15.11.1965
Neðri deild: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (2486)

49. mál, barnaheimili og fóstruskóli

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt bv. 10. landsk. þm. (GeirG) að flytja hér frv., sem við höfum flutt tvisvar sinnum áður, um aðstoð ríkisins við rekstur og byggingu almennra barnaheimila og um fóstruskóla.

Ég þarf ekki að mæla langt mál til að rökstyðja þetta frv. og nauðsyn þess, að það verði samþ. Við breytingar, sem orðið hafa á okkar þjóðfélagi, og sérstaklega við það, hve miklu meira er nú að því gert, að giftar konur, ekki sízt ungar, vinni úti, er nauðsynin á því, að unnt sé að koma ungum börnum fyrir á barnaheimili, orðin miklu, miklu meiri en áður var, meðan sérstaklega bæirnir voru minni í okkar þjóðfélagi og það var meira eða minna bænda eða sveitaþjóðfélag. Alveg sérstaklega er þetta orðið tilfinnanlegt í Reykjavík og þeim bæjum, sem atvinna er hvað mest í, og þar sem húsnæðisvandamálin hafa um leið leitt það af sér, að maður og kona verða venjulega bæði að vinna úti til að geta borgað af þeim íbúðum, sem hjón eru að reyna að eignast, þá er þetta orðið alveg óhjákvæmilegt.

Ástandið er núna þannig í þessum efnum, að þau barnaheimili, sem fyrir eru, og ég tala nú ekki um það lítið sem til er af vöggustofum, það leysir ekki nema lítið brot af þeim vanda, sem fjöldinn allur af heimilum, ekki sízt unga fólksins, á við að stríða í þessum efnum. Það er algerlega ófært fyrir þjóðfélagið að leysa ekki þetta vandamál. Það eru engin ósköp að koma upp nokkrum barnaheimilum, þannig að hjón, sem eiga börn á aldrinum frá eins og tveggja og upp í sjö ára, geti komið þeim fyrir meiri hluta dagsins á slíku barnaheimili. Þetta kostar engin ósköp. Það kostar ekki meira en það, að hingað til eru það bara bæjarfélögin ein, án nokkurs styrks frá ríkinu, sem hafa lagt í að reyna að gera þetta. Og oft og tíðum hefur það líka verið þannig, að einstök áhugafélög, sums staðar t.d. verkakvennafélögin, og annars staðar kannske t.d. Thorvaldsensfélagið í Reykjavík og fleiri svona félög, sums staðar Vorboðinn, hafa verið að reyna að bæta úr þessari sáru þörf. Og bæjarfélögin hafa þá oft og tíðum reynt að styrkja þessa viðleitni nokkuð. Þannig hefur þetta gengið mjög lengi. Það eru áratugir, síðan slík starfsemi var hafin, en það gengur svo hægt með þetta, vegna þess að ríkið hefur enn sem komið er ekki látið þetta að neinu verulegu leyti til sín taka. Það er ofur lítill styrkur á fjárl. til nokkurra heimila í þessu sambandi, en hann er alveg hverfandi.

Það, sem lagt er til með þessu frv., er, að ríkið láti þessa þörf á að koma upp barnaheimilum og reka þau, til sín taka á nokkuð svipaðan hátt og það gerir með barnaskólana. Í raun og veru er þetta orðin uppeldisstofnun í nútímaþjóðfélagi, sem er alveg jafnnauðsynleg og jafnsjálfsögð og barnaskólarnir eru. Þess vegna er lagt til í þessu frv., í 1. gr., að ríkið aðstoði þá aðila, sem reka barnaheimili, hvort sem það eru vöggustofur, dagheimili, vistheimili eða sumardvalarheimili, og viðkomandi aðila séu greiddar a.m.k. 600 kr. á mánuði fyrir hvert barn, sem þar er, sem rekstrarstyrkur til barnaheimilisins, en þó að jafnaði ekki minna en 1/3 kostnaðar við rekstur heimilisins. Þetta ætti að þýða, að ef ríkið tæki þetta að sér, ættu sveitarfélögin, sem hafa sýnt mjög lofsverðan áhuga og skilning í þessu efni, að geta unnið miklu hraðar að þessu en nú er. Reynslan befur sýnt t.d. með jafnvel eitt það stærsta og ríkasta af þessum félögum, Reykjavíkurbæ, sem gerði allmyndarlega áætlun í þessum efnum, að það er mjög langt frá því, að Reykjavíkurbær hafi getað framkvæmt þessa áætlun eða gert það. Hins vegar er það alveg gefið mál, að ef svona styrkur kæmi til af hálfu ríkisins, þá mundi þetta ganga miklu örar. Þörfin vex miklu hraðar nú heldur en bætt er úr henni.

Í öðru lagi er gengið út frá því með þessu frv., að þegar um sé að ræða byggingu eða jafnvel kaup á húsum í sambandi við rekstur barnaheimila, þá skuli ríkið styrkja það og styðja á sama máta og gert er núna með barnaskólana. Ég held, að á þessu sé ákaflega mikil þörf, og það er skoðun okkar flm., og það veit ég að er skoðun margra fleiri, að þetta megi ekki við svo búið standa. Það er í raun og veru til vansa fyrir okkar þjóðfélag, að þetta skuli ekki vera komið upp í miklu ríkara mæli. Þjóðfélög, sem eru miklu fátækari en okkar, hafa komið þessu upp í mjög stórum stíl. Í Reykjavík t.d., þar sem mjög mikið er um, að ungar konur vinni úti, hafa t.d. svo að segja engar verksmiðjur eða stórfyrirtæki enn þá lagt í þetta. Hins vegar mundi vel vera hægt, bæði fyrir opinber fyrirtæki og önnur slík, að leggja í svona barnaheimili. Viða erlendis er þetta t.d. við verksmiðjur og annað þess háttar, og þetta sparar þjóðfélaginu alveg gífurlegt vinnuafl, þannig að einmitt á þeim tímum, þegar atvinnurekendur eru að kvarta yfir skorti á vinnuafli, þá er þetta sannarlega eitt af mörgum ráðum þjóðfélagsins til að reyna að leysa nokkuð úr þeim vanda. Konur, sem mjög gjarnan þyrftu að vinna úti og vildu vinna úti, komast ekki til þess, vegna þess að þær þurfa að sitja heima, kannske yfir 1 eða 2 börnum.

Hér forðum daga var það svo, þegar við, sem tilheyrum verkalýðshreyfingunni, vorum að byrja að berjast fyrir því að koma upp barnaleikvöllum, — ég man eftir því t.d. fyrir 40 árum, — þá var rekið upp ramakvein í íhaldsblöðum út af öðru eins tiltæki og að leggja það til að koma upp barnaleikvöllum. Það sýndi, hvernig þeir vondu kommúnistar ætluðu að taka börnin frá mæðrunum. (Gripið fram í: Ætli þetta sé nú rétt með farið?) Þetta er rétt, það var 1926, ég get sýnt hæstv. forsrh. það í blöðum íhaldsins á Akureyri þá. Svo liðu nú ekki nema nokkur ár, þangað til þessir menn fóru að átta sig á því. Til allrar hamingju hefur það verið svo með íhaldið og Sjálfstfl., að þau hafa ýmislegt getað lært.

Það hafa ekki heldur liðið nema 26 ár, síðan sjálfur hæstv. forsrh. lét sér um munn fara í ræðu, sem hann flutti, ég held það hafi verið í Nýja bíó, 1938 eða 1939, að það væri ekki í verkahring þess opinbera að vera að sjá mönnum fyrir húsnæði. Það var einu sinni, og ég ætla ekkert að fara að rifja það upp nú, vegna þess að batnandi manni er bezt að lifa. Menn hafa áttað sig á þessu í Sjálfstfl., bæði í sambandi við verkamannabústaði og annað slíkt.

Það, sem við verðum að reyna að sjá um, er að halda áfram með þessi mál, eins og t.d. með þetta hérna í þetta skipti, þangað til t.d. Sjálfstfl. fer sjálfur að taka þetta upp líka og berjast fyrir því. Það er allt í lagi, okkur er alveg sama, hver framkvæmir þetta, þegar þetta er gert á endanum. Okkur þykir vænt um, að menn skuli ekki standa alveg stirðnaðir í sömu sporum og þeir hafa staðið fyrir 30—40 árum, heldur reyna að læra eitthvað ofur lítið af lífinu og reynslunni, jafnvel þó að þeir verði að læra af sínum andstæðingum.

Í sambandi við barnaheimilin hins vegar er það nauðsynlegt, að um leið sé hugsað fyrir því að koma upp fóstruskóla í ríkari mæli en núna er gert. Það er til fóstruskóli, sem nú er rekinn, en hann er raunverulega einkaskóli, sem alls ekki getur vegna fjárhagsaðstæðna unnið allt það, sem þyrfti að gera, og það duglega fólk, sem staðið hefur fyrir honum, hefur lagt áherzlu á það einmitt í sínum ræðum, að þarna þyrfti að gera miklu meira að því að mennta og útskrifa fóstrur. T.d. skólastjóri fóstruskólans núverandi, frú Valborg Sigurðardóttir, sagði í ræðu, sem hún hélt fyrir 3 árum, að henni teldist svo til, að til þeirra barnaheimila, sem ætti að byggja í Reykjavík á næstu 5 árum, þyrfti a.m.k. 50—60 sérmenntaðar fóstrur, þó væri eingöngu átt við forstöðukonur og deildargæzlu. M.ö.o.: það er mjög mikill skortur á fóstrum til þeirra barnaheimila, sem þegar er í ráði að reisa, og þetta er jafntilfinnanlegt fyrir þessa starfsemi eins og kennaraskorturinn í þeim skólum, sem taka við börnunum, þegar þau eru komin lengra, þannig að það er alveg gefið mál, að ríkið þarf sjálft að sjá um slíkan fóstruskóla og reka hann eins og aðra skóla.

Ég veitti því líka strax eftirtekt, eftir að þetta mál var flutt hér á Alþingi, að þá tóku hin ýmsu samtök kvenna á ýmsum sviðum, bæði Kvenréttindafélagið, Bandalag kvenna í Reykjavík og Menningar- og friðarsamtök ísl. kvenna, öllsömun þetta mál upp til þess að gera samþykktir á sínum aðalfundum eða stjórnarfundum að heita á Alþingi að samþ. þetta mál, bæði hvað snertir barnaheimilin og hvað snertir fóstruskóla og ekki hvað sízt að undirstrika nauðsynina á því að samþykkja fóstruskóla. Ég held þess vegna, að hér sé um að ræða mál, sem engan veginn má líta á sem neitt flokksmál eða slíkt, heldur mál, sem almenn þjóðfélagsleg þörf er á að framkvæmt sé. Og við höfum fest hér aftan við sem fylgiskjöl einmitt nokkuð af þessum samþykktum, sem gerðar hafa verið í hinum ýmsu samtökum, sem ég nefndi, og enn fremur þá áætlun, sem gerð hafði verið í bæjarstjórn Reykjavíkur um byggingu dagheimila og leikskóla.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að þetta mál finni nú í þriðja skipti, sem það er flutt á Alþingi, þann skilning, að því sé hrundið í framkvæmd. Ég er ekki endilega að biðja um, að það sé gert í því formi, sem það er lagt hér fyrir. Við erum reiðubúnir til þess, flm., að semja um hvers konar breytingar þar á, sem heppilegar væru taldar. En höfuðatriðið allt ég aðeins hitt, að það verði samþykkt að leggja nokkuð fram af hálfu ríkisins í þessum efnum og ríkið taki að sér að reka fóstruskólann.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. sé frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.