02.11.1965
Efri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2367)

35. mál, íþróttalög

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 5 hv. þm. Framsfl. að bera fram þetta frv. um breyt. á íþróttalögum, nr. 49 frá 1956.

Það er nú nákvæmlega aldarfjórðungur, síðan íþróttalög voru fyrst sett. Það orkar ekki tvímælis, að sú lagasetning var bæði merk og hefur orðið áhrifarík í uppeldismálum þjóðarinnar. Tilgangur íþróttalaganna er að auka heilbrigði manna og hreysti, líkamsfegurð, vinnuþrek og táp. Íþróttalögin hrundu af stað áhuga á því að efla íþróttir, og þau lög lögðu grundvöll að bættum skilyrðum til íþróttaiðkana, bæði með skipulegri yfirstjórn íþróttamála og með allverulegu fjárframlagi í sambandi við stofnun og starfsemi íþróttasjóðs. Þó að íþróttasjóður hafi oft haft yfir of litlu fjármagni að ráða, er ótvírætt, að hann hefur veitt mikla örvun við að byggja íþróttamannvirki, og þau hafa síðan veitt skilyrði til fullkomnara íþróttastarfs og meiri íþróttaiðkana en áður átti sér stað. Samhliða þessu hefur íþróttanám í skólum verið aukið og það verið lögfest að gera sund að skyldunámi í barnaskólum. Þetta hefur leitt bæði til almennari þjálfunar í íþróttum en áður átti sér stað, og er hin samnorræna sundkeppni, sem farið hefur fram á Norðurlöndum og m.a. hér á landi oftar en einu sinni, góður vitnisburður í þessu efni. En þeir, sem fram úr skara, hafa komizt á það stig að vinna glæsileg íþróttaafrek, sjálfum sér til frægðar og þjóðinni allri til mikillar sæmdar.

En nú er svo háttað, að íþróttir eiga mikilvægu og auknu hlutverki að gegna í uppeldismálum þjóðarinnar að dómi flm. þessa frv. Atvinnuhættir þjóðarinnar taka örum breytingum, þannig að þeim mönnum fjölgar sífellt, sem vinna innanhúss, annaðhvort þjónustustörf, skrifstofustörf eða við iðnað, en þeir verða æ færri í hlutfalli við fólksfjölda þjóðarinnar í heild, sem hafa við störf sín útivist og hreyfingu. Þessi breyting á atvinnuháttum þjóðarinnar kallar á aukið íþróttastarf, til þess að sá tilgangur, sem felst í íþróttalögunum, náist, en það er, eins og ég gat um áður, að auka heilbrigði manna og hreysti, líkamsfegurð, vinnuþrek og táp.

Allan þann tíma, sem íþróttalögin hafa verið í gildi, þ.e.a.s. í aldarfjórðung, hefur stjórn íþróttamála verið hagað á sama veg, þ.e.a.s. að menntmrn. fer með yfirstjórn íþróttamála, en starfsemina mótar að öðru leyti 3 manna íþróttanefnd, þar sem Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband Íslands tilnefna hvort um sig sinn fulltrúa, og er framkvæmd íþróttalaganna á þann hátt tengd þessum mikilvægu félagsmálahreyfingum, en íþróttafulltrúi ríkisins hefur síðan á hendi framkvæmdastjórn þessara mála og hefur notið nokkurrar aðstoðar af hálfu fræðslumálaskrifstofunnar við starf sitt. Nú er það augljóst, að eftir því sem íþróttaiðkanir aukast og verða fjölbreyttari, eftir því sem íþróttir í skólum skipa meira rúm og eftir því sem fólksfjöldinn eykst, þá verður starf íþróttafulltrúa æ umfangsmeira. Hér er því lagt til í þessu frv., að landinu skuli skipt í íþróttaumdæmi og skuli miða skiptinguna við landsfjórðunga og í hverju íþróttaumdæmi starfi íþróttanámsstjóri, hann sé ráðinn af menntmrn. til 3 ára í senn, að fengnum till. íþróttanefndar. Miðað er við það í þessu frv. að íþróttanámsstjóri verði búsettur í því umdæmi, þar sem bann á að starfa. Hann skal hafa lokið prófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands eða hlotið menntun, sem jafngildir því að dómi ráðh. Störf íþróttanámsstjóra eiga skv. frv. að vera þessi: Hann á að vera íþróttafulltrúa og íþróttanefnd til aðstoðar um stjórn og framkvæmd íþróttamála í því umdæmi, þar sem hann starfar og er búsettur. Hann á að efla frjálsa íþróttastarfsemi og veita íþróttafélögum og einstaklingum aðstoð og leiðbeiningar um íþróttamál. Hann á í þriðja lagi að hafa eftirlit með íþróttanámi í skólum og vinna að því að gera það sem fjölbreyttast. Enn fremur á íþróttanámsstjóri að leitast við að efla hollt félagsstarf og reglusemi æskufólks.

Það er skoðun okkar, sem stöndum að flutningi þessa frv., að með þeirri skipan, sem hér er lögð til í frv., mundi íþróttum verða gert hærra undir höfði að ýmsu leyti í framkvæmd en auðið hefur verið til þessa, og við erum þeirrar skoðunar, að eins og íþróttalögin í heild hafa reynzt áhrifarík um uppeldismál þjóðarinnar, þá muni það, sem hér er lagt til, og annað, sem kynni að hníga í sömu átt, einnig hafa mikilvæg og góð áhrif, þegar það befur komið til framkvæmda. Það liggur í augum uppi, að íþróttanámsstjóri fengi góða aðstöðu til þess að gerast leiðbeinandi og leiðtogi í félagsskap æskumanna. Og skv. frv. ber honum að leitast við að efla hollt félagsstarf og reglusemi æskufólks. Flm. telja, að það geti samrýmzt öðrum störfum hans og af því megi vænta góðs árangurs, því að það er kunnara en frá þurfi að segja, hvað félagsskapurinn og sérstaklega áhrif þeirra, er leiðtogar eru í æskulýðsfélögum, getur haft mikil og heillavænleg áhrif á lífsviðhorf æskufólks. Og það er vissulega eitt af því, sem nú um þessar mundir ber að gefa gætur, því að margvísleg vandamál er við að etja í sambandi við viðhorf æskumanna, bæði til áfengis og ýmissa annarra atriða, sem teljast mega miður holl í félagslífi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að skýra efni þessa máls með fleiri orðum, en legg til, að frv. verði visað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og menntmn.