10.02.1966
Neðri deild: 39. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2482)

46. mál, bygging leiguhúsnæðis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég flutti hér í byrjun þings frv. til l. um leiguhúsnæði og 15. nóv. var því vísað til hv. heilbr.- og félmn. Ég vildi nú leyfa mér að æskja þess, að forseti athugaði um, að sú n. og ýmsar aðrar færu að skila áliti um þetta frv. og kannske ýmis önnur, sem hefur verið vísað til hinna ýmsu n. hér. Það er komið svo, að þessi siður, að svæfa mál í n., er orðinn þinginu til vansa. Og ég álit, að við verðum að taka okkur saman um að breyta vinnubrögðum hvað þetta snertir. N. hafa marga möguleika til að afgreiða mál á: vísa til ríkisstj., fella og ýmsa aðra, og það er hægt að ætlast til þess, að þau frv., sem flutt eru, hljóti einhvers konar þinglega afgreiðslu. Ég segi fyrir mitt leyti. að frv., sem ég hef flutt nú jafnvel í ein 10 ár, eins og um áburðarverksmiðju, hefur aldrei komið úr n., og hefur kveðið svo rammt að, að stjfrv. um áburðarverksmiðju hafa orðið að stöðvast í n. líka, vegna þess að menn hafa ekki þorað að láta neitt um áburðarverksmiðju koma til 2. umr. Þegar mál eru komin svona, er þetta orðið þinginu til skammar, enda sé ég ekki betur en ástandið sé þannig hjá okkur núna þessa dagana, að Ed. sé að deyja úr hor. Mér skilst hún ekki geta haldið fundi, af því að það sé ekki afgreitt úr n., það sem fram er lagt við 1. umr. og vísað til n., og það fer að verða fátæklegt hjá okkur auðsjáanlega hér í Nd. líka. Og þegar verið er að ræða meira að segja í útvarpi um, hvort eigi að flytja Alþ. á Þingvöll, sýnist mér staðreyndin vera að verða sú, að það sé búið að flytja Alþ. í kompu í stjórnarráðinu. Það er eins og alþm. megi ekki sjálfir og þessar nefndir afgreiða eitt einasta mál hugsandi um það upp á eigin spýtur. Með þessu móti erum við að drepa niður allt þingræði í okkar landi.

Ég vildi nú aðeins skjóta þessu að út af þessu litla máli, en láta þessar aths. fylgja.