18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2406)

27. mál, bygging skólamannvirkja

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. menntmrh. hefur vikið af fundi, en hér er til umr. mál, sem hann stendur að með sérstökum hætti, þar sem ríkisstj. hefur tekið sér löggjafarvald um mikilvægt atriði og gefið út brbl. þau, sem hér eru til umr. Ég vildi vænta þess, að hæstv. forseti léti athuga, hvort menntmrh. sæi sér ekki fært að vera hér í d., meðan þessar umr. fara fram.

Mér þykir hlýða við 1. umr. þessa frv. að vekja nokkra athygli á efni þessa máls og þá ekki síður á hinu, hvernig þetta mál ber að, því að ég ætla, að málsmeðferðin sé með nokkuð sérstökum hætti.

Í gildandi l. um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ákveður hverju sinni, til hvaða skólaframkvæmda stofnkostnaðarframlög eru veitt, og er ekki heimilt að hefja framkvæmdir, fyrr en fyrsta fjárveiting er fyrir hendi. Nú hefur Alþ. samþ. slíka fjárveitingu, og ákveður það þá einnig, hvernig framlögum skuli háttað framvegis, en skylt er ríkissjóði þó að hafa lokið greiðslu framlaga til hverrar framkvæmdar miðað við upphaflega kostnaðaráætlun innan 5 ára frá því, að fyrsta framlag var innt af hendi.“

Fyrst eftir að lög um barnafræðslu og gagnfræðanám voru sett, var sá háttur hafður á við afgreiðslu fjárl., að fjárveitingar til stofnkostnaðar einstakra skólaframkvæmda voru ekki sundurliðaðar í fjárl., heldur var framkvæmdavaldinu falið að skipta þessum framlögum ríkisins. En um sama leyti og þessi lagaákvæði, sem ég vitnaði til, voru lögfest, var tekinn upp á Alþ. sá háttur að sundurliða í fjárl. hverju sinni það ríkisframlag, sem veitt er til hverrar einstakrar skólabyggingar. Það er því svo ótvírætt sem verða má, að það hefur verið vilji og ætlun löggjafans, að Alþ. hverju sinni ákvæði, hvað lagt yrði til hverrar skólaframkvæmdar árlega, og að eftir því skyldi farið. Og við afgreiðslu fjárl. hefur sá háttur verið hafður á ávallt siðan þessi lagaákvæði voru sett, að fjvn. Alþ. leitar eftir till. frá þeim embættismönnum, sem kunnugastir eru framkvæmd þessara mála og hafa á hendi endurskoðun á reikningum yfir skólabyggingarfé, og eftir að fjvn. hefur fengið till. þeirra, gerir hún sínar till. til Alþ., og reglan hefur verið sú, að alþm. hafa yfirleitt samþ. án breytinga þær till., sem þannig hafa verið undirbúnar. Það má því með sanni segja, að þessi mál hafa verið undirbúin nú að undanförnu að beztu manna yfirsýn. Og þannig var haldið á þessum málum við setningu fjárl. fyrir 1965, á sama hátt og gert hefur verið undanfarin ár. En hæstv. ríkisstj. sá ástæðu til þess með setningu þeirra brbl., sem hér eru nú til 1. umr., að breyta í framkvæmd út af því, sem Alþ. hafði ákveðið í fjárl. fyrir árið 1965. Með þessum brbl. og framkvæmd þeirra eru því í raun réttri ákvæði fjárl. og vilji Alþ., sem kom fram við samþykkt þeirra, sniðgengin. Þetta tel ég vera með nokkuð sérstökum hætti og þess eðlis, að full ástæða sé til þess nú þegar við 1. umr. þessa máls að vekja eftirtekt á þessari málsmeðferð. Ástæður fyrir því, að þessi brbl. eru sett og ákvæði fjárl, sniðgengin, eru sagðar þær — (Forseti: Ég vildi láta þess getið, vegna þess að hv. þm. óskaði eftir, að menntmrh. væri við, meðan hann héldi sína ræðu, að ég hef látið athuga það, að hann er ekki lengur í húsinu eins og stendur, hvort sem hann kemur bráðlega aftur eða ekki.) Já, ég heyri þessi orð forseta. (Gripið fram í. — Forseti: Hvað segir hv. ræðumaður um það?) Ég hefði óskað þess eða kunnað betur við það. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er nú staddur í d., þetta er dálítið skylt honum, fjármálin.) Já, ég veit, að forseti ákveður um þetta atriði. (Forseti: Ef ákveðin ósk kemur frá hv. þm. um það, að umr. verði frestað og hann fresti ræðu sinni, þá mun ég ekki standa á móti því.) Já, ég óska þess þá, að umr. verði frestað.

— [Umr. frestað um stund.]

Í upphafi ræðu minnar, meðan hæstv. menntmrh. var fjarverandi, hafði ég vakið athygli á því, að lög mæla svo fyrir, að Alþingi ákveði greiðslu kostnaðar við skóla, og að í samræmi við það hafi þeirri venju verið fylgt að undanförnu að sundurliða í fjárl. hverju sinni þær fjárveitingar, sem til stofnkostnaðar skóla eru veittar. Ég hafði og bent á það, að með þeim brbl., sem hér eru nú til 1. umr., er í raun og veru í framkvæmd verið að sniðganga ákvæði fjárl. að þessu leyti og þann vilja Alþingis, sem kom fram við setningu fjárl. fyrir árið 1965. En í ástæðum, sem fram eru færðar fyrir setningu þessara brbl., segir svo, að þar sem samin hefur verið framkvæmdaáætlun um skólabyggingar í því skyni, að þær byggingar verði látnar sitja fyrir, sem þörf er mest á, og til þess að byggingartími styttist frá því, sem verið hefur, þá beri brýna nauðsyn til að setja brbl. um byggingu skólamannvirkja. Ástæðurnar fyrir þessum brbl. eru í forsendunum þær, að það hafi verið samin framkvæmdaáætlun fyrir skólabyggingar og fyrir þeirri framkvæmdaáætlun, sem samin er a.m.k. utan Alþingis, virðist allt annað eiga að víkja, ákvæði fjárl., óskir sveitarfélaga, sem standa að skólabyggingum, hvað þá annað.

Ég ætla, að þessar ástæður og sú málsmeðferð, sem kemur fram í sambandi við þessi brbl. og framkvæmd þeirra, sé svo sérstaks eðlis, að það sé full ástæða til þess hér á hv. alþingi að vekja eftirtekt á því. En það er fleira eftirtektarvert í þessu máli. Síðasta Alþingi lauk störfum 12. maí, en þessi brbl. eru gefin út 28. maí, eða m.ö.o. 15 dögum eftir að Alþingi lauk störfum. Nú er það næsta ótrúlegt, að þessi framkvæmdaáætlun, sem hér er vitnað til um skólabyggingar og ákvæði fjárl. virðast eiga að víkja fyrir hjá framkvæmdavaldinu, hafi komið alveg fullgerð frá hendi rn. þennan dag, sem brbl. eru gefin út, 28. maí s.l. Það getur varla hjá því farið, að undirbúningur þeirrar framkvæmdaáætlunar hefur átt sér nokkurn aðdraganda, og það getur varla hjá því farið, að það hafi legið fyrir í öllum meginatriðum 12. maí, áður en alþm. fóru heim, hvað væri ráðgert í sambandi við þá framkvæmdaáætlun, sem ég geri hér að umræðuefni. Þá hefði vitanlega verið eðlilegast, að hæstv. ráðh. gerði Alþingi grein fyrir þessu máli í heild, og ef honum hefði þótt ástæða til lagabreytinga, að leggja þá fyrir þingið frv. um það efni. Við, sem höfum setið hér á þingi að undanförnu og m.a. í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., erum því hvort sem er ekkert óvanir að fá mörg mál til meðferðar á síðustu dögum þingsins. Þetta er ekki gert, heldur er Alþingi slitið, þegar tímabært þykir, en 15 dögum síðar eru svo gefin út þessi brbl., sem í raun og veru raska ákvæðum fjárl., sem jafnan eru þó gildur þáttur í lagasetningu hvers þings.

Þessi málsmeðferð er fráleit, og ríkisstj., sem fer þannig að, getur ekki komizt hjá því að fá áfellisdóm fyrir þessa málsmeðferð.

En við setningu fjárl. fyrir árið 1965 hafði ríkisstj. knúið fram, að inn í fjárl. yrði felld heimild til að fresta til ársins 1966 verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til í fjárl. fyrir árið 1965. Það hafði nú raunar hvarflað að mörgum, þegar þessi brbl. voru gefin út, að samband væri á milli þeirra og þessarar heimildar, sem ríkisstj. aflaði sér við setningu fjárl., og í ræðu hæstv. menntmrh. hér áðan kom það einmitt fram, að þetta er réttur skilningur, það er samband á milli þessara brbl. og hinnar almennu heimildar í fjárl. um frestun framkvæmda. Ég held, að það sé efnislega rétt, að hæstv. ráðh. hafi sagt, að við athugun hafi það komið í ljós, að menntmrh. hefði ekki getað komið því við að nota þessa almennu heimild gagnvart skólabyggingunum, án þess að til kæmi sérstök lagabreyting, og að í því skyni hefðu verið gefin út þessi brbl.

Það hafði verið dregið í efa af mönnum, sem bera gott skyn á löggjafaratriði og vanir eru stjórnsýslu, að þessi almenna heimild veitti framkvæmdavaldinu rétt til þess að fella niður að fullu og öllu einstakar framkvæmdir, sem fjárl. veittu fé til, en greiða fé til annarra framkvæmda að fullu. Hitt lægi nær, að skilja þessa almennu heimild í fjárl. þannig, að að svo miklu leyti sem hún yrði notuð, þá bæri að lækka hlutfallslega jafnt framlög til allra framkvæmda f þeim málaflokki, sem niðurskurðurinn tæki til.

Hvað sem um þetta er, þá benda þessi brbl. til þess, að hæstv. menntmrh. hafi komizt að raun um, að hin almenna heimild veitti takmarkaðan rétt til ráðstöfunar á einstökum fjárveitingum, og hafi þess vegna leitað eftir því að koma fram þessum brbl. En einmitt þegar þessi skilningur er athugaður á málavöxtum, þá er í raun og veru gengið lengra með setningu þessara brbl. og framkvæmd þeirra í að breyta frá ákvæðum fjárl. heldur en jafnvel hefði verið fært án þeirra.

Það er einnig eftirtektarvert, að sambandið, sem er á millí hinnar almennu heimildar í fjárl. og þessara brbl., það sýnir, að hæstv. ríkisstj. fékk sérstakan áhuga á að grípa inn í þessi mál í sambandi við niðurskurð framkvæmda eða frestun framkvæmda á þessu sviði. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. hafi nokkrar áhyggjur af því, hvernig fjárfestingarmálum í landinu er komið undir hennar stjórn. Það væri í sjálfu sér ekki óeðlilegt, því að allur almenningur sér, hvaða glundroði á sér stað í þeim efnum. En ef hæstv. ríkisstj. vill taka upp skipulag í þeim málum, þá virðist mér, að það væru ýmsir aðrir málaflokkar en skólamálin, sem þar ættu fyrr að koma til athugunar, og að það bæri fremur að takmarka framkvæmdir á öðru sviði en í byggingum skóla. En menn verða þess ekki varir, að áhugi ríkisstj. sé mikill fyrir því að takmarka t.d. byggingu verzlunarhúsa. Margir veita því eftirtekt, hvað bankarnir færast mikið í fang á þessum árum, og ef hæstv. ríkisstj. vildi sýna áhuga sinn á því að skipuleggja fjárfestinguna í landinu, þá væru önnur verkefni áreiðanlega nærtækari og jafnvel áhrifameira að beita því á þeim sviðum heldur en að því leyti sem til skólabygginga tekur.

Það er ekkert vafamál, að það er mikil þörf fyrir auknar skólabyggingar og að með því að fresta fjárgreiðslum ríkisins til vissra framkvæmda getur dregið mjög úr því framtaki, sem annars er til staðar heima fyrir um að halda áfram þeirri uppbyggingu, sem þarf að vera á þessu sviði.

Ef til vill hyggst hæstv. ríkisstj. færa það fram sem rök, að það sé ekki óeðlilegt, að hún hlutist fremur til um þær framkvæmdir, sem kostaðar eru úr ríkissjóði, heldur en um framkvæmdir, sem einstaklingar kosta og standa að, en ef á þetta er litið, þá ber að gæta þess, hvernig eignarrétti skólanna í landinu er varið. Suma skóla á ríkið að fullu og öllu, aðra skóla á það að hluta til á móti sveitarfélögunum, en um barnafræðslustigið gildir það, að það eru sveitarfélögin, sem talin eru eiga skólahúsin, og sveitarstjórnirnar, sem beita sér fyrir byggingu þeirra eða framkvæmdum á þessu sviði.

Með því að breyta ákvæðum fjárl. og hverfa frá að greiða fjárveitingar, sem sumar sveitarstjórnir hafa þegar átt von á, þá er vissulega af hálfu ríkisvaldsins verið að leggja stein i götu þess, að sveitarfélögin sjálf haldi áfram þeim framkvæmdum, sem þörf er á heima fyrir og þeim ber að hafa forgöngu um. Þegar á þetta er litið, er ekki ýkjamikill munur á því, hvort ríkisstj. fer að hlutast til um þennan þátt mála eða hlutast til um aðra þætti, þar sem einkaframtakið hefur framkvæmdirnar á sínum vegum.

Ég vildi láta þessar aths. koma fram við þetta mál þegar við 1. umr. og segja að lokum, að hér er til meðferðar mál, sem rétt er að vekja athygli á og ætti ekki að verða fordæmi fyrir ríkisstj., sem síðar koma.