umr., þótt þeir flyttu frávísunartill., að þeir væru efnislega, a.m.k. sumir hverjir, mótfallnir þeirri embættisveitingu, sem þarna hefði átt sér stað, og teldu, að brotinn væri réttur á Birni Sveinbjörnssyni? Ég held, að það þurfi meira en meðalauðtrúa menn til þess að halda, að hægt sé að telja fólki trú um svona vitleysu. Eða á maður að trúa því, að sessunautar hæstv. ráðh. Sjálfstfl., þ.e.a.s. ráðherrar Alþfl., séu með mótmælum sínum gegn embættisveitingunni að koma pólitísku höggi á samráðherra sína? Hver á að trúa svona boðskap? Eða Alþýðuflokksfólkið í Hafnarfirði, sem í samtökum sínum hefur samþ. mótmæli? Þetta er allt of ótrúlegt til þess, að nokkur maður geti trúað. Sannleikurinn er sá, að öll sú mótmælaalda, sem risin er í landinu, er runnin frá fólkinu sjálfu. Það veit, að það hefur verið troðið á réttlætinu með þessari embættisveitingu, og réttarmeðvitund þess krefst þess, að það sýni mótmæli sín ýmist í uppsögnum á störfum eða skriflega í blöðum landsins. Þetta er staðreyndin, einföld, en sönn.

Og þá er nú hugsunarhátturinn, sem lýsti sér hjá hv. þm., þegar hann sagði: Ef þm. Framsfl. — og átti við mig — hefðu kynnt sér embættisveitingar undanfarandi ára, þá hefði hann ekki flutt þetta mál. — Þetta er nú aldeilis hugsunarháttur. Af því að einhverjir flokksbræður mínir hafa fyrr á árum gert eitthvað, sem var e.t.v. rangt í embættisveitingum, þá á það að skuldbinda alla þá, sem eftir kunna að koma og sitja á þingi í nafni flokksins, til þess að halda því áfram. Finnst mönnum þetta ekki heilbrigður hugsunarháttur?

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að víkja fleiri orðum að ræðu hv. 1. þm. Reykn. Ég sagði áðan, að hún hefði verið kærkomið innlegg í umr., og þykist nú hafa sýnt fram á það að nokkru leyti. En ég vil þá snúa mér að þeirri ræðu, sem hæstv. dómsmrh., sá ágæti maður, hélt hérna áðan.

Hann sagði m.a., að skipunin í þetta embætti væri ekkert einsdæmi, en hins vegar sagði hann, að það væri einsdæmi, hvað setningartíminn væri langur. Jú, hálf játning er betri en engin. En ef hinn langi setningartími, sem Björn Sveinbjörnsson sat suður í Hafnarfirði og gætti embættisins fyrir Guðmund Í. Guðmundsson, er einsdæmi, er þá ekki sennilegt, að skipunin, sem er bein afleiðing af þessu einstæða ástandi, sé líka einsdæmi? Ég held, að flestum hljóti að þykja svo vera.

Og þá sagði hæstv. ráðh., að ég held í fjórða eða fimmta skiptið í þessum umr., auk þess sem hann hafði áður látið það í ljós á prenti, að setning mætti ekki ráða því, hver yrði skipaður í embætti, því að þá væri gengið á rétt svo margra annarra saklausra manna. Ég vék nú að þessu áðan sérstaklega, en annaðhvort hefur hæstv. ráðh. ekki viljað skilja það, sem ég sagði þá, eða kannske hafi hann ekki verið við, svo að ég vil aðeins endurtaka það í örfáum orðum, sem ég sagði um þetta atriði.

Ég hef ekki, og ég veit ekki um nokkurn annan, sem gagnrýnt hefur embættisveitinguna í Hafnarfirði og haldið því fram, að óeðlilegt hafi verið að auglýsa embættið og gefa öllum þeim kost á að sækja um það, sem til þess höfðu hæfileika og þá þekkingu, sem eru skilyrði fyrir embættisveitingu. Þetta er alveg ljóst. Fyllsta réttlætis var gætt með því að auglýsa embættið. En hitt hef ég sagt, að hin langa seta Björns Sveinbjörnssonar í þessu embætti hlyti að vera ein af ákvörðunarástæðum þeim, sem réðu vali hæstv. ráðh., þegar hann veldi einn af umsækjendunum til þess að taka embættið. Og þetta hefur hæstv. ráðh. viðurkennt sjálfur, þó að hann hafi ekki breytt í samræmi við það.

Ég las upp áðan orðrétt úr ræðu hæstv. ráðh. s.l. þriðjudag, þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta: „Og mér dettur ekki heldur í hug að halda, að það hafi engin áhrif haft á veitinguna hjá mér kynni mín af Einari Ingimundarsyni og það, hvernig ég hef vitað hann rækja sitt embætti, og það, hvernig ég hef vitað hann rækja sína þingmennsku. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það hafi ekki haft sín áhrif, enda tel ég réttast, að slíkt hafi áhrif. Ef maður er sjálfur sannfærður um mannkosti manns, á maður ekki að láta hann gjalda þess, þó að hann sé í sama flokki og maður sjálfur.“

Hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. hafa báðir séð ástæðu til þess að fetta fingur út í þær ályktanir, sem ég dró af þessum orðréttu ummælum hæstv. ráðh., því að ég mun hafa notað „kunningsskapur“ í stað þess, sem ráðh. talar hér um „kynni“. Það má vel vera, að einhver munur sé þar á. En það breytir engu um það aðalatriði, að hér viðurkennir hæstv. dómsmrh., að það séu kynni hans af Einari Ingimundarsyni sem bæjarfógeta og kynni hans af Einari Ingimundarsyni sem þingmanni, sem hafi ráðið úrslitum um embættisveitinguna. Ég fæ ekki betur séð. Hvaða réttlæti er það, ef svo vill til, að einn umsækjenda er þingmaður og veitingarvaldið hefur aðstöðu til þess að kynnast honum sem slíkum, ef það á að ráða úrslitum um embættisveitinguna umfram annað? Ég veit ekki, hvert svona hugsunarháttur mundi leiða um embættisveitingar, væri hann í gildi hafður og virtur í framkvæmdinni.

Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, að ég hefði falsað ummæli sín, og hann bar mér á brýn, svipað og Bjarni Benediktsson gerði um starfsfólkið i Hafnarfirði, að ég væri enn einn af þessum iðkendum siðleysis, svo að maður noti orð hæstv. forsrh. í Reykjavikurbréfinu. Ég skal þola þá ákúru frá hæstv. ráðh., meðan hún er ekki betur rökstudd en þetta. Ég hef hér lesið upp orðrétt, hvað hann hefur sjálfur sagt um embættisveitinguna, og ég læt hv. þm. alveg eftir að dæma um það, hvort ég hef brugðið það mikið út af ummælum ráðh., sem ég var hér að lesa, að réttlæti þessi ummæli. Ég held, að það sé ekki nein ástæða til þess a.m.k.

Ég vil svo aðeins að lokum þessarar umr. leggja áherzlu á örfá meginatriði þessa máls.

Í fyrsta lagi er það alveg ljóst, enda ekki mótmælt af neinum, sem staðið hefur í forsvari fyrir embættisveitingunni, að það er ekkert fordæmi til fyrir því í sögu síðustu áratuga a.m.k., að vinsæll og flekklaus embættismaður sé rekinn úr starfi fyrirvaralaust til þess að rýma fyrir þm. og flokksbróður þess, sem veitingarvaldið hefur, eftir að hann hefur gegnt starfi í 10 ár. Það er ekkert annað fordæmi til. Ef það er til, þá skora ég hér með á hæstv. dómsmrh. eða hæstv. forsrh. að nefna það. (Dómsmrh.: Það var ekki einu sinni hérna, það hefur enginn verið rekinn frá störfum.) Ég vék að því í ræðu minni hér í dag, að í reyndinni væri veiting embættisins í Hafnarfirði til Einars Ingimundarsonar sama og það að víkja Birni Sveinbjörnssyni úr starfi, og það rökstuddi ég í dag og nenni satt að segja ekki að endurtaka það.

Í öðru lagi er ekkert einasta fordæmi til hér í landinu í sögu seinustu áratuga fyrir svipaðri andúðaröldu og risið befur undanfarnar tvær vikur vegna embættisveitingarinnar í Hafnarfirði. Þetta sker alveg úr um mat almennings á henni.

Í þriðja lagi er það ljóst, og mér vitanlega hefur það aldrei gerzt fyrr í sögu Alþingis, að meiri hluti á Alþingi væri fyrir því að telja embættisveitingu ráðh. ranga. Það hefur komið fram í umr. hérna, að talsmenn þriggja stjórnmálaflokka telja, að embættisveitingin sé röng og að fremur hefði átt að veita öðrum manni embættið en fékk það. Þetta er líka einsdæmi.

Engum af þessum meginatriðum hafa ráðherrar Sjálfstfl. svo mikið sem leitazt við að svara.

Ég vil svo, herra forseti, í lok þessarar umr. endurtaka spurningar, sem ég bar fram fyrr í dag og ég hélt, að ég ætti þinglegan rétt á að fá svar við, en hæstv. ráðh. reyndi ekki að svara áðan. Það er upplýst, að þrír þingflokkanna eru andvígir þessari veitingu og telja, að öðrum manni hefði átt að veita embættið, ef rétt sjónarmið hefðu ráðið. Af því tilefni spyr ég hæstv. ráðh. dómsmála: Ætlar hann að taka nokkurt tillit til þessa yfirlýsta vilja þingmeirihlutans, eða ætlar hann að virða vilja þingmeirihlutans að vettugi? Ég tel ákaflega mikilvægt, að hæstv. ráðh. gefi svör við þessum spurningum, og ég vil endurtaka, að ég mundi telja, að hæstv. dómsmrh., Jóhann Hafstein, yxi af því í augum langsamlega stærsta hluta þjóðarinnar, ef hann tæki þessa embættisveitingu til endurskoðunar á ný. Ég trúi því ekki, ef svo yrði, að hann mundi þá ekki sannfærast um, að hún sé ekki gerð á réttum efnisrökum, og það mikið tel ég mig þekkja til Einars Ingimundarsonar, að ég tel, að hann mundi ekki mæla því mót, þegar sú niðurstaða væri fengin eftir glögga skoðun, að þessi embættisveiting yrði annúlleruð og embættið veitt á ný.