10.12.1965
Neðri deild: 28. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

77. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að skýra þetta frv. í löngu máli. Hv. þm. þekkja það, það er búið að flytja það svo oft. En það er eitt, sem ég vildi í sambandi við þetta frv. gera nú, ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. viðskmrh., ef hann mætti heyra mál mitt, af því að hann ætti að vera sá í ríkisstj., sem ætti að vera kunnugastur því, hvernig á að vinna að áætlunum, og ég vildi biðja ríkisstj. alvarlega að athuga þetta mál, vegna þess að það er talað ákaflega mikið um áætlanir nú og það er verið að gera heilmargar áætlanir, en það, sem vantar í, og það, sem gerir allar áætlanir ónýtar, er, að það vantar heildaráætlun um það, sem á að gera. Það er búið að taka ákvarðanir nú og hæstv. ríkisstj. hefur hvað eftir annað lagt hér fram áætlanir fyrir okkur, ekki sízt um þær framkvæmdir, sem snerta ríkisbúskapinn. Og ég man eftir, að fyrir nokkrum árum, þegar ég lagði þetta frv. þá fyrir, kvaddi hæstv. viðskmrh. sér hljóðs og sagði frá því, að ég væri nokkuð seinn með þetta, ríkisstj. væri nú búin að ákveða að framkvæma þetta og áætlanagerð væri eitt höfuðstefnumál ríkisstj. Og hvernig hefur reynslan orðið af þeim áætlunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert? Jú, það hafa verið gerðar eins árs áætlanir um skólabyggingar, um sjúkrahúsabyggingar og annað slíkt. Það hafa verið gerðar, ef ég man rétt, 10 ára áætlanir um túnrækt og rafveitur, um hafnarbyggingar o.s.frv. og farið er að gera vegáætlanir nú, en það er engin heildaráætlun til um það, sem þjóðin ætlar sér að framkvæma, hvort heldur það er á sviði ríkisframkvæmdanna eða það er á sviði einstaklingsframtaksins. Þessi vinnubrögð eru álíka og t.d. ef maður ætlaði að byggja 12 hæða hús og hefði neðstu hæðina hæfilega að stærð og léti svo nokkurn veginn hvern sem ætti að byggja hæðirnar ofan á ráða því, hve stórar þær yrðu, og þær mættu standa heilmikið út af þeirri neðstu, ef svo vildi verkast, og jafnvel þeir, sem einna hæst stæðu í stiganum, við skulum segja t.d. ef heildsalarnir ættu að byggja eina hæðina, mætti hún vera margfalt stærri að ummáli en grunnurinn, og það gerði sem sé ekkert til, þótt hún brotnaði niður á eftir, vegna þess að það væri ekkert, sem hún gæti stuðzt við.

Þessar aðferðir, að vera að tala um áætlanir, gera eins árs áætlanir eða 10 ára áætlanir og annað slíkt um einhvern lítinn þátt úr allri þjóðfélagsbyggingunni, það eru vinnubrögð, sem sæma Bakkabræðrum, en ekki lærðum hagfræðingum eða ríkisstj. Með þessu móti kemur það á daginn, eins og kom á daginn hjá ríkisstj. núna, að rétt eftir að hún er búin að leggja áætlun fyrir Alþ., búin að fá staðfesta áætlun um skólabyggingar, sjúkrahúsabyggingar og annað slíkt í sambandi við fjárl., kemur ríkisstj. og segir: Mér er ómögulegt að framkvæma þessa áætlun, viljið þið gera svo vel og gefa mér heimild til þess að skera það niður um 20%. — Og af hverju kemur hæstv. ríkisstj. og segir þetta? Vegna þess að meginið af öllum framkvæmdunum í þjóðfélaginu er ekki háð neinni áætlunargerð, heldur gerir þar hver einstaklingur sína áætlun og framkvæmir eins og honum þóknast. Ef heildsalar vilja byggja inn við Suðurlandsbraut, byggja þeir eins og þeim þóknast, og það á að skera niður spítala, skera niður skóla, svo að almenning vanti þetta hvort tveggja.

Þetta eru engin vinnubrögð, og ef þeir hagfræðingar, sem hæstv. ríkisstj. hefur í sinni þjónustu, hafa ekki lært betur í sínum skólum, er bezt að senda þá út aftur og segja þeim að læra betur. Svona er ekki hægt að stjórna einu þjóðfélagi. (Gripið fram í.) Já, við skulum taka það á fjárl. og reyna að skera það ekki niður um 20% á eftir, reyna að láta áætlunina nokkurn veginn standast. E.t.v. gætum við líka fengið styrk hjá Sameinuðu þjóðunum, þannig að það þyrfti ekki að borga neitt fyrir þetta hérna á Íslandi, því að Sameinuðu þjóðirnar eru mjög velviljaðar í þeim efnum að reyna að kenna tiltölulega frumatæðum ríkisstj., hvernig þær eiga að byggja upp sitt þjóðfélag, þannig að það yrðu vafalaust engin vandræði með að koma þeim út, fyrir utan svo, hve landsbúar mundu verða glaðir, þeir mundu vafalaust aura saman, svo framarlega sem ríkisstj. færi fram á það til að losna við þá af landinu, enda mundi það verða mikil hreinsun.

Ég held þess vegna, að það væri mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. athugaði nú nokkuð sinn gang og reyndi nú ofur lítið að læra, hvernig fara eigi að því að gera áætlanir, það sé ekki nóg að gera áætlanir fyrir einn einstakan hlut í senn, heldur þurfi að gera áætlanir um þjóðfélagsbygginguna í heild. Satt að segja hefði verið betra, að hæstv. ríkisstj. væri búin að læra þetta, áður en hún leggur út í þessar stóru og miklu framkvæmdir, sem nú eru fyrirhugaðar og munu enn einu sinni raska allri þjóðfélagsbyggingunni, þannig að ég býst við, að það sé ekki langt þangað til hæstv. ríkisstj. komi og fari að heimta innflutning á erlendu verkafólki.

Það eru þrjár höfuðgreinar, sem ég vildi vekja sérstaka athygli á í þessu frv. Það er 1. gr. um það 9 manna ráð, sem á að vera áætlunarráð ríkisins, þar sem eru bæði fulltrúar stjórnmálaflokkanna og helztu samtök atvinnurekenda, verkamanna og bænda fá sína fulltrúa. Ég álít, að það sé alveg lífsnauðsyn, ef lagt er út í að gera heildaráætlanir, að það sé tryggt, að það sé tiltölulega hlutlaust ráð, sem ráðstafar slíku, undirbýr það og gerir sínar till. um staðsetningar og annað slíkt. Það er vitanlegt, að t.d. áætlunargerð á einhverju takmörkuðu sviði, eins og bara í sambandi við fjárlög, gerð eingöngu af ríkisvaldinu, af viðkomandi pólitískri ríkisstj. á hverjum tíma og hennar embættismönnum, getur orðið mjög hlutdræg áætlun, og það er hægt að misbeita pólitísku valdi alveg vægðarlaust i sambandi við þess háttar áætlanir. og ég er dauðhræddur um, að það muni e.t.v. koma á daginn. Það er þess vegna nauðsynlegt, að þegar verið er að vinna að áætlanagerð, sé tekið þar tillit eingöngu til þjóðarhagsmuna og hugsað út frá þeim, en ekki hugsað út frá stundarhagsmunum, t.d. pólitískra flokka í sambandi við kjördæmi og annað þess háttar. Í 5. gr. frv. er svo sérstaklega gengið út frá, að rætt sé við hin sérstöku samtök í landinu til þess að reyna að hafa sem mest samband við fólkið og þess fulltrúa á hinum ýmsu sviðum. Og í 8. gr. er síðan mælt fyrir um, hvernig haga skuli sér, þegar þessari áætlunargerð áætlunarráðs ríkisins er lokið. Þá skal áætlunin send til ríkisstj., og þegar ríkisstj. hefur staðfest hana fyrir sitt leyti, skal hún leggjast fyrir Alþ., þannig að eins árs áætlanir leggist fyrir í sambandi við fjárl., lengri áætlanir, til 5—10 ára, leggist fyrir sem sérstök þáltill., og þegar síðan búið sé að samþykkja þessar ályktanir og áætlanir á Alþ., er ríkisstj. falið að framkvæma þetta, og þá skal Seðlabankinn og allar aðrar stofnanir ríkisins undir yfirstjórn ríkisstj. vinna að því að sjá um framkvæmdina á þessu og öll stjórn á lánsfjármálum og utanríkisviðskiptum þjóðarinnar og afskipti hins opinbera skulu miðuð við þessa framkvæmd. Með þessu móti er áætlunargerð tekin það föstum tökum, að hún verður ekki að tómri vitleysu, sem verður að eyðileggja, strax eftir að búið er að samþykkja hana, eins og verið hefur með þær áætlunargerðir, sem lagðar hafa verið undanfarið. Það er satt að segja til skammar, að á þessari öld áætlananna skuli geta komið fyrir, að áætlanir, sem eru staðfestar í fjárl. ríkisins, skuli vera skornar niður um 20%, rétt eftir að búið er að samþykkja þær á þinginu. Og það er bara vegna þess, að út af skilningsleysi, ef ekki öðru verra, af hálfu hæstv. ríkisstj. eru braskararnir í þjóðfélaginu látnir vera utan við alla áætlunargerð. Þeim er leyft að vera algerlega frjálsir, þeir mega byggja eins og þeir vilja og eins og þeir geta og gera það. Svona er ekki hægt að stjórna efnahag eins þjóðfélags. Þetta er það, sem allar þjóðir, ekki aðeins sósíalistískar, heldur líka kapitalístískar, hafa verið að læra. Það er eiginlega sá dýrmætasti lærdómur, sem dreginn hefur verið af kreppunni miklu, að læra það að forðast slíkt og reyna síðan að sigla fram hjá kreppunni annars vegar og verðbólgunni hins vegar, og það verður ekki gert, ég tala nú ekki um í litlu þjóðfélagi eins og okkar, nema með því, að það sé heildarsýn yfir þetta og heildaráætlanir gerðar fyrir þjóðfélagið. Það á ekkert skylt við þau venjulegu gamaldagshöft, sem hér voru áður, það erum við búin að ræða svo oft um áður, að það fer ég ekki að koma inn á.

Ég vil svo eindregið leyfa mér að mælast til þess, þegar þetta frv. nú er flutt, — ég veit ekki hvað, í 10. eða 15. sinn, — að þetta frv. komi nú aftur til 2. umr. frá þeirri n., sem ég legg til að það fari til. Það er orðin óhjákvæmileg þörf fyrir Ísland á svona áætlunum, og ég held, að þessi áætlunargerð, sem hér er lagt til, sé með þeim breytingum, sem menn kunna að vilja gera þar á, í „prinsipinu“ sú heppilegasta, sem við getum fundið, miðað við okkar þjóðhætti.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. sé þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.