19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2418)

14. mál, héraðsskólar

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Í gildandi fræðslulögum frá 1946 segir, að í hverju fræðsluhéraði starfi einn gagnfræðaskóli hið minnsta. Þetta orðalag er svo fortakslaust, að vel mætti skilja það svo, að gagnfræðaskóli starfaði raunverulega í hverri sýslu og hverjum kaupstað á landinu, en fræðsluhéruð eru oftast bundin við sýslur eða kaupstaði. Þetta er þó ekki reyndin. Gagnfræðaskólar eru í flestum eða öllum kaupstöðum, en aðeins í hluta sýslnanna. Langflestar sýslur landsins skortir gagnfræðaskóla. Þær sýslur einar hafa gagnfræðaskóla innan sinna marka, þar sem fyrir voru héraðsskólar, sem flestir voru stofnaðir mörgum árum fyrir gildistöku núverandi fræðslulaga og starfræktir í samræmi við svonefnd héraðsskólalög.

Héraðsskólalögin voru merkislöggjöf á sinni tíð. Með þeim var mörkuð stefna um uppbyggingu framhaldsskóla í þágu sveita og smærri þorpa. Á grundvelli þeirra voru unnin stórvirki á erfiðum tímum til þess að fullnægja þáverandi kröfum og þörfum um framhaldsnám sveitaæskunnar. Héraðsskólalögin voru afnumin með setningu fræðslulöggjafar 1946. Héraðsskólarnir voru þá teknir inn í almenna fræðslukerfið, eins og eðlilegt var, sem gagnfræðastigsskólar og ætlað það hlutverk að vera gagnfræðaskólar í þágu sveitanna. Námsskrá og starfshættir héraðsskólanna tóku nokkrum breytingum, eftir að héraðsskólalögin voru afnumin, og að mestu voru þessir skólar lagaðir eftir gagnfræðaskólum kaupstaðanna, en þó þannig, að þeir starfa eingöngu sem miðskólar. Hið eiginlega gagnfræðapróf er ekki hægt að taka í héraðsskólunum. Þar lýkur námi með almennu miðskólaprófi eða landsprófi miðskóla.

Framkvæmd fræðslulaganna hefur í flestum greinum miðað hægar en lögin gerðu ráð fyrir, þannig að eftir nærfellt 20 ár frá setningu þeirra er ekki búið að framkvæma þau nema að nokkru leyti. Barnafræðsla í nálægt 60 skólahverfum er byggð á farkennslu, fyrirkomulagi, sem er jafngamalt elztu fræðslulögum og er með öllu óhæft og löngu úrelt nú á tímum. Fjöldi barna nýtur ekki lögboðinnar skólaskyldu, þannig að 8 ára skólaskyldan, sem var einn af hornsteinum fræðslulaganna, er aðeins pappírsákvæði. Ástand barnafræðslumálanna er þannig, að skólaganga er því mjög mismunandi í landinu. Í mörgum sveitum er skólavist barna helmingi skemmri eða meira en barna í kaupstöðum, þar sem skólamál eru í þolanlegu ástandi og næst því að vera í anda fræðslulaganna. Ég hef oft áður gert þetta atriði að umræðuefni og skal ekki eyða í það fleiri orðum að sinni, enda fjallar það frv., sem hér liggur fyrir, ekki beint um þennan þátt skólamálanna. Barnafræðslan er þáttur út af fyrir sig og í engu ómerkari, og þar liggur fyrir mikið verkefni í sambandi við útrýmingu farkennslunnar.

Þetta frv. fjallar um úrbætur á öðru sviði fræðslumálanna, þ.e.a.s. um framhaldsskólaskortinn í sveitunum. Framhaldsskólaskorturinn er ekki síður brýnt vandamál en ófullkomleiki barnafræðslunnar í sveitum. Það vandamál verður að leysa með markvísum aðgerðum, m.a. skipulögðum áætlunum um framhaldsskólabyggingar, eins og mælt er fyrir í þessu frv. Héraðsskólarnir, sem voru sennilega nógu margir fyrir 20 árum, fullnægja ekki lengur kröfum og þörfum. Sú afturför, sem orðið hefur í héraðsskólamálum síðustu tvo áratugi, er ekki í neinu samræmi við vaxandi þörf einstaklinga og þjóðfélagsins í heild fyrir aukna menntun. Hér er um hættulega stöðnun að ræða, á sama tíma sem kröfur um menntun fara vaxandi og ekki einungis það, heldur og hitt, að æ fleiri unglingar vilja öðlast gagnfræðamenntun og þurfa hennar með til þess að geta orðið fullgildir þegnar í þjóðfélagi, sem sífellt verður flóknara og margbrotnara. Hömlur á almennri framhaldsmenntun nú jafngilda því að setja þá einstaklinga, sem fyrir þeim verða, skör lægra í þjóðfélaginu, gera þá að kalla óhæfa til þess að njóta lífsgæða og atvinnuskilyrða, sem þó kunna að bjóðast. Sjálft þjóðfélagið líður auk þess baga fyrir, ef almennri menntun er ekki haldið á eðlilegu stigi miðað við nútímaþarfir. Það mun m.a. stórlega tefja þá eflingu sérmenntunar, æðri sem lægri, sem nauðsynlegt er að keppa að, ef hina almennu undirstöðumenntun vantar í ríkum mæli. Jafnvel iðnfræðslan mun eiga erfitt uppdráttar, ef almenna menntunin er í ólestri, hvað þá önnur sérmenntun, eins og háskólamenntun af öllu tagi. Hætt er við, að við verðum enn lengi aftur úr öðrum á því sviði, ef undirstaðan er ekki treyst, m.a. með stórátaki í málefnum héraðsskólanna, sem hér eru nú til umr.

Skorturinn á héraðsskólum hefur einnig á sér annan svip. Hann er jafnframt skortur á jafnrétti. Æskufólkið í sveitum og smærri kauptúnum landsins er beinlínis beitt misrétti í skólamálum, misrétti, sem ómögulegt er að þola til lengdar. Það hljóta allir að sjá og skilja, að það er réttlætismál að jafna aðstöðu barna og unglinga til skólagöngu. Misræmið, sem framkvæmd skólamálanna hefur orsakað milli aðstöðu sveita og kaupstaða, má ekki ganga lengra en orðið er. Það er sannarlega kominn tími til þess að afmá þetta misræmi með öllum tiltækum og skynsamlegum ráðum, og um það fjallar þetta frv. Höfuðatriði þess er að gera áætlun um byggingu 8 nýrra héraðsskóla á næstu 10 árum, eða skemmri tíma, ef þess er kostur, enda er ekkert í frv., sem hamlar á móti því.

Hinir fyrirhuguðu nýju héraðsskólar eru taldir upp í 2. gr. frv. Þar segir, að reisa skuli átta nýja héraðsskóla með heimavist í Eyjafjarðarsýslu, Norður-Þingeyjarsýslu, á Reykhólum á Barðaströnd, í Skagafirði, á Suðausturlandi, á Laugum í Dalasýslu, á Snæfellsnesi og í Kjósarsýslu. Í 3. gr. er ákvæði um 10 ára áætlun um byggingu skóla þessara, þ.e. menntmrh. láti gera áætlunina í samráði við hlutaðeigandi sýslunefndir. Skal áætlunin við það miðuð, að hafizt verði handa um smíði fyrsta skólans eigi síðar en á árinu 1966 og að smíði allra skólanna verði lokið á árinu 1976.

Augljóslega er hér um mikið fjárhagslegt átak að ræða, en hjá þessu átaki verður ekki komizt. Vandinn kallar á lausn og það skjóta lausn, ef bann á ekki að vaxa okkur alveg yfir höfuð.

Í 4. gr. er ákvæði um byggingar- og rekstrarkostnað skólanna. Segir þar, að ríkið kosti byggingu þeirra og rekstur að fullu. Þetta ákvæði er að vísu ekki í fullu samræmi við almenna venju um skólabyggingar. Hins vegar er það staðreynd, að þróunin í fjárhagsmálum héraðsskólanna hefur alltaf leitað í þessa átt. Með l. nr. 34 1962 var opnuð leið til þess, að ríkið yfirtæki héraðsskólana að fullu og öllu. Með því hefur löggjafinn í raun og veru viðurkennt, að sýslusjóðum sé ofvaxið að rísa undir skólunum, enda er það svo. Þegar auk þess er tekið tillit til þess, að mikil og fjárfrek verkefni bíða víða í sambandi við barnafræðslustigið, þá mun það sýna sig, að heimamönnum er ofvaxið að rísa undir þungum byrðum af byggingu og rekstri héraðsskóla að auki. Að óbreyttum aðstæðum verður því ekki komizt hjá því að leggja til, að nýir héraðsskólar verði reistir á kostnað ríkisins. Menntun þjóðarinnar er eitt af stærstu viðreisnarmálum hennar. Svo hefur raunar alltaf verið, en fer mjög vaxandi. Það er vissulega mál allrar þjóðarinnar, hversu úr rætist um framfarir á menntunarsviðinu. Almenna undirstöðumenntun má sízt af öllu vanrækja, og það á ekki að verða skóggangssök í menntamálum, þótt börn og unglingar alist upp í sveitum eða smáþorpum, en þannig er ástandið allt of víða.

Það er margur útlegðardómur kveðinn upp með rangindum yfir æsku sveitanna í þessum málum. Við flm. þessa frv. viljum koma í veg fyrir frekari rangindi á þessu sviði.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari og til menntmn.