26.10.1965
Efri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2412)

33. mál, verðjöfnunar- og flutningasjóður síldveiða

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Þær umr., sem fram hafa farið, síðan ég flutti mína framsöguræðu, hafa ekki gefið sérstakt tilefni til framhaldsumr. Ég vil þó taka það fram strax, að ræðu hv. 5. þm. Reykn. get ég efnislega verið samþykkur, að því frádregnu, að það er misskilningur, að ríkisstj. sem slík geti tekið þessa verðlagsákvörðun í sínar hendur. Sérstök lög ákveða, að sérstakt verðlagsráð fjalli um þessi mál, og ég hygg, að það hafi ekki staðið á ríkisstj. að veita því ráði upplýsingar þær, sem henni bar. Það er hins vegar alveg rétt, að meginatriðið, sem eftir stendur um þá lærdóma, sem hver og einn vill af þessu draga, er í því fólgið, sem hv. þm. talaði um. Það er a.m.k. mitt mat á því.

Ég vil hins vegar með örfáum orðum víkja að ræðu hv. 6. þm. Sunnl. Hann hafði það innlegg helzt að flytja í umr. um þetta mál, að ekki hefði verið horfið að því ráði, sem Framsfl. lagði til um lausn þessara mála, þ.e.a.s. að kallað hefði verið saman Alþ. til þess að fjalla um málið, þegar síldarflotinn sigldi í höfn. Og í sömu setningunni sagði hann, að ríkisstj. hefði með þessu frumhlaupi sínu, eins og hann orðaði það, bakað þjóðinni aflatjón, sem hefði vafalaust numið tugmilljónum, sagði hv. þm. Eru nú líkur til þess, ef síldarflotinn hefði átt að biða eftir því, að Alþ. væri kvatt saman og hefði tekið málið til umr., að þetta tjón hefði orðið minna en við þá lausn, sem varð á fyrir forustu ríkisstj.? Þetta er aðeins spurning, sem ég vildi að hv. þm. velti fyrir sér og eðlilegt er að spurt sé í framhaldi af slíkum fullyrðingum.

Ég þarf ekki heldur efnislega að ræða frv. frekar en ég gerði í minni framsöguræðu að öðru leyti en því, að ég vil harðlega mótmæla því, að stjórnarliðsmenn hér á Alþ. hafi komið upp þeirri reglu, eins og hv. þm. sagði, að tala tungum tveim, og slíkum svigurmælum hans í garð ónafngreindra manna. Þessari fullyrðingu sinni til stuðnings talaði hann um ákveðna tölu stjórnarliðsmanna, sem mundu hafa ætlað að greiða atkv. á móti þessum brbl., þegar þau kæmu fyrir Alþ. til staðfestingar sem lög. Um þetta liggja engar sannanir fyrir og verður að vísa á bug sem algerlega órökstuddum fullyrðingum.

Ég vil svo aðeins að lokum taka það fram, sem ég sagði í minni framsöguræðu, að það ber skylda til þess samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar að leggja slíkar aðgerðir fyrir Alþ., þótt að meginefni til hafi náðst um það samkomulag að fara aðrar leiðir að sama marki, þ.e.a.s. tryggja söltun upp í gerða samninga. Þeirri spurningu hv. þm., hvað eigi við svona hluti að gera, er ósköp hægt að svara á þann veg að spyrja: Hvað átti ríkisstj. annað að gera en leggja slík lög fyrir? Þm. viðurkenndi í annarri setningu sinni, að það væri skylt að leggja þetta mál fyrir, en segir svo á hinn bóginn, að þetta sé pappírsgagn eitt, sem óþarft hafi verið að leggja fyrir Alþ. Ég hygg, að það sé rétt eftir honum haft, en verð að viðurkenna, að ég skil ekki slíkan málflutning.