26.10.1965
Efri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

33. mál, verðjöfnunar- og flutningasjóður síldveiða

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þegar þessi brbl., sem hér eru nú til umr., höfðu gilt í vikutíma, en ekki komið til framkvæmda, lýsti ríkisstj. því yfir, að hún mundi ekki beita þeim. Brbl. hafa þess vegna aldrei verið annað en pappírsgagn og eru nú lögð fyrir hv. Alþ. f því skyni að uppfylla skilyrði 28. gr. stjskr. En erfitt er að sjá, hvert erindi frv. eigi í rauninni að öðru leyti til Alþ., þar sem það liggur ljóst fyrir, að það verður aldrei annað en pappírsgagn. Eigi að siður verður að játa, að það er eðlilegt og rétt, að þetta tækifæri sé notað til þess að rifja upp þá atburði, sem áttu sér stað í kringum setningu þessara brbl. og allir voru með þeim hætti, að ekki er ástæða til þess að láta algerlega yfir þá fyrnast, því að vítin eru, eins og kunnugt er, til þess að varast þau.

Sumarsíldveiðar hófust á þessu vori nokkru fyrr en áður, um 24. maí, og það gat raunar varla komið á óvart, að þær mundu hefjast nokkru fyrr, því að þróunin hefur verið i þá átt nú undanfarin ár. Samkv. reglugerð um verðlagsákvæði sjávarútvegsins hefði mátt vænta þess, að verð á sumarsíld mundi liggja fyrir a.m.k. eigi síðar en 10. júní. En sá dagur leið og tvær vikur í viðbót, og síldarverðið birtist ekki fyrr en um leið og brbl. frá 24. júní. Þá kom í ljós, að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér til annarra þarfa 15 kr. af því verði, sem verðlagsdómur taldi verksmiðjurnar geta og eiga að greiða fyrir málið. Það átti að nota þessar 15 kr. til atvinnujöfnunar í landinu, til ráðstafana til að koma í veg fyrir atvinnuleysi eða auka atvinnu í vissum landshlutum. Ríkisstj. hafði þá nýlega gert samninga við verkalýðsfélögin á Norðurlandi, þar sem hún lofaði ráðstöfunum i þessu efni, og það verður að líta svo á, að þarna hafi hún séð sér leik á borði til að láta sjómenn og útvegsmenn standa undir kostnaði af þeirri viðleitni að þessu leyti.

Enn fremur kom í ljós, að ákveðin höfðu verið tvö verð á síld á sumarsíldveiðum, skyldi annað verðið gilda fram til 15.júní, en hitt þar eftir. Þetta mun byggt á því, að síldin hafi verið svo mögur í byrjun tímabilsins, að ekki hafi verið hægt að borga fyrir hana sama verð og síðar. Fram til þessa hafa þó slíkar sveiflur verið jafnaðar út, svo að hér var farið inn á nýja braut, sem verður, eins og raunar kom í ljós síðar, að teljast mjög vafasöm, a.m.k. á meðan ekki er farin sú leið að kaupa síldina og verðleggja hana eftir fitumælingum, eins og gert er t.d. um mjólk. Enn fremur kom í ljós, að hæstv. ríkisstj. taldi nauðsynlegt að borga verðuppbætur á saltsíld, þó að á þessum tíma lægi ekkert fyrir um það, hvert saltsíldarverðið mundi verða, og síðar vitnaðist, að hæstv. ríkisstj. hafði í raun og veru enga grein gert sér fyrir þessu, því að þegar saltsíldarverðið lá fyrir, kom i ljós, að þetta var algerlega ónauðsynlegt.

Þessi brbl. voru þess vegna mjög óvenjuleg, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni. Fyrstu mótmælin gegn brbl. létu ekki heldur á sér standa, því að þau komu þegar í stað frá bátadeild L.Í.Ú. og voru birt í dagblöðum daginn eftir að brbl. höfðu verið birt. En þau eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn bátadeildar L.Í.Ú. samþykkti á fundi sinum í dag að mótmæla harðlega þeim ákvæðum brbl. um verðjöfnunar- og flutningasjóð síldveiða 1965, sem ákveða, að 4 millj. kr. skuli teknar af bræðslusíldarverðinu til atvinnubóta fyrir Norðurland, svo og að veiðiskip fái ekki greitt úr flutningasjóði, ef þau flytja síld til Suðvesturlands, þegar þróarrými er ekki fyrir hendi á Austurlandi. Enn fremur átelur stjórn L.Í.Ú., að greiðslur úr jöfnunarsjóði á saltsíld skuli ekki gilda óháð því, hvar síldin er söltuð á landinu. Stjórn L.Í.Ú. bendir á, að starfandi er atvinnuleysistryggingasjóður, sem í eru um 700 millj. kr., og því óþarft að láta útvegsmenn og sjómenn taka að sér hlutverk hans vegna slæms atvinnuástands á Norðurlandi. Auk þess mótmælir stjórn L.Í.Ú. þeirri ákvörðun meiri hluta yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins að ákveða eftir á tvö verð á sumarveiddri bræðslusíld, veiddri fyrir Norður- og Austurlandi, svo og að enn skuli ekki hafa verið ákveðið verð á síld til söltunar og frystingar á yfirstandandi vertíð.“

Þessi mótmæli lét L.Í.Ú. frá sér fara þegar í stað. Og það vakti nokkra athygli, að það var talið víst, að 3 af hv. þm., sem eru stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., munu hafa átt aðild að þessum mótmælum, og menn gátu sér þess því til, að meiri hluti Alþ. mundi ekki standa að baki þessara brbl. hæstv. ríkisstjórnar. Um það er þó rétt að segja, að það er auðvitað ekkert víst, vegna þess að það er eitt af einkennum þessa viðreisnarstjórnarfars, sem við búum við, að hv. alþm., sem styðja núv. ríkisstj., hafa tamið sér það að hafa tungur tvær. Önnur er notuð, þegar þeir koma á fundi stéttarsamtaka og annarra slíkra, en hin þegar þeir koma til Alþ., og það er þess vegna enga ályktun hægt að draga af því, — trúlegast, að þeir muni rétta upp hendurnar með þessu frv., hvað sem líður ályktunum, sem þeir kunna að hafa staðið að á öðrum vettvangi. Um þess háttar vinnubrögð höfum við orðið mörg dæmi nú í seinni tíð.

En það voru fleiri en Landssamband ísl. útvegsmanna, sem mótmæltu þessum brbl., og m.a. birtu Alþýðusamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasamband Íslands mótmæli á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnir Alþýðusambands Íslands, Farmanna og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands átelja harðlega þann drátt, sem hefur orðið hjá verðlagsráði sjávarútvegsins um verðlagningu sjávarafla, þar sem heita má alveg óþekkt fyrirbæri, að lögum og reglum sé framfylgt um, að fiskverðsákvörðun liggi fyrir, áður en veiðitímabil hefst. Stjórnir sambandanna mótmæla eindregið þeirri ákvörðun meiri hl. yfirnefndar verðlagsráðs að ákveða, löngu eftir að síldveiðar hófust nú, tvenns konar verð á sumarveiddri síld fyrir norðan og austan, þar sem eining á fituprósentu er þá ekki almennt látin gilda fyrir verð á síld veiddri á svæðinu allt veiðitímabilið, og má fullvist telja, að hefði verðákvörðunin legið fyrir, áður en síldveiðar hófust að þessu sinni, hefði ekki verið rætt um tvenns konar verð á síld veiddri fyrir Norður og Austurlandi á yfirstandandi sumri, og verður að telja víst, að vegna þessa gerræðis við sjómenn og útvegsmenn muni því ekki treyst í framtíðinni að byrja veiðar, fyrr en verðákvörðun liggur fyrir hverju sinni. Þá telja stjórnir sambandanna, að hin ákveðnu verð á síld til bræðslu séu allt of lág, miðað við áætlað veiðimagn, fyrirframsölu á mjöli og lýsi og markaðsverð á þeim afurðum, eins og það er nú.

Stjórnir sambandanna mótmæla ákveðið brbl. þeim, sem sett hafa verið um flutninga á síld, verðjöfnun síldar í bræðslu og salt o. fl., og telja það sérstaklega mikið fljótræði að ákveða uppbætur á síld til söltunar og frystingar á kostnað bræðslusíldar, meðan verð á síld til söltunar eða annarrar nýtingar en í bræðslu liggur ekki fyrir og það ekki enn þá verið tekið fyrir til umr. í verðlagsráði, enda engin gögn eða upplýsingar borizt frá síldarútvegsnefnd um sölu o. fl. eða áætlanir frá félagssamtökum síldarsaltenda eða öðrum viðkomandi aðilum.

Þá mótmæla stjórnirnar því einnig, að ákveðið er að greiða aðeins flutningsgjald á síld til bræðslu á austursvæðinu til Norðurlandsins, en ekki gagnkvæmt til Austurlandsverksmiðja, eins og ákveðið var af verðlagsráði á s.l. sumri, ef síldin skyldi aðallega veiðast fyrir norðan um lengri eða skemmri tíma. Stjórnir sambandanna víta einnig það ákvæði brbl. að gera sérstaklega sjómönnum og útvegsmönnum að greiða ákveðna fjárupphæð vegna samningsákvæðis ríkisstj. við verkalýðsfélögin á Norðurlandi um úrbætur í atvinnumálum í þeim landshluta.

Um leið og stjórnir sambandanna mótmæla meðferð þessa máls sem heild, vinnubrögðum verðlagsráðs sjávarútvegsins, ákvörðun meiri hl. yfirnefndar og brbl. ríkisstj., vilja þær að lokum benda á, að óhæft er með öllu að ganga fram hjá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands um tilnefningu í nefndir, sem fjalla eiga um hagsmunamál meðlima þess.“

Þetta voru mótmæli stjórnar A.S.Í., Farmanna- og fiskimannasambandsins og Sjómannasambands Íslands gegn brbl. og verðlagningunni, sem auðvitað eru nátengdir hlutir, vegna þess að brbl. skertu að sjálfsögðu verðið til sjómanna og útvegsmanna um 15 kr. á mál.

Þessi mótmæli, sem ég nú hef rakið, hafa sjálfsagt verið nægt íhugunarefni fyrir hæstv. ráðh. á sínum tíma. En versta áfallið var samt eftir. Sjómennirnir sigldu síldveiðiflotanum í höfn og lýstu yfir, að það væri engin síld í sjónum á því verði, sem ríkisstj. skildi eftir handa útvegsmönnum og sjómönnum. Og það var ekki eitt og eitt skip, sem sigldi til hafnar, það var flotinn allur. Það var ekkert veitt í viku, og það varð tugmilljóna tjón. Nú var málið vissulega komið á alvarlegt stig, ef áttu að stöðvast síldveiðarnar á þessum tíma, þegar ástæða var til að gera ráð fyrir, að mikill afli mundi vera fáanlegur.

Þegar málum var þannig komið og hæstv. ríkisstj. virtist gersamlega ráðlaus um, hvað til bragðs skyldi taka, komu þm. og framkvæmdastjórn Framsfl. saman og gerðu ályktun, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingflokkur og framkvæmdastjórn Framsfl. telja óhjákvæmilegt, að Alþ. sé þegar í stað kvatt saman til aukafunda vegna síldveiðideilunnar og þess alvarlega ástands, sem af þeim sökum hefur skapazt í þjóðfélaginu. Stöðvun síldveiðanna veldur þjóðinni svo stórkostlegu tjóni á degi hverjum, að lausn þess máls þolir alls enga bið. Þar sem ríkisstj. virðist ráðþrota í þessum vanda og hefur eigi beitt sér fyrir lausn deilunnar, og ein af ástæðunum til stöðvunar síldveiðiflotans er einmitt útgáfa brbl. hennar um flutning á síld, verðjöfnun síldar í bræðslu og salt o.fl., sem vafasamt er eftir fram komnum samþykktum, að meiri hl. þings hafi staðið á bak við, er nauðsynlegt, að Alþ. fjalli án tafar um málið. Upplausnarástand það, sem nú ríkir að öðru leyti í landinu á ýmsum sviðum, er einnig svo alvarlegs eðlis, að full ástæða er til, að Alþ. taki þau mál öll til meðferðar. Skorar því Framsfl. á forsrh. að gera tafarlausar ráðstafanir til þess, að Alþ. verði nú þegar kvatt saman.“

Um sama leyti eða skömmu síðar gerði svo formaður þingflokks Alþb., hv. 5. þm. Austf., kröfu fyrir hönd þingflokks síns um sama efni. Vafalaust hafa þessar kröfur stjórnarandstöðuþingflokkanna ýtt undir það, að hæstv. ríkisstj. rynni blóðið til skyldunnar að koma síldveiðiflotanum aftur út. Og næsta dag birtist svo boðskapur hæstv. ríkisstj., sem hæstv. sjútvmrh. las hér áðan og ég ætla ekki að fara að endurtaka, en í aðalatriðum var sá, að brbl., sem viku áður hafði borið brýna nauðsyn til þess að setja, væru gersamlega óþörf og mundu aldeilis að engu höfð af hæstv. ríkisstj.

Ég hef viljað rekja þessa sögu vegna þess, að þrátt fyrir það þótt við höfum nú séð ýmislegt kynlegt í viðreisnarstjórnarfari undanfarandi ára, er hér þó um aldeilis óvenjulega atburði að ræða, sem mér virðist full ástæða til þess að rifja upp hér við þessa umr. Ríkisstj. gefur út brbl. Hún telur brýna nauðsyn bera til ákveðinna ráðstafana, sem þar eru heimilaðar. Viku síðar gefur hæstv. ríkisstj. út yfirlýsingu um, að það sé engin þörf á þessum ráðstöfunum og brbl. muni að engu höfð. Hæstv. ríkisstj. taldi brýna nauðsyn bera til þess að greiða uppbætur á saltsíld. En viku síðar kemur í ljós, að saltsíldarverðið er alveg viðunandi og ekki minnsta ástæða að dómi hæstv. ríkisstj. til þess að greiða neinar uppbætur á saltsíld.

Það verður ekki af þessu dregin önnur ályktun en sú, að hæstv. ríkisstj. hafi alls ekki gert sér neina grein fyrir því, þegar brbl. voru sett, hvert saltsíldarverðið mundi verða. Útgáfu þessara brbl. mun þess vegna lengi verða minnzt sem mjög óvenjulegs frumhlaups, jafnvel á þessum einkennilegu tímum viðreisnarstjórnarfarsins. Ríkisstj. gaf út brbl., sem eðli málsins samkv. og beinum ákvæðum stjórnarskrár ber ekki að gefa út, nema mjög brýna nauðsyn beri til í almennings- og alþjóðarþarfir. En þegar frumhlaup hennar mætir eindreginni mótspyrnu, kiknar hún og ákveður, að þetta hafi nú raunar allt saman verið ástæðulaust og einskisvert. En manni verður spurn: Fyrst ríkisstj. treysti sér ekki til þess að framkvæma ætlunarverk sitt þrátt fyrir mótmæli sjómanna og útgerðarmanna, því leitaði hún þá ekki fyrirframsamninga við þessa aðila um einhverja skynsamlega úrlausn á þeim vandamálum, sem hún taldi sig vera að fást við, í stað þess að setja málin í þann hnút, að síldveiðiflotinn skyldi stöðvast í viku um hávertíðina með þeim afleiðingum, að aflatjón hefur vafalaust numið tugmilljónum kr. að útflutningsverðmæti.

Það hefur stundum heyrzt, að sjómenn og útgerðarmenn hafa verið gagnrýndir fyrir það að stöðva veiðar, eftir að vertið var hafin og áhafnir skráðar á skip og byrjaðar sína vertíð. Ég skal nú að mestu leiða þann þátt málsins hjá mér, en vil þó geta þess, að að mínum dómi höfðu þessir aðilar verulegar málsbætur, sem voru fólgnar í því, að í rauninni var komið algerlega aftan að þeim með þessum brbl. Þegar þeir hófu veiðar og skráðu sig á skipin, höfðu þeir fulla ástæðu til þess að gera ráð fyrir því, að þeir fengju það verð fyrir síldina, sem verksmiðjurnar gætu borgað, og þeir fóru sjálfsagt nokkuð nærri um það, hvað það mundi verða. En með brbl. eru 15 kr. af því, sem þeir höfðu fulla ástæðu til þess að gera ráð fyrir að þeir gætu fengið, beinlínis gerðar upptækar af ríkisvaldinu.

Það fer varla hjá því, enda kemur það fram í yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. sjálfrar, að hér var um frumhlaup að ræða, sem leiddi svo til skjóts undanhalds. Við höfum svo sem fleiri dæmi um slík frumhlaup af hálfu hæstv. ríkisstj., og nægir að minna á frv. um launastöðvunina, sem hér var til meðferðar á hv. Alþ. fyrir tveimur árum. Það verður ekki hjá því komizt, að hugleiða það, hvaða afleiðingar slík vinnubrögð hljóta að hafa fyrir stjórnarfarið í landinu. Ef sú trú skapast meðal þjóðarinnar, að ráðstafanir ríkisvaldsins geti verið svo vanhugsaðar, að með snörpu upphlaupi sé hægt að knýja hana til undanhalds, nokkurn veginn eftir því, sem mönnum kann að þykja hverju sinni, fer ekki hjá því, að með þeim hætti er molað niður eðlilegt stjórnkerfi í landinu. Viðreisnarstjórnarfarið er með þessum hætti ekki bara að grafa undan sjálfu sér, það er að grafa undan öllu framtíðarstjórnarfari í okkar landi, ef ekki verða tekin upp skynsamlegri vinnubrögð en frv. þetta er dæmi um.

Hvað á nú að gera við þetta pappírsgagn, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir deildina? Samkv. yfirlýsingum hennar sjálfrar er þetta ekkert annað en pappírsgagn, sem til einskis verður notað. Eins og ég sagði í upphafi, virðist mér eðlilegt, að þetta tækifæri sé notað til þess að rifja upp þá atburði, sem áttu sér stað í kringum þessa óvenjulegu lagasetningu, því að af þeim má draga lærdóma. Vítin eru til þess að varast þau. En að öðru leyti sé ég ekki annað en ástæðulaust sé að láta þetta pappírsgagn þvælast lengi í sölum Alþ. og mundi telja eðlilegt, að það yrði þegar í stað fellt, þó að raunar komi út á eitt, hvað við það er gert, þar sem það verður aldrei nema pappírinn.