09.12.1965
Neðri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir hv. d. um aukatekjur ríkissjóðs, er þáttur í þeim ráðstöfunum, sem boðaðar voru, er fjárlagafrv. var lagt fram, til þess að tryggja greiðsluhallalaus fjárlög á árinu 1966. Var í fjárlagafrv. gert ráð fyrir allverulegri hækkun á aukatekjum ríkissjóðs, sem var gert ráð fyrir að mundi gefa um 22 millj. kr. á næsta ári.

Aukatekjur ríkissjóðs, sem eru, eins og hv. þdm. vita, alls konar leyfisbréfagjöld, dómsmálagjöld og skiptagjöld og gjöld fyrir fógetagerðir og annað þess konar, hafa ekki verið hækkaðar síðan árið 1960, að í l. um efnahagsmál var ákveðið, að þessi gjöld skyldu innheimt með 50% viðauka. Síðan sú hækkun fór fram, hefur að sjálfsögðu orðið mjög veruleg kostnaðarhækkun hjá öllum þeim embættum, sem hafa með þessa þjónustu fyrir borgarana að gera, og enda þótt það liggi ekki fyrir nákvæm athugun á því, þykir mér ekki ólíklegt, að kostnaðarauki hinna ýmsu embætta af þessum sökum hafi vaxið a.m.k. jafnmikið, ef ekki meira en þær hækkanir. sem hér er gert ráð fyrir. Í meginefnum fela þessar hækkanir í sér, að gjöld þessi hækka um 1/3 frá því, sem nú er. Það gat komið til álita tvenns konar leið í þessu efni: annaðhvort að hækka einfaldlega um ákveðna prósentu, eins og gert var 1960, þessi gjöld, en hins vegar þótti rétt við nánari athugun málsins að endurskoða alla löggjöfina um aukatekjurnar, þar sem ýmiss konar ósamræmi var milli hinna einstöku gjalda orðið og ástæða gat verið til að hækka sum gjöldin meira og önnur minna, svo sem gert er ráð fyrir í frv.

Í hv. Ed. voru gerðar mjög smávægilegar breytingar á frv., sem ekki skipta máli og ég sé ekki ástæðu til þess að ræða sérstaklega. Með frv., eins og það var lagt fram, fylgir mjög nákvæm grg. um það, hvaða hækkanir eru á gjöldum þessum í hverju einstöku tilfelli, og ég held ekki, að ég skýri það betur, heldur einungis valdi óþarfatöfum á störfum hv. d. með því að fara að rekja það í einstökum atriðum, en leyfi mér að vísa til þeirrar grg. og vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á, að hún sé viðunandi upplýsing um þessi efni, hvaða breytingar hér er um að ræða.

Ég tel ekki, herra forseti, að það sé þörf á því, þar sem þetta mál er mjög einfalt að eðli til, að eyða um það fleiri orðum, nema tilefni gefist til, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.