14.03.1966
Neðri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

141. mál, lax- og silungsveiði

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði í þessu frv., sem ég vildi leyfa mér að gera athugasemd við.

Þegar laxveiðilögin voru afgreidd hér á hv. Alþ. 1957, var hv. þm. ljóst, að þau mundu verða þess valdandi, að nokkrir veiðimenn, sem áður höfðu haft miklar tekjur af laxveiði, mundu missa laxveiðina að mestu eða öllu leyti. Alþ. taldi þá rétt, að fyrir þetta kæmu bætur, sem færu eftir mati, og það taldi einnig rétt, að ríkissjóður greiddi þessar bætur að verulegum hluta eða 3/4, þar sem hér væri um að ræða ráðstafanir til þess að auka laxgengd og efla þessa atvinnugrein.

Nú er í þessu frv., sem hér liggur fyrir, í 9. gr. þess, gert ráð fyrir, að hlutur ríkissjóðs falli að öllu leyti niður við bætur þær, sem eiga að koma til þeirra, sem missa í, ef þetta frv. verður að lögum. Eiga þær að jafnast niður á veiðieigendur alla og meira að segja á þá einnig, sem missa alla sína veiði. Ég hygg, að það muni vera alger nýlunda, að skaðabótum sé jafnað niður á þá, sem fyrir skaðanum eða tjóninu verða. Hér er mjög langt gengið og það svo freklega, að mig furðar á því, að slíkt frv. skuli koma fram hér á hv. Alþ.

Það er með öllu óhugsandi, að þegar á að setja löggjöf til þess að tryggja atvinnugrein í landinu, eigi ríkissjóðshlutinn enginn að vera, þegar það er talin ástæða til að ganga á rétt manna til þess að tryggja atvinnuveginn. Það, sem gat skeð í þessu tilfelli, var að fella niður framlag sýslusjóðanna og jafna þeim hlutanum niður á veiðieigendur, sem fengju aukna veiði við þetta, en ekki á þá, sem töpuðu veiðinni. Það er því með öllu óhugsandi, að þessi grein muni geta staðið óbreytt, og ég mun freista þess hér á hv. Alþingi að fá henni breytt. Og ég mótmæli því harðlega, að það sé svo að farið, þegar á að auka og efla eina atvinnugrein í landinu, þá eigi gersamlega að þurrka út aðstoð ríkisins við þá framkvæmd og leggja skaðabæturnar á þá einnig, sem fyrir tjóninu verða vegna þeirra ráðstafana. Það mun vera einsdæmi í lögum, og ég mun freista þess að fá því breytt.