26.10.1965
Efri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

33. mál, verðjöfnunar- og flutningasjóður síldveiða

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að flytja hér langa minningarræðu um það plagg, sem hér liggur fyrir. Það eru líka siðbúin eftirmæli, sem þar væri um að ræða, því að eins og allir vita, má segja, að þessi brbl. hafi með yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. verið afnumin að efni til þegar eftir að þau höfðu staðið í eina viku og ekki var farið að framkvæma þau. En það, sem kemur mér til þess að standa hér upp nú við þessa umr., er, að ég vil leggja á það ríka áherzlu og vil fara um það nokkrum orðum, hver ég tel að hafi verið aðalástæðan og e.t.v. eina ástæðan til þeirra mjög svo alvarlegu tíðinda, sem urðu í vor eða snemma í sumar, þegar allur síldveiðiflotinn með tölu sigldi í höfn í mótmælaskyni við verðlagninguna og brbl. En meginástæðan til þessa atburðar var tvímælalaust sú, hversu verðlagsákvörðunin kom óhóflega seint og jafnframt tvískipting verðlagsins, þegar það var loksins ákveðið.

Lögum samkv. ber að ákveða verð á síld veiddri fyrir Norður- og Austurlandi, áður en veiðar hefjast, og það hefur verið svo nokkur undanfarin ár, að skipin hafa verið að fara fyrr og fyrr á veiðarnar. Þau eru jafnvel byrjuð nú að veiða síðast í maímánuði. Fyrstu skipin munu hafa farið út seint í maímánuði, og þá reyndist síld þegar komin á miðin, að vísu allfjarri landi, eins og hún befur nú verið síðustu árin. En það má búast við, að ef allt verður með felldu, fari fyrstu skipin ekki seinna til veiða heldur en í maílok og í júníbyrjun, og þá er brýn nauðsyn, að síldarverðið sé ákveðið fyrir þann tíma. Þetta er líka skylt samkv. l. En mikill misbrestur var á því í vor, að þessu ákvæði væri fylgt fram, og það var staðhæft, að verðlagsráðið hefði skort nægilegar upplýsingar til þess að ákveða verðið öllu fyrr en gert var. En það er fyllsta ástæða til þess að láta slíkt ekki koma fyrir aftur, því að það er enginn efi á því, að síldveiðisjómenn munu standa við það, sem þeir hafa fyrir löngu lýst yfir, lýstu yfir þegar í vor eða sumar, þegar átökin urðu, að þeir mundu ekki fara til síldveiða næst, fyrr en verðákvörðun hefði verið tekin, fyrr en þeir vissu, hvaða verð þeir fengju fyrir síldina, sem þeir færu til að veiða. Og þetta er, held ég, úr því sem komið er, kjarni málsins, að viðkomandi aðilar, hæstv. ríkisstj. og verðlagsráð, læri af þessari dýrkeyptu reynslu og láti það ekkí koma fyrir aftur, sem olli þessum hnút í sumar, að verðákvörðun liggi ekki fyrir, þegar veiðarnar hefjast. Úr því sem komið er, held ég, að þetta sé dýrmætasti lærdómurinn, sem hægt er að draga af atburðunum í sumar.