09.11.1965
Neðri deild: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

36. mál, Landsspítali Íslands

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um, að ríkið skuli auk landsspítalans í Reykjavík reka deildir landsspítala í öllum landsfjórðungum, er nú flutt á hv. Alþ. í fjórða sinn. Í fyrstu var ég einn flm. þess, en síðan hafa flm. þess verið þeir hv. 5. þm. Austf. og hv. 5. þm. Norðurl. e. auk mín.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkið reki eina fjórðungsdeild landsspítala á Vestfjörðum, eina eða tvær fjórðungsdeildir landsspítala á Norðurlandi sökum fjölmennis í þeim landsfjórðungi, þá þriðju á Austurlandi og hina fjórðu á Suðurlandsundirlendinu, ef heilbrigðismálastjórnin teldi ástæðu til að staðsetja þar landsspítaladeild sökum nálægðar og góðra samgangna við aðalspítalann í Reykjavík.

Í 2. gr. þessa frv. er það fram tekið, að þessar fjórðungsdeildir landsspítala skuli vera búnar fullkomnustu rannsóknar- og lækningatækjum og vera undir stjórn vel menntaðra sérfræðinga í skurðlækningum og lyflækningum.

Í 3. gr. frv. er svo ráð fyrir gert, að auðvelda megi stofnun slíkra fjórðungsdeilda landsspítala með því að leita samninga um yfirtöku starfandi sjúkrahúss, ef sjúkrahús í einhverjum landsfjórðungi þykir þannig búið eða staðsett, að það sé vel fallið til að verða þar fjórðungsdeild landsspítala. Gera má ráð fyrir, að rekstri þessara fyrirhuguðu landsspítaladeilda í fjórðungunum verði hagað líkt og rekstri aðalspítalans í Reykjavík og sennilega vera undir sameiginlegri stjórn. Þó segir í 5. gr. frv., að stjórn ríkisspítalanna skuli heimilt að fela Tryggingastofnun ríkisins að sjá um rekstur fjórðungsdeilda, ef heilbrmrh. teldi það hagkvæmara.

Þó að þetta frv. hafi vakið almenna athygli og fundið mikinn hljómgrunn víðs vegar um land, hefur það samt ekki fengið afgreiðslu á Alþ. Það er raunar engin ný saga, að þjóðþrifamál eigi stundum erfitt uppdráttar og flytja verði þau árum og jafnvel áratugum saman á Alþ., þangað til þau hafa fengið svo almennt fylgi almennings, að gegn þeim verði ekki lengur staðið. Venjulegasta viðnámsaðferð er þá jafnan sú að þegja þau í hel, svo lengi sem unnt reynist, og virðist sú aðferð vera nokkuð notuð gagnvart þessu máli, sem nú hefur, eins og ég áðan sagði, verið flutt í fjórða sinn. Hér er þó um jafnréttismál þegnanna í heilbrigðismálum að ræða.

Menn segja með réttu, að ríkinu beri tvímælalaust skylda til að tryggja þegnum sínum sem jafnast öryggi í heilbrigðismálum án alls tillits til búsetu. Með vel búinni landsspítaladeild í hverjum landsfjórðungi væri stórt skref stigið í jafnréttisátt. Þetta er líka réttlætismál þegnanna. Það getur naumast talizt réttlátt, að ríkið reki stórt og fullkomið sjúkrahús í Reykjavík einnig og létti þannig miklum útgjöldum af hálfu skattborgara höfuðborgarinnar, en ætli hins vegar fámennum bæjarfélögum úti á landi að leggja á gjaldþegna sína þungar byrðar vegna rekstrarhalla sjúkrahúsa. Hér skapast auðsætt misrétti. Með þessu er freklega gert upp á milli þegnanna eftir því einu, hvort þeir hafa valið sér bólfestu í Reykjavik eða ekki. Samkv. fjárl. yfirstandandi árs er halli landsspítalans, sem gert er ráð fyrir að greiða úr sameiginlegum sjóði landsmanna, 58 805 958 kr., 58 millj. röskar, og á fjárl. ársins 1964 var þessi upphæð 44 157 585 kr. Á þessum tveimur árum eru teknar úr sameiginlegum sjóði landsmanna til þess að standa undir rekstrarhalla landsspítalans í Reykjavík rúmar 100 millj. kr.

Hins vegar er það staðreynd, að t.d. fjórðungssjúkrahús á Vestfjörðum, Norðurlandi og á Austfjörðum eru rekin af Ísafjarðarkaupstað og Akureyrarkaupstað og Neskaupstað á þann veg, að þessi litlu bæjarfélög verða að taka á sig hundruð þús. kr., líklega er það nú í sumum tilfellum komið í milljónir, í halla og leggja þann halla á gjaldþegna sína. Hér er ójafnt skipt réttindum og skyldum, og þetta verður enn þungbærara fyrir viðkomandi bæjarfélög, þegar þess er gætt, að á þessum sjúkrahúsum fá heilbrigðisþjónustu meira en að helmingi utanbæjarmenn. Og í þriðja lagi sjá menn, hversu ranglátt er að leggja þessar byrðar á viðkomandi bæjarfélög, þegar á það er litið, að stjórnarvöld þessara bæjarfélaga fá ekki frjálsræði til að ákveða daggjöldin miðað við rekstrarkostnað sjúkrahúsanna, heldur verða að lúta þar fyrirmælum heilbrigðisstjórnar og taka síðan á sig hallann.

Þetta, sem ég nú hef sagt, sýnir, að misrétti í þessum málum er tilfinnanlegt, þegar samanburður er gerður milli Reykjavíkur og stærstu kaupstaðanna í landinu. En þó má segja, að misréttið sé litlu minna, þegar samanburður er gerður milli Reykjavíkur annars vegar og hinna fámennari bæja og kauptúna, sem orðið hafa að taka á sig rekstur sjúkrahúsa, hins vegar. Annars vegar kostar ríkið algerlega rekstur fullkomins sjúkrahúss, hins vegar hvílir meginþungi sjúkrahúsrekstrar á íbúum fámennra byggðarlaga.

Það skal játað, að ekki verður að fullu jafnrétti náð í heilbrigðismálum með neinu öðru móti en því, að ríkið reki öll sjúkrahús, og það væri vissulega eðlilegt, enda er það persónuleg skoðun mín, að að því beri að stefna, enda er slík skipan, þ.e.a.s. ókeypis læknisþjónusta og sjúkrahúsvist, svo og ríkisrekstur allra heilbrigðisstofnana, talin sjálfsögð og fyrir löngu upp tekin regla hjá fjölda menningarþjóða, sem lengst eru komnar á þessu sviði, og að því marki ættum við auðvitað að keppa hér á landi einnig. Með ákvæðum gildandi laga um fjórðungssjúkrahús er beinlínis viðurkennd nauðsyn þess að efla eitt tiltölulega fullkomið sjúkrahús í hverjum landsfjórðungi, og þetta var svo sannarlega spor í rétta átt. Reynslan hefur staðfest, að það var þörf á því að tryggja það, að eitt fullkomið sjúkrahús væri í hverjum landsfjórðungi. Eðlilegt og æskilegt næsta skref væri það að áliti okkar flm., að ríkið tæki að sér að öllu leyti rekstur fjórðungssjúkrahúsanna, eins og það nú ber uppi rekstur landsspítalans í Reykjavík, og það er einmitt það, sem lagt er til að gert verði samkv. ákvæðum þessa frv. Þó að réttlátast væri, að ríkið tæki öll sjúkrahús á sínar herðar, liggja þó allgild rök til þess, að fyrst séu tekin í ríkisrekstur stærstu og fullkomnustu sjúkrahúsin, sem mestar kröfur eru gerðar til og þannig langsamlega dýrust í rekstri. Sjúkrahús eru nefnilega tvenns konar í eðli sínu: þau, sem nánast mega teljast vísinda- og rannsóknarstofnanir, og svo hjúkrunar- og legusjúkrahúsin, sem nánast eru sjúkraskýli af mismunandi stærðum og eru auðvitað miklu ódýrari í öllum rekstri. Hin fyrrnefndu eru svo dýrar stofnanir, að rekstur þeirra er langsamlega ofviða einstökum bæjarfélögum. Á því er þannig full hætta, að slík sjúkrahús, sem árlega eru rekin með miklum halla, fái ekki fullnægjandi viðhald og verði ekki, þegar til lengdar lætur, eins vel búin rannsóknar- og lækningatækjum né heldur sérfræðilegu starfsliði og æskilegt væri. Það er því ekki á annarra færi en ríkisins að reka slík sjúkrahús, svo að vel sé fyrir þeim séð, að því er kostnað rekstrarins snertir. Þess vegna er mest aðkallandi, að ríkið taki að sér rekstur þessara sjúkrahúsa, þó að legusjúkrahúsin séu þá enn um sinn í rekstri einstakra sveitarfélaga.

Það er skoðun okkar flm., að með deildaskiptingu landsspítala í öllum landsfjórðungum fái fólkið úti um byggðir landsins aukið öryggi í heilbrigðismálum og meira jafnrétti við íbúa höfuðborgarinnar. Þá ættu landsspítaladeildir vestanlands, norðan og austan líka að auðvelda það, að hin fullkomnasta læknisfræðilega sérþekking, sem völ er á í landinu á hverjum tíma, notist betur en með núverandi fyrirkomulagi. Við sjáum nefnilega ekkert því til fyrirstöðu, þegar aðalsjúkrahúsin í öllum landshlutum væru orðin deildir einnar og sömu stofnunar, að færustu sérfræðingar landsspítalans tækju sér ferð á hendur til fjórðungsdeildanna, þegar mikið þætti við liggja, eða jafnvel væri hægt að skáka sérfræðingum stofnunarinnar til eftir atvikum eða til tímabundinnar dvalar í fjórðungsdeildunum. Eða ætti það ekki að vera allt eins auðvelt að flytja sérfræðilega þekkingu til milli deilda sömu stofnunar og flytja fársjúkt fólk og dauðvona landshorna á milli. Og hvort finnst mönnum í rauninni skynsamlegra og sjálfsagðara?

Að lokum þetta, herra forseti: Við flm. þessa frv. heitum enn einu sinni á heilbrigðisstjórnina að hugleiða vandlega, hvort væri ekki spor í jafnréttisátt og réttlætisátt og til aukins öryggis í heilbrigðismálum, ef Vestfirðingar fengju sína fjórðungsdeild landsspítala, eins og hér er lagt til, Norðlendingar með sama hætti sína landsspítaladeild, e.t.v. tvær, Austfirðingar sína og Sunnlendingar sína, ef heilbrigðisyfirvöld teldu, að með því móti yrði íbúum Suðurlandsundirlendisins veitt betri og öruggari heilbrigðisþjónusta en með núverandi skipan, þ.e.a.s. legu- og hjúkrunarsjúkrahúsi á Selfossi og að öðru leyti beinni þjónustu við landsspítalann í Reykjavík. Þá heitum við almennt á hv. alþm. að veita málinu brautargengi, svo að það geti orðið helzt að lögum á þessu þingi. Í fjórða sinn á að vera fullreynt. Alveg sérstaklega heitum við svo á alla þm. Vestfirðinga, Norðlendinga og Austfirðinga að gera allt, sem þeir megna utan þings og innan, til þess að frv. þetta geti orðið að lögum á þessu þingi.

Við flm. leggjum svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.