14.12.1965
Efri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

93. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á síðustu mánuðum hefur að tilhlutun fjmrn. verið að því unnið að undirbúa fastar reglur, er gilda skuli um tollfrjálsan innflutning ferðamanna og farmanna á sjó og í lofti með það í huga að koma fastari skipan á þau mál en verið hefur til þessa, en ekki eru í gildi neinar fastar reglur um slíkan tollfrjálsan innflutning.

Hins vegar, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, hefur það þróazt undanfarna áratugi, að ferðamenn og farmenn hafa fengið að hafa meðferðis ýmsar tegundir af varningi án þess að greiða toll, er þeir koma til landsins. Hefur ýmiss konar ósamræmi skapazt í sambandi við innflutning þennan, sem í senn hefur valdið tollyfirvöldum miklum erfiðleikum og einnig að sjálfsögðu ferðamönnum og farmönnum, sem áreiðanlega flestir hverjir vilja hlíta settum reglum um þetta efni, ef þær væru fyrir hendi. Ýmsar venjubundnar reglur hafa að vísu skapazt. en þessar reglur eru að ýmsu leyti þess eðlis, að þær fá ekki að þróast með eðlilegum hætti og raunar ýmsar ekki staðizt að lögum.

Ég veit, að allir hv. þdm. eru mér sammála um hina brýnu nauðsyn þess, að tollheimta og tolleftirlit séu í sem föstustum skorðum, og á það hefur verið lögð rík áherzla, svo sem við verður komið, að hindra smygl og ólöglegan innflutning varnings. En þá verður að sjálfsögðu það að vera ljóst bæði tollgæzlumönnum og gagnaðilum, þ.e.a.s. þeim, sem til landsins koma með ýmiss konar varning, hvað leyfilegt sé.

Þegar að því kom að ganga endanlega frá þessum reglum, kom í ljós, að ekki aðeins voru mjög vafasamar lagaheimildir fyrir mörgu því, sem þróazt hefur í þessu efni, og mörgu því, sem í rauninni allir telja sjálfsagt að gildi, heldur hefur einnig þróazt ýmiss konar innflutningur og það um áratugi, sem beinlínis er bannaður í lögum. Ég skal ekki rekja það í einstökum tilfellum, hvað hér er um að ræða, en segja má raunar, að það sé mjög vafasamt, hvort nokkur lagaheimild er til fyrir nokkrum slíkum innflutningi til landsins. Og ég hygg ekki, að það samræmist eðlilegum skoðunum manna eða raunveruleikanum að hugsa sér að banna allan slíkan innflutning. En hins vegar er það auðvitað útilokað, þó að ýmsir hlutir hafi verið látnir þróast venjubundið, að hægt sé að gefa út af hálfu ráðuneytis reglugerð, sem beinlínis brýtur í bága við lög. Til þess að auðið sé að gefa út slíka reglugerð. sýndist ekki annað vera fyrir hendi en að leita heimildar Alþ. til að fá almenna heimild til handa fjmrn. að setja slíkar reglur og ákvarða, hvernig fara skyldi með slíkan innflutning, innan hvaða marka slíkt tollfrelsi skyldi gilda. Að mínu áliti hefur ýmislegt af þessu þróazt í þá átt, að það ber nauðsyn til þess að skerða í ýmsu þær heimildir, sem látnar hafa verið átölulausar í þessu efni, en hins vegar ekki auðið að ganga svo langt að takmarka þessi réttindi eingöngu við það, sem ótvírætt er, að heimilt sé að núgildandi lögum án nokkurra breytinga. Nú veit ég raunar ekki, hvaða skoðun allir hv. þdm. hafa á þessu efni. En það er mjög mikilvægt, ef auðið væri, að koma þessum reglum sem fyrst út, til þess að hægt sé að koma fastara formi á þessi mál, og ég vildi leyfa mér að beina því til þeirrar hv. n., sem þetta fær til meðferðar, að hún reyndi að hraða svo störfum, ef á annað borð gæti tekizt samkomulag um þetta mál í n., að auðið væri að afgreiða frv., áður en jólaleyfi hefst, þannig að mögulegt sé að gefa þessar reglur út í næsta mánuði, að sjálfsögðu, ef mönnum þykir það tilhlýðileg aðferð, og ég skal játa, að þetta frv. kemur nokkuð seint fram. Stafar það eingöngu af því, að það var verið að athuga til hlítar þær lagaheimildir, sem um þetta giltu, hvort hugsanlegt væri að setja þessar reglur án þess að afla þeirrar heimildar, sem hér er um að ræða, og það var ekki fyrr en fyrir skömmu, að menn komust að þeirri niðurstöðu, að þetta væri ekki fært án þess að fá slíka heimild, og þetta er ástæðan til þess, að frv. er svo seint á ferðinni. En þar sem hér er í rauninni einungis um það að ræða að auðvelda möguleikana á því að koma eðlilegri skipan á þessi mál og stuðla að því, að hægt sé að framkvæma tollgæzluna með eðlilegum hætti, og að sjálfsögðu skal ég lýsa því yfir, að þessi heimild til að veita slíkan tollfrjálsan innflutning verður höfð svo takmörkuð sem frekast er auðið, vildi ég mega vænta þess, að hv. þdm. gætu fallizt á þá skoðun, að þessi starfsaðferð væri eðlileg, því að ég veit, að þeir eru mér allir sammála um það, að ekki sé auðið fyrir rn. að gefa út reglur, nema hafa lagaheimild, og jafnframt, að það sé með öllu óviðunandi, að áratugum saman skuli það tíðkast venjubundið, án þess að nokkuð sé aðhafzt, að það sé leyfður innflutningur, sem beinlínis er bannaður í íslenzkum lögum.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins. herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum, nema frekari tilefni gefist til, en vildi leyfa mér að leggja til, að frv. yrði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.