19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2426)

14. mál, héraðsskólar

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég held, að frumræða mín hafi ekki gefið tilefni til þess, að umr. snerust upp í það karp, sem reyndin hefur orðið. Og ég verð að segja það, að ég átti ekki von á því af hæstv. menntmrh., að hann leiddi umr. inn á þá braut, sem hann gerði. Í frumræðu minni reyndi ég að gefa sem allra hlutlausasta mynd af því, hvernig ástandið er, og forðaðist með öllu að deila á einn eða annan persónulega í því sambandi. En nú hefur hæstv. menntmrh. enn hnykkt á og aukið karp og ádeilur, sem satt að segja koma mér mjög á óvart, og þá einkum sú framkoma, sem aðrir hv. þm. hafa nefnt hér, að ráðast á einstaka menn heima í hreppum vegna afstöðu þeirra í skólamálum. Ég verð að játa hreinlega, að ég er ekki svo kunnugur hreppapólitík í yfir 200 hreppum á Íslandi, að ég geti dregið af því einhverja heildarályktun um það, hvernig afstaðan er. En þar sem ég þekki til á landinn, sennilega í 30—40 hreppum, er afstaðan ekki sú, sem hæstv. menntmrh. er að lýsa, það þori ég að fullyrða. Ég vil t.d. nefna það, að N-Þingeyingar, sem hafa orðið mjög hart úti nú hin síðari ár í sambandi við framhaldsskólamálin, hafa gengið mjög ötullega fram í því að fá viðurkenndan héraðsskóla. sem þeir hafa í raun og veru stofnað og eru þegar farnir að starfsrækja. En það hefur staðið á hinu opinbera að styðja N-Þingeyinga í þessu máli. Ég held því, að það sé alveg úr lausu lofti gripið hjá hæstv. ráðh. að fara að kasta hnútum í einhverja ónafngreinda menn með þeim hætti, sem hann gerði, einhverja menn úti um land. Það er algerlega úr lausu lofti gripið, og ég get ekki orða bundizt um að mótmæla þessu.