26.10.1965
Neðri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (2446)

25. mál, verkfræðiráðunautar ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er margra mál í seinni tíð, að of mikið af þeirri þjónustu, sem þjóðfélagið lætur í té á sinn kostnað, þurfi landsbyggðin að sækja á einn stað, þ.e.a.s. til höfuðborgarinnar, og að biðin eftir þessari þjónustu vilji þá stundum verða nokkuð löng og kunnugleiki ekki sem skyldi, svo og að það mundi út af fyrir sig vera til ávinnings fyrir landsbyggðina, ef þeim þjónustukröftum, ef svo mætti segja, sem hér er um að ræða, væri meir dreift um landið, starfsmenn og stofnanir staðsettar víðar um landið en nú er. Þennan formála vil ég hafa fyrir máli mínu, en því næst gera grein fyrir því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir um verkfræðiráðunauta ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi, er samið af stjórnskipaðri n., sem skipuð var fyrir nokkrum árum og í áttu sæti menn tilnefndir af fjórðungssamböndum, Sambandi ísl. sveitarfélaga og frá ríkisstj.

N. samdi á sínum tíma þetta frv., en það hefur ekki verið lagt fyrir þingið fyrr en í lok síðasta þings, að við tveir nm., sem sæti eigum á þingi, töldum rétt að hlutast til um, að þingið ætti þess kost að taka afstöðu til þess. Frv. var þá vísað til n., en þetta var, eins og ég sagði, seint á þingi og málið varð ekki afgr. úr n. og er því endurflutt. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að skipaðir verði sérstakir verkfræðiráðunautar í þjónustu ríkisins, einn fyrir Norðurland, annar fyrir Austurland, sá þriðji fyrir Vestfirði, og að þeir hafi fast aðsetur hver í sínu umdæmi. Það er ætlazt til þess, að verkfræðiráðunautar lúti sameiginlegri yfirstjórn vegamálastjóra og vitamálastjóra, á svipaðan hátt og t.d. sýslumaður lýtur sameiginlegri yfirstjórn a.m.k. tveggja ráðuneyta, en séu að öðru leyti sjálfstæðir í starfi. Verkfræðiráðunautunum er samkv. frv. ætlað að hafa umsjón með vega- og hafnamannvirkjagerð í umdæmum sínum og að hafa með höndum undirbúningsrannsóknir og áætlanir í sambandi við slík mannvirki. Enn fremur er gert ráð fyrir, að heimilt verði að fela verkfræðiráðunaut umsjón með skipulagi og húsagerð á vegum hins opinbera í umdæmi hans. Einnig er svo gert ráð fyrir þeim sérstaka möguleika í frv., að verkfræðiráðunautur og skrifstofa hans veiti bæjar- og sveitarfélögum verkfræðilega aðstoð, ef þess er óskað, gegn hæfilegri greiðslu, sem gangi til ríkisins eða verkfræðiráðunautar, eftir því sem um semst. N. taldi, að það mundi vera hagkvæmt fyrir bæjar- og sveitarstjórnir að geta leitað til slíkra stofnana nærlendis í sambandi við ýmiss konar framkvæmdir á þeirra vegum, svo sem vatnsveitur og gatnagerð, en um margt af því er það að segja nú, að bæjar- og sveitarfélögin verða að afla sér verkfræðiþjónustu hér syðra í Reykjavík. Það leiðir af sjálfu sér, að til þess að verkfræðiráðunautarnir gætu innt af hendi störf sín, yrði að sjá þeim fyrir starfsskilyrðum á hverjum stað, svo sem húsnæði og starfskröftum til aðstoðar, eftir því sem þörf kynni að reynast. Og á það ber að leggja áherzlu, og á það var lögð áherzla, þegar þetta mál var til meðferðar í n., að því aðeins mundi þessi skipan bera tilætlaðan árangur, að það tækist að fá menn til þeirra starfa, sem hér er um að ræða, sem reyndust þannig í þeim störfum, að ekki þætti ástæða til að leita fremur annað en til þeirra. Og að því yrði að stefna, að enda þótt þessir ráðunautar væru undir yfirstjórn hlutaðeigandi framkvæmdastofnunar ríkisins í Reykjavík, yrðu þeir, er tímar líða, sem sjálfstæðastir í sínum störfum.

Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð að þessu sinni, en leyfa mér að vísa til grg., sem fylgir frv. á þskj. 25. Það má gera ráð fyrir því, að í sambandi við þessi störf hinna sérstöku verkfræðiráðunauta í landshlutunum, sem í frv. er gert ráð fyrir, mundi að einhverju leyti létta af kostnaði þeim, sem ríkið annars hefði af framkvæmdastofnunum sínum hér í höfuðstaðnum. Því skal þó ekki neitað, að af þessu kynni að verða einhver kostnaðarauki. En þeir, sem að þessu frv. standa, eru þeirrar skoðunar, að ávinningurinn, beinn og óbeinn, af því að taka upp þessa starfsemi mundi fyllilega réttlæta þann kostnað, sem af því kynni að leiða.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn. Í þeirri n. mun frv. hafa verið á síðasta þingi.