16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

67. mál, bátaábyrgðarfélög

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram hér strax við 1. umr. þessa máls, að ég tel, að örugglega þurfi að gera a.m.k. eina breytingu á frv., en það er varðandi þá sérstöðu, sem Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja hefur haft í sambandi við tryggingu fiskiskipa af stærðinni allt að 100 tonnum.

1949 var samþykkt hér á hinu háa Alþ. breyting á l. frá 31. maí 1947, um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, þannig:

„Aftan við 2. gr. l. komi ný mgr., svo hljóðandi :

Bátaábyrgðarfélag það, sem nú starfar í Vestmannaeyjum, er undanþegið ákvæðum þessara laga. Þó skal því skylt að tryggja skip og báta, sem skrásett eru í Vestmannaeyjum og eru innan þeirra stærðartakmarka, sem ákveðin eru í 2. gr. l. Einnig skal það háð 22. gr. l. um aðstoð.“

Í 23. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að fella úr gildi í heild l. nr. 61 frá 30. maí 1947, en þessi breyting er inn komin aftan við 2. gr. þeirra l. og mundi þá, að ég hygg, einnig falla úr gildi.

Ég vil geta þess, að ég hygg, að það sé rétt, að Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja sé elzta starfandi vátryggingarfélagið hér á landi, hefur starfað í rúmlega eina öld, var stofnað 1862 og hefur samfleytt starfað síðan eða í 103 ár. Hagur þess hefur ávallt verið þannig, að það hefur getað staðið við allar sínar skuldbindingar, og er nú svo góður, að forráðamenn þess félags telja sig þess umkomna og munu gera til þess ráðstafanir eða mundu á það fallast, að þetta félag tæki einnig að sér sem skyldutryggingu fiskiskip allt að 400 rúml. stærð. Ég mundi telja það mjög ómaklegt, ef þetta, að ég hygg réttilega sagt, elzta vátryggingarfélag landsins eða starfsemi þessi yrði með l. numin úr gildi. Það hefur vissulega fyrir þetta hérað alla tíð í rösklega eina öld haft mikil áhrif, bæði í sambandi við tryggingamál í héraðinu og einnig hefur það af því fé, sem það hefur haft undir höndum, iðulega veitt fyrirgreiðslu í sambandi við hafnarframkvæmdir og fleiri nauðsynlegar framkvæmdir í sambandi við útgerð þessa bæjarfélags. Ég endurtek því, að ég mundi telja mjög ómaklegt, ef starfsemi þess yrði stöðvuð með l., eins og ég hygg að mundi verða, ef frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði samþ. óbreytt.