03.05.1966
Efri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (2376)

121. mál, Listlaunasjóður Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. þetta, sem flutt er af 1. þm. Norðurl. e, (KK), hefur verið til athugunar hjá menntmn., og eins og fram kemur í nál. á þskj. 683, sendi n. frv. til umsagnar til stjórnar Bandalags íslenzkra listamanna og stjórnar Myndlistarfélagsins.

Umsögn hefur ekki enn borizt frá stjórn Bandalags íslenzkra listamanna, en hins vegar hefur borizt frá Myndlistarfélaginu svo hljóðandi umsögn:

„Stjórn Myndlistarfélagsins leyfir sér að mæla með þessu frv., sem er bæði einfalt og sanngjarnt. Þó teljum við æskilega breyt. á 4. gr. frv., þannig að úthlutunarnefnd myndlistarlauna yrði skipuð fimm mönnum í stað þriggja með þeim hætti, að menntamálaráð kysi einn mann og yrði hann formaður n., Félag íslenzkra myndlistarmanna tilnefndi tvo menn og Myndlistarfélagið tvo menn. Enn fremur er æskileg önnur breyting á sömu grein, að kjör í n. þessa gildi til tveggja ára í stað þriggja.“

Nú hefur fyrir fáeinum dögum verið samþ. í Sþ. ályktun, þar sem skorað er á ríkisstj. að láta undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþingi löggjöf um úthlutun listamannalauna, og eins og fram kemur í nál., þá leggur menntmn. til með skírskotun til þeirrar áskorunar, að d. vísi frv. til ríkisstj. í trausti þess, að ríkisstj. láti frv. koma til athugunar við undirbúning löggjafar um úthlutun listamannalauna.