26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2361)

161. mál, vegalög

Helgi Bergs:

Herra forseti. Mér þykir sem 1. flm. þessa frv. viðeigandi að þakka hv. samgmn. fyrir afgreiðslu frv., ekki bara minni hl., sem hefur skilað vönduðu áliti, studdu þungum rökum úr skýrslu vegamálastjóra, heldur líka meiri hl. Það kann nú einhverjum að finnast, að það sé lítið að þakka, þar sem meiri hl. treystir sér ekki til að leggja til, að frv. verði samþykkt, en á hinn bóginn höfum við stjórnarandstæðingar hér á hv. Alþ. mátt þola það á undanförnum árum, að n. leggist á frv. okkar og neiti að veita þeim þinglega meðferð, og mér þykir því rétt að þakka meiri hl. fyrir það, að hann skuli hafa brugðið þessum sið og afgr. þetta frv. með eðlilegum hætti, þó að ég sé ósammála niðurstöðu hans.

Það var aðallega til þess að segja þetta, sem ég kvaddi mér hljóðs, því að efnislega hefur hv. frsm. minni hl. gert grein fyrir sjónarmiðum okkar flm. En vissulega gaf ræða hv. frsm. meiri hl. nokkurt tilefni til andsvara, en einnig því hefur frsm. minni hl. að nokkru leyti gert skil. Mér þykir þó rétt að nefna það, að frsm. meiri hl., hv. 4. landsk. þm. (JÞ), taldi, að það væri óeðlilegt að ákveða tekjuöflunarleiðirnar fyrst, áður en áætlunin um framkvæmdirnar lægi raunverulega fyrir, og taldi því, að athugun á tekjuöflunarleiðum ætti að bíða, þangað til vegáætlunin væri til meðferðar.

Hv. þm. hefur, veit ég, það mikinn kunnugleika á störfum hv. Alþ., að hann veit, að þegar vegáætlunin kemur til meðferðar, verður hún sniðin eftir því fé, sem til ráðstöfunar verður á þeim tíma. Þess vegna álít ég, að þetta sjónarmið hans sé rangt og við þurfum í tíma að gera okkur grein fyrir, hve miklu fé við getum ráðstafað til þessara þarfa, og síðan yrði vegáætlunin sniðin eftir því. Að vísu hefur þetta að sjálfsögðu nokkur áhrif hvað á annað, mér er það ljóst, en sjónarmið hv. frsm. meiri hl. eiga í þessu sambandi ekki rétt á sér að mínum dómi.

Ég tel, að þó að svo færi, að d. féllist á sjónarmið meiri hl. n. og vísaði þessu máli til ríkisstj., þá hefði það þó þegar orðið að nokkru gagni hér, og á ég þá við það, að það hefur greinilega komið fram í framsöguræðu hv. 4. landsk. þm. sjónarmið meiri hl., að hann er sammála okkur um nauðsyn aukinna fjárveitinga til þessara mála. Þar með er því slegið fullkomlega föstu og ekki yfirlýst af einum og einum þm., heldur slegið fullkomlega föstu, að hv. alþm. munu yfirleitt sammála um þetta atriði, og það er þó nokkur vinningur.

Ég ætlaði mér nú að gera hér að umræðuefni nokkuð aths. hv. frsm. meiri hl. við skýrslu Félags ísl. bifreiðaeigenda um umferðartekjurnar. Ég get að mestu látið það eiga sig, því að hv. 4. þm. Austf. kom inn á þetta atriði. En mér þykir þó rétt að benda á það, að hér eru ekki nein óljós hugtök á ferðinni. Hér eru á ferðinni alveg hrein og skýr hugtök. Þegar talað er um umferðartekjurnar, er átt við tekjur ríkisins, í hverju formi sem er, af þeim tækjum, sem um veginn fara, og rekstrarvörum þeirra. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt og um leið eðlileg viðmiðun fyrir vegaframkvæmdirnar, vegna þess að ef ekki væru vegir í þessu landi, væru þessar tekjur ekki til. Hitt er svo annað mál, sem hæstv. fjmrh. kom inn á við umr. fyrr í vetur, sem ég get fyllilega verið honum sammála um, að nokkuð af þessum tekjum má lita á sem eðlilega tolla, það sé eðlilegt, að ríkissjóður hafi einhverjar tolltekjur af þessum vörum rétt eins og öðrum til almennra þarfa. En þá verður um leið að segja hitt, að þá er ekkert eðlilegt í, að þessir tollar séu svo háir eins og raun ber vitni, heldur væri þá um eðlilega, lága tolla að ræða. T.d. af benzíni á bifreiðar eru tollar 50%, af öðru eldsneyti eru þeir mjög lágir, og sama máli gegnir um tolla af bilum, þeir eru líka hærri en af mörgum eða flestum öðrum tækjum. Ég held, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta atriði, en vil endurtaka það, að ég er þakklátur hv. n. fyrir að hafa afgr. þetta mál frá sér.