25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2349)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur örfá orð út af ræðu hv. 4. þm. Reykn. (JSk). Ég heyri hins vegar, að hann er kvefaður, og ég mun þar af leiðandi ekki fara út í langar umr., til þess að hann þurfi að tefja hér lengur í kvöld. En þó eru nokkur atriði úr hans ræðu svo og ræðu hv. 3. landsk. (IRH), sem ég vildi minnast hér á.

Mér virtist á ræðum þeirra beggja, að þeir hefðu misskilið það, sem ég átti við, þegar ég ræddi grein þessa frv., sem hér um ræðir. Ég sagði, að hér hefðu farið fram umr. um þetta og menn virtust yfirleitt á því máli allir, að þetta þyrfti að athuga á einn eða annan hátt. Ég sagði hins vegar eða vildi sagt hafa, að það væri ekki óeðlilegt, þó að þeir menn, sem kvaddir væru til ráðherrastarfa, hefðu á einhvern hátt tryggingu í sambandi við störf, sem þeir færu úr, þegar þeir tækju við ráðherrastörfum. Hér er gert ráð fyrir 4 ára möguleika. Það, sem ég átti við með þessum orðum, var einfaldlega það, að það væri ekki endilega víst, að þessi 4 ár væru rétti tíminn, og vonast ég þá til þess, að ég hafi leiðrétt þennan misskilning.

Hv. 4. þm. Reykn. minntist á það, sem ég kom að í minni ræðu áðan varðandi veitingu á héraðslæknisembættinu í Hafnarfirði 1941 og 1947. Ég minntist einmitt á þetta, þegar ég ræddi þann þátt þessarar veitingar, að embættismaður væri fluttur úr embætti úti á landi til betra embættis hér suður við Faxaflóa. Og ég benti einmitt á þessi dæmi og hélt, að ég hefði svo glögglega skýrt frá því sem dæmi, hvernig veitingarvaldið hefði talið á undanförnum áratugum eðlilegt, að þeir aðilar, þeir embættismenn, sem úti á landi störfuðu, flyttust í betri störf síðar. Ég hneykslaðist á engan hátt á þessari veitingu. Ég sagði hins vegar aðeins frá henni, og ég sagði frá því, að Hafnfirðingar hefðu með undirskriftum skorað á þáv. heilbrmrh. að veita Bjarna Snæbjörnssyni þetta embætti, en þrátt fyrir allar þær undirskriftir fór veitingarvaldið sínu fram. Ég efast ekkert um það, ef þarna hefði átt sér stað kosning, hver hefði verið kosinn héraðslæknir. Þessi maður, sem hér um ræddi, náði ætíð kosningu, meira að segja sem pólitískur maður, þegar hann bauð sig fram, hvað þá ef hann hefði nú boðið sig fram sem læknir. En það, sem ég átti við, var einfaldlega þetta: Veitingarvaldið hefur haft þetta sjónarmið, og þess vegna er það ekkert nýtt, þó að núv. dómsmrh. hafi það sjónarmið áfram að færa embættismenn til utan af landi hingað suður í þéttbýlið.

Þá minntist hv. þm. á sýslunefnd Gullbringu og Kjósarsýslu. Mér virtist hann ekki gera sér fyllilega grein fyrir, hvernig fer um sýslunefndarmann, þegar hann andast, en í kosningu til sýslunefndar er ævinlega kosinn varamaður, og hann tók sæti í sýslunefnd undir þessum kringumstæðum, og hann ritaði ekki undir þessar áskoranir. Hins vegar kom það fram í einu blaði, af hálfu eins af starfsmönnum sýsluskrifstofunnar, að þessi ágæti maður gerði hinum látna upp skoðanir í sambandi við þessa embættisveitingu. (Grípið fram í: Það er ótækt.) Vissulega, en ég man ekki betur en Jón Finnsson fulltrúi hafi sagt í viðtali við Þjóðviljann, að hefði þessi ágæti sýslunefndarmaður lifað, þá mundi hann sjálfsagt hafa stutt núverandi settan sýslumann. En niðurstaðan er sú, að sýslunefndin öll, að einum undanskildum, mælti með því, að þessi maður, sem hefur verið settur í embættið, yrði skipaður.

Þá minntist hv. þm. á mótmælin frá hreppstjórum og hinum og þessum og benti á, að hér væri hópur af sjálfstæðismönnum, sem hefðu mótmælt þessari embættisveitingu. Eftir því sem ég bezt þekki til, þá hefur undirskrifað þetta einn einasti sjálfstæðismaður, og ég vil benda bv. þm. á það, að hreppstjórarnir í Kjósarsýslu hafa einmitt undirstrikað, að þeir hafi ekki mótmælt veitingunni. Er það ekki rétt? (Gripið fram í: Ég veit ekki.) Nei, það er ágætt, að þm. veit ekki það, sem hann er að tala um.

Hann minntist enn þá á það, sem hann drap á í fyrri ræðu sinni hvort ekki væri hægt að taka veitinguna til baka. Ég verð að segja það um lögfræðing, sem ræðir slík mál, hafandi lært stjórnlagafræði, að ég skil ekki þá hluti. Hér hefur farið fram embættisveiting og hún gerð á löglegan hátt, og eins og hæstv. forsrh. minntist á í dag, er ekki möguleiki á öðru en víkja þá viðkomandi manni úr embætti og þá fyrir einhverjar sakir. Það er allt annað mál, hvort þm. fer fram á það við þann aðila, sem hefur fengið embættið, að hann segi af sér.

Ég sagði hér í dag, eftir að hv. 4. þm. Reykn. lýsti því yfir, að hann hefði ekkert athugað eða kynnt sér veitingar undanfarna áratugi, að hann hefði þá ekki flutt þetta frv. Það má vel vera, að hann hefði flutt það, en ég er alveg sannfærður um það, eins og ég sagði í dag, að hann hefði alls ekki talað eins og hann hefur talað, ef hann hefði kynnt sér þessar embættisveitingar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég er sannfærður um, að það, sem hér hefur verið látið gerast og hefur svo síðan verið gert mikið úr, er af pólitískum toga spunnið, og það skyldi þó aldrei hafa verið, að einhverjir af þeim mönnum, sem staðið hafa fyrir þessum hlutum, hafi skotizt hér niður í þinghús til að tala við einhvern þm.?

Ég endurtek, að hæstv. dómsmrh. mun vaxa af því, að þær árásir hafa verið gerðar á hann, sem gerðar hafa verið hér af framsóknarmönnum. Fólk mun sjá það, hvers vegna þær eru gerðar, og hv. 3. landsk. missti út úr sér áðan, hvers vegna hana ásakanir væru, þær væru af pólitískum toga spunnar, og allar þær ásakanir, sem hér hafa verið gerðar á veitingu, sem stenzt fyllilega lög, fyllilega siðferði, eru af pólitískum toga spunnar, og sá ráðh., sem fær slíkar árásir, stendur mun betur eftir en áður.