18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2405)

27. mál, bygging skólamannvirkja

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur sýnt mikinn dugnað í því að gefa út brbl., hvað sem annars má um dugnað hennar segja. Ég hygg, að engin ríkisstj. hafi á samsvarandi tíma gefið eins mikið út af brbl. og sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum. Ýmis þessara brbl. munu mörgum í fersku minni og þá sérstaklega þvingunarl., sem út hafa verið gefin og snerta ýmsar stéttir þjóðfélagsins, svo sem verkamenn, lækna, verkfræðinga og flugmenn. Fyrir útgáfu þessara brbl. allra var því borið við, að brýna nauðsyn bæri til útgáfu þeirra. Miklar deilur stóðu að vísu um þá brýnu nauðsyn, og ég er í hópi þeirra, sem telja, að öll þvingunarlög, sem snert hafa starfsstéttir þjóðfélagsins, hafi verið sett alveg að nauðsynjalausu.

Um líkt leyti og þau brbl., sem hér eru til umr., voru sett á s.l. vori, voru sett önnur brbl. Það var í júnímánuði s.l. Þá setti hæstv. ríkisstj. brbl. um verðjöfnunar- og flutningasjóð síldveiða. Allir vita nú, hvernig fór um framkvæmd þessara laga. Það var ekki liðinn langur tími, þegar hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, að hún teldi enga nauðsyn til bera að framkvæma þessi lög. Ekkert sannar betur en þetta haldleysi þeirra raka, sem til grundvallar útgáfu brbl. liggja, en einmitt svona yfirlýsing. Fyrst setur hæstv. ríkisstj. brbl. og síðan lýsir hún því yfir, að framkvæmd brbl. sé nauðsynjalaus.

Þessi brbl., sem hér er nú leitað staðfestingar á hjá hinu háa Alþ., voru sett seint í maímánuði s.l. eða að ég hygg réttum hálfum mánuði eftir að þingi lauk. Eins og venjulega er útgáfa þessara brbl. um byggingu skólamannvirkja rökstudd með því, að brýna nauðsyn hafi til borið að gefa þau út. Nú vildi ég spyrja, hvað gerðist á þessum hálfa mánuði síðari hluta maímánaðar. Hvað gerðist, frá því að þingi lauk og þangað til brbl. voru útgefin, sem gerði það að brýnni nauðsyn að gefa út þessi lög? Ég veit ekki til, að neitt slíkt hafi gerzt, og held því meira að segja fram, að brbl. þessi, eins og mörg önnur, séu gefin út gersamlega að þarflausu. Ríkisstj.. sem hefur ríka tilhneigingu til að gefa út brbl., lýsir með því vissri tilhneigingu til að hrifsa til sín vald, sem hún raunar á ekki, og það held ég, að komi ljóslega fram við útgáfu þeirra brbl., sem hér er um að ræða.

Þingi er nýlokið, skömmu fyrir miðjan maí, og hálfum mánuði síðar er gripið til útgáfu brbl. Síðasta Alþ. hafði með fjárl. 1965 ákveðið í einstökum atriðum fjárveitingar til skólabygginga, og mér er ekki kunnugt um, að neitt það hafi gerzt, sem réttlæti að breyta vilja Alþ., eins og hann birtist í samþykktum um styrkveitingar til skólabygginga í landinu. Það gerðist ekkert í millitíðinni, og þess vegna tel ég, að hæstv. ríkisstj. hafi borið í þessu efni að halda sér við ákvæði fjárl., eins og meiri hl. Alþ. hafði á síðasta þingi frá þeim gengið. Hér var ekki um neina brýna nauðsyn að ræða, og þess vegna tel ég, að þessi brbl., eins og svo mörg önnur, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið að, hafi verið byggð á röngum forsendum.

Efni þessa frv. er það, að hæstv. ríkisstj. veitir sjálfri sér heimild til að fresta fjárgreiðslu til vissra skólabygginga, að geyma þannig sparað fé í ríkissjóði og að lána af því fé til vissra annarra skólabygginga. Hún tekur sér m.ö.o. vald til þess að umbylta að vild því, sem Alþ. hafði skömmu áður samþ. Rök hennar fyrir þessu eru þau, að hún vilji flýta fyrir byggingu nokkurra skólahúsa. Þetta er í sjálfu sér góðra gjalda vert. En við skulum hafa það hugfast um leið, að með því að flýta þannig fyrir byggingu nokkurra skólahúsa tefur hún með vilja fyrir byggingu annarra, og það er ekki jafngott. Og það, sem ég hef einkum að athuga við efni þessa frv., er þetta. Hæstv. ríkisstj. er veitt heimild til þess að fresta fjárgreiðslum til skólabygginga, til þess að geyma fé í ríkissjóði og til þess að lána af þessu geymda fé eða lána ekki. Henni er það algerlega í sjálfsvald sett, hvort hún notar þetta geymda fé eða ekki samkv. brbl. Og við þetta hljóta þeir að hafa nokkuð að athuga, sem treysta ekki hæstv. ríkisstj. allt of vel, hvorki í skólamálum þjóðarinnar né öðrum málum.

Alþ. hafði gefið hæstv. ríkisstj. heimild til þess að skera allar verklegar framkvæmdir ríkisins niður um 20%. Þetta notaði hæstv. ríkisstj. sér einnig hvað snerti skólabyggingarnar. En hún óskaði að gera meira í þeim efnum. Og ég óttast mjög, að það, sem hún hafi gert frekar í þeim efnum, hafi helzt verið i þá átt að skera enn meira niður féð til skólabygginganna. Þetta ber sérstaklega að vita í þessu mikilsverða máli, skólabyggingamálinu, því að eins og kunnugt er, er mikill skortur skóla í öllu landinu og á öllum stigum skólakerfisins. Það hefði verið nær, að hæstv. ríkisstj. hefði gefið út brbl. um aukna fjárveitingu til skólabygginga á árinu, en ekki heimildarlög til þess að draga úr byggingu skóla í heild. — Ég vildi láta þessarar gagnrýni getið nú þegar í upphafi, því að ég tel, að þessi brbl. eins og mörg önnur séu gefin meira eða minna út að þarflausu.