16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (2505)

55. mál, vegalög

Flm. (Jón Skaftsson):

Herra forseti. Á þskj. 55 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á vegal., nr. 71 30. des. 1963, efnislega þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr.: 95. gr. vegal., nr. 71 frá 1963, orðist svo:

Heimilt er að ákveða í vegáætlun, að greiða skuli sérstakt umferðargjald af bifreiðum og öðrum ökutækjum, sem fara um tiltekna vegi og brýr.

2, gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð frá 18. okt. 1965, um innheimtu umferðargjalds af bifreiðum og öðrum ökutækjum, sem aka um Reykjanesbraut.“

Með samþykkt vegal. í des. 1963 var í 95. gr. þessara l. hæstv. samgmrh. veitt ótakmörkuð heimild til þess að leggja á umferðargjald um tiltekna vegi og brýr. Heimild þessi var algerlega ótakmörkuð og í umr., sem þá fóru fram í þinginu um vegal., sem afgreidd voru, eins og menn muna, á rúmum mánuði, var mjög lítið rætt um þessa heimildargrein. Eftir að Reykjanesbraut hafði verið endurbyggð og steypt og hún var opnuð til umferðar, reyndi á það í fyrsta sinni, að ráðh. beitti þessari heimild. Eins og hv. þm. muna, varð, þegar umferðargjaldið var tilkynnt, mikill kurr hjá þeim, sem nota þessa braut mest, fyrst og fremst vegna þess, að flestir töldu, að það væri óhæfilega hátt. Ég var einn af þeim, sem á árinu 1963 veittu ráðh. þessa heimild. Hins vegar hefur reynslan sýnt, að það var óheppilegt og óeðlilegt að fela einum ráðh. jafnmikið vald og jafnótakmarkað vald og honum var fengið með 95. gr. Eins og þm. vita, ákveður stjórnarskráin, að skattamálum skuli skipa með lögum. Skatturinn á Reykjanesbraut er áætlað að gefi tæpar 15 millj. á næsta ári, og hann fer hraðvaxandi, þannig að eftir 12 ár héðan í frá er samkv. áætlun ríkisstj. reiknað með því, að umferðargjaldið gefi um 30 millj. kr., og eftir 20 ár héðan í frá mun skattgjald þetta, ef það helzt óbreytt, vera komið upp í 40 millj. kr., og þannig mun það vaxa samkv. áætlun ríkisstj. um 13 millj. kr. á hverjum áratug.

Eins og menn sjá, verður fljótlega um mjög háar fjárhæðir að ræða af umferðargjaldinu, ef það stendur óbreytt, því að það eru miklar líkur til þess, að áætlun sú, sem ríkisstj. lét fylgja, þegar umferðargjaldið var tilkynnt, sé í lægra lagi, þannig að skattur þessi kann að verða enn þá hærri en ég hef hér nefnt tölur um. Það er því ekki óeðlilegt, að Alþ. hafi eitthvað um það að segja, hversu skattur þessi eigi að vera hár, hversu lengi hann eigi að standa og þar fram eftir götunum, en að óbreyttum l. er það á valdi ráðh. eins, og hann þarf engan að ræða við um það atriði. Ég hef fyrir mína parta látið það í ljós, að ég hefði talið og tel enn, að nauðsynlegt hefði verið fyrir hæstv. ráðh. að birta þær meginreglur, sem hann ætlaði að fara eftir við notkun heimildarinnar um umferðargjald, áður en kom til álagningar á Reykjanesbrautina, vegna þess, eins og reynslan hefur sýnt, að bæði er skattgjaldið sjálft ákaflega hátt og svo hefur alls ekki fengizt upplýst allt til þessa dags a.m.k., þrátt fyrir að eftir því hafi verið sérstaklega gengið bæði hér á Alþ. og annars staðar, hvort fyrirhugað sé að leggja svipað umferðargjald á aðra dýra vegi, sem kynnu að verða lagðir í framtíðinni og tekinn verulega mikill hluti kostnaðarins að láni til þess að leggja þá. Eins og málin standa í dag, veit enginn, hvernig hæstv. ráðh. hyggst beita þessari heimildargrein. Þetta er að sjálfsögðu óhæft ástand og hlýtur að leiða til þess, að Alþ. fari að ræða reglur, sem eðlilegt sé að setja fyrir fram um, á hvern hátt beita skuli þessu heimildarákvæði.

Eins og ég gat um áðan, var umferðargjaldið ákveðið með reglugerð frá 18. okt. s.l. Allt fram til þess tíma hafði verið staðhæft, að gjaldi þessu mundi mjög stillt í hóf og það yrði mjög lágt og ekki nema lítill hluti tekinn aftur með því af þeim sparnaði, sem bifreiðaeigendur nytu við að fá góðan veg í stað vegarins, sem áður var þarna og var að flestra dómi óhæfur til aksturs. Hins vegar kom á daginn, þegar reglugerðin var birt, að þá var umferðargjaldið ákveðið mjög hátt að flestra dómi, og margir telja, að lítils samræmis gæti í ákvörðun gjaldsins á hinar mismunandi bifreiðategundir. Ekki hefur fengizt upplýst hér á Alþ. eða annars staðar, á hverju það er byggt t.d., að greiða skuli 7.5falt hærra gjald af stærstu bifreiðum, sem um þennan veg fara, heldur en af hinum smæstu fólksbifreiðum. Varla held ég, að nokkur geti haldið því fram í alvöru, að sparnaður stærstu bifreiðanna í benzíni sé 7.5% meiri af að aka Reykjanesbrautina heldur en af smæstu bifreiðunum, og ekki tekur það þær skemmri tíma að aka brautina heldur en hinar minni. Það vantar því allar skýringar á því af hendi hæstv. ráðh., hvernig gjaldupphæðin sjálf er fundin á hinar ýmsu bílategundir.

Ég hef lauslega reiknað það út eftir þeim upplýsingum, sem gefnar hafa verið um umferðargjaldið á Reykjanesbraut, og upplýsingum, sem komið hafa fram hér um áætlaðan endingartíma brautarinnar, en þar hefur verið nefnt, að Reykjanesbraut steypt mundi geta dugað í a.m.k. 20 ár án nokkurs viðhaldskostnaðar, að umferðargjaldið af stærri bifreiðunum í þremur hæstu gjaldaflokkunum mætti lækka um helming og gjaldið af tveim smæstu bifreiðaflokkunum mætti lækka um 1/4 hluta og það væri nægilegt þannig ákveðið til þess að greiða stofnlán þau, sem tekin hafa verið vegna vegagerðarinnar, upp á 20 árum, þ.e.a.s. á þeim tíma, sem reiknað er með, að endurbætur þurfi ekki að gera á Reykjanesbrautinni. Ég tel, að þetta væri út af fyrir sig eðlileg viðmiðun gjaldsins.

Eins og hv. þm. muna, þeir sem hlustuðu á umræðuþáttinn í útvarpinu fyrir nokkrum dögum um umferðargjaldið, fundu menn, sem þar ræddu um það, því mjög til foráttu, og það skyldi ekki miðað við þá vegalengd, sem ekið er, heldur skyldi sama gjald vera ákveðið, hvort sem bifreiðaeigandi ekur héðan úr Reykjavík og suður til Keflavíkur eða úr Reykjavík inn á Vatnsleysuströnd. Það út af fyrir sig, að Vatnsleysustrandarbúa, sem notar veginn nokkur hundruð metra til þess að komast heim til sín og heiman frá sér, skuli gert að greiða sama umferðargjald og þeim bifreiðaeiganda, sem ekur brautina á enda, sýnir kannske bezt, hversu lítið undirbúin ákvörðunin er um umferðargjaldið. Ég held, að enginn rétt hugsandi maður geti talið það sanngjarnt né eðlilegt, að Vatnsleysustrandarbúa, sem notar veginn ekki nema að mjög litlu leyti, skuli gert að greiða sama gjald og hinum, sem ekur hann allan á enda. En hæstv. ráðh. hefur allt til þessa dags ekki tilkynnt neina breytingu á þessu, þó að hann hafi látið í það skína, að þetta sérstaka vandamál mundi verða athugað.

Enn fremur hefur það verið fært fram í rökræðum, að óeðlilegt hafi verið að staðsetja tollskýlið á Reykjanesbraut þannig, að það lokaði möguleika fyrir bifreiðaeigendum, sem vildu nota gamla veginn, sem ríkissjóður hefur tekið á sig sérstakar skyldur gagnvart Vatnsleysustrandarbúum um að halda við. Mér er sagt af mönnum, sem hafa ferðazt víða í útlöndum og þekkja til þessara svokölluðu tollbrauta, að þar sé þess jafnan gætt, að menn eigi val á því að nota dýra og steypta vegi og þá greiða af notkun þeirra eitthvert hóflegt umferðargjald eða nota heldur eldri og verri vegina, en losna þá við að greiða umferðargjaldið. Þessu hefði verið hægt að koma við hér á Reykjanesbrautinni auðveldlega með því að staðsetja tollskýlið á öðrum stað en gert var.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess á þessu stigi málsins að orðlengja þetta öllu frekar. Ég legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni visað til 2. umr. og hv. samgmn.