19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

14. mál, héraðsskólar

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Mig furðar satt að segja nokkuð á því, hvernig hæstv. menntmrh. les þetta frv. og hvað hann les út úr því sem aðalatriði málsins. Það dylst náttúrlega engum, sem frv. les og kynnir sér grg. þess og það, sem að baki því liggur, að höfuðatriði þess felst í því, að byggðir verði á næstu árum 8 nýir héraðsskólar. Það er auðvitað höfuðatriði þessa máls, og það er einmitt það, sem fyrir okkur vakir með flutningi þess. Það, sem hæstv. menntmrh. telur vera aðalatriðið, og það, sem hann rekur helzt augun í og telur vera hið mesta nýmæli, sem hann vekur sérstaka athygli á, er það, að í því felist grundvallarbreyting á greiðslu kostnaðar við skólabyggingar. Ég held, að hæstv. ráðh. geri fullmikið úr þessu atriði. Það er að vísu rétt, að þetta er ekki að öllu leyti f samræmi við þær venjur, sem gilt hafa frá upphafi um skiptingu hlutfalla á milli sveitarfélaga og ríkisins um skólabyggingar. En eigi að síður veit hæstv. ráðh. það sjálfur og hann hefur sjálfur staðið að því, að farið hefur verið inn á þessa braut hér á Alþ. með l. frá 1962, þar sem er gerð breyting á gildandi l. um kostnaðarhlutföll skólanna, þar sem héraðsskólarnir eru beinlínis teknir inn sem hreinir ríkisskólar. Þetta er sú þróun, sem hefur orðið í þessum málum og ég rakti í minni frumræðu.

Ég deildi hvergi á hæstv. menntmrh. fyrir framkvæmd hans á menntamálum þau undanfarin nærri 10 ár, sem hann hefur verið menntmrh. Ég lýsti aðeins ástandi, sem fyrir er í landinu, án þess að deila á einn eða neinn eða lýsa því, hver ætti þar helztu sökina. Ég efast ekkert um, að það eiga fleiri þarna einhverja sök á heldur en hæstv. menntmrh., en vafalaust á hann sína sök á því, hvernig komið er í þessum þáttum skólamálanna nú. Hann hlýtur að eiga þar einhverja sök á, og það er óþarfi af honum að fara að kenna þar eingöngu um sýslum og einstökum sveitum, því að hann upplýsti það raunar í ræðu sinni, hæstv. ráðh., að það hefur komið í ljós, að sýslusjóðirnir hafa ekki bolmagn til þess að byggja héraðsskólana, ekki einu sinni að reka þá héraðsskóla, sem byggðir eru fyrir löngu. Og hann upplýsir það líka, að það eru ýmis sveitarfélög, sem hafa ekki bolmagn til þess að halda reglulega skóla. En hver er það þá, sem á að bæta úr þessu, hvaðan á aðstoðin að koma til þessara — vil ég segja — fátæku aðila, sem hafa ekki bolmagn til þess að veita þegnum sínum þann sjálfsagða rétt, sem við allir viljum hafa? Hvaðan ætti hann að koma nema þá frá ríkisvaldinu? Er ekki þörf á því að hugsa eitthvað nýtt í þessu máli og koma með einhverjar nýjar till., ef þær eldri gefast illa? Ég held því, að það sé ekki rétt að öllu óbreyttu að hverfa frá því, sem lagt er til í þessu frv., að ríkið reisi héraðsskólana. Það er till., sem á sér margvísleg rök og þróunin í þessum málum styður að fullu og öllu. Höfuðatriði þessa frv. er auðvitað, að það verði byggðir innan hæfilegs tíma nægilega margir héraðsskólar til að fullnægja þeirri þörf, sem fyrir er, og þeim kröfum, sem gera verður, ekki eingöngu vegna þeirra einstaklinga, sem skólaskorturinn kemur niður á, heldur vegna þjóðfélagsins sjálfs. Það er ekki nóg að halda því fram og halda um það fagrar ræður, að menntunin sé grundvöllur framfaranna og yfirleitt allrar tilveru í landinu í náinni framtíð, ef ekkert er gert í því að treysta þann grundvöll. Það verður ekki með öðru betur gert en að efla hina almennu menntun í landinu. Það er almenna menntunin, sem hlýtur að verða grundvöllurinn að allri annarri menntun, allri sérmenntun, allri háskólamenntun, iðnmenntun, tæknimenntun. Þetta veit hæstv. menntmrh. Ég veit það vel, að hann gerir sér þess fyllilega grein, að svo er, og þess vegna held ég, að hann ætti að taka betur í það frv.,sem hér er, og lesa annað út úr því heldur en hann hefur gert.