16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (2508)

55. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú liðinn fundartíminn, en ég þarf ekki langan ræðutíma til þess að svara hv. þm. Hann lagði fyrir mig spurningar, sem auðveit er að svara og þarf ekki langan tíma.

Hann spyr mig, hvort ég hafi samið við einhverja ákveðna aðila á Suðurnesjum um gjaldið. Hv. þm. veit, að ég hef ekki samið við neina vissa aðila, en ég hef rætt við marga aðila, þ. á m. við hv. 4, þm. Reykn. hef ég oft rætt um gjaldið. Ég hef rætt við hv. 4. þm. Reykn. og marga Suðurnesjamenn um gjaldið, en ekki samið við þá um, hvað gjaldið ætti að vera. Það hef ég ekki gert, en ég hef rætt við þá og alveg eins hv. framsóknarmenn og aðra, þannig að hv. framsóknarþm. kemur þetta ekkert á óvart. Og eitt er víst, að daginn áður en reglugerðin var birt, sagði Tíminn frá því, hvert gjaldið ætti að vera, en það var allmiklu hærra en reglugerðin ákvað, þannig að ég geri ráð fyrir því, að þótt gjaldið hefði verið ákveðið allmiklu lægra, hefði hv. 4. þm. Reykn. samt komið og sagt, að það væri of hátt, vegna þess að það var fyrir fram ákveðið að reyna að nota þetta mál til pólitísks framdráttar fyrir þennan hv. þm.

Ég kem aftur að því, hvers vegna þetta frv. var flutt. Það var flutt vegna þess, að hv. 4. þm. Reykn. talaði af sér á fundinum í Keflavík, að hans flokksmenn sögðu. Þeir sögðu, að hann hefði talað af sér með því að viðurkenna, að það væri réttlátt að leggja gjald á umferðina á Keflavíkurvegi. Fyrir þetta fékk hv. þm. bágt. Þess vegna hefur hv. þm. verið að sprikla, skrifa og flytja till., sem auðkennast af því, að taugarnar hafi bilað. Þetta er ástæðan síðan að reyna að gera sig góðan í augum kjósenda með þessum hætti. En eins og ég sagði áðan, eru Suðurnesjamenn sem betur fer þannig, að þeir sjá, hvað þetta er kómískt á margan hátt.

Hv. þm. segir, að gjaldið sé óhóflega hátt. Hann vitnaði í ræðu, sem ég hafði haldið í sambandi við afgreiðslu vegal. 1963, þar hafi ég talað um, að gjaldið ætti að vera hóflegt, það yrði tekið gjald, sem miðaðist við að borga vexti af þeim skuldum, sem á veginn gætu hlaðizt. Ég man þetta ekki orðrétt, og það þarf að skoða samhengið. En jafnvel þó að þetta væri svona, eins og þm. las upp, verð ég að segja það, að ég hef ekki staðið við orð mín að öllu leyti hvað þetta snertir, vegna þess að gjaldheimtan borgar ekki vexti af þeim skuldum, sem á veginum hvíla. Það er gert ráð fyrir, að tekjurnar af gjaldinu verði 12—14 millj. kr. á ári, og af því þarf að borga kostnaðinn, sem getur orðið 1 millj. eða rúmlega það. Vegurinn kostaði 260—270 millj. kr., og eru 90% af þessum kostnaði í skuld. Af því getur hv. þm. séð, að gjaldið borgar ekki vexti. Það þyrfti að vera allmiklu hærra til þess að borga vextina fyrstu árin. En með því að gjaldið væri óbreytt í 15 ár, með því að umferðin aukist á Keflavíkurveginum, eins og reikna mætti með með sömu þróun og verið hefur, og með því að vegasjóður borgi 7.1 millj. kr. á ári, mætti búast við því, að skuldin greiddist upp á 15 árum, eins og ég sagði hér fyrir nokkrum dögum. En fyrstu árin, 12—13 árin, það er 1965 nú, — og sagði ég ekki 1979—1980? — en fyrstu árin borgar gjaldheimtan ekki vextina af því, sem á veginum hvílir. Nú er náttúrlega með þessa reglugerð, sem gefin var út núna í októbermánuði, ég geri ráð fyrir því, að það væri fært að endurskoða hana einhvern tíma á þessu tímabili, og það hefur ekki hvarflað að mér, að hún væri svo vel úr garði gerð, að það kæmi alls ekki til mála eftir vissan tíma að endurskoða reglugerðina, þannig að það mætti segja, að gjaldinu á veginum væri stillt í hóf, ekki aðeins á árunum 1965 og 1966, heldur þó að seinna væri skoðað. Þetta fyndist mér geta komið til mála. En það er eftirtektarvert, að þegar hv. þm. er að reikna þetta dæmi, sleppir hann alltaf því, sem vegasjóður er látinn greiða.

Hv. þm. ber alltaf fyrir brjósti stærstu bifreiðarnar og segist ekki skilja í því, hvernig það geti verið, að þær spari svo miklu meira en litlu bifreiðarnar. En eins og ég sagði áðan, kemur grg. til stjórnar landssambands vörubifreiðastjóra um þetta, þannig að hún verður annaðhvort að sannfæra þá, sem efast um það, að þetta sé réttlátt, eða þá það verði tekið eitthvað til greina, sem þeir segja, þ.e.a.s. sannfæra þá, sem vilja taka rökum í málinu.

Hv. þm. spyr enn, hvaða reglur það séu, sem eigi að gilda í framtíðinni um skattlagningu vega, og vill fá það afdráttarlaust upplýst hjá mér. Það er eins og hann geri ráð fyrir því, að ég eigi um langa hríð að stjórna þessum málum, og ég þakka honum nú fyrir það traust og það álit, sem hann hefur á mér í því efni. Það var öðru máli að gegna hér áðan, þegar hann efaðist um að, að hann gæti sjálfur átt lengi sæti á Alþ. Ég ætla engu að spá um það, hvorki það, að þessi þm. hverfi fljótt af Alþ., um það veit ég ekkert, það getur vel verið, að hann verði lengi, og ég ætla heldur ekkert að segja um það eða spá, hversu lengi ég gegni því starfi, sem ég nú geri. En ég vil bara endurtaka það, sem ég hef sagt hér áður, að það hlýtur að verða metið miðað við þær ástæður, sem gilda hverju sinni, hvort gjald verður lagt á hraðbrautir. Og það er ekki tímabært að taka algilda ákvörðun um það í dag fyrir alla framtíðina. Það er svo margt, sem þar kemur til greina. Það er umferðin, það er það, hvað mikið hvílir á veginum af lánum, og það er það, hversu langan tíma það tekur að leggja þessa vegi og gera þá. Það hlýtur allt að koma til álita og athugunar. En við skulum vona, að sanngirni verði látin ráða hverju sinni við þá ákvörðun, sem tekin verður í þessum efnum. Og víst er það, að ekki hef ég áhuga á því að niðast á Suðurnesjabúum á neinn hátt. Ég vil sannarlega, að þeirra hlutur sé ekki fyrir borð borinn á einn eða annan hátt, enda held ég, að þeir, sem vilja tala um þessi mál af sanngirni og alvöru, beri mér það ekki á brýn.