16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2507)

55. mál, vegalög

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. hélt hér áðan nokkuð skömmótta ræðu, sem átti að vera svar við þeim tiltölulega fáu orðum, sem ég viðhafði við 1. umr. um frv. það, sem við erum hér að ræða, um breyt. á vegal. Það væri rangt, ef ég segði, að þær upplýsingar og þær röksemdir, sem hann flutti í ræðu sinni, hefðu sannað mér, að það væri rangt, sem ég sagði áðan, að reynslan hefði sýnt, að óheppilegt væri, að valdið til ótakmarkaðrar álagningar vegagjalds á einstaka vegi og einstakar brýr væri í höndum ráðh., en ekki í höndum Alþ. Ég rakti nokkur dæmi þess áðan, að meðferð hæstv. ráðh. á þessu máli, sjálf ákvörðun gjaldsins og þau viðbrögð, sem hæstv. ráðh. hefur viðhaft á þingi varðandi ýmsar fsp., sem fyrir hann hafa verið lagðar í umr. um þetta mál, allt hafi þetta sýnt, að sú fullyrðing mín hér áðan, að óheppilegt sé, að ráðh. hafi með þetta vald einn að gera, sé rétt.

Ég vék að því örfáum orðum áðan, að ég hefði talið það fyrsta verkið, sem hæstv. ráðh. hefði átt að vinna, áður en hann notaði þessa heimild, að setja almennar reglur og tilkynna almenningi um, hvernig hann hygðist nota þessa heimild. Reynslan, eftir að tilkynningin um umferðargjaldið á Reykjanesbraut var ákveðið og tilkynnt þjóðinni, bendir eindregið til þess, að nauðsynlegt hafi verið að hafa þennan vinnumáta á. Í umr. bæði hér á þingi og eins utan þings og í skrifum fjölmargra blaða hefur sú tortryggni verið látin í ljós af fjölmörgum mönnum úr öllum flokkum, að þeir teldu, að margt bendi til þess, að Reykjanesbrautin verði í framtíðinni eini tollvegurinn á Íslandi, og lái hver hv. alþm. Suðurnesjabúum, sem þurfa að nota þennan veg sumir hverjir oft á dag, þótt þeir geti illa sætt sig við að verða að greiða umferðargjald af notkun þessa vegar umfram það,sem verða kann um notendur annarra dýrra vega í landinu, sem verða lagðir í framtíðinni fyrir lánsfé. Ég lái þeim það ekki.

Hæstv, ráðh. hélt því fram, að vegaskatturinn væri sanngjarn, upphæð vegaskattsins væri sanngjörn, og þær raddir, sem í upphafi hefðu heyrzt um, að hann væri óhæfilega hár, væru nú óðum að þagna. Ekki kannast ég við þetta, og reynsla mín er þvert á móti. Mér þætti gaman, að hæstv. ráðh. benti á, hverjar þær raddir eru, sem hafa heyrzt hingað til um, að gjaldið sé allt of hátt, og hverjar þær raddir séu, sem hafa þagnað. Ég þekki enga einustu, enda er sannleikurinn sá, að þær umr., sem urðu hér á hv. Alþ., þegar vegal. voru samþ. í árslok 1963, og þá ekki sízt ummæli hæstv. ráðh. sjálfs, gáfu fyllsta tilefni til þess að ætla, að veggjaldið, ef það yrði tilkynnt, yrði mjög hóflegt. Hæstv. ráðh. sagði þannig, með leyfi hæstv. forseta, í umr. í Ed. 20. des. 1963 um vegalagafrv.:

„Í tilefni af þessu vil ég taka fram, að þessi heimild var sett hér inn vegna þess, að til tals hefur komið að taka vegtoll af Keflavíkurvegi, þegar hann er fullgerður, helzt það háan, að það gæti staðið undir vöxtum af því láni sem til vegarins hefur verið og verður tekið. Ég vil þó upplýsa það, að ákvörðun hefur ekki verið tekin um þetta og þá vitanlega miklu síður, hversu hár þessi tollur verður, ef hann verður lagður á.“

Þetta eru þau orð, sem hæstv. ráðh. viðhafði á Alþ. við síðustu umr. vegalagafrv. í síðari deild, 20. des. 1963. Hins vegar er ljóst í dag, að vegtollurinn er ákveðinn svo hár, að það er ekki einasta reiknað með því, að hann greiði vextina af láninu, heldur hefur sjálfur ráðh. upplýst það í umr., sem urðu í þinginu fyrir nokkrum vikum, að vegtollurinn sé svo hár, að hann nægi til þess að greiða öll stofnlán af veginum á 12—13 árum, bæði afborganir og vexti og vaxtavexti. Ég hélt því fram og hæstv. ráðh. sannfærði mig ekki um, að það væri rangt hjá mér, að upphæð vegaskattsins væri ákveðin af handahófl. Hér á hv. Alþ. og í blöðum landsins og í umr. hefur maður gengið undir manns hönd og spurt hæstv. ráðh. að því, hvernig veggjaldið sjálft sé fundið, á hvaða forsendum það sé byggt, hvernig það sé reiknað út. Þau einustu svör, sem hæstv. ráðh. hefur gefið við öllum þessum spurningum, eru þau, að í reglugerðinni frá rn. hans segir, að veggjaldið sé við það miðað að ná um helmingi þess sparnaðar, sem hinum einstöku bifreiðaeigendum, sem nota þessa braut, sparast við að nota hinn nýja veg. En nú sjá allir, að þetta getur ekki verið rétt.

Því hefur verið haldið fram í umr. og ekki verið mótmælt af hæstv. ráðh., að helmingur sparnaðar bifreiða í þeim flokknum, sem hæst greiðir gjaldið, þ.e.a.s. 300 kr. flokknum, væri ekki 300 kr., heldur 37.50 kr. Þessu hélt hv. þm. Ingi R. Helgason fram í umr. hér á þingi, og hæstv. ráðh. mótmælti þessu ekki sérstaklega. Þá gefur það auga leið, að ef það á að vera rétt, sem sagt er í tilkynningu samgmrn., að skatturinn sé við það miðaður að ná um helmingi þess sparnaðar, sem verður við að aka á hinum nýja vegi, frá því, sem var á hinum gamla vegi, er ljóst, að sparnaður eigenda stærstu bifreiðanna getur ekki verið 7.5 sinnum meiri en sparnaður þeirra, sem eiga minnstu bifreiðarnar. Það er alveg ljóst, að á benzínkostnaði stóru bifreiðarinnar á móti smærri bifreiðinni sparast ekki 7.5 sinnum meira. Það sparast ekki heldur 7.5 sinnum meira á þeim tíma, sem bifreiðastjóri á stóru bifreiðinni notar til þess að aka Reykjanesbrautina, umfram það, sem tekur bifreiðaeigandann á minni bifreiðinni. Og þannig mætti telja ótal dæmi, sem sýna það öllum, sem vilja skoða þetta mál ofan f kjölinn, að þessar staðhæfingar um útreikninginn á sjálfu gjaldinu byggjast allar meira og minna á mjög ótraustum grunni. Þar til ráðh. upplýsir betur um þetta en hann hefur gert til þessa, vil ég halda við þá staðhæfingu mína, að ákvörðun gjaldsins og skipting þess á hinar einstöku bílategundir sé gerð af handahófi.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það hefði verið nær fyrir mig að doka með það að flytja frv. sem þetta, þar til sýnt yrði, hvernig færi um aðra nýja og dýra vegi, sem gerðir kynnu að verða í framtíðinni með varanlegu slitlagi. Þessu vil ég aðeins svara með því að segja, að enginn ræður sínum næturstað, og það er að sjálfsögðu allsendis óvíst, hvað ég sit lengi á þingi og hversu lengi ég á kost á að flytja hér frv. En það er ekki aðalatriði þessa máls: Hitt er aðalatriðið, sem ég hef ítrekað spurt hæstv. ráðh. að og fleiri, hverjar séu þær reglur, sem hæstv. ráðh. ætlar að fara eftir við ákvörðun um það, hvort beita skuli umferðargjaldi á einstaka vegi. Um það hlýtur hann að hafa gert sér einhverjar hugmyndir. Telur hann eðlilegt að leggja umferðargjald t.d. á allar hraðbrautir, sem kunna að verða lagðar í framtíðinni og þarf að taka lánsfé til? Það er einföld regla, sem ráðh. getur svarað, hvort hann aðhyllist, með einu jái eða nei.

Hv. alþm. vita allir, hvað átt er við, þegar talað er um hraðbrautir. Það eru sérstakar brautir, þar sem bílaumferðin verður yfir 1000 bíla á dag á næstu 10 árum. Ég endurtek því enn einu sinni spurninguna: Aðhyllist ráðh. þá skoðun, að beita beri vegaskatti við gerð allra hraðbrauta, sem kunna að verða lagðar í framtíðinni og þarf að taka lánsfé til þess að leggja?

Hæstv. ráðh. sá enn fremur ástæðu til þess að reyna að gera tortryggilegan þann útreikning minn, sem ég viðhafði hér áðan, þegar ég sagði, að eftir þeim upplýsingum, sem hann hefði gefið og komnar væru fram í umr. um þetta mál á þingi, væri hægt að greiða öll stofnlán ásamt vöxtum og vaxtavöxtum af þeim lánum, sem tekin hafa verið vegna vegagerðar á Reykjanesbraut, á 20 árum, þó að gjaldið af vörubifreiðum í þrem gjaldahæstu flokkunum væri haft helmingi lægra en það er og gjaldið í tveim gjaldalægstu flokkunum væri fjórðungi lægra en þar er ákveðið. Ég held þó, ef miðað er við þær upplýsingar, sem ég vék hér að áðan og hæstv. ráðh. hefur sjálfur gefið, að öll stofnlán á veginum verði hægt að greiða á 12—13 árum, að allir hv. alþm. hljóti að sjá, að það, sem ég held fram um þetta, geti ekki verið mjög fjarri lagi, sem sagt, það væri hægt að greiða stofnlán vegna Reykjanesbrautar á 20 árum, sem er áætlaður endingartími steypts vegar án viðhalds, þótt gjaldið í þrem hæstu flokkunum væri helmingi lægra og fjórðungi lægra í tveim lægstu. Hitt er að sjálfsögðu bara bókhaldsatriði, hvort ríkissjóður þarf að borga fyrstu árin, meðan umferðin er minni, eitthvað til viðbótar því, sem vegaskatturinn kann að gefa, til þess að eiga nóg í árlegar greiðslur vaxta og afborgana af lánunum. Þótt svo kunni að verða, er hitt staðreynd, að á siðara hluta tímabils hinna 20 ára gerir vegaskatturinn meira en að standa undir greiðslum afborgana og vaxta af lánunum og væri hægt að jafna þar á milli vegasjóðsins og ríkissjóðsins.

Hæstv. ráðh. minntist enn fremur á viðhaldið á gamla Suðurnesjaveginum. Hann ræddi um það þannig, að ég hef fyllstu ástæðu til að ætla, að hann sé búinn að gleyma því, að þegar deilurnar urðu fyrir 1—2 árum um staðsetningu vegarins, hvort hann ætti að liggja þannig, að hann fylgdi nokkurn veginn legu gamla vegarins og lægi meðfram byggðinni, eða færast upp og fara yfir Strandarheiðina, sem endanlega var ákveðið, þá lofaði hæstv. ráðh. Strandarmönnum því í nafni ríkisstj. og sennilega í fullu samráði við samráðh. sína, að ríkissjóður skyldi halda gamla veginum við. Ég vil minna hann á þetta, hafi hann gleymt því.

Enn fremur sagði hæstv. ráðh., að það þyrfti víðar að leggja vegi en á Suðurnesjum. Þetta vissu fleiri, og mótmæli Suðurnesjabúa gegn umferðargjaldinu hafa aldrei verið byggð á þeim forsendum, að þeir vildu skorast undan því að greiða að sínum hluta framlög til vegagerðar í landinu, bæði fyrir sjálfa sig og aðra, frekar en til annarra þjóðfélagsþarfa. Þvert á móti, þeir hafa alltaf undirstrikað og ég hef undirstrikað það á þeim fundum, sem ég hef verið á og þessi mál rædd, að slíkt væri ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að þeir gerðu. Hins vegar halda Suðurnesjamenn því fram, og undir það tek ég, að þeir hafi sannarlega á undanförnum árum greitt mjög stórar fúlgur til vegagerðar í landinu, en hins vegar notið mjög lítils af því vegna eigin vega. Þeir telja þess vegna, að þeir séu búnir að borga að verulegu leyti þann dýra veg, sem Reykjanesbrautin er. Ég hygg enn fremur, að frá þeim mundu ekki heyrast mótmæli gegn umferðargjaldinu, væri það hóflega ákveðið og fengin fyrir því full vissa, að það yrði lagt á notendur annarra vega, sem sambærilegir væru, eins og t.d. endurbyggður Austurvegur, sem ég hef spurt ráðh. sérstaklega að, hvort leggja bæri umferðargjald á umferðina þar að honum endurbyggðum. En ráðh. hefur neitað að svara mér, sagt, að það yrði metið, þegar þar að kæmi.

Ég vil líka upplýsa hæstv. ráðh. um, af því að hann spurði um það alveg sérstaklega, að til mín hafa leitað fleiri en einn og fleiri en tveir íbúar í Vatnsleysustrandarhreppi og kvartað undan því óréttlæti, að þeir þyrftu, þó að þeir ækju ekki nema 100—200 m af veginum til síns heimilis, að greiða sama umferðargjald og sá, sem ekur veginn allan á enda. Út af fyrir sig sýnir það, að hæstv. ráðh. skuli láta sér detta í hug að setja slíkar reglur, þar sem á að lögbjóða slíkt ranglæti, hversu lélegur undirbúningurinn undir ákvörðun vegagjaldsins er. (Gripið fram í: Hvað greiða Vatnsleysustrandarbúar til Keflavíkur?) Sama.

Ég þykist með því, sem ég hef hér sagt, sýna fram á, að það er á engan hátt ofsagt hjá mér, þegar ég held því fram, að reynslan hafi sýnt, að óheppilegt sé, að valdið til álagningar umferðargjalds, sem nemur þegar tugum millj. kr. og fer hraðvaxandi, þannig að ef þetta stendur áfram nokkra áratugi enn, fer það að gefa í vegasjóðinn um hundruð millj. kr., sé hjá ráðherra. Ég tel ekki óeðlilegt, að þegar reynslan sýnir, að þetta sé óheppilegt, þá sé breytt til um fyrirkomulag, að valdið til þess að ákveða umferðargjaldið verði fært inn í Alþ. og tekið af hæstv. ráðh. Ég tel þetta eðlilegt, og vegna þess er frv. flutt.

Ég get svo ekki annað en brosað, þegar hæstv. ráðh. heldur því fram, að það sé ofboðslega ljótt af mér að reyna að vinna atkv., ef ég get gert það, um leið og ég berst á móti röngu máli. Ég hefði nú hingað til haldið, að hæstv. ráðh. hefði vissar tilhneigingar til þess að vinna fyrir sjálfan sig atkv., ef hann getur, og ekki sízt ef hann gæti gert það með því að berjast gegn augljósu ranglæti.

Ég vil svo láta það verða seinustu orð mín við þessa umr., nema eitthvað frekara tilefni gefist til, að spyrja enn þá einu sinni að því, sérstaklega vegna þess, að ég sé, að því er haldið fram í grein í Morgunblaðinu, sem skrifað er af Páll Kolka lækni, s.l. sunnudag, að Suðurnesjamenn hafi sjálfir samið um að greiða þetta vegagjald, og í greininni leggur læknirinn þeim það út til verri vegar, að þeir hafi svikið þann samning, þó að hann hafi ekki verið þinglesinn, eins og hann orðar það, að ég held. Að gefnu þessu tilefni og vegna þess, að fram að þessu hefur hæstv. ráðh. ekki viljað upplýsa, við hvaða aðila á Suðurnesjum samið hafi verið um þetta gjald, leyfi ég mér við þetta tækifæri að spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða aðilar á Suðurnesjum voru það, sem sömdu við hann um greiðslu þessa gjalds? Samdi bæjarstjórn Keflavíkur við hæstv. ráðh. um þetta gjald? Sömdu aðrar sveitarstjórnir á Suðurnesjum um þetta gjald? Sömdu samtök bifreiðastjóra á Suðurnesjum við hæstv. ráðh. um þetta gjald? Sömdu einhverjir af þm. Reykn. við hæstv. ráðh. um þetta gjald, hafi þeir þá talið sig hafa umboð til að semja um slíkt fyrir hönd Suðurnesjamanna? Ég geri kröfu til þess, að hæstv. ráðh. svari þessum spurningum, því að ég segi sem einn af þm. Suðurnesjamanna, að ég kann því illa, að merkir læknar og þekktir menn í þjóðfélaginu, eins og Páll Kolka óneitanlega er, geti viðhaft þær staðhæfingar um brigð af hendi Suðurnesjamanna við gerða samninga eins og hann leyfði sér að hafa um hönd í skrifum sinum í Morgunblaðinu s.l. sunnudag.